Færsluflokkur: Bloggar

Fagra Ísland

Sumarfríið mitt verður alíslenskt.

Tölvur verða ekki teknar með og því einungis bloggað í forföllum frá fríinu.

Lesendur geta skemmt sér við að skoða myndir úr fríum fyrri ára.

 

sumarfri1

Í Fjörðum. Þangað ætla ég í sumar.

 

sumarfri2

Mig langar líka í Flateyjardal.

 

sumarfri3

Þessi mynd er tekin við Brúará en við verðum eina viku í Brekkuskógi og munum ábyggilega ganga að þessum fallega fossi.

 

sumarfri5

Paradísin við Vestmannsvatn í Aðaldal er ómissandi í sumarferðum fjölskyldunnar.

 

sumarfri6

Ekki veit ég hvort ég fæ lax í sumar en þarna er ég með einn í Skjálfandafljóti.

 

sumarfri4

Heima er best. Eyjafjörðurinn heilsar.


Tárabarn

tar

 

Ástin er engin notalegheit.

Enginn elskar í raun og veru án þess að þjást.

Við þjáumst vegna þess að við elskum.

Ástvinur þinn deyr og eftir situr þú sárþjáður vegna þess að þú elskar.

Barnið þitt lendir í vandræðum og þú þjáist með því vegna þess að þú elskar.

Vinur þinn veikist og þú finnur til með honum vegna þess að þú elskar.

Þú elskar og bikar þjáningarinnar bíður þín.

Í Færeyjum segja þeir að sá sem aldrei geri mistök geri ekki nógu mikið.

Sá sem aldrei þjáist elskar ekki nógu mikið.

Ást er hluttekning. Að elska er að finna til.

Ástin er tárabarn heimsins.


Prógressívt íhald

progressiveÉg er víst einn örfárra sleipra presta sem blaðið 24 stundir náði ekki í þegar prestar landsins voru spurðir að því hvort þeir gætu hugsað sér að gefa saman samkynhneigð pör í staðfesta samvist.

Ég gæti vel hugsað mér að annast slíka athöfn og hugsa mér gott til glóðarinnar því það samkynhneigða fólk sem ég þekki er löngu orðið gjafvaxta.

Í frétt 24 stunda (á maður ekki að segja 24ra stunda?) er sagt að niðurstöður könnunar blaðsins sýni viðhorfsbreytingu innan prestastéttarinnar. Það sé að hýrna yfir kirkjunni.

Því er ég ósammála. Niðurstöður könnunarinnar endurspegla að minni hyggju samþykkt prestastefnunnar á Húsavík í fyrra. Þar var samþykkt form fyrir blessun Conservative_0000bstaðfestrar samvistar með örfáum mótatkvæðum.

Fjölmiðlar voru á hinn bóginn svo uppteknir af því sem hafnað var á stefnunni að hinu var nánast enginn gaumur gefinn sem samþykkt var.

Ég tel mig samt ekki frjálslyndan mann og tek ekki þessa afstöðu til að sýnast vera slíkur.

Ég er í raun skelfilegt íhald og tel að kirkjan eigi að vera fremur íhaldssöm og fara varlega.

Þó hef ég það mér til málsbóta að ég er mjög prógressívur á ýmsum sviðum.

T. d. í matseld.

 

 


Saman

par

 

Ég eyddi kvöldinu í að skrifa prédikun fyrir sunnudaginn. Þar les ég lítið ástarljóð eftir þýska rithöfundinn Hans Bender sem mér finnst svo fallegt. Það heitir Gemeinsam á frummálinu.

Þannig hljóðar það í minni þýðingartilraun:

 

 

 

 

Saman

 

Hnífurinn skiptir brauðinu

í jafna hluta.

Þar sem varir þínar snertu glasið

drekk ég næsta sopann.

Gakktu í mínum skóm!

Þegar veturinn kemur

skýlir kápan þín mér.

Við grátum úr einu auga,

að kvöldi lokum við dyrunum

til að vera ein. Í svefni

flæða draumar þínir inn í mína.


Já - og nei

credo[1]Orðið "já" lætur ekki mikið yfir sér og er hættulega þjált í munni.

Við segjum það oft á degi hverjum. Gjarnan sem svar við spurningu.

"Já" getur reynst afdrifaríkt þótt það sé ekki nema tveir stafir og aðeins andartak taki að segja það.

Sumar játningar okkar verða hin mesta blessun en við játumst líka ýmsu sem við hefðum betur neitað.

Ef til vill er listin að lifa einfaldlega í því fólgin að kunna að nota þessi orð, já og nei.

Játa á réttum stöðum en neita þegar það á við. Hafa vit á því að játast því sem er okkur til heilla en neita hinu sem skaðar okkur.

Margir tala um kreddur af fyrirlitningu. Kreddufullar manneskjur eiga ekki upp á pallborð samtímans. Fæst kærðum við okkur um að vera kölluð kreddufull.

Orðið "kredda" er myndað úr latneska orðinu "credo" sem þýðir "ég játa".

Öll eigum við okkar kreddur. Öll játumst við einhverju.

Það skiptir máli hverju við játumst.

Og hverju við neitum.

Jáin skipta öllu máli í lífinu - og neiin.


Bið

baturBiðstaða þykir mörgum afleit og óþægileg stelling.

Þegar beðið er gerist ekkert. Tíminn líður. Við aðhöfumst ekkert.

Engu að síður er mikilvægt að kunna að bíða. Almennileg bið er ekki tómt aðgerðarleysi heldur krefst einbeitingar. Sá sem bíður þarf að halda vöku sinni.

Þegar við bíðum, bíðum við þess sem koma skal. Bið er undirbúningur fyrir framtíð. Við sjáum ekki inn í hana en getum verið tilbúin fyrir hana þegar hún kemur ef við kunnum að bíða.

Séum við tilbúin fyrir framtíðina en látum hana ekki koma okkur gjörsamlega í opna skjöldu höfum við gert það sem í okkar valdi stendur til að hafa áhrif á það ókomna hvernig sem það verður.

Bið er líka traust. Sá sem bíður leggur árar sínar í bát. Hættir að hamast á hafinu. Reynir ekki að troða sér fram fyrir þann sem er á undan í röðinni. Treystir því að röðin komi að sér. Treystir því að biðin beri árangur.

Bið er vinna í þeirri trú að ekki sé til einskis beðið.

(Myndin með færslunni er af freefoto.com)


Dyslexic agnostic insomniac

Skoskur vinur sagði mér þennan í nótt.

Hann verður að fá að vera á frummálinu.

"Did you hear about the dyslexic agnostic insomniac?

He lay awake at night wondering if there was a dog."


Byssur og bænir

byssa.jpgHræddir menn beita ofbeldi.

Menn eru ekki sammála um hvort ofbeldisverkum fari fjölgandi en er ekki ofbeldið í fjölmiðlum alltaf að versna?

Verða lýsingarnar á fólskunni ekki sífellt nákvæmari og myndirnar blóðugri?

Og við verðum hræddari og hræddari.

Kvikmyndaleikstjórinn Michael Moore segir í myndinni Bowling for Columbine að óttinn sé ein ástæða mikillar byssueignar og ofbeldis í Bandaríkjunum.

Það sé nauðsynlegt fyrir byssuframleiðendur að viðhalda ákveðnu óttastigi í samfélaginu. Bandaríkjamenn eigi byssur af því að þeir séu skelfingu lostnir.

Byssan er býsna skilvirkt tæki til að koma því til leiðar sem maður ætlar sér.

Byssan virðist hentugra verkfæri til slíks en bænin.

Í Bandaríkjunum sofa menn gjarnan með byssu nálægt sér.

Ef til vill er byssan að taka sess kvöldbænarinnar?

Mamman við barnið:

"Nú þurfum við ekki lengur að fara með bænir fyrir svefninn, því mamma hefur byssu undir koddanum og skýtur alla ljótu kallana."


Jónsmessusólin

Undanfarið hefur diskurinn Home með The Corrs verið í spilaranum á Volvó mínum og ég er með lagið Buachaill ón Éirne gjörsamlega á heilanum.

Gelíska er annarleg tunga sem ég skil ekki baun í en mér finnst hún fallegt söngmál.

Smám saman hefur orðið til örlítið kvæði við þetta lag. Það er svona:

 

Jónsmessusólin í hæðunum hörund mitt þvær

og hamingjusprotanum brosandi á lífríkið slær,

úr ljósárafjarlægð hún hittir í mosanum maur.

Þú, maríuerla, ert drottning á girðingarstaur.

 

Sýp ég á víni hins áfenga angandi lyngs,

með augunum drekk ég af staupi míns sjóndeildarhrings.

Á netinu könguló spinnur sitt blíðviðrisblogg

en bragsmiðsins vorboðinn ljúfi er ybbandi gogg.

 

Hægt er að hlusta á lagið hér fyrir neðan.

 

.

 


Mitt framlag til Vódafón á Ítalíu

Í seinni hluta þessarar ítölsku vódafónauglýsingar sést ljósmynd í ramma við hliðina á tölvu.

Þar gefur að líta þrjú börn í baðkari. Þau eru afkvæmi síðuhaldara. (Það sést víst mun betur í sjónvarpi.)

Systa frænka þeirra sá um sviðsmyndina í auglýsingunni og notaði innrammaða ljósmynd sem hún átti.

Nú hef ég boðið Systu mynd af mér í baði fyrir næstu auglýsingu.

Engin viðbrögð hafa borist.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband