Færsluflokkur: Bloggar

Nýr mun dagur skína

Margir hafa orðið fyrir vonbrigðum og áföllum. Fólk er kvíðið, óttaslegið, reitt og áhyggjufullt.

Við kunnum aldrei betur að biðja en þegar við vitum ekki okkar rjúkandi ráð.

Og munum þá: Guð er ekki minni en við héldum.

Þvert á móti. Hann er meiri. Miklu stærri og meiri.

Í bæninni felum við Guði allt sem íþyngir okkur.

Hann heyrir líka það sem við ekki getum orðað og ekki má segja.

Hann hlustar. Hann svarar.

Og hann er meiri og stærri en okkur grunar.

Í sálmi eftir sr. Sigurbjörn Einarsson er þetta fallega vers:

 

Sjá, nóttin verður náðartíð

og nýr mun dagur skína.

Lát hverfa víl og hugarstríð,

því hag og vegu þína

þinn Drottinn sér. Hann fyrir fer

og sigrar allt um síðir.

(Sálmabók nr. 548)

 


Kreppumolar

evraÉg hef verið að skoða hvað þeir segja um kreppuna úti í Evrópu.

Netútgáfur breskra blaða hafa fjallað töluvert um Ísland í því samhengi.

Þar er á einum stað bent á að Ísland fari fyrir öðrum í kreppunni.

Samkvæmt því erum við frumkvöðlar. Loksins.

Í hinu þýska Focus er talað um hrun evrunnar.

Æstur lesandi heimtar afnám hennar. Vill taka upp markið á ný.

Hljómar ekki ókunnuglega.

Nú er að deyja eða drepast eins og kallinn sagði.


Komdu fagnandi, vöruskortur!

nautatungaÞeir hafa áhyggjur af vöruskorti. Fólk er jafnvel hvatt til að fara að hamstra.

Ekki ætla ég að lofa skortinn en í stað þess að rjúka af stað í örþrifainnkaup fór ég að hugsa hvað gæti gerst.

Hvaða vöruskort er verið að tala um?

Þeir sem búið hafa úti á landi eru ekki óvanir vöruskorti.

Ég man þá tíð er kaupfélagsstjórinn í plássinu þar sem ég bjó hafði það gjörsamlega í hendi sinni hvað lenti á kvöldverðarborðum heimilanna.

Eftir langvarandi stórhríðar og samgönguleysi var nánast ekkert til í búðunum nema reyktar nautatungur og saltað hrossakjet.

Einu sinni fyrir páska var öll mjólk búin í búðunum. Seint á skírdagskvöld tókst skipi loks að sigla inn fjörðinn með kærkominn farm úr mjólkursamlaginu. Þá voru búðir opnaðar og seld mjólk og rjóminn á páskaterturnar.

Andlitin ljómuðu af gleði þegar fernurnar voru bornar út frá stoltum kaupmönnum.

Ég efast um að þeir hafi séð ánægðari viðskiptavini.

Þetta var ekkert vont í minningunni. Eiginlega bara yndislegt.

Hér með lýsi ég því yfir að ég er tilbúinn að takast á við tímabundinn vöruskort.

Ég fæ vatn í munninn þegar ég hugsa um saltað hrossakjöt og reyktar nautatungur. Þetta er herramannsmatur. Allt of langt er síðan svoleiðis var í matinn á mínu heimili.

Það hefur einfaldlega of margt annað verið til.

Og fáist ekki bensín mun ég ganga.

En vera heima ella.

Myndin er af kreppukrásinni vakúmpakkaðri nautatungu. 

 


Dýrlingar túrbókapítalismans

prinsmarkusÍ nýjasta Spiegel las ég um prins Markús. Hann á 1000 fermetra hús í heimabæ sínum, Pforzheim í Þýskalandi. Annað jafn stórt í Los Angeles. Eitt 300 fermetra í Fort Lauderdale. Íbúðin hans við smábátahöfn í Dubai er ekki nema skitnir 180 fermetrar. Sú í Mónakó 140.

Hann á eina flugvél, ellefu mótorhjól og nokkra hraðbáta.

Hann er með tólf stykki lífverði.

Hann ætlaði að verða kjötiðnaðarmaður eins og pabbi. Lærði líka til kokks og lenti síðan í skemmtanabransanum eins og það er kallað.

Hann rekur nítján hóruhús. Þar "starfa" yfir þúsund konur.

Hann hét Marcus Eberhardt. Nú er hann búinn að kaupa sig inn í aðalinn. Zsa Zsa Gabor og maður hennar Friðrik frá Anhalt ættleiddu þýska slátrarann gegn hæfilegri þóknun.

Hans nýja nafn er prins Marcus Eberhard Edward von Anhalt.

Nýlega stóð prins Markús fyrir heilmiklum kappakstri. Lagt var af stað frá Cannes og keyrt til Muenchen. Gist á bestu hótelunum á leiðinni eftir að fólk hafði slett úr klaufunum á flottustu klúbbunum. Fimm lönd og fimm nætur.

Markús prins ók þessa leið á nýjum 670 hestafla Mercedes SLR sem kostaði 600.000 evrur. Hann var nýbúinn að eyðileggja gamla bílinn, Porsche sem var 750.000 evra virði.

Prinsinn vantaði fylgdarkonu. Honum fannst Pamela Anderson við hæfi og bauð henni far.

Pamela var til í tuskið. Ef send yrði eftir henni einkaþota til London.

Þar að auki fór hún fram á lífverði.

Item vodka, trönuberjasafa og krullujárn.

Og að dýraverndarsamtök fengju styrk.

Prinsinn gekk að þessu enda mikill dýravinur.

(Jafnframt tók hann fram að honum væri meinilla við atvinnulausa.)

Ég geri mér grein fyrir að kreppan er hvorki Markúsi prinsi að kenna né neyslu Pamelu á trönuberjasafa eða notkun hennar á krullujárnum.

En ein skýringin á kreppunni er ef til vill sú að þessar fígúrur hafa verið okkur fyrirmyndir.

Við vildum pínulítið verða eins og þau.

Alltént er gaman að spá í hvernig ástandið væri ef heilagur Frans hefði þótt jafn flottur og þessir dýrlingar túrbókapítalismans.

Myndin er af þeim skötuhjúum Markúsi og Pamelu í Bensinum.


Ferðasaga

DSCN3950Ég kom heim í gær úr snarpri og vel heppnaðri Þýskalandsheimsókn.

Erindi mitt þangað var að vera viðstaddur hátíðarguðsþjónustu í tilefni af 1000 ára afmæli Þorpskirkjunnar í Bochum-Stiepel - en ég gerði ýmislegt fleira í leiðinni.

Síðan 1999 hefur Akureyrarkirkja verið í ungmennasamskiptum við Bochum-Stiepel. Annar prestanna þar, Ortwin Pflaeging, er gamall skólabróðir minn. Eiginkona hans, Annette, er búningahönnuður og fyrsta kvöldið mitt í Bochum heimsóttum við hana á vinnustað hennar, Jahrhunderthalle.

Þar er um að ræða gamlar stálverksmiðjur, risastórar, sem búið er að breyta í leikhús. Húsið er ennþá mjög hrátt og gróft. Þú ert í leikhúsi en finnur sögu hússins. Járnlykt fyllir vitin. Rýmið er mikið og möguleikarnir sem leikhúsfólkið hefur nánast óendanlegir.DSCN3959

Daginn eftir borðaði ég morgunverð með Íslandsvinum í Bochum og lagði til hans skyr sem ég hafði tekið með mér að heiman.

Einnig fór ég á leik í búndeslígunni og sá heimamenn í VfL Bochum tapa fyrir Bayer Leverkusen. Ég sat í heldrimannastúku enda í boði eins stjórnarmanna VfL Bochum. Ekki þótti mér amalegt að fylgjast með leiknum innan um kempur á borð við Rudi Völler.

Hátíðarguðsþjónustan í Þorpskirkjunni var mjög falleg. Þar prédikaði Fritz nokkur Pleitgen, einn af þekktari blaðamönnum Þjóðverja. Honum mæltist vel.

Bochum er á Ruhrsvæðinu sem samanstendur af nokkrum stórum borgum. Þær eru nánast samvaxnar eins og Reykjavík og Kópavogur. Einhvers staðar sá ég að Ruhr væri mesta þéttbýli í Evrópu.

Ruhr verður menningarhöfuðborg Evrópu árið 2010 og Pleitgen leiðir það verkefni.

Eftir messuna afhenti ég afmælisbarninu gjöf frá Íslandi, ljósmynd af Goðafossi eftir Ragnheiði Arngrímsdóttur.

DSCN3971Um kvöldið var kirmes fyrir framan Þorpskirkjuna, með Parísarhjóli, leiktækjum og sölu á tilheyrandi varningi. Ég stóð með prestum kirkjunnar í bjórsölustandi hennar og dældi öli á glös.

Hið mikla borgarsamfélag í Ruhr er merkilega grænt. Þar er bæði skógur og gróin svæði og meira að segja stundaður landbúnaður. Síðasta daginn heimsótti ég einn borgarbændanna og keypti af honum niðursoðna svínasultu, ótrúlegt lostæti.

Efstu myndina tók ég á leiknum. Á næstu sést ég afhenda prestunum í Bochum-Stiepel, þeim Juergen Stasing og Ortwin Pflaeging, myndina af Goðafossi. Neðsta þrenningin er ekki síðri, kálfar á bóndabæ í miðri milljónaborg.


Kirkjur í Þýskalandi

Dorfkirche_Bochum-Stiepel_Briefmarke_2008[1]Næstu dagana verð ég ekki við tölvu því mér var boðið í afmæli í Þýskalandi.

Gamla þorpskirkjan í Bochum-Stiepel er 1000 ára.

Verður mikil hátíð í tilefni afmælisins.

Þess má geta að fyrsta moskan í Þýskalandi var byggð árið 1915.

Nú eru þar yfir 2000 moskur.

Samt þrífst Þýskaland ágætlega.

Og þar fyrirfinnast meira að segja ennþá kirkjur þar sem prédikað er fagnaðarerindið um Jesú Krist.

Myndin með færslunni er af afmælisbarninu sem varð þess heiðurs aðnjótandi að komast á frímerki.


Moskur á Íslandi

moskaSamkvæmt könnun á visir.is eru 68% svarenda á móti því að leyfð verði bygging mosku í Reykjavík.

Yfirvöld í okkar heimshluta hafa áhyggjur af vaxandi íslamófóbíu. Alls konar vænisýki í garð trúarbragðanna grefur um sig.

Öfgafólk hefur alltaf verið til, bæði innan trúarbragða og stjórnmálahreyfinga en vænisjúkir Evrópubúar sjá hryðjuverkamenn í öllum múslimum.

Ekki er ég múhameðstrúar en ég finn til með fórnarlömbum slíkra fordóma.

Þeir eru ein tegund ofbeldis og vatn á myllu æsingamanna.

Mér finnst ekki nema sjálfsagt að íslenskir múslimar fái að koma sér upp aðstöðu til trúariðkunar. Það er hluti af mannréttindum þeirra.

Stundum er gripið til þeirra raka gegn moskubyggingum á Íslandi að í sumum múslimaríkjum sé kristnum bannað að byggja kirkjur.

Það eru engin rök í málinu. Alla vega ekki kristnum manni.

Jesús sagði ekki:

"Allt sem aðrir menn gera yður, það skuluð þér og þeim gera."

Heldur:

"Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera."

Á þessu tvennu er býsna mikill munur.

(Myndin með færslunni gæti verið af íslenskri mosku. Það er á henni snjóföl.)

 


Drykkir við hæfi

ostrurVið kaffiborð í dag vikum við spjalli að hinum ýmsu fæðutegundum og hvaða drykkir ættu best við þær.

Þau vísindi eru flóknari en svo að nóg sé að segja að rautt drekkist með kjöti og hvítt með fiski.

Ég rifjaði upp að þegar ég var strákur átti eðaldrykkurinn Cream Soda sérlega vel við svið.

Cream Soda var á sínum tíma bruggað í gosdrykkjagerðinni Sana. Drykkurinn var slungin blanda af karamellu og rjóma. Liturinn ekki óáþekkur þeim sem er á sviðum.

Cream Soda var óaðfinnanlegt matsj við sætan sótkeim sviðanna.

Bestu signu grásleppu sem ég hef smakkað fékk ég í Grímsey. Hún var skærappelsínugul á litinn og því ekki vitlaust að bjóða upp á Egilsappelsín með henni.

Ég prófaði á hinn bóginn að drekka Mix með grásleppunni. Það var hreinn unaður.

Sigin grásleppa og Mix eru hin fullkomna tvenna.

Vinsælt er að súpa rauðvín með pítsum.

Mér er samt sagt að maltöl eigi mun betur við þær.

Varla er hægt að hugsa sér erótískari máltíð en að slufsa í sig ostrum með tilheyrandi snörli og smjatti.

Nú eru ostrur torfengnar á Íslandi.

Heitar sviðalappir eru án efa sá matur íslenskur sem næst kemst ostrum í erótík.

Útlendingar dreypa gjarnan á kampavíni þegar þeir gæða sér á ostrum.

Næst þegar þú berð heitar sviðalappir á borð ættir þú því að bjóða upp á gott kampavín með kræsingunum.


Meðhjálparar

Eyþór_Arnalds[1]Í Fréttablaði dagsins er grein eftir Ögmund Jónasson. Fyrirsögn hennar er:

"Meðhjálpari fær klapp á kollinn"

Einn fjölmargra meðhjálpara landsins hafði samband við mig og fannst þarna örlítið óvirðulega talað um þessa merku stétt, þótt það hafi ábyggilega ekki verið meiningin hjá þingmanninum.

Meðhjálparar landsins skipta tugum ef ekki hundruðum. Þeir vinna mikilvæg störf, lítt eða ekkert launuð. Meðhjálparar undirbúa kirkjuhús fyrir guðsþjónustu, skrýða presta og aðstoða við helgihald. Þeir lesa eða leiða hina fornu meðhjálparabæn við upphaf og lok messunnar.

Mér þykir vænt um þessar bænir. Ekki síst er gott að heyra þessi orð áður en gengið er úr kirkju:

Hjálpa mér nú, Guð minn, með þínum heilaga anda, til að varðveita þitt orð í hreinu hjarta, styrkjast af því í trúnni, læra af því að taka framförum í guðrækilegu líferni og hugga mig við það í lífi og dauða.

Í erindisbréfi  handa biskupum frá árinu 1746 koma meðhjálparar við sögu. Þar segir:

Enn fremur skulu meðhjálparar vera viðstaddir, þegar biskup eða prófastur koma, og skulu þeir allir spurðir, hvernig ástandið sé í söfnuðinum, hvort þar tíðkist nokkrir sérstakir ósiðir eða guðleysi, hvernig hver um sig ræki embætti sitt, og fái stoð til þess eða sæti tálmunum, og skal biskup eða prófastur eigi láta undir höfuð leggjast að áminna menn í því efni.

Meðhjálparar eru nánir samstarfsmenn okkar prestanna. Á embættisferli mínum hef ég kynnst mörgum meðhjálpurum, körlum og konum, ungum sem öldnum. Allt miklar öndvegismanneskjur.

Ég votta íslenskum meðhjálpurum virðingu mína og þakklæti.

Á myndinn er einn ágætur íslenskur meðhjálpari, Eyþór Arnalds.


Gullkálfar og heilagar kýr

gullkalfurEgill Helgason kýs að túlka skoðanir mínar á tjáningarfrelsinu þannig að ég vilji "...allsherjar bann við háði á trúarbrögð - þarmeðtalda pokapresta" eins og hann skrifar á bloggsíðu sína þann 10. september síðastliðinn.

Fimm dögum síðar skrifar Egill:

Ég hef stundum bent á að sumir prestar hafi einkennilegar hugmyndir um tjáningarfrelsi. Þeir vilja nefnilega að trúarbrögð séu stikkfrí. Að ekki megi deila á þau eða gera grín að þeim.

Þessi orð voru valin ummæli dagsins á Eyjunni.

Síðar í færslunni bætir Egill við:

Og prestarnir vilja helst sjálfir vera heilagar kýr.

Færslu Egils má lesa hér.

Eftir slíkar yfirlýsingar hlýtur þessi færsla Eyjubloggarans Einars Ben Þorsteinssonar að teljast til tíðinda.

Hún birtist fjórum dögum eftir að Egill gerði kýrnar heilögu að umtalsefni.

Mér finnst þetta soldið fyndið.

ES

Hér er enn ein færslan sem þessu tengist. Athugasemdirnar eru ekki síður upplýsandi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband