Færsluflokkur: Bloggar

Hrópin af þökunum

kallakassaÞökk sé þeim sem prédika á torgunum, flytja ræður í púltunum, hrópa af þökunum og hefja upp slagorðaspjöldin!

Þökk sé þeim skrifa greinar í blöðin, blogga og semja bækur og ljóð!

Þökk sem þeim sem hafa sannfæringu, skoðanir og trú og liggja ekki á því heldur þora að kannast við það og tjá það öðrum!

Þökk sé þeim sem hafa þó þann áhuga á okkur hinum og þá trú á mannkyninu að þeir telja það ómaksins vert að reyna að hafa áhrif á það og leggja sitt af mörkum í þess þágu!

Vörum okkur á ofbeldismönnunum sem vilja þvinga ofan í okkur sína einu réttu skoðun og í öllu sínu öryggisleysi hafa ekki meiri trú á málstað sínum en svo að hann er þeim einskis virði nema þú gerir hann að þínum.

Vörum okkur á úlfunum í sauðagærunum sem koma til okkar smjaðrandi og þykjast ekki vilja sannfæra okkur um nokkurn skapaðan hlut eða hafa nokkur einustu áhrif á okkur og eru samt einkennilega uppteknir við það.

Vörum okkur á þeim sem hafa engan áhuga á okkur, hafa engan áhuga á tilverunni, umhverfinu, menningunni, framvindunni og samfélaginu, þeim sem hafa engan áhuga á neinu nema sér sjálfum og kveikja enga elda nema þeirra eigin kaka sé í ofninum.

Stundum viljum við frið fyrir fólkinu sem hefur eitthvað að segja.

Við viljum fá að vera í friði með okkar skoðanir, okkar trú og okkar sannfæringu.

En hvaðan ætli það allt sé komið?

Ætli það hafi kviknað af sjálfu sér í brjóstum okkar?

Alveg örugglega ekki.

Skoðanir mínar, trú mín, sannfæring mín, allt er þetta meira og minna frá öðrum komið.

(Og nú á að lesa aftur upphaf þessarar færslu.)


Vald

fossVald er stórt, öflugt, tilkomumikið. Vald er eins og þungur foss. Það á sinn gný.

Við erum smá andspænis valdinu.

Vald er vandmeðfarið. Vald er misnotað. Vald spillir. Pólitískt vald, trúarlegt vald, auðvald.

 

Vald er hættulegt. Það sýnir saga mannsins.

Vald er hálfgert tabú. Fáir vilja kannast við að hafa það. Ekki síst þeir sem misbeita því.

Vald er samt ekki endilega slæmt. Ein merking valds er einfaldlega máttur.

Að vald-a einhverju þýðir að koma einhverju til leiðar, láta eitthvað gerast.

Valdið er ekki séreign ofbeldismannanna. Vald er ekki það sama og misnotkun þess.

Við erum undir alls konar völdum. Sjúklingurinn þegar hann fer að fyrirmælum læknisins, barnið þegar það hlýðir foreldrum sínum og hásetinn þegar hann gerir eins og skipstjórinn segir.

Við þurfum öll að beita valdi og beygja okkur undir það.

Vald er möguleiki á því að hafa áhrif - til góðs eða ills, blessunar eða bölvunar.

Valdið getur orðið viðbjóðslegt í meðförum þess sem nýtur þess að beita því.

Vald í höndum þess sem ekki veit af því eða neitar að kannast við það verður gjarnan stjórnlaust.


Vor Akureyri

Pollurinn_og_báturÉg hef verið að fikra mig í gegnum kvæðasafn Kristjáns skálds frá Djúpalæk sem nefnist Fylgdarmaður húmsins og kom út í fyrra.

Kristján er dásamlegt skáld. Hann segir margt svo fallega. Erindi úr ljóðinu Hrím er svona:

 

"Hugsanir manns

eru hrímperlur

stuttrar nætur

á stráum."

Kristján gerði landsþekktan Þórð þann sem elskaði þilför og orti um togarasjómenn sem tamast er "að tala sem minnst um það allt".

Eitt vorkvöldið leiðir hann okkur inn í Vaglaskóg þar sem "leikur í ljósum lokkum hinn fagnandi blær" - svo dæmi séu nefnd um frábæra dægurlagatexta Kristjáns.

Bernskubyggð Kristjáns fyrir austan er honum hugleikin. Hann býr til mörg kvæði úr ástinni til hennar og minningunum þaðan.

Hann yrkir um náttúruna en hann elskar ekki einungis hálsa, drög og holt, sanda, nes og firði, fugla á sundi í sólarglóð og gróður um laut og börð.

Í ljóðum hans sést líka ást til þess umhverfis sem maðurinn hefur skapað.

Kristján orti fallega um Akureyri og þorir að fullyrða að hún sé stærsti og fegursti bærinn og hvergi sé meiri ilmur en þar. Hann segir hana sjálfkjörna blómadrottningu Sóleyjarbarna.

Akureyri er "bær hins eilífa, bláa, og borg hinna grænu trjáa".

Akureyringum þykir vænt um bæinn sinn og þeir eru stoltir af honum. Þess vegna blöskrar þeim þegar illa er um hann gengið og honum er sýnt virðingarleysi.

Það er alveg hægt að láta sér þykja jafn vænt um t. d. Oddeyrargötuna og fallegt gil úti í í sveit, prýtt blómum og smáfossum.

Einhvers staðar las ég að Akureyringar gætu ekki farið fram á að einungis siðprútt fólk kæmi þangað í heimsókn.

Af hverju ekki?

Er eitthvað að því að ætlast til þess af fólki að það sýni eigum náungans virðingu? Að það gangi vel um fögur stræti og blómagarða? Að það komi fram af kurteisi?

Líka þótt það sé að gera sér glaðan dag?

Akureyringar eiga að gera þessar kröfur til sjálfra sín og gesta sinna.

Akureyringurinn er auðvitað ekki til. Það eru bara til um það bil 17.000 Akureyringar og er hver þeirra með sínu sniði.

Samt verður að viðurkennast að meðalakureyringurinn gerir fátt rómantískara en að fá sér göngutúr í Lystigarðinum á haustkvöldi.

Þegar hann fær sér bíltúr keyrir hann löturhægt um göturnar, sleikir Brynjuísinn sinn og hlustar á Kim Larsen.

Hann dáist að bænum sínum og spáir í nýjustu gardínurnar í gluggunum.

Og finnist einhverjum það smáborgaralegt verður bara að hafa það.


Hvítabjörn í mínum húsum

isbjornÍ gamla daga vöknuðum við systkinin snemma á sautjándanum til að missa ekki af blómabílnum.

Þá var til siðs hér á Akureyri að skreyta biksvartan kistubíl bæjarins litríkum plöntum. Hann ók svo um göturnar og benti með skrúði sínu á að komin væri þjóðhátíð.

Nú er kistubíllinn löngu hættur að reka bæjarbúa úr rekkju á þjóðhátíðarmorgni.

Annað mun draga okkur heimilisfólkið úr rúmunum í fyrramálið. Einkasonurinn er að útskrifast úr Menntaskólanum á Akureyri. Athöfnin byrjar eldsnemma.

Að vísu á eftir að koma í ljós hvernig móðurinni gengur að vakna því þegar þessar línur eru skrifaðar er hún að dansa niðri í höll og óvíst hvenær hún kemur heim. Hún er 25 ára stúdent og hefur verið að fagna því undanfarna daga.

Ég er hafður heima til að verja heimilið ágangi því þar er allt til reiðu fyrir útskriftarveislu. Það síðasta sem ég gerði áður en ég settist að bloggi var að þrífa klósettið.

Það var nú hápunktur kvöldsins hjá mér - ef frá er talin frekar dauf viðureign Þjóðverja og Austuríkismanna á EM.

Sonurinn er nýbyrjaður í sumarvinnunni. Hann er lögreglumaður á Sauðárkróki. Rétt áður en hann tók til starfa birtist ísbjörn í umdæminu og hann missti af honum.

Hann missir sennilega líka af ísbirni númer tvö vegna útskriftarinnar og nagar sig í handarbökin út af því.

Auðvitað er miklu meira spennandi fyrir unga lögreglumenn að berjast við hvítabirni en að skrifa stöðumælasektir á Króknum, taka stressaða Akureyringa fyrir of hraðan akstur eða eiga við góðglaða skagfirska hestamenn.

Þess má geta að sonur minn heitir því ágæta nafni Björn.

Á morgun fær hann húfu með hvítum kolli og verður því sjálfur eins konar hvítabjörn sem hugsanlega eru honum einhverjar sárabætur.

Ég óska honum til hamingju með áfangann.

Kærastan hans, elskuleg Lára Dagný frá Kópaskeri, verður líka stúdent og fær sömu óskir.

 


Guð og lögfræðingar

godvoice[1]

Giorgio sendi mér þessa með sömu fyrirsögn og er á þessari færslu.

Takk & Áfram Ítalía!


Fótboltavísindi

800px-Flag_of_Turkey.svg[1]Fótboltaleikur er dauðans alvara. Öllum leyfilegum og jafnvel óleyfilegum aðferðum er beitt í þágu málstaðarins.

Er í mörg horn að líta.

Auðvaldið þarf að virkja fyrir liðið, hvort sem um er að ræða ungmennafélag á íslensku héraðsmóti eða landslið í Evrópukeppni. Læknar, sprenglærðir þjálfarar og næringarfræðingar sjá um að koma leikmönnum í toppform á réttum tíma.

Stærðfræðin leggur líka sitt af mörkum.

Í myndinni A Beautiful Mind frá árinu 2001 leikur Russell Crowe bandaríska stærðfræðinginn John Forbes Nash jr. sem ásamt fleirum þróaði svokallað Nash-jafnvægi (equilibrium).

Þar er á ferðinni kenning sem getur hjálpað keppendum í strategískum íþróttum að ná sem bestum árangri.

Og við erum að tala um kenningu sem vann til Nóbelsverðlauna.

Nash-jafnvægi er náð þegar tekist hefur að semja leikaðferð fyrir hvern þátttakanda í leik sem er besta svarið við leikaðferðum allra hinna - ef ég hef skilið þetta rétt.

Þess ber að vísu að geta að ég skil fátt í þessum vísindum en hef gaman af fótbolta.

Öðruvísi orðað: Nash-jafnvægi kallast það þegar Jón tekur bestu ákvarðanirnar með tilliti til þeirra ákvarðana sem Gunna tekur og Gunna tekur bestu ákvarðanirnar með tilliti til þeirra ákvarðana sem Jón tekur.

Fótboltavísindi eru mikil fræði og gaman að glugga í þau.

Gamla kempan John Wesson ritaði bókina The Science of Soccer þar sem hann fjallar meðal annars um hreyfimekaník knattarins og bíómekaník mannslíkamans. Norðmaðurinn Kjetil Haugen birtir á netinu niðurstöðu athugana sinna og nefnir A Game Theoretic View of Soccer og háskólamenn með áberandi ítölsk eftirnöfn (Palomino, Rigotti og Rustichini) senda frá sér úttekt undir glæsilegum titli, Skill, Strategy and Passion: An Empirical Analysis of Soccer.

Allt lítur þetta vel út en mitt lið á EM er nú samt það sem spilar með hjartanu, þorir að ögra líkindum og reyna það ómögulega.

Það gerðu Tyrkir gegn Tékkum í kvöld og því segi ég og skrifa:

Áfram Tyrkland!


Homo ridens

homoridensVel fer á því að fyrsta bloggfærslan eftir veru mína á Prestastefnu sé um hlátur og húmor.

Þótt viðfangsefni Stefnunnar séu flest grafalvarleg - núna töluðum við m. a. um klukknaport í kirkjugörðum - eru kollegar mínir framúrskarandi skemmtilegt fólk og það bjargar því sem bjargað verður.

Friedemann nokkur Richert ritar grein um húmor í nýjasta tölublað Þýska prestablaðsins (Deutsches Pfarrerblatt) sem hann nefnir Transzendierende Komik.

Mér fannst hún merkileg og ætla að reyna að koma henni frá mér hérna - og því sem hún kveikti innra með mér.

Þrátt fyrir áherslu nútímans á hinn mynduga og sjálfráða mann lenda flestir fyrr eða síðar í lausamölinni í kantinum.

Þá getur tvennt gerst:

Annað hvort gerist allt eða ekkert.

Yfirleitt erum við samt betur búin undir ekkert en allt.

Öryggi okkar er stundum fólgið í því einu að nákvæmlega ekkert gerist.

Okkur er því nokkur vandi á höndum þegar við sjáum að trúlega geti allt gerst - án þess að við fáum miklu um það ráðið.

Húmor er ein hugsanleg viðbrögð við því þegar allt fer að gerast.

Húmor tekur við þar sem skynsemin er komin að mörkum sínum, en skynsemin er sá hæfileiki að raða niður tilverunni, greina hana og koma henni fyrir í röklegu samhengi.

Þegar tilveran er óreiða og ófyrirsjáanleg og eins og þruma úr heiðskíru lofti hlæjum við (eða grátum).

Eða eins og segir í greininni og verður að fá að standa hér á frummálinu:

"Lachen entspringt der einfachen und alltäglichen Erfahrung, dass etwas oder jemand aus der Vernunftordnung der Dinge oder des Lebens herausfällt."

Áður en lengra er haldið verður að taka fram að þegar við tölum um að ekkert gerist er auðvitað ekki átt við að ekkert gerist.

Það gerist alltaf eitthvað. Bæði fyrir og eftir dauðann.

Þegar við tölum um að ekkert gerist er oftast átt við að atburðirnir hafi verið fyrirsjáanlegir.

Bíllinn er á malbikinu, á sínum rétta helmingi og lausamölin í öruggri fjarlægð.

Og þú munt stoppa í næstu sjoppu og fá þér kók og pylsu.

Öryggi okkar er oft ekki fólgið í öðru en að vita að hvenær við fáum kók og pylsu.

Bæði húmor og trú eru viðbrögð við öryggisleysi mannsins; þeim örlögum hans að geta ekki reiknað út tilveruna og séð fyrir eigið líf.

Jesús sagði að við kæmumst aldrei í himnaríki nema eins og börn.

Friedemann lýkur grein sinni á því að greina frá niðurstöðum vísindarannsóknar þar sem fram kemur að fullorðið fólk hlær 15 sinnum á dag að meðaltali.

Börnin hlæja á hinn bóginn að meðaltali 400 sinnum á degi hverjum.

(Og nota bene: Friedemann er þýskur.)


Mikilvægasta stéttin

kennariÞví er haldið fram að ekki eigi að móta börn í trúarefnum. Þau eigi að ákveða um slíkt þegar þau hafi aldur og þroska til. Ekki eigi að ala þau upp í kristnum sið. Þau eigi að fá að velja þá trú sem þeim líst best á þegar þar að kemur. Hækka eigi fermingaraldurinn og miða við það þegar börn hafi öðlast þroska til að taka sjálfstæðar ákvarðanir.

Í þessari umræðu láta menn stundum eins og kirkjan sé nánast eini aðilinn í veröldinni sem áhuga hafi á því að móta börn - og það sé hennar glæpur.

Auðvitað er uppeldi barnanna fyrst og fremst á ábyrgð foreldra og forráðamanna barna. Börnin verða samt fyrir áhrifum frá fleirum, heilnæmum og skaðlegum. Börn eru ekki óskrifað blað þangað til þau hafa aldur og þroska til eða þangað til þar að kemur. Þau eru forvitin og fróðleiksfús. Þau drekka í sig áreiti úr umhverfinu.

Það skiptir máli hvað þau sjá og heyra. Öll viljum við að börnin mótist af því sem er þeim til blessunar. Við viljum skapa þeim umhverfi sem laðar fram það besta í þeim. Við viljum búa þeim aðstæður þar sem þau geta nýtt og þroskað hæfileika sína. Við viljum innræta þeim virðingu fyrir sjálfum sér, öðrum manneskjum og umhverfinu, hinni góðu sköpun.

Ekki eru allir sammála því. Í þjóðfélagi okkar eru öfl sem keppast við að innræta börnunum okkar það gagnstæða; virðingarleysið fyrir sjálfum sér, öðrum og umhverfinu. Þessi öfl höfða til þess versta í börnunum okkar, vilja ræna þau sakleysinu og hjartahreinleikanum.

Nú er tími skólaslita. Þau eru skemmtilegar samkomur. Þar finnur maður tilhlökkun barnanna þegar þau horfa framan í sumarfríið en ekki síður má skynja þakklæti þeirra til kennaranna sinna, þess góða fólks, sem látið hefur sér annt um börnin okkar undanfarna mánuði. Reynt að hafa góð áhrif á þau, móta þau, verja þau því skaðlega en gera þau móttækileg fyrir því uppbyggilega.

Við eigum kennurunum svo óskaplega margt að þakka.

amen2-- 

Ofangreint var pistill dagsins á tru.is síðastliðinn fimmtudag. Á töflunni stendur: Ég má ekki bíta kennarann minn.

Í sömu viku benti Jónas Kristjánsson á gildi þess að flýta sér hægt. Ekki er ég nú alltaf sammála Jónasi en tek heilshugar undir það. Gef honum Amen dagsins fyrir. Pistilinn er að finna hér, undir fyrirsögninni Hraðfólkið missir af lífsgæðum.


Hetjan tekur lagið

songfuglÍ garðinum okkar er bosmamikil ösp. Hún er svo stór og garðurinn okkar svo mikil hola að þegar öspin hefur klæðst laufinu er nánast ekkert í honum nema hún.

Reyndar er það fullmikið sagt því öspin er félagsheimili fugla sem hittast þar til samsöngs. Á kvöldin sofna ég undir söng þeirra og vakna við hann á morgnana.

Söngur sumarfuglanna er hluti af lífsgæðum mínum.

Söngurinn er allra meina bót.

Í allri karlmennskunni í Grettis sögu segir:

"En er Þorsteinn kom í dyflissuna var þar maður fyrir. Sá hafði þar lengi verið og kominn að bana af vesöld. Þar var bæði fúlt og kalt.

Þorsteinn mælti við þenna mann: "Hversu þykir þér ævi þín?"

Hinn svarar: "Harðla ill því mér vill engi við hjálpa en eg á öngva frændur til að leysa mig."

Þorsteinn mælti: "Mart er fyrir óráðinu um slíkt og verum kátir og gerum okkur nokkuð að gleði."

Hinn kvað sér að öngu gaman verða.

"Þó skulum við prófa," segir Þorsteinn.

Tók þá og kvað kvæði. Hann var raddmaður mikill svo varla fannst hans líki. Sparði hann nú ekki af. Almenningsstræti var skammt frá dyflissunni. Kvað Þorsteinn svo hátt að gall í múrnum og hinum er áður var hálfdauður þótti mikið gaman að vera."


Á meginlandinu

frelsiFrelsið er eitt þeirra dýrmætu fyrirbæra sem auðveldlega verður frasi.

Eins og ástin.

Við njótum frelsis en ef til vill gerum við okkur ekki alltaf grein fyrir í hverju það felst.

Erum við frjáls þegar við getum gert það sem við viljum? Erum við frjáls vegna þess að við erum ekki upp á aðra komin? Er frelsi okkar í því fólgið að vera engu bundin?

Erum við þá fyrst frjáls þegar ekkert skiptir lengur máli - nema við sjálf?

Ég held að ekkert af ofangreindu sé í raun frelsi.

Sá sem lætur sér finnast fátt um allt nema sjálfan sig er ekki frjáls. Hann er sjálfs sín fangi.

Við erum upp á aðra komin og við bindumst hinu og þessu í tilverunni.

Við erum engin eylönd.

Við erum á meginlandinu með öllu því veseni sem því fylgir.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband