Færsluflokkur: Bloggar
29.4.2008 | 15:34
Funheit biblíuleg erótík
Ég má til með að taka hanskann upp fyrir Gamla testamentið.
Í Gamla testamentinu er til dæmis safn myndríkra veraldlegra ástarljóða.
Ljóðaljóðin eru hispurslaus óður til ástarinnar.
Á hebresku nefnast þau Shir ha Shirim sem útleggst "ljóð ljóðanna". Sú er einnig þýðing titilsins Asma asmaton í hinni grísku Septúagintu og Canticum Canticorum í latnesku Vúlgötu.
"Kysstu mig kossi vara þinna, atlot þín eru ljúfari en vín," eru upphafsorð ljóðanna.
Ljóðasafnið er talið vera allt að 2600 ára gamalt. Annað dæmi:
"Komdu, vinur minn, komum út á víðan vang, eyðum nóttinni undir hennakjarrinu, förum snemma upp í vínekrurnar, sjáum hvort vínviðurinn blómstrar, hvort blóm hans hafa opnast, hvort granatviðurinn stendur í blóma. Þar gef ég þér ást mína."
Ljóðaljóðin eru um erótíska ást milli karls og konu og það var ekki fyrr en löngu eftir tilurð þeirra að menn urðu svo miklar pempíur að þeir fóru að velta því fyrir sér hvort slíkt væri við hæfi í helgiritum. Á 2. öld eftir Krist kepptust menn við að túlka ritið andlega og svipta það því holdlega.
Var talið útilokað að heilagur andi eyddi innblæstri sínum í að lofsyngja ástum karls og konu.
Myndmál Ljóðaljóðanna er úr náttúrunni. Þar er garðurinn áberandi en þegar Ljóðaljóðin urðu til var garðurinn staður gleði og unaðs.
Garðurinn er líka skaut konunnar og í því ljósi ber til dæmis að lesa þessa beiðni hennar og síðan svar hans:
"Vakna, norðanvindur, kom, sunnanblær, anda á garð minn svo að ilmur hans berist. Elskhugi minn, komdu í garð þinn og njóttu dýrustu ávaxta hans."
"Ég fór niður í hnetulundinn að sjá dalinn grænka, sjá hvort vínviðurinn blómstraði og granatviðurinn bæri blóm. Ég var frá mér numinn, ég varð altekinn af ást."
Gyðingurinn og trúarheimspekingurinn Franz Rosenzweig (d. 1929) sagði að einmitt vegna þess að Ljóðaljóðin væru svo algjörlega þessa heims gætu þau líka verið andlegt ljóð um elsku þess Guðs, sem ekki svífur yfir einhvers staðar yfir vötnunum, heldur er sjálfur í elskunni og ástinni.
(Myndin með færslunni er af málverki eftir Marc Chagall sem nefnist Ljóðaljóð Salómons)
Óli Ágústar fjallar um Ljóðaljóðin í færslu á blogginu sínu og er með krækju á fróðlega umfjöllun sína um túlkunarsögu Ljóðaljóðanna. Ég bendi á hana og gef Óla Amen dagsins fyrir pælingarnar.
Bloggar | Breytt 30.4.2008 kl. 08:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
28.4.2008 | 23:02
Amen dagsins
Sjaldgæft er að lesa eitthvað af viti á netinu.
Það er þá helst eitthvað sem maður hefur skrifað sjálfur.
Mér finnst ástæða til að vekja athygli á góðum bloggfærslum eða öðrum netpistlum.
Því hef ég ákveðið að veita hér Amen dagsins.
Ekki er samt víst að Amenið verði gefið á hverjum einasta degi. Það veltur auðvitað á því hversu oft menn gerast snjallir.
Þó að þessi viðurkenning nefnist Amen dagsins er ekki þar með sagt að ég sé sammála Amenhöfum í einu og öllu. Þeir hafa alla vega fengið mig til að hugsa.
Eða verið skemmtilegir. Ekki veitir nú af í drunga kreppunnar.
Fyrsta Amenið fær menntaskólakennarinn og skáldið Stefán Þór Sæmundsson.
Stefán er gamalreyndur og marghertur bloggrefur, einn fyrsti bloggarinn sem ég fór að lesa.
Laugardaginn síðasta skrifaði hann pistil sem hann nefnir Öskur og ofbeldi.
Fyrir hann fær hann stórt Amen frá mér.
Bloggar | Breytt 29.4.2008 kl. 00:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.4.2008 | 23:34
Málþreifingar
Að tala er ekki bara í því fólgið að nefna hlutina sínum nöfnum og senda frá sér hljóðtákn.
Að tala er hluti af því að vera. Með málinu, hvaða mál sem við tölum, erum við til fyrir aðra, erum við meðal manna. Með málinu gefum við okkur til kynna og látum okkur í ljós.
Þegar við tölum við aðra tölum við oft ekki síður við okkur sjálf.
Þegar við tjáum okkur um drauma okkar og vonir gerum við okkur sjálf betur grein fyrir draumum okkar og vonum.
Stundum vitum við ekki hvað við viljum fyrr en við erum búin að klæða það í búning orða.
Sama máli gegnir um ótta okkar og áhyggjur.
Ef okkur líður illa er gamalt eldhúsráð að tala. Eldhúsráð segi ég því ég er viss um að mörg mikilvægustu samtölin eigi sér stað í eldhúsum yfir kaffibollum.
Það er minna mál að tala ef einhver er til að hlusta.
Erfitt getur verið að tala en sennilega er helmingi erfiðara að hlusta á þann sem þarf að tala.
Þess vegna gaf Guð okkur tvö eyru á hvern kjaft. Til að jafna álagið og laga samkeppnisaðstöðuna.
Þegar við hlustum á þann sem þarf að tala erum við í hlutverki sálusorgarans. Sálusorgari á að fá skjólstæðing sinn til að lýsa hugarheimi sínum, segja hvað honum finnist, hvernig honum líði, láta hann þreifa sig áfram í myrkri sinnar sálar.
Oft leysast engin vandamál í slíkum viðtölum önnur en þau að fyrir viðtölin leið fólki illa og vissi ekki af hverju en eftir þau líður fólki ennþá illa en veit af hverju - sem er örlítið skárri líðan ef eitthvað er.
Með því að tala erum við ekki einungis að gera okkur skiljanleg fyrir öðrum heldur ekki síður fyrir okkur sjálfum.
Bloggar | Breytt 28.4.2008 kl. 11:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.4.2008 | 22:40
Að vera þekktur
Þekktur maður er frægur. Þekktur er að vera þekktur af mörgum. Þá þekkja margir nafn manns og andlit.
Þess vegna er vel hægt að vera þekktur án þess að nokkur þekki mann.
Við höfum alla þessa stórkostlegu samskiptatækni, tölvur og gemsa, til þess að auðvelda okkur að hafa samskipti við annað fólk.
Engu að síður er manneskjan ein og ef til vill hefur einsemd hennar aldrei verið sárari en á sjálfri samskiptaöldinni.
Við vöknum upp við það einn daginn að við þekkjum svo sárafáa þar sem við sitjum með fjarstýringarnar okkar fyrir framan sjónvarpstækin og brunum um veraldarvefinn undir fullum gervitunglum.
Þeir eru ekki margir sem í raun og veru þekkja mann.
Ef einhver þekkir mig er það stór og djúpur veruleiki.
Þegar tvær manneskjur þekkjast gefa þær hvor annarri hlutdeild í sér.
Það að þekkja einhvern er að þekkja hann eins og hann er. Ekki eins og hann ætti að vera.
Ég fæ aldrei fullþakkað þessum fáu sem þekkja mig.
Eða þeim eina sem gjörþekkir mig.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
24.4.2008 | 11:12
Sumarkveðja ritskoðara
Eftir viðburðaríkan bloggvetur er ógalið að horfa aðeins aftur fyrir sig og rifja upp grundvallaratriði.
Fyrir um það bil ári tók ég upp þann sið að birta ekki athugasemdir hérna nema að hafa skoðað þær áður.
Þetta gerði ég ekki að ástæðulausu. Hingað inn sendu menn athugasemdir sem ég kærði mig ekki um að stæðu á mínu bloggi. Sumar meiðandi og aðrar undir öðrum velsæmismörkum sem ég set.
Auðvitað er mér í lófa lagið að fjarlægja héðan athugasemdir sem ég tel óæskilegar. Þar sem ég sit ekki við tölvuna daginn út og inn voru athugasemdirnar stundum búnar að standa hjá mér dágóðan tíma áður en ég sá þær.
Því fór ég þessa leið: Skoða fyrst. Birta svo.
Ég stjórna þessu bloggi. Það er minn fjölmiðill og mér er alls ekki sama um hvað birtist hér. Tel mig bera á því ábyrgð.
Þetta heitir ritstjórn.
Þessa tilhögun vilja einhverjir skilja þannig að hér sé stunduð allt að því talíbönsk ritskoðun, ég birti aðeins skoðanir mér þóknanlegar og bjóði bara viðhlæjendur mína velkomna.
Þeir sem bloggið mitt lesa sjá að hér er fjölskrúðug skoðanaflóra. Ritstjórn mín felst ekki í því að banna tilteknar skoðanir.
Síðasta mánuðinn hef ég hafnað einni athugasemd. Það gerði ég þann 6. apríl síðastliðinn.
Lesendum til fróðleiks birti ég hana, án þeirra nafna sem nefnd voru:
"Mér finnst þessi X leiðinlegur "kommetari"
Mér finnst Y ljótur. Svo er hann líka andfúll. "
Ég geri ráð fyrir því að sendandi þessarar athugasemdar hafi ætlað að vera sniðugur en ég vildi ekki taka sénsinn á að særa lesanda minn.
Fyrstu athugasemdinni hafnaði ég 7. júní í fyrra og á síðan þá hef ég hafnað 17 athugasemdum. Þar af var ein endurtekning á fyrri athugasemd og önnur var ekki birt að ósk sendanda.
Ég læt lesendum eftir að dæma um hversu öflug þessi "ritskoðun" mín getur talist - en bið þá að láta mér eftir að stjórna blogginu mínu.
Lesendur mínir eru alls ekki allir sammála mér en langflestir þeirra eru kurteisir eins og ofangreindar tölur sýna.
Ég þakka þeim öllum ánægjuleg og væmnisrík samskipti í vetur og óska þeim gleðilegs sumars.
(Myndina tók ég við náttúruperluna Vestmannsvatn í Aðaldal, einni fegurstu sveit landsins.)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
23.4.2008 | 21:14
Hjónabandssæla
Hjónabandssæla er einstakt hnossgæti.
Þegar ég var yngri hesthúsaði ég mörgum sneiðum af þessari bráðhollu köku og renndi þeim yfirleitt niður með ískaldri mjólk.
Hjónabandssæla er líka nefnd furstakaka en ljúfmeti þetta mun eiga uppruna sinn í Austurríki. Þarlendir neyta hennar undir nafninu Linzertorte.
Næstkomandi miðvikudag, þ. 30. 4., ætlum við Bryndís Símonardóttir, fjölskylduráðgjafi, að halda hjóna/paranámskeið í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju.
Auðvitað fundum við ekkert betra heiti á það en Hjónabandssæla.
Námskeiðið er ætlað fólki í hjónabandi og þeim sem hafa í hyggju að ganga í það.
Markmiðið með námskeiðinu er að hjálpa fólki að bæta sambúð sína og styrkja hjónabandið.
Bara það að taka frá eina kvöldstund til að íhuga sambandið við maka sinn er heilmikið skref.
Námskeiðið byrjar kl. 20 og stendur í þrjá tíma.
Hver veit nema boðið verði upp á hjónabandssælu með kaffinu?
Skráning og nánari upplýsingar í síma 4627700 alla virka daga milli kl. 9 og 13. Einnig má senda tölvupóst á akirkja@akirkja.is.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.4.2008 | 21:38
Kjörlendi heigulsins
Friðrik Rafnsson gaf netheimum heitið sem er titill þessarar færslu.
Í grein sem hann ritaði í Morgunblaðið snemma árs 2006 segir hann:
"Vefurinn er ekkert annað en samskiptatæki. Þannig getur það stuðlað að því að bæta heiminn og auðga mannkynið. En á því er líka hægt að ljúga, níða, særa og meiða. Þetta virðist því miður vera vaxandi vandamál meðal ungs fólks, ekki síst þess sem notar sér bloggsíður til þess að skeyta skapi sínu á skólafélögunum sem þeim er einhverra hluta vegna illa við en hafa ekki manndóm í sér til að ræða við beint, bera út gróusögur eða eitthvað þaðan af lágkúrulegra.
Eins dapurlegt og það hljómar nú getur vefurinn, þetta frábæra upplýsingatæki, orðið að kjörlendi heigulsins í höndum þeirra sem ekki eru menn til að standa fyrir máli sínu. Því miður eru núlifandi andleg skyldmenni Gróu á Leiti ekki bara ungt fólk, heldur líka fullorðið, greint og hámenntað fólk."
Morgunblaðið gerði skuggahliðar netsins að umtalsefni í ritstjórnargrein 20. janúar í fyrra. Þar er fjallað um auglýsingaherferð á vegum AUGA, Góðgerðarsjóðs auglýsenda, auglýsingastofa og fjölmiðla sem átti að stuðla að bættum samskiptum á netinu. Vitnað er til orða Sverris Björnssonar, formanns AUGA, sem sagði fulla þörf vera á herferðinni "vegna þess að svo virtist sem tvöfalt siðgæði væri við lýði og að fólk hegðaði sér öðru vísi í samskiptum á netinu en í beinum samskiptum við annað fólk."
"Í herferðinni verður hamrað á fimm atriðum, sem hægt er að hafa að leiðarljósi og ættu að blasa við hverjum einstaklingi.
Í fyrsta lagi að allt sem einstaklingur geri á netinu endurspegli hver hann er,
í öðru lagi að hver einstaklingur eigi að koma fram eins og hann vilji að komið sé fram við sig,
í þriðja lagi að ekki eigi að taka þátt í neinu nema vita hvað sé á ferðinni,
í fjórða lagi að muna að efni, sem sett er á netið sé öllum opið, alltaf,
og í fimmta lagi að hver og einn beri ábyrgð á því, sem hann segi og geri á netinu."
Að lokum vitna ég í niðurlag ritstjórnargreinar Morgunblaðsins frá 14. febrúar árið 2006:
"Í samfélaginu tíðkast tilteknar samskiptareglur sem byggjast á gagnkvæmri virðingu og háttsemi. Þeim reglum á ekki að sleppa þegar á netið er komið og Sturlungaöld að taka við. Notendur netsins verða að gera sér grein fyrir því að allir geta lesið það sem þar birtist. Það er helsti kostur netsins, en getur líka gert það að "kjörlendi heigulsins"."
Myndin með færslunni er af Anonymus, frægri höggmynd í Búdapestborg, af nafnlausum skrifara ungversks konungs.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
22.4.2008 | 11:16
Vörn skítkastaranna
Færslan mín um dónaskap og hatursræðu hér á blogginu fékk mikil viðbrögð - ekki síst eftir að viðtal við mig um efnið birtist á Stöð 2.
(Þess ber að geta að viðtalið var að ósk og frumkvæði Stöðvar 2.)
Ég er þakklátur fyrir allar athugasemdir og ábendingar, bæði hér á blogginu og annars staðar. Gagnrýnin er ekki síður vel þegin en uppörvun og hvatning.
Betur sjá augu en auga.
Og ég þakka fjölmiðlafólkinu fyrir áhugann á málinu.
Ég finn að það er brennandi. Mörgum ofbýður hvernig þessi tækninýjung, bloggið og netið, er misnotuð til að útbreiða fordóma og hatur um fólk.
Á netinu eru nafngreindir einstaklingar níddir niður með svívirðingum og lygaþvættingi. Stundum af hugleysingjum sem ekki koma fram undir nafni - þó að fólk geti vissulega haft sínar ástæður fyrir því að blogga undir dulnefnum.
Skítkastið hittir ekki bara þá sem á var miðað, heldur dreifist drullan á þau sem kringum skotmörkin standa.
Sá kunni sjónvarpsmaður, Egill Helgason, virðist styðja slíkt athæfi. Hann hvetur fólk til að hlusta ekki á mig og taka ekki nokkurt einasta mark á mér.
Egill ber mig þeim sökum að ég eigi mér þann draum að "það verði skilgreint sem glæpur að gagnrýna trúarbrögð".
Aðrir hafa viljað túlka orð mín á þá leið að ég amist við því að fólk sé ekki sammála mér í trúmálum!
Þessi færsla kemur trúmálum ekkert endilega við.
Skítnum er skítsama um trúarskoðanir kastarans. Eða þess sem hann klínist á.
Í umræðunni hafa menn haft uppi mikinn fagurgala um málfrelsið.
Verði opinberar svívirðingar og persónulegt drullumakerí eðlilegar trakteríngar í bloggheimum sé ég ekki að þeir geti verið aðlaðandi vettvangur fyrir skoðanaskipti fólks.
Hatursræða og persónuníð er ein tegund þöggunar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
20.4.2008 | 22:32
Moggabloggsins víðu vellir
Misjöfn eru grösin á völlum Moggabloggsins.
Ég skil vel eigendur þeirra valla, að þeim sé ekki sama um hvað fái þar að þrífast.
Ekki birta þeir hvað sem er í Morgunblaðinu og sjálfur skoða ég athugasemdirnar sem birtast á blogginu mínu áður en ég hleypi þeim í gegn.
Þetta heitir ritstjórn.
Hér á blogginu þrífst bæði hatursræða og persónulegt skítkast. Ég hef fengið minn skammt af því.
Tjáningarfrelsið er ekki fólgið í að mega segja og skrifa hvað sem er, hvar sem er og hvenær sem er.
Ég efast ekki um húsbóndavald þeirra Moggamanna. Nauðsynlegt er að reglurnar á Moggablogginu séu skýrar og samkvæmni í því hvernig þeim er framfylgt.
Hættulegt getur á hinn bóginn reynst að setja tjáningarfrelsinu almennar lagaskorður. Um það fjallar þessi færsla mín.
Ef til vill slyppi þetta vers ekki í gegn hjá öllum:
Halt oss, guð, við þitt helga orð
og heft páfans og Tyrkja morð
sem vilja Krist vort sérlegt skjól
setja af sínum veldisstól.
Versið er að finna í fyrstu sálmabók íslensku kirkjunnar, sem Marteinn biskup Einarsson gaf út árið 1555.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (40)
19.4.2008 | 22:14
Séra Jónmundur og sólin
Séra Jónmundur Halldórsson var síðasti presturinn á Stað í Grunnavík.
Merkilegur maður.
Örfá ár hélt hann dagbók. Kaflar úr henni birtust í fyrsta bindi Grunnvíkingabókar sem út kom árið 1989.
Dagbók séra Jónmundar talar sínu máli um breiddina í starfi prestsins hér áður fyrr.
Hún vitnar líka um persónuna sem bókina færði.
Nokkur dæmi:
"1. október 1930. Regn og blíðviðri. Við Marías á Faxastöðum byrjuðum að slá frammi í Nesjum. Var sóktur af Ströndinni til að gifta Gísla Gíslason og Guðmundínu Ingimundardóttur og skíra barn fyrir þau. Dúddi slátraði með Hans..... Veisla - samtal - grammifón; kl. 3 háttað."
"3. október 1930. Batt að framan 24 hesta af úthey. Dúddi fór á milli ofan í Sætún. Skúraleiðingar og geysihvass vestan um tíma og tók hlera frá hlöðunni. Ég tók til 10 slög af (5) hrútum í rúllupylsu handa góðu... Skar mér í nefið. Hef lesið alþingistíðindi þessi kveld og virðist fjáraukalagafrumvarp stjórnarinnar svona og svona...."
"16. október 1930. Afskapleg rigning og foráttubrim. Lét lás á hlöðuna neðra. Hengdi upp 14 hrútslæri og 2 bringukolla í Þinghúsið (reykhúsið). Marías hjálpaði til að slátra 5 geldingum og 1 á (júgurbólga). Sótti ofaneftir efni í grind undir haustkálfinn. Gaf Bæring á Sútarabúðum lamb. Orkti sálm, 12 erindi."
"16. nóvember 1930. Hríðarmugga og frost. Guðm. Pálsson ætlaði til Hesteyrar en hætti við. Ég lauk við að lesa Rousseau... mesta bull. Var lítið við skepnuhirðingu."
Þessu prestsbloggi fortíðarinnar læt ég líka fylgja vísukorn eftir sr. Jónmund sem hann skrifaði í vasabók sína árið 1952, en þá voru ekki nema 80 íbúar eftir í hans sóknum.
Sendi lesendum mínum sólarkveðju með þessum línum.
Þegar fólk við drykk og dufl
drabbar suður í löndum
saumum við okkur sálarkufl
úr sólskini norður á Ströndum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)