Færsluflokkur: Bloggar
21.8.2008 | 15:35
Dæmið ekki!
Nýlega var ég leiðinni upp kirkjutröppurnar og mætti þar manni á niðurleið.
Við tókum tal saman.
Í samtalinu miðju gaus upp megn óþefur.
Ég vissi að hann var ekki af mínum völdum og dró mínar ályktanir af þeirri staðreynd enda fannst mér ekki laust við að maðurinn væri skömmustulegur.
Þegar við vorum búnir að tala saman og ég horfði á eftir manninum niður tröppurnar fann ég einkennilega fyrirferð undir öðrum skósólanum.
Kom á daginn að ég hafði stigið ofan í vænan hrauk af hundaskít.
Rann þá upp fyrir mér það ljós að viðmælandi minn hefði líka gert sér grein fyrir að óþefurinn var ekki hans og ábyggilega dregið sínar ályktanir af því.
Jafnvel fundist ég vera dálítið sneypulegur.
Er þetta hlutaðeigandi hér með til vitundar gefið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.8.2008 | 00:44
Of stórt nef, of lítil augu
Sá sem sker út mannsandlit í tré skal hafa nefið eins stórt og hægt er og augun eins lítil og framast er unnt.
Hægt er að minnka stórt nef en ekki er hægt að stækka lítið nef.
Á sama hátt er hægt að stækka lítil augu en of stór augu verða ekki minnkuð.
Þetta á við um öll svið lífsins:
Sá sem ekki vill sitja uppi með mistökin verður að gera ráð fyrir að geta leiðrétt sig.
Han Fe Dse
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.8.2008 | 23:34
Notagildi nýnasista
Tom, skopmyndateiknari þýska blaðsins taz (die tageszeitung), sýnir okkur hvernig hafa megi gagn af nýnasistum:
Ofangreindu algjörlega óskylt:
Ég veiti Árna Svani Daníelssyni Amen dagsins fyrir prédikun sem hann flutti í Þingvallakirkju 10. ágúst síðastliðinn.
Fín ræða og góð guðfræði!
Prédikunina má lesa hér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.8.2008 | 23:03
Flatmagað í grasinu
Þessa dagana er fermingarskóli Akureyrarkirkju á Vestmannsvatni í Aðaldal. Ég var að koma úr fyrstu ferðinni nú undir kvöldið.
Þrátt fyrir nafnið er ekki stíft nám í þessum skóla. Markmiðið er fyrst og fremst að kynnast tilvonandi fermingarbörnum og gefa tóninn fyrir samverurnar með þeim í vetur.
Unglingar eru frábært fólk og það átti svo sannarlega við um hópinn sem ég var með í dag. Þetta voru mjög kurteisir krakkar, lífsglaðir, einlægir og opnir. Foreldrar þeirra geta verið stoltir af þeim.
Fyrir hádegið vorum við Siggi með þeim úti á velli. Þar átti að vera dagskrá. Við fórum í fótbolta og stórfiskaleik. Við Siggi vildum bjóða upp á meira en þá voru krakkarnir lagstir á magana í grasið. Sögðust ekki nenna í fleiri leiki enda höfðu margir lítið sofið um nóttina.
Við Siggi vorum hvattir til að leggjast líka. Það endaði með því að við hættum að reyna að fá krakkana í leiki og hlunkuðumst niður í grasið innan um unglingana.
Og viti menn: Það var bara gott að liggja þar, tyggja strá, láta hlýja sunnangoluna leika um sig, hlusta á skvaldur æskunnar og hlæja.
Fullorðið fólk heldur oft að endilega þurfi að hafa ofan af fyrir yngra fólki. Þeir eldri þurfi að bjóða þeim yngri upp á einhver atriði, skemmtun og afþreyingu.
En stundum er meira en nóg að flatmaga með þeim í grasinu.
Eftir hádegið fórum við á báta. Hægt var að vaða í vatninu og sum fermingarbörnin voru svo miklir garpar að þau fengu sér sundsprett.
Unglingunum líður vel á Vestmannsvatni. Ég held þeim finnist þetta vera þeirra staður. Það er gott að byrja fermingarstarfið með því að mæta þeim á þeirra heimavelli.
Því miður var ég ekki með myndavélina en læt hér fylgja mynd sem ég tók í fermingarskólanum í ágúst 2006.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.8.2008 | 20:02
Það er ekki erfitt að trúa
Stundum er það gert svo óskaplega flókið að trúa.
Þú þarft að trúa hinu og þessu.
Trúa á Biblíuna, kirkjuna og prestana.
Kokgleypa kenningar, afneita skynseminni og afsala þér forræði yfir eigin lífi.
Rembast við að hafa hitt og þetta fyrir satt.
Hegða þér á tiltekinn hátt, hafa tilteknar skoðanir og aðhyllast tiltekinn lífsstíl.
En það er ekki svona erfitt að trúa. Og alls ekki svona flókið.
Trúin er áreynslulaus, létt og leikandi.
Trúin krefst einskis af þér nema að þú opnir hjarta þitt fyrir þessum stórkostlega möguleika, þessu stórkostlega tækifæri, sem felst í því að lifa lífinu ekki einn, ekki einungis í eigin mætti eða vanmætti, ekki bara fyrir eigin elju og atorku, heldur með Guði.
Sá sem trúir þarf ekki að gera meira en að opna seglin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
10.8.2008 | 23:45
Myndablogg úr Brekkuskógi
Bloggar | Breytt 11.8.2008 kl. 00:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.8.2008 | 11:18
Ávarp við kertafleytingu
Birti hér ávarp sem ég flutti við kertafleytingu íslenskra friðarhreyfinga við Minjasafnstjörnina hér á Akureyri í gærkvöldi.
Myndina með færslunni tók Jóna Lovísa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar.
Þar gefur að líta mig og friðsemdarengilinn Yrsu Hörn Helgadóttur.
Eins og sést á myndinni var hið besta veður á Akureyri þegar athöfnin fór fram. Kertin nutu sín vel á tjörninni og byr kvöldkulsins nægði til að sigla þeim frá landi.
En ávarpið er svona:
Við söfnumst hér saman til að minnast fórnarlamba, tæplega tvöhundruð þúsunda, sem fyrir rúmum sex áratugum fórust í eyðandi eldi tveggja kjarnorkjusprengja í japönsku borgunum Hiroshima og Nagasaki.
Máttur mannsins er mikill, stundum skelfilegur. Hann er fær um að eyða sjálfum sér og saga mannkyns er ofin blóðrauðum þræði sjálfseyðingaráráttu þess. Manneskjan smíðar tæki og tól til að granda sér. Hún stundar rányrkju og skipulega eyðileggingu á hinni góðu sköpun. Þar með stefnir hún í voða lífmöguleikum sínum á þessari plánetu. Og manneskjan smíðar af hugkvæmni sinni þjóðfélagsleg kerfi sem fæða af sér ranglæti og misskiptingu.
Þar lifa fáir útvaldir í andstyggilegum ofgnóttum en stór hluti mannkyns í andstyggilegri örbirgð og er dauðadæmdur áður en hann fæðist.
Eldur er tvírætt tákn. Friðsælt er flökt á litlum ljósum. Við tendrum eld á friðarkertum. Við berum friðarkyndla.
En eldurinn er líka tákn eyðileggingarinnar. Eldar loga í helvíti. Eldurinn er ófriðarbál. Sprengjan er eyðandi funi.
Og friðurinn er líka tvíræður. Við viljum öll frið. Við viljum búa saman hér á þessari jörð í sátt og samlyndi.
En sumt má ekki láta í friði ef friður á að verða. Ég sagði hér áðan að við værum hér samankomin til að minnast fórnarlamba.Við erum hér ekki einungis til þess. Við erum ekki bara hér til að minnast heldur til að áminna. Áminna okkur um eitt mesta ódæði mannkynssögunnar. Við megum ekki láta það gleymast, ekki láta það í friði - né önnur níðingsverk mannsins.
Sá friður sem felst í sinnuleysi og áhugaleysi, sá friður sem er máttleysi og hugleysi, sá friður sem er þögn um ranglætið og ofbeldið í mannheimum, hann er friður eyðileggingarinnar; hann er djöfullegur friður. Hann er friður sama eðlis og sá sem ríkir í yfirgefnum skotgröfum og í borgunum þar sem búið er að eyða öllu. Hann er friðurinn sem ógnar lífinu en þjónar því ekki.
Hér ætlum við ekki að láta nægja að líta sextíu og þrjú ár aftur í tímann. Við ætlum líka að líta í kringum okkur, horfa á heiminn eins og hann er. Eldurinn sem logar á flotkertunum nýtur sín vel í húminu. Við skulum láta hann bregða birtu á það sem þar leynist. Líka það sem illa þolir dagsljósið. Það sem ekki má segja og fáir vilja heyra.
Við horfumst í augu við fórnarlömb stríðssjúkra yfirvalda okkar tíma, við sjáum þau sem þjást vegna ranglætis og ofbeldis, þau sem ekki fá borið hönd fyrir höfuð sér, þau sem enga málsvara eiga.
Ef til vill finnst mörgum það heldur klént framlag til friðarins í veröldinni að kveikja á litlum kertum og í ofanálag að ýta þeim út á vatn, sem hæglega getur kæft þessi litlu friðarljós með einni nettri skvettu.
En þannig er hlutskipti friðflytjandans. Hann er í raun alltaf að kveikja á svona litlum kertum. Friðurinn á erfitt uppdráttar. Besta sönnun þess er ástandið í veröldinni. Friðurinn flöktir eins og fljótandi kerti í hvassviðri.
Það getur reynst jafn erfitt að kveikja á kerti úti í strekkingnum og að vekja frið í beljanda samtíðarinnar.
Og það getur verið jafn auðvelt að kæfa friðinn og það er fyrir vindinn að feykja loganum af kveiknum á einu litlu kerti.
Þess vegna á hver friðflytjandi aldrei nóg af kertum og eldspýtum.
Við skulum ekki gefast upp. Við skulum halda áfram, hvert með sínu lagi, hvert á sínum stað, hvert með sinni rödd, hvert eftir sinni sannfæringu, í smáu sem stóru.
Við skulum standa í flæðarmáli vettvangsins og halda áfram að senda friðarkerti út á höfin.
Þannig minnumst við þeirra best sem dóu í Hiroshima og Nagasaki. Og þannig reynumst við þeim best sem þessa stundina eru fórnarlömb ófriðarins á jörðinni.
Megi ljós friðarins eflast í veröldinni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.8.2008 | 11:17
Ein með öllu með Möggu
Hátíðin Ein með öllu og allt undir hefur staðið yfir hér á Akureyri frá því á föstudaginn.
Samkvæmt fréttum frá lögreglunni er töluverður fjöldi fólks í bænum og allt hefur gengið stóráfallalaust fyrir sig.
Mér finnst yfirbragð hátíðarinnar nú allt annað en á undanförnum árum.
Í fyrsta skipti finn ég að bæjarbúar sjálfir eru spenntir fyrir þessari hátíð. Verði haldið áfram á sömu braut er ég viss um að þeir líta á hana sem sína eigin.
Á liðnum árum hefur hátíðin verið umkomulaus. Hún kemur Akureyringum ekki við. Þeir hafa talað um að "forða sér úr bænum" meðan hún stendur yfir.
Það er boðið í partí en gestgjafar fyrirfinnast engir. Þeir eru á flótta undan gestunum.
Forsvarsmenn hátíðarinnar að þessu sinni gera sér á hinn bóginn grein fyrir að ekki er hægt að auðsýna gestrisni án gestgjafa.
Magga Blöndal vissi alveg hvað hún var að gera þegar hún ákvað að gefa tóninn strax með fyrsta dagskráratriðinu, óskalagatónleikum Eyþórs Inga Jónssonar, organista í Akureyrarkirkju.
Hellingur af fólki var í kirkjunni og mikill fjöldi í blíðunni fyrir framan hana og í kirkjustöllunum þar sem hægt var að hlusta á tónleikana í hátölurum.
Þar mátti sjá fólk á öllum aldri, bæði innfædda og aðkomna.
Snillingurinn hógværi Eyþór Ingi fór á kostum og það var bæði notalegt og afslappandi að sitja í kirkjunni.
Eftir tónleikana gengum við niður í bæ, settumst fyrir utan Bláu könnuna, fengum okkur örlitla hressingu og fylgdumst með mannlífinu í göngugötunni.
Í hádeginu í gær lá leiðin í Lystigarðinn þar sem Hemmi Ara söng og lék fyrir fólk ásamt félögum sínum. Þar var sama ljúfa stemmningin, fólk sat á flötinni, hlustaði á tónlistina og tók jafnvel undir með munnana fulla af flatbrauði með hangikjöti.
Núna á eftir ætla ég að fara á hádegistónleika i Iðnaðarsafninu, þar sem meðal annars koma fram þær stöllur Guðrún Gunnarsdóttir og Inga Eydal. Boðið verður upp á akureyskar kræsingar, pylsur með rauðkáli og eðaldrykkinn Vallash.
Ég vona að þessi útihátíð eigi eftir að ganga vel og ef eitthvað kemur upp á er ég sannfærður um að menn læri af mistökunum.
Margrét Blöndal og hennar fólk fær stórt bros frá mér.
Og Amen dagsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
31.7.2008 | 00:43
Lifi hinar hrörlegu brýr!
Um daginn hitti ég vin minn niðri í bæ. Við höfðum ekki sést lengi. Okkur langaði mikið að tala saman. Við vissum bara ekki um hvað við ættum að tala.
Upphófust þreifingar. Við brugðum á það gamla ráð að tala um veðrið.
Þá var veðurlaust á Akureyri. Hvorki logn né vindur. Smá sól en annars ekki. Varla hlýtt en heldur ekki kalt.
Gjörsamlega karakterlaust veður sem ekki býður nema upp á gjörsamlega bragðlausar samræður.
Spjall okkar varð vandræðalegt. Við kímdum og glottum. Báðir vissu hvað hinn hugsaði. Samt héldum við samtalinu áfram. Okkur langaði að spjalla því við vorum vinir.
Það hafðist svo fyrir rest.
Ég hef að mestu hvílt mig á bókum í sumarfríinu. Þó örlítið nartað í sögulega skáldsögu. Endastöðin heitir hún, um síðasta æviár Tolstojs, eftir bandaríska rithöfundinn og fræðimanninn Jay Parini. Gyrðir Elíasson þýddi.
Ég hef mikið dálæti á Gyrði. Allt skrifar sá maður vel. Hann gæti gert innkaupalista að listaverki. (Sem þá yrði innkaupalistaverk.)
Í Endastöðinni rakst ég á lýsingu á bútum samtalsins áðurnefnda sem ég átti við vin minn niðri í bæ.
" - þetta var hrörleg brú sem lögð var yfir erfiðan stað á árstraumi samræðnanna."
Ég tek hatt minn ofan fyrir þeim sem slíkar brýr leggja.
Það er miklu betra en að standa öskrandi á bakkanum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.7.2008 | 22:01
Um sel
Þessa sögu sagði mér óljúgfróður ættingi á ættarmóti.
Fyrir allnokkrum árum bar það til tíðinda að selur úr Norðurhöfum álpaðist suður á hinar eilífu leirur Hollandsstranda.
Varð uppi fótur og fit þar syðra. Fréttirnar af hinum hafflótta sel komust á forsíður blaða og í aðalfréttatíma ljósvakamiðla.
Lífsbarátta selsins nísti hjarta Hollendinga og var hrundið af stað söfnun til að forða honum frá dauða. Til þess voru engin ráð önnur en að fljúga með hann til heimkynna sinna í sérútbúinni flugvél í umsjá sérfræðinga .
Kostaði það fúlgur fjár en vel safnaðist enda málstaðurinn góður.
Selnum var flogið hingað norður til Akureyrar. Hér þótti vænlegt að sleppa sel því flugbrautin nær á haf út eins og kunnugir þekkja.
Ferðin gekk vel og selurinn varð frelsinu feginn þegar hann tók fyrstu sundtökin út á Pollinn.
Þá þóttu selir mesta skaðræði á Íslandi.
Selurinn var því skotinn eftir fimm mínútna sundsprett, út af Höfnersbryggjunni.
Hróðugur veiðimaður fékk greiddar 3000 krónur fyrir afrekið gegn því að framvísa neðri kjálka dýrsins.
Afgangurinn af selnum var svo hakkaður í refafóður.
Refir ku vera skynsemdarskepnur en tæplega hafa þeir gert sér grein fyrir því hversu mikið var búið að hafa fyrir máltíðinni kvöldið sem þeir gæddu sér á Hollandsfaranum.
Ef til vill hefur það orðið hollenskum dýravinum einhver huggun að skömmu síðar fór refabúið á hvínandi hausinn eins og lög gerðu ráð fyrir.
(Myndin er af freefoto.com)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)