Færsluflokkur: Bloggar

Kristin trú og samfélag

hvitrosFyrir stuttu bloggaði ég um þýsku kvikmyndina Sophie Scholl - Die letzten Tage sem fjallar um andspyrnuhreyfinguna Hvítu rósina. Sophie var líflátin af nasistum eins og bróðir hennar, Hans.

Færsluna má sjá hér.

Henni fylgdi vísun í dreifibréf Hvítu rósarinnar á frummálinu og birti ég örlítinn kafla úr einu þeirra.

Um daginn var ég að grúska á Amtsbókasafninu og rakst þá á bókina Hvíta rósin eftir systur þeirra Sophie og Hans, Inge. Einar Heimisson þýddi hana og Menningarsjóður gaf út árið 1987.

Þar eru bréfin öll á íslensku.

Mér finnst hin trúarlega vídd í starfi Hvítu rósarinnar mjög forvitnileg.

Í bókinni segir Inge um systkini sín:

"Kristindómurinn, eins og hann birtist þeim, fór saman við gagnrýni þeirra - árvekni hefðu þau ef til vill kallað það sjálf - á samtímann. Trúin fylgdi þeim eins og varkár og athugull félagi á leið þeirra inn í einskismannsland andspyrnu og útskúfunar. Hún opnaði þeim víðáttur andans, nýjan heim, þar sem ekkert gat fjötrað hugsun þeirra, og sameinaði skoðanir þeirra á sérstöðu hvers einstaklings afskiptum af málefnum þjóðfélagsins." (Bls. 133)

Nú á dögum heyrist gjarnan að reka eigi trúna inn á heimilin og inn í afkima sálarinnar. Hún sé einkamál. Í því búri eigi hún að vera.

Í bókinni segir Inge að þau Sophie og Hans hafi talið að heimur nútímans og trúin geti haft "gagnkvæm áhrif hvort á annað".

Þau efuðust ekki um að trúin hafi samfélagslegt gildi.

Í fjórða dreifibréfi Hvítu rósarinnar segir:

"Að sönnu er maðurinn frjáls vera, en hann er varnarlaus gegn hinu illa, án hins sanna Guðs. Án hans er maðurinn eins og áralaust skip, selt stormi á vald; eins og móðurlaust barn: eins og ský sem er að leysast upp." (Bls. 115 - 116)


Talað og hlustað í kross

eyraÍ samskiptavísindum tala menn um "seleksjón". Þá er verið að tala um það háttalag mannanna að þegar þeir heyra eitthvað, heyra þeir ekki nema sumt.

Það er nú ekkert smáræði af hljóðum sem til eyrna okkar æðir á hverjum einasta degi. Við yrðum snaróð ef við hlustuðum á þau ósköp öll.

Þess vegna veljum við úr það sem við heyrum, meðvitað en aðallega þó ómeðvitað.

Við heyrum það sem við viljum heyra og helst það sem samræmist sannfæringu okkar og skoðunum.

Hitt er of mikið vesen. Við forðumst að heyra það sem veldur okkur innri spennu.

Tengihópar okkar, fjölskylda, starfsfélagar og vinir hafa áhrif á það sem við heyrum.

Síðast en ekki síst hefur sú mynd sem við gerum okkur af viðmælanda okkar áhrif á það sem við heyrum hann segja.

Næst þegar þú átt í samskiptum við einhvern er gott að minnast þess að þú heyrir ekki nema brot af því sem hann segir og misskilur sennilega stóran hluta þess sem þú þó heyrir.

Og það sama á við um viðmælanda þinn.


Helgi og Egill Helga

Turn_HóladómkirkjuNúna í vikunni sat ég indæla ráðstefnu á Hólum í Hjaltadal þar sem viðfangsefnið var heilagleikinn. Heyrði ágæt erindi og tók þátt í skemmtilegum og uppbyggilegum umræðum.

Vandfundinn er betri staður til að ræða helgi en hinir söguþokkafullu og helgu Hólar.

Á ráðstefnunni rifjaðist upp fyrir mér saga sem ónefndur maður sagði mér. Hann var á ferðalagi í Asíu og heimsótti búddískan helgidóm. Þar var fyrir búddamunkur sem bauð honum geitamjólk að drekka. Meðan munkurinn var að gefa honum mjólkina þarna á þessum sérstaka stað upplifði maðurinn nokkuð sem hann hafði aldrei upplifað áður - alla vega ekki svona sterkt:

Helgi.

Hann fann fyrir návist þess heilaga, þess sem er bæði ógnandi og aðlaðandi, nálægt en um leið víðs fjarri.

Það er ekki nóg að Guð sé til.

Maðurinn er andleg vera og fær um að upplifa Guð. Maðurinn er ekki heill fyrr en hann hefur viðurkennt hina andlegu vídd í sjálfum sér.

Annað:

Egill Helgason sýnir mér og séra Baldri Kristjánssyni þann heiður að fjalla um okkur á bloggsíðu sinni.

Hann segir okkur kollegana á villigötum. Og virðist áhyggjufullur.

Ég get tekið undir margt í þessum pistli Egils og þakka honum umhyggjuna.

Ég er til dæmis alls ekki sammála því að hlífa eigi trúnni við gríni eða gagnrýni - þótt Agli finnist endilega að mér eigi að finnast það.

Trúna þarf að gagnrýna og kirkjan hefur margoft unnið til þess að vera dregin sundur og saman í nöpru háði.

Það ætti ekki síst að vera ljóst manni sem tilheyrir lútherskri kirkjudeild.

Lúther gagnrýndi páfakirkjuna harðlega og notaði oft til þess flugbeitt háð.

Húmor getur verið býsna öflugt vopn og stundum er hann eina vopn lítilmagnans andspænis Valdinu.

Þegar húmor er beitt þannig er stundum talað um að hann sé satíra.

Kirkjan hefur gott af hressilegri satíru.

Eins og margt annað sem ræður miklu um afdrif mannsins, t. d. ríkið, menningin, auðvaldið og fjölmiðlarnir.

En þegar fjölmiðlar, ein helsta valdastofnun samfélagsins, bregða sér í það hlutverk að ofsækja minnihlutahópa, breiða út um þá ósannindi og fordóma, niðurlægja þá og svívirða, þá er það ekki lengur "satíra".

Þá er þar um að ræða barsmíðar Valdsins á þeim sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér.


Málfrelsið og umburðarlyndið

malfrelsi2Frelsi er ekki regluleysi. Stundum höldum við að frelsið hljóti að vera fólgið í því að hafa engar reglur, ekkert sem annaðhvort býður manni eitthvað eða bannar.

Hér á landi virðist vera landlæg reglufælni. Þó að reglur eigi að mínu mati að vera sem fæstar og skýrastar eru þær nauðsynlegar.

Án þeirra væri ekkert frelsi.

Þannig er málfrelsið ekki í því fólgið að hafa helst engar reglur um það hvernig fólk tjáir sig. Málfrelsi er ekki að mega segja hvað sem er, hvenær sem er og hvar sem er. 

Við þurfum þvert á móti reglur til að tryggja rétt fólk til máls, til að tjá sig, segja hug sinn og skoðanir.

Skoðanaumferðin í landinu þarf reglur og lög rétt eins og bílaumferðin.

Málfrelsið er yfirleitt ekki til umræðu þegar fólk tjáir sig um veðrið eða gengi fótboltaliðsins síns.

Málfrelsið verður fólki á hinn bóginn umhugsunarefni þegar um er að ræða umdeildar eða óvinsælar skoðanir.

Þá ríður á að við höfum reglur sem tryggja fólki réttinn til að taka til máls, segjum við.

Þannig tengist málfrelsið skoðanafrelsinu. Það er ekki til neins að hafa málfrelsi hafi maður ekki frelsi til að hafa skoðanir til að tjá í öllu málfrelsinu.

Einn öflugasti samherji skoðanafrelsisins er umburðarlyndið. Umburðarlyndi, tolerans, felst í því að leyfa fólki að hafa sínar skoðanir, líka þótt maður sé gjörsamlega ósammála þeim.

Umburðarlyndið sem samfélagsleg dyggð kemur eiginlega ekki til sögunnar fyrr en á 16. öld í kjölfar trúarlegra hræringa í okkar heimshluta.

Þá taldist það umburðarlyndi slyppi maður við ofsóknir fyrir að hafa ákveðnar trúarskoðanir.

Umburðarlyndið og málfrelsið tengjast órjúfanlegum böndum.

Ekki hægt að segja:

"Þú hefur málfrelsi - en skoðanir þínar verða ekki umbornar!"

Eða:

"Hér á landi nýtur þú málfrelsis en vita máttu að ef þú dirfist að opna á þér munninn verður þú hafður að háði og spotti og skoðunum þínum sýnt algjört virðingarleysi!"

Málfrelsið nýtur sín ekki til fulls nema í jarðvegi sæmilega þroskaðrar umræðumenningar.

Þá menningu ættum við ef til vill að rækta betur, Íslendingar, í þágu málfrelsisins.


Lifi tónlistin!

musicÉg er ekki í vafa um að Friðrik Ómar og Regína Ósk munu standa sig frábærlega í kvöld. Ég spái þeim velgengni.

Auðvitað eru þau uppáhaldið mitt. Síðan Albanía.

Svo er ég voða þakklátur fyrir að heyra sungið á ítölsku á ný - þó að ekki þurfi nema að tala ítölsku til að syngja hana. Hún er syngjandi mál.

Hann spáir líka vel. Það á að vera sól og blíða hér næstu dagana. Júróvisjónpartíið verður grillveisla. Hálfur gangur undan íslensku fjallalambi verður snæddur undir keppninni.

Það þykir pínulítið ófínt að gangast við því að hafa gaman af söngvakeppninni, alla vega í vissum kreðsum.

En ég hef voða gaman af henni. Þótt fæst laganna séu að mínum smekk er þetta sjónar- og tónaspil. Veisla fyrir augu og eyru. Það er kappfaktor í þessu. Þjóðremba.

Keppnin sameinar fólk, kallar það saman. Það nýtur þess ekki bara að fylgjast með lögunum heldur ennfremur samfundanna hvert við annað í söngvakeppnishófunum öllum, smáum sem stórum.

Ég hylli tónlistina.

Þetta segir Marteinn Lúther um hana:

"I, Doctor Martin Luther, wish all lovers of the unshackled art of music grace and peace from God the Father and from our Lord Jesus Christ!

I truly desire that all Christians would love and regard as worthy the lovely gift of music, which is a precious, worthy, and costly treasure given to mankind by God.

The riches of music are so excellent and so precious that words fail me whenever I attempt to discuss and describe them.... In summa, next to the Word of God, the noble art of music is the greatest treasure in the world. It controls our thoughts, minds, hearts, and spirits...

Our dear fathers and prophets did not desire without reason that music be always used in the churches. Hence, we have so many songs and psalms.

This precious gift has been given to man alone that he might thereby remind himself that God has created man for the express purpose of praising and extolling God.

However, when man's natural musical ability is whetted and polished to the extent that it becomes an art, then do we note with great surprise the great and perfect wisdom of God in music, which is, after all, His product and His gift; we marvel when we hear music in which one voice sings a simple melody, while three, four, or five other voices play and trip lustily around the voice that sings its simple melody and adorn this simple melody wonderfully with artistic musical effects, thus reminding us of a heavenly dance, where all meet in a spirit of friendliness, caress and embrace.

amen2A person who gives this some thought and yet does not regard music as a marvelous creation of God, must be a clodhopper indeed and does not deserve to be called a human being; he should be permitted to hear nothing but the braying of asses and the grunting of hogs."

Þau Regína Ósk og Friðrik Ómar fá Amen dagsins frá Akureyri alla leið til Belgrad.


Reglufælni

fotboltiEkki er ég vel að mér um íþróttir en þó veit ég að körfuboltamenn mega ekki hlaupa með boltann nema blaka honum til jarðar á meðan, fótboltakempum er stranglega bannað að handleika knöttinn nema þeir séu markmenn og handboltahetjurnar eiga ekki að sparka boltanum.

Þessi þekking mín ristir ekki djúpt því hver íþrótt á sér ótalmargar reglur. Sumar íþróttagreinar eru alveg ægileg vísindi. Mér dettur í hug krikket.

Þó eru íþróttir leikur.

Það þarf engan ofursnilling til að sjá að enginn leikur væri mögulegur ef engar væru reglurnar.

Lítið gaman væri að fara í fótbolta ef hver fengi bara að gera það sem honum sýndist.

Ég er á því að hafa eigi reglur sem fæstar og skýrastar.

Reglur eru samt nauðsynlegar.

Þær skapa okkur nefnilega ákveðið frelsi þótt það kunni að hljóma þversagnarkennt.

Frelsi til að leika okkur og njóta samvista hvert við annað.

Það gildir t. d. um málfrelsið, trúfrelsið, ferðafrelsið og athafnafrelsið.

Gleymum því ekki í allri okkar reglufælni.


Fréttaklám

fritzlGjörðir austurríska níðingsins Jósefs Fritzl voru ógeðslegar en mér fannst umfjöllun fjölmiðla um þær stundum líkjast því að verið væri að velta sér upp viðbjóðnum.

 

Þurfum við virkilega að vita öll smáatriðin varðandi þetta andstyggilega mál?

Breski þjóðfélagsrýnirinn Brendan O´Neill fjallar í nýlegum pistli um fyrirbærið fréttaklám.

Hann segir hungur blaðamanna í myndir, hljóð og lykt af hryllingi sýna hversu langt þeir séu komnir frá því hlutverki sínu að greina fyrir okkur atburðina og reyna að útskýra þá fyrir okkur.

Fjölmiðlun nútímans gangi út á að fá neytendur hennar til að gapa af undrun, hrylla sig af viðbjóði og hristast af hneykslun. Í stað þess að vekja okkur til umhugsunar um atburðina virðist helsta markmið blaðamannsins vera að sjokkera okkur. Kveikja tilfinningabál reiði og ótta.

amen2Það selur best.

Pistill Brendans fær Amen dagsins frá mér.

ES

Eftir að ég skrifaði pistilinn rakst ég á þessa frétt. Takið eftir myndinni með henni - og ekki síður blaðamönnunum og ljósmyndurunum við líkið.

EES

Og svo var verið að benda mér á þessa.


Blessaðir leyndardómarnir

stonehengeFærslan mín hér að neðan um einn einfaldan fékk töluverð viðbrögð. Þau voru alls ekki öll á einn veg - enda býður tilveran ekki upp á neitt svoleiðis eins og ég sagði.

Mannkynið hefur alltaf búið við öfl sem vilja ekki leyfa nema eina tegund af sannleika hvort sem í hlut hafa átt miðaldakirkjan eða alræðisstefnur nær okkur í tíma.

Í okkar samtíð heyrast raddir sem aðeins vilja hafa fyrir satt það sem hægt er að sýna fram á með aðferðum raunvísindanna.

Þau eiga að skera úr um hver sé hin leyfilega og gilda útgáfa af sannleikanum og veruleikanum.

Ekki hef ég á móti raunvísindum en auðvitað geta þau ekki sagt okkur allt um okkur sjálf og veröldina.

Raunvísindin geta til dæmis ekki sannað tilvist Guðs. Eða afsannað. Þau eru til annars brúks og séu þau rétt notuð geta þau fært okkur mikla blessun.

Tilveruna er hægt að skynja á marga vegu og þar sýnist sitt hverjum. Sé aðeins til ein leyfileg útgáfa af henni, ein gild skynjun, hefur maðurinn ekkert frelsi lengur.

Það er fleira en Guð sem erfitt getur verið að skilgreina til fulls í tilraunaglasi eða undir smásjá. Ósköp hversdagsleg fyrirbæri eru flóknari en þau virðast gjarnan vera:

Tíminn, frelsið, að vera til, rými, orsök, meðvitund, ást, ég, dauði og líf.

Jafnvel raunvísindaleg hugtök á borð við efni og tala.

Allt þetta má nálgast sem leyndardóm. Leyndardómur er hvorki gáta sem á eftir að ráða né óleyst vandamál.

Ég ætti nú ekki annað eftir en að útskýra fyrir ykkur leyndardóminn. Ef ég gæti það væri hann enginn leyndardómur lengur.

Ef til vill er samt ofangreint ekki slæm útskýring á fyrirbærinu?

(Myndina með færslunni tók ég á Stonehenge á Englandi, þeim magnaða og leyndardómsfulla stað.)


Grímsey og Grímseyingar

Gr%C3%ADmsey_Iceland[1]Síðustu dagana hef ég verið að glugga í stórskemmtilega bók, Grímsey og Grímseyingar. Hún var gefin út af Akrafjallsútgáfunni árið 2003 (ISBN 9979-9558-1-3). Ritstjóri var Helgi Daníelsson, faðir Friðþjófs ljósmyndara, sem á margar frábærar myndir í bókinni. Myndefni hennar er mjög fjölskrúðugt. Ekki síst er gaman að skoða gömlu myndirnar.

Nokkur ár var ég prestur í Grímsey, meðan henni var þjónað héðan frá Akureyri. Þá kynntist ég því góða fólki sem þar býr. Minningarnar um Grímsey og Grímseyinga eru einungis ljúfar og enn á ég góða vini þar ytra sem ég met mikils. Fyrir kemur að ég fái egg frá þeim á vorin.

Þegar ég fór út í Grímsey hélt ég venjulega til í Vogi hjá sómahjónunum Aðalheiði Sigurðardóttur og Sigfúsi Jóhannessyni, sóknarnefndarformanni og hringjara, alias Diddi hringjari. Þar var sko ekki í kot vísað. Hjá Heiðu fékk ég t. d. þá bestu signu grásleppu sem ég hef nokkurn tíma smakkað. Mér er minnisstætt að ég skolaði góðgætinu niður með Mixi, þeim eðaldrykk.

Ég er stoltur af því að geta rakið ættir mínar út í Grímsey. Langamma mín var þaðan. Hún hét Kristín Baldvinsdóttir og var fædd á Eiðum í Grímsey. Mér skilst að félagsheimilið Múli sé í landi Eiða.

Þar, þ. e. a. s. í Múla, sat ég einhverja dýrlegustu veislu sem ég hef í komið. Það var í heimsókn forseta Íslands, herra Ólafs Ragnars Grímssonar, til Grímseyjar. Honum var haldinn kvöldverður þar sem einungis var boðið upp á grímseyskan mat. Borð svignuðu undan fugli í sósu, steiktum og reyktum, alls konar fiskréttum, Grímseyjarlambi og eggjum.

Það eina sem vantaði var signa grásleppan, appelsínugul, með skærgulu Mixi.

Var ekki langt í meðvitundarleysið eftir það borðhald.

Fyrr á tímum var Grímsey alþjóðlegur staður á íslenska vísu og þangað komu oft útlendir fiskimenn. Stöku flækingur hafði þar lengri viðdvöl. Þar á meðal var hinn afgamli norski Larsen sem hafði verið nógu lengi í eyjunni til að vera búinn að gleyma móðurmáli sínu en ekki nógu lengi til að læra íslenskuna. Talaði hann því hvorugt málið.

Einn veturinn varð Larsen eldspýtnalaus. Fór hann á stúfana að bæta úr þeim skorti og gerði það svo duglega að á endanum voru allir orðnir uppiskroppa með eldspýtur nema Larsen.

Var þá ekki um annað að ræða fyrir eyjarskeggja en að leita til karlsins sem seldi þeim fúslega eldspýtur - að sjálfsögðu á uppsprengdu verði.

Höfðu kúnnarnir ekki nema gaman af þessum kúnstum.

Saga Eiðabóndans Guðmundar Bjarnasonar er á öðrum nótum. Hann fæddist stuttu eftir aldamótin 1800. Rúmlega fertugur leitaði hann til læknis á Akureyri "sakir brjálsemi" eins og það er orðað í kirkjubókum.

Ári síðar virðist Guðmundur vera búinn að fá bót meina sinna, altént nóg til þess að hann snéri aftur heim, en þá brá svo við að eiginkonan hleypti honum ekki inn í Eiðabæinn. Við það hraktist Guðmundur úr Grímsey. Fimm árum síðar lenti hann í ógurlegum vetrarhrakningum á Flateyjardalsheiði og náði naumlega til byggða, illa kalinn á fótum.

Annað sinn leitar Guðmundur læknis á Akureyri og í þetta skiptið er ekki hægt að hjálpa honum öðruvísi en með því að taka af honum báða fæturna um mjólegg.

Guðmundur fótalausi, eins og hann var nefndur upp frá því, var fluttur á sveit sína í Grímsey og dó þar árið 1865.

Sögurnar um Larsen norska, Guðmund fótalausa eru í bókinni Grímsey og Grímseyingar. Og ótalmargt fleira.

Ég mæli með henni.

(Myndin með færslunni er af wikimedia.)


Einn einfaldan, takk!

3enighed[1]Nú vilja menn hafa það einfalt. Vélræna veröld. Diggital manneskjur. Allt á hreinu, tæru og þurru.

Guð er vandræðastærð í svoleiðis heimsmynd og sé pláss fyrir hann verður hann líka að vera einfaldur og óflókinn. Fara vel í vasa - til að hann verði jafn viðráðanlegur og við viljum hafa heiminn og manneskjuna.

Þegar talað er um Guð almáttugan er verið að segja að ekkert afl sé honum meira. Það finnst mörgum erfiðast við Guð.

Þess vegna þola þeir ekki Guð. Hann ógnar þeim í þeirra eigin almættisórum.

Auk þess að flækja heiminn, raska einfaldleikanum.

Samkvæmt kristinni kenningu er Guð ekki einfaldur heldur að minnsta kosti þrefaldur - eða þríeinn eins og það er víst venjulega orðað.

Á gömlu evrópsku veggmálverki er heilög þrenning sýnd sem fjölskylda, móðir, faðir og sonur.

Mér finnst það flott lýsing á Guði. Hún nær vel að koma því til skila að Guð sé ekki föst stærð.

Hann er karl, kona og barn og um leið samband þeirra þriggja.

Hann er ekki eitthvað sem liggur fyrir og er svona, heldur er hann að verða.

Hann er líf. Hann er ferli.

Hann býr yfir karllegum eiginleikum og kvenlegum. Hann er líka það sem einkennir barnið. Hann er það smáa og veika.

Hann býr í hverri einlægri spurn og heiðarlegri undrun.

Hann er alltaf nýr og er alltaf að gerast.

Hann er andstæða fordómanna, óbilgirninnar, þess steinrunna og fyrirfram gefna.

Og eins og einhver sagði: Það er í raun ekki hægt að tala um Guð nema maður geri sér grein fyrir að í raun er ekki hægt að tala um Guð.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband