Færsluflokkur: Bloggar

Tækifæri kreppunnar

akureyrarkirkja2Þrengingum fylgir uppgjör. Þá er reynt að finna það sem úrskeiðis fór. Vítin kortlögð til að hægt sé að varast þau.

Kreppur kalla ekki einungis á uppgjör við fortíðina. Þjóðin verður að gera upp við sig hvernig framtíð hún vilji. Uppgjör kreppubarna er ekki síður við framtíð en fortíð.

Þar liggja tækifæri kreppunnar. Hún býður upp á að staldrað sé við. Láta ekki nægja að finna leiðirnar sem til hennar lágu heldur uppgötva nýjar út úr henni. Opna nýjar dyr, ryðja nýjar brautir, skapa nýtt samfélag og íhuga þau gildi sem við viljum reisa það á.

Næstu fimm mánudaga verða samverur í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju undir yfirskriftinni Mánudagar gegn mæðu.

Á þeim verður rætt um stöðu þjóðarinnar og framtíðarhorfur.

Samverurnar hefjast kl. 20 með stuttu spjalli frummælanda. Eftir molasopa og tónlistarflutning svarar hann spurningum.

Margrét Blöndal stýrir fundunum.

Eftir þá er fyrirbænastund í kirkjunni fyrir þau sem vilja.

Fyrsta samveran er næsta mánudag 27. 10. Þar talar dr. Sigurður Kristinsson, heimspekingur og forseti hug- og félagsvísindadeildar Háskólans á Akureyri. Umræðuefnið er gamlar og góðar dyggðir.

Kammerkórinn Hymnodia syngur.

Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis enda gefa allir sem að samverunum koma vinnu sína.

Hér vil ég líka minna á Lögmannavaktina í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju, ókeypis lögfræðiþjónustu. Þar er um að ræða framtak lögfræðinga sem leggja sitt af mörkum á erfiðum tímum. Lögmannavaktin er  kl. 17:30 - 19 alla mánudaga frá og með 27. 10. Tímapantanir í síma kirkjunnar, 4627700, virka daga kl. 9 - 13. 


Andrés og frelsið

Ekki eru nema nokkrar vikur síðan ég átti í örlitlu orðaskaki um frelsið og þá einkum málfrelsið.

Nú standa yfir enn meiri deilur um frelsið. Að þessu sinni athafnafrelsið.

Athafnafrelsið er sama eðlis og annað frelsi. Það þarf að lúta reglum, skráðum og óskráðum. Það þarf að hafa tilgang. Annars er það óskapnaður. Annars eyðir það sjálfu sér.

Annars gleypir það sig sjálft á sama hátt og byltingin getur étið börnin sín.

Eins og dæmin sanna sem við erum að upplifa þessa dagana.

Allt frelsi þarf ramma og allir leikir reglur.

Andrés Björnsson, fyrrverandi útvarpsstjóri, orðar þetta vel í ávarpi sem hann flutti þjóðinni á gamlárskvöld árið 1970.

Lögmál er takmörkun á frelsi, - frelsi, þessu undurfagra orði, eftirlætisorði skálda, hugsjóna- og stjórnmálamanna. - Víst er orðið fagurt og merking þess göfugleg. Það merkir lausn úr fjötrum, lausn frá helsi, frá hvers kyns oki og áþján, frelsi og frelsun einstaklinga og þjóða frá kúgun og harðstjórn. Ósigrandi herir hafa brotist áfram um víðar lendur undir gunnfána frelsisins. - En frelsishugtakið er mjög hált og afstætt. Eftir stjórnarbyltinguna frönsku sem óneitanlega leysti mikil öfl úr læðingi og jók frelsi margra, voru mælt þessi fleygu orð: "Ó, frelsi, hvílíkir glæpir eru ekki drýgðir í þínu nafni." Frelsið má misnota freklega - til frelsissviptingar annarra og stundum til að fara sjálfum sér að voða.

Og þessi orð gamla útvarpsstjórans eru mjög eftirtektarverð, ekki síst fyrir okkar tíma:

Það kann að virðast þversögn, en frelsi er í bestu merkingu það að menn leggi sjálfviljugir hömlur á vissar tilhneigingar sínar svo að aðrir megi njóta frelsis. Frelsið er fórn frelsis fyrir aðra. Að öðrum kosti er það aðeins hefndargjöf. Án lögmálsins, án siðgæðis og sjálfsafneitunar er ekkert frelsi fyrir einn né neinn, aðeins taumlaus ótti og skelfing.


Þorskhausar

þorskhausarNýlega bloggaði ég örlítið um kreppukrásir. Eðlilega er landsmönnum tíðrætt um ódýran og góðan mat þegar harðnar á dalnum. Dorrit, forsetafrúin okkar, mun hafa komið inn á þetta í blaðaviðtali núna um helgina. Gott hjá henni. Auralaus þjóð þarf einhvern veginn að næra sig.

Skagfirðingar lögðu sitt til umræðunnar. Síðustu dagana hafa þeir vestur þar staðið fyrir átaki í hrossakjötsáti. Hestar eru herramannsmatur og engin neyð að leggja þá sér til munns. Það er iðulega gert á mínu heimili. Verðlaunafolar iðrunarlaust saxaðir í spað og borðaðir með brúnni sósu og kartöflustöppu eða kviðsíðar útigangsbikkjur fram reiddar sem gallóveisteikur.

Í dag rakst ég á frábæra grein eftir Guðmund Finnbogason. Þorskhausarnir og þjóðin heitir hún og birtist í bókinni Íslenskar úrvalsgreinar sem út kom árið 1976.

Þar víðfrægir Guðmundur þorskhausana, þá einstöku fæðutegund.

Guðmundur sér margt gott við þorskhausa. Þeir eru næringaríkir og kosta lítið. Höfundur færir ennfremur góð rök fyrir því að þorskhausaát sé beinlínis gáfuaukandi. Hefur eftir heimspekingnum Feuerbach að maðurinn sé það sem hann éti. Sá sem neytir heila þorsks eignast vit hans. Engum vafa sé undirorpið "að Íslendingar hafi orðið skáld og skýrleiksmenn á þorskhausaáti" eins og það er orðað í greininni.

Þeir sem borða þorskhausa eiga með öðrum orðum síður á hættu að verða þorskhausar en aðrir.

Ekki er nóg með að þorskhausar séu meinhollir, heldur Guðmundur áfram. Að borða þá útheimtir líka krafta því hertir þorskhausar flokkast til harðmetis. Hann vitnar í ameríska heilsufræðinga sem eiga ekki til orð að dásama slíkan mat. Það þjálfar kjálkavöðva að japla á þorskhausum, eflir tannstæði og tennur auk þess að örva rennsli munnvatns og meltingarvessa.

Sá sem venur sig á að borða þorskhausa þarf sjaldnar að leita til tannlækna en hinn, sem fúlsar við þessu sannkallaða heilsufæði. Einnig eru minni líkur á að hann þurfi að kaupa sér "tyllitennur", eins og Guðmundur kallar þær.

Þorskhausar hafa ekki einvörðungu gildi fyrir heilsu mannsins og hreysti. Þeir eru menningarlegt fyrirbæri og siðferðislega mikilvægir.

Hið siðferðislega mikilvægi þorskhausa er samkvæmt Guðmundi í því fólgið að sá sem nýtir þorskhausa til manneldis er ekki eyðslusamur. Hann hendir ekki því sem vel má hafa gagn af. Það ber vott um siðferðisstyrk og hátt menningarstig.

Menningarlegt gildi þorskhausanna sést meðal annars á þeim ótölulega fjölda af nöfnum sem gefin hafa verið vöðvum, beinum, brjóski, himnum og roði í þorskhausnum. Margt er skrýtið í kýrhausnum. Þorskhausinn er enn undarlegri. Hann geymir hvorki fleiri né færri en 150 nafngreind fyrirbæri.

Björn, kisa, hestur, hæna, sjómaður, kelling, nál, strokkur, lúsabarð, skollaskyrpa, Pétursangi og Maríusvunta eru dæmi þar um. Allt eru þetta heiti sem auðgað hafa íslenska tungu.

Það sem ekki mátti éta af og úr þorskhausnum var notað til annars. Eitt beinið þótti til dæmis fyrirtaks tannstöngull. Kvarnir voru hafðir í spilapeninga. Önnur bein urðu börnum að leikföngum. Og með hjálp himna úr þorskhausum spáðu menn í veður.

Þorskhausinn er því einn forveri hinnar virðulegu stofnunar Veðurstofu Íslands.

Fyrr á tíð ferðuðust menn langar leiðir til að ná sér í þorskhausa. Þorskhausar voru því hvati til samskipta milli héraða og vörn gegn einangrun og sérhyggju.

Þorskhausaát er göfug íþrótt. Það er alls ekki sama hvernig þorskhauss er neytt. Rífa verður hann niður með sérstökum hætti. Það útheimtir kunnáttu, ögun og fyrirhyggju að éta þorskhaus.

Þetta orðar höfundur snilldarlega:

Á þorskhausaátinu tömdu menn sér margs konar dyggðir - dyggðir, er telja má æðstu prýði og blóm sannrar menningar. Sá, sem rífur þorskhaus og etur, lifir í innilegu tilhugalífi við hann, unz síðasti bitinn er búinn. Hann verður að hafa fyrir hverri ögn, er hann fær, gera sig verðugan sælgætisins, sem falið er bak við roð og bein í fylgsnum haussins. Hann lærir að gleðjast við fyrirhöfnina, láta sér nægja lítið í senn og eta hvern munnbita með næmum smekk fyrir sérkennum hans og gildi.

Guðmundi Finnbogasyni þykir ekki mikið til nútímalegrar fæðu koma. Ekki ber hann þorskhausana saman við hamborgara og pítsur. Hann seilist ekki lengra í samjöfnuðinum en til rúgbrauðsins. Það fær víst nógu herfilega útreið.

Ef til vill skilst ágæti þeirrar menningar, er af þorskhausaáti sprettur, enn betur, ef vér berum hana saman við rúgbrauðsmenninguna, sem er að koma í hennar stað, og spyrjum: Hvaða hugsanir hefir rúgbrauðið vakið, hvaða orðum hefur það auðgað tunguna, hvaða íþróttir hefir það skapað, hvaða dyggðir hefir það glætt? Vér sjáum undir eins, að þarna er ekki um auðugan garð að gresja. Ég kann ekki að nefna nokkra hugsun, sem þakka megi rúgbrauði sérstaklega. Nöfn á því kann ég engin önnur en rúgbrauð og svo "þrumari", er bezt sýnir, hvert rúgbrauðsmenningin stefnir. Hvaða íþróttir spretta af rúgbrauðsáti? Engin svo ég viti. Hver maður getur frá upphafi vega tilgangslaust og blindandi úðað í sig rúgbrauði. Hvaða dyggðir spretta af rúgbrauðsáti? Ég veit enga, enda er það ekki von. Einn munnbitinn er öðrum líkur, sama í hvaða röð þeir eru etnir, ekkert fyrir þeim að hafa, ekkert, sem hvetur til að gera greinarmun góðs og ills.

Þarf frekari vitnanna við?


Ellin framtíð Íslands

unguroggamallGjarnan er þannig til orða tekið að æskan sé framtíð landsins.

Undir það má taka. En eins og ævinlega þegar tekið er undir eitthvað verður að gera það með fyrirvara. Sem stundum er kallað smáaletrið.

Elllin er nefnilega líka framtíð Íslands.

Sáuð þið ekki fréttir ríkissjónvarpsins í kvöld? Þar var meðal annars rætt við eldri borgara um kreppuna. Glæsilegar gamlar konur og flotta hrukkótta kalla.

Stundum heyrir maður ráðamenn segja að æskan sé svo ofboðslega efnileg. Þar hafa þeir á réttu að standa.

En gamla fólkið er líka efnilegt.

Sú þjóð á ekki nokkra einustu framtíð sem ekki kann að meta eldri kynslóðina. Sú þjóð er vonlaus sem telur sér trú um að hún hafi ekki þörf fyrir framlag öldunganna.

Og nota bene: Öldungur er virðingartitill.

Markaðssamfélagið hefur ekki haft mikið pláss fyrir þann hóp. Gamalt fólk er hætt að vinna. Það er ekkert nema kostnaðurinn. Ímigusturinn sem kapítalistasamfélagið hefur á gamla fólkinu sést vel í laununum sem það telur sig geta greitt þeim sem annast eldra fólk.

Nú hefur framvindan verið þannig að við þurfum að hlusta á gamla fólkið. Þau sem hafa lifað lengur en við.

Þetta fólk lifði af margar kreppur. Sumar mannskæðar. Það hefur kannski ekki hagfræðimenntun og margt af því kann ekki á tölvur.

En það býr yfir reynslu. Það kann að tækla hörmungar. Það á hugrekki og lífsspeki.

Ég heyrði sögu um gamlan mann. Dóttir hans vann í verðbréfabransanum. Fyrir nokkrum árum fékk hún pabba sinn til að leggja fimmtíuþúsundkall í einhvern sjóð. Kallinn tók þetta út af sparisjóðsbók sem hann hafði í náttborðsskúffunni til að eiga fyrir útför sinni.

Í vikunni kom dóttirin til gamla mannsins. Alveg niðurbrotin.

"Elsku pabbi minn," sagði hún. "Peningarnir sem þú settir í sjóðinn eru glataðir."

"Ósköp eru að heyra," sagði hann.

"Já, pabbi minn," sagði dóttirin, "þú ert búin að tapa hálfri milljón."

"Hvaðahvaða," svaraði hann, "ekki nema fimmtíuþúsund krónum."

"Nei," sagði hún, "fimmtíuþúsund krónurnar þínar voru orðnar að hálfri milljón!"

Þá þrykkti sá gamli hnefanum í borðið og sagði með þjósti:

"Vitleysan í þér! Ég setti ekki nema fimmtíuþúsund í sjóðinn og tapaði ekki nema fimmtíuþúsund!"

 


Trúin er verkjastillandi

mariaLengi hafa vísindamenn rannsakað verki. Eitt af því sem í ljós hefur komið er að umfang verkja ákvarðast ekki einvörðungu af því líkamlega heldur skiptir líka máli hvernig unnið er úr þeim í heilanum.

Vísindamenn hafa leitað leiða til að gera okkur betur hæf til að þola verki. Hópur vísindamanna við háskólann í Oxford í Englandi beindi í því skyni ljósinu að trúnni.

Niðurstaða þeirra er: Trúarlegar tilfinningar eru verkjastillandi.

Trúin örvar stöðvar heilans sem tengjast öryggistilfinningu. Trúin hefur þau áhrif á svæðið að það sendir boð til annarra svæða heilans í því skyni að gera sársauka bærilegri.

Svipað gerist með óttann. Trúin hjálpar heilanum að takast á við hann, segja vísindamennirnir.

Talsmaður vísindamannanna, taugasérfræðingurinn Katja Wiech, segir markmið rannsóknarinnar ekki það að sýna fram á gildi trúarinnar sem verkjalyfs. Niðurstaðan sé sú að trúin sé ekki einungis andlegt fyrirbæri heldur merkjanleg í heilastarfsemi mannsins.

Frá þessari rannsókn er sagt í vefútgáfu hins þýska Rheinischer Merkur.

Myndin: Maríumyndir komu við sögu í rannsókninni í Oxford.


Gegn ofbeldi efnishyggjunnar

Ég hef verið að lesa ræðusafn Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Árið 1962 flutti hann ræðu í tilefni af aldarafmæli Akureyrarbæjar. Ég deili með ykkur tveimur köflum úr henni.

Það sem skáldið hafði að segja hinni hundrað ára gömlu Akureyri á erindi við Ísland okkar tíma og framtíðar.

Íslendingar hafa frá öndverðu numið það af reynslunni, að ofstjórn og einokun þrengja á alla lund kjör manna, rýra efni þeirra, frelsi og andlegan þroska. Þeir vita líka, að sú reisn er fánýt, sem hlýtur veg sinn af vindi og sjálfsþótta, ofbeldi og arðránum. Engum er að því sálubót að hafna guði sínum, tilbiðja sjálfan sig eða aðra mennska menn, gera stjórnmál að trúarbrögðum, valdbeitingu að lífsstefnu. Dagblöð og útvarp geta aldrei komið í stað helgra rita, tízkan aldrei fullnægt þeim, sem rækja vilja innstu köllun sína. Þess vegna vilja þjóð og bær, hér eftir sem hingað til, stuðla að menntun og menningu, sem auka manngildið, leysa úr læðingi gáfur og hæfileika hvers manns, svo að hann geri til sjálfs sín réttmætar kröfur, ræki köllun sína og skyldur við sjálfan sig og aðra. Slíkt er hin bezta vörn gegn ofbeldi efnishyggjunnar og öðru andlegu hirðuleysi...

...Hver kynslóð setur svip á bæinn, leggur sitt af mörkum honum til vaxtar og þroska. En það, sem fegrar hann mest, eru þó hvorki stórhýsi né turnar, heldur sjálft mannlífið, að ógleymdu umhverfinu, fjöllum og firði. Við þurfum hvorki sjónauka né löng ferðalög til þess að sjá tign náttúrunnar, undur skaparans. Þau birtast í hverju barnsauga, hverju blómi, hverjum fjallstindi og hlíðarvanga. Fegurð Eyjafjarðar er hafin yfir alla dóma. Hún er og verður. En handaverk mannanna vara tiltölulega skamma stund, timbrið fúnar, múrarnir hrynja, letrið máist af pappírunum, drambið hjaðnar eins og vatnsbóla. Sigur mannsins verður aldrei alger hérna megin grafar. En ef við getum samhæft getu vora þeim anda, er við vitum hollastan mannlegu lífi, styttist bilið milli hins vaxanda og fullkomna. Þá höfum við ekki til einskis lifað. Þá getum við af heilum hug þakkað forsjóninni arfahlut vorn, vorgróður og haustfölva, líf og dauða.

 


Forleikur að stríðsyfirlýsingu

Í dag birtist á vefmiðlinum spiked grein eftir ritstjóra hans Brendan O´Neill, einn hvassasta þjóðfélagsrýni Breta.

Greinin nefnist Britain vs Iceland: after the Cod Wars, the 'Wad Wars' og hefst á þessum orðum:

Never mind North Korea. Forget Iraq or Iran. Don't worry about Afghanistan, where according to one newspaper columnist the only solution, seven years after the British/American invasion, is a form of ‘controlled warlordism' (1). No, Britain has a far larger enemy on the horizon: Iceland. Population 304,367. A country famed for its fishing, geysers, and indie music. The only country in Europe with no standing army. The only country in the world where the prime minister's phone number is listed in the directory. And a country which, according to British ministers, is behaving like a rogue regime.

O´Neill gagnrýnir bresk stjórnvöld harðlega fyrir framkomuna við Íslendinga og segir að fyrr á tíð hefðu ummæli breskra ráðamanna og aðgerðir jafngilt forleik að stríðsyfirlýsingu (a prelude to declaring war).

Hið bága ástand á Íslandi telur O´Neill sýna að alþjóðlegar stofnanir hafi brugðist. Það hafi heldur ekki hjálpað landinu að vera aðili að alþjóðlegum samtökum. Ísland hafi ekki getað reitt sig á vinaþjóðir þegar á reyndi.

Hann telur viðbrögðin við fjármálakreppunni í heiminum stjórnast af skammtímasjónarmiðum og þau séu ekki líkleg til að koma á efnahagslegum stöðguleika til langframa.

Rimman milli ríkisstjórna Íslands og Bretlands sýnir að nú hefur þeim reglum snarfækkað sem eiga að stjórna samskiptum ríkja, segir O´Neill ennfremur.

Greinin er vel lestrarins virði.


Kennsla í nútímaviðskiptum

hundurÞekking mín á hagfræði er ekki merkilegri en svo að lengi hélt ég að gjöld þeirra sem létu vigta bíla sína á hafnarvoginni rynnu í vogunarsjóð.

Í dag heyrði ég sögu sem jók skilning minn á viðskiptum nútímans.

Hún er höfð eftir landskunnum athafnamanni sem heyrði hana hjá pabba sínum.

Á gönguferðum mætti pabbinn oft nágranna sem var að viðra hundinn sinn.

Dag nokkurn gekk hann fram á eiganda hundsins án hunds og spurði hverju hundleysið sætti.

Maðurinn kvaðst vera búinn að selja hundinn. Hefði fengið eina milljón króna fyrir dýrið.

Pabbinn varð hissa á þessu háa verði. Spurði manninn hvort hundurinn hefði verið af einhverju frægu kyni.

Hundahöndlarinn sagði svo ekki vera. Uppruni rakkans væri mjög vafasamur.

En hann hefði fengið greitt fyrir hundinn með tveimur köttum og mæti hvorn þeirra á um það bil hálfa milljón.


Efnahagsbölsýnisíbyljan

Gymnastik_Senior[1]Við hjónin ákváðum að horfa á blaðamannafund forsætisráðherra í dag. Komum okkur vel fyrir í sófanum með nýlagað kaffi. Ræstum viðtækið. Klukkan var ekki alveg orðin fjögur. Myndin úr Iðnó var ekki komin en lag var leikið fyrir spennta áhorfendur.

Við sperrtum eyrun. 

"Þetta reddast, já það reddast," sungu þeir í Ríó tríóinu rétt áður en öðlingarnir Geir og Björgvin gengu í salinn.

Mér barst saga. Hún er einhvern veginn svona:

Gamla fólkið á elliheimili úti á landi var orðið afar þrúgað og meðtekið af efnahagsbölsýnisíbyljunni í fjölmiðlunum.

Forstöðukonan hafði sverar áhyggjur af þessu.

Í morgun var leikfimi á heimilinu. Forstöðukonan bað íþróttafræðinginn að vera nú heldur á léttu nótunum og fyrir alla muni ekki minnast á efnahagsmál eða þrengingar.

Þetta væri alveg að fara með gamla fólkið.

Íþróttafræðingurinn sagði það ekki nema sjálfsagt.

Svona hóf hann tímann:

"Kæru vinir! Í dag byrjum við á mjög léttri æfingu. Við réttum hendur út frá hliðunum, beygjum olnbogana og bönkum flötum lófum létt á bringuna, síðan réttum við úr höndunum og kreppum snöggt hnefana og endurtökum allt aftur og aftur," og svo hrópaði hann:

"Koma svo! Banka - kreppa, banka - kreppa, banka - kreppa......!" 


Vináttan

vinirNú er gott að láta minna sig á raunveruleg verðmæti.

Vináttan er eitt þeirra.

Góðir vinir eru meira en gulls ígildi. Það fá margir að finna þessa dagana. Aðrir þarfnast góðra vina og bíða eftir að ég og þú reynist slíkir.

Við þurfum að passa vel hvert annað eins og Steingrímur J. Sigfússon sagði í Kastljósinu í kvöld.

Fyrr í dag fékk ég örlítið kvæði sent í tölvupósti. Það er eftir Hjálmar Freysteinsson, lækni og hagyrðing á Akureyri.

Mér finnst það bæði fallegt og eiga erindi til þjóðarinnar. Ég vona að höfundur fyrirgefi mér að birta það hér og að rétt sé eftir haft:

 

Gulli og perlum að safna sér

sumir endalaust reyna,

vita ekki að vináttan er

verðmætust eðalsteina.

 

Gull á ég ekki að gefa þér

og gimsteina ekki neina

en viltu muna að vináttan er

verðmætust eðalsteina.

 

Með kvæðinu sendi ég sérstakar vinarkveðjur til þeirra sem standa í eldlínunni og berjast við að koma landinu okkar út úr ægilegum vandræðum.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband