Færsluflokkur: Bloggar
8.9.2008 | 00:29
Bölvaðar séu tínurnar!
Fyrir nokkrum árum birtist leiðari í hinu stórmerka og svarfdælska héraðsblaði Norðurslóð. Þar er sagt:
Það er fátt sem nærir andann og sálina eins og að tína ber og ætti að skylda alla landsmenn til að tína minnst 10 lítra af berjum hvert haust en alls ekki með tínu. Það myndi fækka glæpum, umferðaróhöppum, veikindadögum og draga úr hverskyns ofneyslu í þjóðfélaginu.
Þetta er með skynsamlegri ritstjórnarskrifum sem ég hef augum barið og vel við hæfi að rifja þau upp núna.
Á haustin drögum við björg í bú. Menn arka á heiðar og skjóta fugla, skrokkar eru úrbeinaðir og hakkaðir, slátur tekin, saltað í tunnur og raðað í frystikistur.
Skriðið er um móa og ber lesin af lyngi og reytt af runnum. Saftflöskur og sultukrukkur standa í beinum röðum í búrhillum eins og herflokkar í liðskönnun.
En kapp er best með forsjá.
Mér hefur alltaf þótt það villimannslegar aðfarir að keyra gaddaskóflur ofan í berjaþúfur og moka í bala lyngi, kvistum, grænjöxlum, lambaspörðum - og hugsanlega einhverju af berjum. Þeir sem slíkt gera hafa hugann frekar við magn og afköst en gæði.
Þá er nú ólíkt menningarlegra að fara fimum fingrum um lyngið og velja úr því fullþroskuð gæðaber, þrungin sætum safa.
Hægt, yfirvegað og af nautn; það er flottasti stíllinn í berjamó.
Kallar sem ég þekkti einu sinni gerðu út lítinn bát. Þeir söltuðu um borð. Aflinn var aldrei mældur í kílóum hvað þá tonnum heldur fiskum.
Þeir fengu þetta og þetta marga fiska.
Þessir kallar fóru vel með fiskana sína. Saltinu var stráð á hvern og einn eins og sykri á lummu enda var allt metið í fyrsta flokk af þessum bát.
Ekki var nú óðagotið á þeim, blessuðum, unnið hægt og bítandi og góður tími tekinn í að fá sér í nefið.
Mikil lífsgæði eru fólgin í berjamóum landsins.
Þjóðin hefur ekki nema gott af því að skipta út lífsgæðakapphlaupinu í mollunum fyrir lífsgæðalötrið í þúfunum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.9.2008 | 22:37
Reykjavíkurflugvöllur
Kostuleg umræða á sér stað á bloggsíðu Egils Helgasonar. Umræðuefnið er Reykjavíkurflugvöllur, hvort hann eigi að vera eða fara og þá hvert.
Ég hef svo sem ekki sterkar skoðanir á því en oft finnst mér menn tala um þetta mál af ótrúlegum hroka og skilningsleysi.
Hvað erum við landsbyggðarpakkið að þvæla þetta til Reykjavíkur?
Frekjan í okkur!
Einhverjir benda á að ekki sé flugvöllur í miðborg Kaupmannahafnar - og í fæstum höfuðborgum heimsins.
Það er reyndar alveg rétt.
Í flestum höfuðborgum heimsins eru á hinn bóginn brautarstöðvar einhvers staðar miðsvæðis. Þangað koma járnbrautarlestir. Meðal annars utan af landi.
Brautarstöðvar eru hafðar miðsvæðis í höfuðborgum til að landsmenn hafi greiðan aðgang að þjónustu og stofnunum sem eru í öllum almennilegum höfuðborgum.
Engin brautarstöð er í Reykjavík. Það á sér þá augljósu skýringu að engar járnbrautarlestir eru á Íslandi. Hér fara samgöngur fram með öðrum hætti.
Þess vegna er flugvöllur í Reykjavík.
Fróðlegt væri að sjá viðbrögð Dana ef fram kæmi tillaga um að leggja af lestarsamgöngur til Kaupmannahafnar.
Myndin með færslunni er af lest á brautarstöð.
Bloggar | Breytt 6.9.2008 kl. 07:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.9.2008 | 21:17
Egils saga og Evrópusambandið
Ég velti fyrir mér hvort þessi tilvitnun í Egils sögu geti verið innlegg í umræðuna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Haraldur konungur eignaðist í hverju fylki óðul öll og allt land, byggt og óbyggt, og jafnvel sjóinn og vötnin og skyldu allir búendur vera hans leiglendingar, svo þeir er á mörkina ortu og saltkarlarnir og allir veiðimenn bæði á sjó og landi, þá voru allir þeir honum lýðskyldir.
En af þessari áþján flýðu margir menn af landi á brott og byggðust þá margar auðnir víða bæði austur í Jamtlandi og Helsingjaland og Vesturlönd, Suðureyjar, Dyflinnar skíði, Írland, Normandí á Vallandi, Katanes á Skotlandi, Orkneyjar og Hjaltland, Færeyjar. Og í þann tíma fannst Ísland.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.9.2008 | 23:04
Kvenlegt
Ljósmæður eiga allan minn stuðning. Þar höfum við enn eina kvennastéttina sem á undir högg að sækja.
Ég er argasti femínisti.
Samt hugnast mér ekki sú tegund femínisma sem vill ekki kannast við að konur geti verið kvenlegar.
Eða karlar karlmannlegir.
Ég held að til sé nokkuð sem heitir kvenleg mýkt, kvenleg hlýja og kvenleg smekkvísi.
Og mér finnst karlmannlegt að vera nagli.
Fyrir nokkru var mér boðið í mat.
Karlmannlega veitt hreindýr var borið á glæsilegt veisluborð. Öllu var þar smekklega upp stillt. Munnþurrkunum raðað á matardiska af kvenlegum yndisþokka.
Það kom mér því nokkuð á óvart þegar karlinn reyndist hafa lagt á borð og nostrað við servíetturnar.
Konan hans veiddi á hinn bóginn hreindýrið.
Gott ef hún snéri það ekki úr hálsliðnum.
(Myndin er af því sem kallað er "kvenkyns USB-tengi")
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.9.2008 | 22:13
Homo blogensis
Með því að tala, með því að tjá okkur, erum við til.
Bloggið er hluti af þessari máltilvist mannsins.
Sá sem bloggar er til fyrir aðra.
Á blogginu látum við af okkur vita, gefum okkur til kynna. Þar látum við í ljós hvað við hugsum og gerum.
Þar auglýsum við hvað við viljum og hvað við viljum ekki.
Sá sem talar er ekki einungis að tala við aðra. Hann er líka að tala við sig sjálfan - þótt hann sé að tala við aðra.
Þegar við tjáum okkur um drauma okkar og vonir gerum við okkur betur grein fyrir því sem við viljum og vonum. Stundum vitum við ekki hvað við raunverulega viljum fyrr en við höfum klætt það í búning orða.
Það sama gildir um ótta okkar, kvíða og áhyggjur.
Það skýrist þegar við erum búin að senda það í gegnum lyklaborðið og það birtist svart á hvítu á tölvuskjánum.
Sennilega er mikilvægasti lesandi hvers bloggs sá sem ritaði það.
Með því að blogga erum við ekki einungis að gera okkur skiljanleg fyrir öðrum heldur ekki síður fyrir okkur sjálfum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
31.8.2008 | 11:27
Óskrifað blað
Óskrifuð blöð eru skínandi hvít. Maður fær ofbirtu í augun við að horfa á þau.
Ekkert stendur á þeim. Þau eru auð. Þau segja manni ekkert.
Hver vill vera óskrifað blað?
Fólk verður að geta lesið mig. Séð hver ég er. Hverju ég hef áorkað. Hvert ég stefni.
Við rembumst við að vera skrifuð. Bæta einhverju á örkina. Við bloggum okkur gegnum lífið.
Smám saman fyllist blaðið. Engu er við að bæta.
Þá getur verið ágætt að taka upp strokleðrið.
Skoða blaðið. Stroka út það sem ekki á heima þar.
Eyða færslum.
Það er nefnilega ekki svo slæmt að vera óskrifaður.
Það er alla vega miklu meira spennandi að vera óskrifaður en fullskrifaður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
29.8.2008 | 14:37
Séra Sigurbjörn
Ég efast um að Sigurbjörn Einarsson hafi verið mikið fyrir titla. Þó bar hann þrjá: Herra, doktor og séra. Mig minnir að ég hafi einhvers staðar lesið að af þeim hafi honum þótt vænst um þann síðastnefnda.
Og þjóðinni þykir vænt um séra Sigurbjörn, gamla biskup.
Séra Sigurbjörn var andlegur leiðtogi. Hann var djúphygginn og þegar hann talaði fundu áheyrendur hans að hann meinti það sem hann sagði.
Hann var ein mesta manneskja sem ég hef kynnst.
Séra Sigurbjörn var húmoristi. Kímni hans fylgdi gjarnan meining, var sneið með áleggi.
Fyrir nokkrum árum prédikaði hann í Akureyrarkirkju. Við vorum inni á skrifstofu kollega míns, sr. Óskars Hafsteins, sem þá var nýtekinn við embætti í kirkjunni.
Sigurbjörn vildi fá að vita hvernig Sunnlendingurinn Óskar kynni við sig á Akureyri og hvað honum fyndist um norðlenska veðráttu.
Óskar er mikill diplómat og sagði að alls staðar viðraði vel þar sem væri gott fólk.
"Satt segirðu," sagði séra Sigurbjörn, "það er ekkert sem getur búið til meira af góðu veðri en mannfólkið" og bætti svo við:
"Eða óveðri."
Okkur félögunum ber ekki saman um á hvorn okkar hann horfði þegar hann mælti síðustu orðin. Eða hvort hann horfði á annan frekar en hinn.
Hans eigin orð úr prédikun í Dómkirkjunni 7. janúar 1945 eru góður vitnisburður um hvernig hann leit á starf sitt:
"Presturinn er ekkert sjálfur. Hann kallar engan, vekur engan, bjargar engum, frelsar engan. Því aðeins erum vér prestar, að kenningin sem vér flytjum sé ekki vor, heldur Guðs, svo sannarlega sem Guð lifir og hefur opinberast mönnunum. Því aðeins eru orðin, sem vér flytjum, annað en dauður hljómur, sem týnist í tómið, að þau séu bergmál af orði hins eilífa. Því aðeins fá þau tendrað ljós í sálum mannanna, að þau séu neistar hins eilífa ljóss.
Þetta er vitund kristinna boðbera frá öndverðu: Vér erum erindrekar í Krists stað, eins og það væri Guð, sem áminnti fyrir oss. Vér biðjum í Krists stað: Látið sættast við Guð.
Lúther var spurður að því, hvaðan hann fengi kraftinn til að prédika. Það er einfalt, svaraði hann. Aðalatriðið er þetta: Þegar þú gengur upp í prédikunarstólinn, þá skaltu minnast þess að þú ert sendiboði hins hæsta Guðs. Talaðu þess vegna án þess að óttast nokkurn mann. Talaðu ekki heldur sjálfum þér til geðs eða þóknunar. Guð getur umborið dramb og hroka hjá öllum mönnum fremur en hjá prestum."
(Sigurbjörn Einarsson: Meðan þín náð. Prédikanir, Reykjavík 1956, bls 74 - 75)
Myndin með færslunni er af bb.is.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.8.2008 | 09:21
Húsavík
Í gær skaust ég á fund austur á Húsavík.
Það rigndi á leiðinni en hafði stytt upp þegar ég ók inn í bæinn. Flóinn var sléttur og fjöllin vestan hans tignarleg.
Mér þykir vænt um Húsavík og það er alltaf gaman að koma þangað. Bærinn er einn sá fallegasti á landinu.
Húsvíkingar eru stórhuga. Annað væri líka óviðeigandi í höfuðborg Þingeyjarsýslu. Þeir verka hreindýrakjet. Eiga reðursafn. Hvalasafn. Og flott byggðasafn. Hafa byggt upp mjög skemmtilegan ferðamannabæ og sýnt við það mikla hugkvæmni.
Lengi var besta héraðsfréttablað landsins gefið út á Húsavík. Ég þekki ekki Skarp, arftaka þess. Sé samt að meistari Jóhannes Sigurjónsson er með puttana í því. Það er góðs viti. Sá kann að handleika lyklaborð.
Fundurinn fór fram í gömlu og virðulegu húsi með merkilega sögu. Það stendur við hlið Húsavíkurkirkju, þeirrar bæjarprýði. Helga sóknarnefndarformaður á Húsavík sagði okkur að söfnuðurinn væri búinn að festa kaup á húsinu. Fyrirhugað væri að taka það í gegn og þar yrði í framtíðinni safnaðarheimili.
Ekki er hægt að saka Húsvíkinga um framtaksleysi eða skort á sjálfsbjargarviðleitni. Hvað þá hugmyndafátækt.
Þeir hafa reynt að þurrka harðvið með jarðhita. Létu þeir sér ekki líka detta í hug að rækta krókódíla?
Ég vona að áform um uppbyggingu atvinnulífs á Húsavík nái fram að ganga.
Áfram Húsavík!
(Myndin er tekin af heimasíðu Norðurþings.)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
26.8.2008 | 14:47
Bringukollur, þvottavélarhurð og önnur fádæmi
Heldur hafa farir mínar verið ósléttar það sem af er árinu.
Í febrúar vorum við hjónin að fara á þorrablót. Ég hafði verið ósköp húslegur og þjóðlegur og tilreitt alls konar hnossgæti í bakkann okkar. Bjó til þessa fínu sviðasultu og sauð digra hrossasperðla svo nokkuð sé nefnt.
Þá tekur konan eftir því að enginn bringukollur er í bakkanum og ég býðst til að skjótast í búð og útvega hann. Bringukollinn fékk ég en hann reyndist örlagaríkur. Á heimleið úr bringukollabúðinni lenti ég í árekstri. Ég slapp ómeiddur en bíllinn eyðilagðist.
Ég kom með öðrum orðum bíllaus heim en með sjálfan mig ólaskaðan -og bringukollinn.
Skömmu síðar gaf þurrkarinn okkar upp öndina.
Í sumarbyrjun datt hurðin svo af þvottavélinni.
Ekki liðu nema nokkrar vikur þangað til að uppþvottavélin hætti að dæla út af sér vatninu. Handlaginn vinur minn hjálpaði mér við að blása stíflu úr slöngu en þá brá óhræsis apparatið á það ráð að neita að hita vatnið.
Við fengum ágætan bíl í stað þess sem varð bringukolli að bráð.
Og mér er sagt að Volvo-bílar séu mjög öruggir þegar bringukollar eru annars vegar.
Sumarið hefur verið óvenju þurrt hérna fyrir norðan og hefur gengið ágætlega að þurrka spjarirnar úti í golunni.
Mágkona mín elskuleg útvegaði okkur fyrirtaks þvottavél sem hún gat ekki notað. Við fengum hana á kostakjörum.
Komin er ný uppþvottavél á heimilið. Hún er bara með eitt prógramm og þótt heilinn í henni sé ekki flókinn er hann ekki viðkvæmur fyrir skyndilegum straumsveiflum.
Vélin heitir Svavar og er hann búinn uppþvottabursta úr Júróprís og þerrigrind úr Rúmfatalagernum.
Mórall sögunnar er:
Þetta reddast.
Nýja þvottavélin okkar er heldur nýrra módel en það sem er á myndinni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
24.8.2008 | 23:58
Sú vinsæla dauðasynd græðgin
Undanfarið hef ég verið í mörgum veislum. Þar er ég á algjöru jarðsprengjusvæði því ég er mjög veikur fyrir þeim freistingum sem mæta mér á veisluborðum. Fæ mér iðrunarlaust aftur á diskinn og er jafnvel svo forhertur að fara þriðju ferðina.
Fleiri þekkja þennan veikleika því hann er ein ástæða þess að fjöldi fólks er yfirgripsmeira en hollt getur talist.
Ég er að tala um græðgina, þá vinsælu dauðasynd. Útbreiðslu hennar má m. a. lesa af vigtum landsins.
Í þeirri hagfræði sem tíðkast í okkar heimshluta hafa menn virkjað græðgina. Hún er einn helsti drifkraftur vestrænna hagkerfa, stundum uppdubbuð sem "skynsamleg sjálfselska" eins og hún er látin heita.
Afleiðingar þess skipulags sem byggist á græðgi láta ekki á sér standa.
Þeir ríku verða ríkari, þeir fátæku fátækari.
Það hriktir í stoðum velferðarkerfanna.
Gróðavonin ein stjórnar.
Vistkerfið þolir ekki þá endalausu neysluaukningu sem hagfræði græðginnar felur í sér.
Nú á dögum virðast margir telja græðgina dyggð.
Nægjusemi er á hinn bóginn aðeins fyrir einhverjar liðleskjur.
Þannig er það auðvitað ekki. Græðgin er löstur.
Og það er miklu erfiðara að vera nægjusamur en gráðugur.
Hetjurnar fara ekki þriðju ferðina.
Hún er fyrir þá sem eru veikgeðja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)