Færsluflokkur: Bloggar

Gamla góða Akureyrarsólin

Innbaer[1]Páll G. Jónsson (1869 - 1948) var lengi landpóstur norður Flateyjardalsheiði út í Flateyjardal. Árið 2000 kom út bókin Flateyjardalsheiði (ISBN 9979-60-608-8) eftir Pál, en þar lýsir hann þeirri stórmerkilegu heiðarbyggð.

Flateyjardalur er gullfallegur en náttúrufegurðin á heiðinni er líka mikil og fjölbreytileg.

Á einum stað lýsir Páll kaupstaðarferð Heiðarbúa til Akureyrar. Hún var mikið fyrirtæki. Prjónles, ull, tólg og fleira var flutt í kaupstað og lagt inn hjá kaupmönnum en út tekinn ýmis varningur til heimilisnota.

Síðasti farartálminn á leiðinni í kaupstað var Eyjafjarðaráin. Í þessari ferð var hún nokkuð djúp á Vöðlunum en komst ferðafólkið samt yfir hana án áfalla.

Farið var að rjúka á Akureyri þegar lestin nálgaðist kaupstaðinn. Að venju skein þar sól og heitt var í veðri.

Kaupmaður tók á móti Heiðarbúum með flösku og staup. Varð hann harla glaður að sjá kúnnana með vörur sínar og hugði gott til viðskipta.

Hófst síðan ullarvigtun en hana annaðist pakkhúsmaður. Sá kvað ullina hafa komist í kynni við Eyjafjarðarána. Hún væri blaut og þyrfti hann því að taka yfirvigt.

Ekki voru bændur sammála því og sögðu ekki koma að sök þótt einn og einn lagður hefði dignað. En pakkhúsmanni var ekki hnikað.

Létu Heiðarbúar þá sækja kaupmann. Hann kvað upp sinn Salómonsdóm og sagði:

"Það er alls ekki rétt þegar blessaðir bændurnir eru komnir langa leið með vörurnar til okkar að vera að raga það fyrir þeim, þetta ótæti. Við athugum þetta þegar ullin er sekkjuð, sé þar deigur lagður er hægt að athuga það. Það er nóg sólskinið hér á Akureyri til að þurrka smá lagða af ullinni hans Guðmundar míns á Kambsmýrum." (Bls 134)

Akureyrarsólin hefur verið mörgum til ómældrar blessunar en ég hef ekki rekist á eldri heimild um það landsfræga og óskeikula sólskin.

(Myndin með færslunni er af gamla Innbænum og er tekin af visitakureyri.is)

 


Hættulegar hugsjónir og hugsjónaleysi

scholl2[1]Stundum er sagt að við lifum á hugsjónalausum tímum. Heimurinn sé búinn að fá sig fullsaddan af hugsjónum. Þeir Hitler, Stalín og Pol Pot hafi allir verið hugsjónamenn. Hugsjónir kalli bara á stríð og hryðjuverk.

Þetta má allt til sanns vegar færa.

Hugsjónir geta verið stórhættulegar.

Núna um helgina horfði ég á kvikmynd þýska leikstjórans Marc Rothemund "Sophie Scholl - Die letzten Tage" (2005). Þetta er margverðlaunað snilldarverk með góðum leikurum, byggt á atburðum sem gerðust í Þýskalandi nasismans.

Leikkonan Julia Jentsch fer á kostum í hlutverki Sophie en einnig er André Hennicke ógleymanlegur í túlkun sinni á nasistadómaranum dr. Roland Freisler.

Sophie Scholl var ásamt bróður sínum Hans meðlimur í andspyrnuhreyfingunni Hvítu rósinni. Hreyfingin samanstóð af nokkrum stúdentum í München. Félagar í Hvítu rósinni prentuðu dreifibréf þar sem ógnarstjórn Hitlers var harðlega gagnrýnd og stríðinu mótmælt.

Sophie og bróðir hennar Hans voru staðin að verki við að dreifa sjötta bréfi hreyfingarinnar í háskólanum í München þar sem þau voru stúdentar. Fjórum dögum síðar voru þau dæmd til dauða og gerð höfðunum styttri ásamt félaga sínum Christoph Probst. Þau voru rúmlega tvítug þegar þau voru myrt.

Sophie Scholl var fórnarlamb hættulegra og mannfjandsamlegra hugsjóna.

En ekki var hún hugsjónalaus kona. Líf hennar og dauði er okkur áminning um að enda þótt hugsjónir séu varasamar getur ekki síður verið hættulegt að eiga engar hugsjónir.

Sophie Scholl átti bæði trú og hugsjónir sem kostuðu hana lífið.

Til fróðleiks læt ég hér fylgja brot úr einu dreifibréfi Hvítu rósarinnar:

"Jedes Wort, das aus Hitlers Munde kommt, ist Lüge. Wenn er Frieden sagt, meint er den Krieg, und wenn er in frevelhaftester Weise den Namen des Allmächtigen nennt, meint er die Macht des Bösen, den gefallenen Engel, den Satan. Sein Mund ist der stinkende Rache der Hölle, und seine Macht ist im Grunde verworfen. Wohl muss man mit rationalen Mitteln den Kampf wider den nationalsozialistischen Terrorstaat führen; wer aber heute noch an der realen Existenz der dämonischen Mächte zweifelt, hat den metaphysischen Hintergrund dieses Krieges bei weitem nicht begriffen. Hinter dem Konkreten, hinter dem sinnlich Wahrnehmbaren, hinter allen sachlichen, logischen Ueberlegungen steht das Irrationale, d.i. der Kampf wider den Dämon, wider den Boten des Antichrists....

Gibt es, so frage ich Dich, der Du ein Christ bist, gibt es in diesem Ringen um die Erhaltung Deiner höchsten Güter ein Zögern, ein Spiel mit Intrigen, ein Hinausschieben der Entscheidung in der Hoffnung, dass ein anderer die Waffen erhebt, um Dich zu verteidigen? Hat Dir nicht Gott selbst die Kraft und den Mut gegeben zu kämpfen? Wir müssen das Böse dort angreifen, wo es am mächtigsten ist, und es ist am mächtigsten in der Macht Hitlers."

amen2Öll dreifibréf Hvítu rósarinnar má lesa hér.

Kvikmyndin Sophie Scholl - Die letzten Tage fær Amen dagsins. Ég hvet alla til að sjá hana.


Andans raunveruleiki

heilagurandiHvítasunnan er hátíð heilags anda.

Andinn er í margra hugum þokukennt hugtak.

Andinn er samt mun raunverulegri en margur hyggur.

Oft heyrir maður talað um að í sumum húsum sé góður andi.

Við tölum líka um liðsanda og þeir sem vit hafa á hópíþróttum vita að andinn í hópnum er ekki síður mikilvægur en geta og færni einstaklinganna.

Ég þekki fleiri en eitt dæmi um að fólk hafi sagt upp störfum vegna þess að á vinnustaðnum var svo lélegur starfsandi.

Þegar við bjóðum fólki í gleðskap getur andinn í salnum riðið baggamuninn um hvort skemmtunin heppnast eður ei.

Andleysi er mikið böl listamannsins en andríki blessun.

Andi nútímans, tíðarandinn, heimtar af okkur að ná eins miklu út úr lífinu og framast er mögulegt.

Ávextir þess anda eru leiðindi, flótti, firring, stress, hraði, rótleysi, græðgi, sóun og ófriður.

Andinn heilagi ber aðra ávexti.

Þeir eru kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi.

Gleðilega hvítasunnu!

 


Trú og trúleysi

frelsiÉg fékk skemmtilegar athugasemdir við síðustu færslu sem ég þakka innilega.

Þar sagðist trúleysingi vera sammála mér. Mér finnst það engin tíðindi. Trúleysi og trú eiga margt sameiginlegt. 

 

Trúleysi er ákveðin trúarleg afstaða eins og trú. 

Fólk getur verið öfgafullt bæði í trú sinni og trúleysi.

Stundum segist fólk vera trúað án þess að vita almennilega hverju það trúir. Stundum hafnar fólk trú án þess að gera sér grein fyrir hverju það er að hafna.

Trúað fólk getur verið fullt af fordómum í garð trúleysingja. Trúleysingjar eru á sama hátt haldnir ýmsum stækum fordómum um trúaða.

Hér læt ég fylgja tvær stuttar tilvitnanir um trú lesendum, trúuðum sem trúlausum, til íhugunar.

Sú fyrri er eftir dr. Pál Skúlason, heimspeking, úr bók hans Hugsun og veruleiki (Reykjavík 1975):

"Trú í kristinni merkingu þess orðs táknar hins vegar hvorki hagsmunabundna skoðun né óhagganlega vissu um eitt eða neitt, heldur djúpstæða óvissu manna sem viðurkenna þá einföldu staðreynd að þeir séu hvorki höfundar þessa lífs né herrar jarðar." (Bls. 12 - 13)

Seinni tilvitnunin er í hugvekju eftir Ellert B. Schram sem hann skrifaði í Fréttablaðið fyrir síðustu jól undir yfirskriftinni Jólin hennar ömmu.

Ef til vill finnst mörgum sú trú ekki merkileg sem Páll talar um en Ellert segir styrk trúarinnar fólginn í veikleika hennar. Hann segir um trúna:

"Hún getur ekkert sannað, hún getur engum atburðum breytt, hún getur ekkert annað en að falla á hné niður og játa sig sigraða gagnvart almættinu."

 

 


Trúarkerran tóm

Shoppinggif[1]Oft finnst okkur Guð óþarflega nískur á hagstæða atburði. Sumir segja enda ekki til neins að vera að trúa á hann.

"Hvað hjálpar heilög trú?" spurði séra Matthías í frægum sálmi.

Ekki gengur trúuðu fólki neitt betur en öðru? Verður fólk ekki fyrir ægilegum áföllum þótt það trúi á Guð?

Guð ætti meiri séns ef hann gerði tákn, gripi inn í tilveruna, sveigði hana í rétta átt og léti réttu hlutina verða.

Veröldin er ein allsherjar verslunarferð og Guð á að sjá til þess að innkaupakerran okkar fyllist af gæðavörum á góðum prísum.

Trú sem er háð því að það hagstæða gerist er grunn, þröng, stutt og lág. Hún hjálpar í raun engum. Hún kulnar um leið og okkur fer að ganga illa, hún kafnar í áföllunum og visnar í skortinum.

Hún lýsir bara í birtunni en hverfur í myrkrinu.

Þannig trú er í raun van-trú.


Grunur

spiritualeÞú þekkir þennan ófrið. Þennan grun um að tilveran sé ekki öll þar sem hún sést.

Þú hefur fundið fyrir þessu tómarúmi. Þeirri tilfinningu að eitthvað vanti. Þessum söknuði. Þessum hljóða blúsi. Þessu hugboði um annað en það sem þreifa má á, stinga í fingri, leggja á hönd.

Þú getur skilið margt.

Engu að síður er nokkuð sem þú aldrei skilur í brosi barnsins, ástarorðum þess sem elskar þig, söngvum vorfuglanna, anganinni af briminu, tárinu og að ég tali nú ekki um þínum eigin andardrætti.

Þú skilur ekki en þig grunar. 

Þú ert andleg vera og með andlegar þarfir.


Lottóvinningurinn var ekki gabb!

lifvordurÞann 1. maí síðastliðinn tilkynnti fröken Sandra Hans hjá Sponsor Loterij International að ég hefði unnið eina milljón evra í því kunna lotteríi eins og frægt er orðið.

Enn hef ég ekkert séð af þessum peningum en er kominn vel áleiðis með að eyða þeim.

Öfundsjúkir bloggarar hafa keppst við að telja mér trú um að fröken Hans hljóti að hafa óhreint mjöl í sínum peningapokahornum og hafa beðið mig að opna kampavínsflöskurnar ekki alveg strax.

Sumir hafa jafnvel gert stólpagrín að einfeldni minni og trúgirni.

Ég skal viðurkenna að ég var orðinn dálítið smeykur um að fröken Hans væri ekki öll þar sem hún er séð - þó að ég hafi aldrei séð hana.

Nú sé ég að ótti minn var ástæðulaus. Ég get haldið áfram að eyða og kampavínið mun freyða í glösunum hérna á morgun.

Áðan fékk ég staðfestingu á því að lottóvinningurinn var ekkert gabb.

Mér barst með öðrum orðum tölvupóstur frá brasilískum herramanni að nafni Reginaldo Oliveira.

Sá á enga ósk heitari en að gerast sérlegur lífvörður minn.

Eða svo ég vitni í hans eigin tölvupóst:

"I am a Professional Life Guard with several years of experience in 5 stars hotel in
Brazil. I really want to have an international experience abroad in Middle East , USA or
Cruise Ships."

Síðan kemur senjor Oliviera sér beint að efninu og falast eftir vinnu hjá mér:

"Could you send me an Application for Employment? I am ready to pay for my flight an visa expenses."

Ég hlýt að vera orðinn dýr fyrst menn suður í Brasilíu eru tilbúnir að kosta sig sjálfir heimsálfa á milli til að geta gætt lífs míns og lima.

ES

Alveg sé ég senjor Oliveira fyrir mér þar sem hann stendur grár fyrir járnum við suðurhlið altarisins meðan ég messa sallarólegur. Síkvik augu hans undir sólgleraugunum skanna ískyggilegan söfnuðinn og nema hvers konar skyndilegar hreyfingar í kirkjubekkjunum eða á söngloftinu.


Fuglar í sama hreiðri

hameedÍ síðustu viku flutti Kahlid Hameed, múslimskur barón og meðlimur í bresku lávarðadeildinni (einn af svonefndum "crossbenchers") merkilega ræðu á vinnustað sínum.

Þar bendir hann á að sjálfsmorðsárásir séu fordæmdar í Kóraninum og að sú öfgahyggja sem verið er að innræta mörgum múslimum af trúarleiðtogum þeirra sé í andstöðu við íslamska trú.

Hameed hefur áhyggjur af vaxandi íslamófóbíu og gyðingahatri í Evrópu og segir tímana kalla á meiri vináttu hinna mismunandi trúarbragða heimsins. Ekki síst þurfi að vinna að auknum skilningi á milli ungmenna sem tilheyra ólíkum menningarhópum og trúarbrögðum. Hann hvetur til víðtækrar samræðu trúarbragða.

amen2Ruth Gledhill, trúmálaskríbent breska blaðsins The Times, birtir ræðu Hameeds á bloggi sínu. Hameed lávarður fær Amen dagsins fyrir ræðuna og Ruth fyrir að birta hana og mæla með henni.

Ég hvet fólk til að lesa ræðuna. Hún er ekki löng en holl lesning.


Mótormessa

mogoNæstkomandi sunnudag, 4. maí, bjóða Bílaklúbbur Akureyrar, Náttfari - Bifhjólasamtök Þingeyinga, Tían - Vélhjólaklúbbur Norðuramts og Akureyrarkirkja til mótormessu í Akureyrarkirkju.

Mótorhjólakappar aðstoða við messuna. Stúlknakór Akureyrarkirkju syngur og þeir Kristján Edelstein, Pétur Kristjánsson og Eyþór Ingi Jónsson, organisti, annast hljóðfæraslátt. Prestur er sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson.

Eftir messuna, sem hefst kl. 11, verður efnt til hópkeyrslu.

Mótormessur tíðkast víða erlendis. T. d. fagna Hamborgarar á þessu ári aldarfjórðungsafmæli mótormessunnar.

Fyrir nokkrum árum var kunningi minn í mótormessu þar í borg. Var það mikið ævintýri. Biskup sá er þjónaði í messunni sat í fullum skrúða aftan á öflugu bifhjóli og var reiddur inn kirkjugólfið undir forspilinu. Kirkjan var þéttskipuð leðurklæddum mótorhjólaköppum. Fjöldi fólks sat á hjólum sínum á torgi fyrir utan kirkjuna en hægt var að hlusta á messuna þar í hátölurum.

Lét það ekki sitt eftir liggja í helgihaldinu og tók undir gloríuna með því að þenja hjól sín kröftuglega.

Með færslunni er lógó Mótormessunnar í Hamborg (Hamburger Motorrad Gottesdienst) fengið af heimasíðu hennar.


Vann í lottói - orðinn auðmaður!

hjolborupeningarRétt í þessu var fröken Sandra Hans hjá Sponsor Loterij International að senda mér tölvupóst þess efnis að ég hefði unnið í lottóinu hennar, hvorki meira né minna en

"Award Sum of One Million Euro" segi ég og skrifa, á lukkunúmerið 2311111.

Nú sé ég öll mín fjárhagsvandræði leysast.

Frá og með deginum í dag telst ég auðmaður. 

Fer vel á því að það gerist á baráttudegi verkalýðsins því nú kveð ég brauðstritið. Þar að auki er uppstigningardagur og ég er auðvitað í sjöunda himni út af þessu. Ennfremur mun vera dagur eldri borgara. Þetta óvænta happ gerir það að verkum að allur kvíði fyrir elliárunum hverfur eins og dögg fyrir sólu.

Fyrir nokkrum árum keyptum við okkur íslenskan lottómiða, hjónin. Við vorum að fara út í Ólafsfjörð og festum kaup á miðanum á leiðinni út úr bænum. Þá var að mig minnir þrefaldur pottur, eitthvað í kringum 18 milljónir.

Við fórum að tala um það í bílnum hvernig við ætluðum að eyða vinningsupphæðinni. Nýtt hús og nýr bíll var ekki spurning. Ennfremur góð utanlandsferð með fjölskyldunni. Þá eitt og annað handa börnunum og öðrum ástvinum. Eitthvað rynni til líknarmála. Við vorum mjög rausnarleg í því þótt ég segi sjálfur frá.

Til þess að gera langa sögu stutta vorum við búin með alla peningana við Hlíðarbæ.

Þangað eru einir fimm kílómetrar.

Eyðslan hjá okkur var sem sagt 360 milljónir á hundraðið reiknast mér - sem verður að teljast dágott.

Hvað er ein milljón evra annars í íslenskum?

Ætli þurfi að borga skatt af þessu?

Og Guð blessi hana Söndru Hans.

 

amen2ES

Miðað við fyrstu athugasemdirnar við þessa færslu sýnist mér allir draumar um auðfengið ríkidæmi vera að hrynja. Framundan eru krepputímar og glerhart í ári hjá mörgum. Þeir hjá Church Times fá Amen dagsins fyrir þessa mynd.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband