Færsluflokkur: Bloggar
18.4.2008 | 09:50
Höfuðborgarharmagrátur
Alltaf er vinsælt að tala um svokölluð byggðamál og hafa allt á hornum sér um þau.
Einu sinni var talað um landsbyggðarvæl.
Nú sýnist mér ekki síður ástæða til að tala um höfuðborgarharmagrátinn.
Hann lýsir sér í því að Reykvíkingar harma hina misheppnuðu höfuðborg og gráta sárt undan öllum frekjuhundunum úti á landi sem eru búnir að eyðileggja borgina fyrir borgarbúum.
Einu sinni var talað um að íbúar í þröngum fjörðum eða einangruðum afdölum væru ekki mjög víðsýnir. Sæu helst ekki lengra en að turninum á litlu sætu sóknarkirkjunni og hugsanlega til baka. Heimaþúfan væri nafli alheimsins.
Nú sýnist mér þessi þröngsýni herja á stóran hluta íbúa Reykjavíkur. Þeir sjá helst ekki lengra en upp á Grundartanga.
Þar hefst sá hluti veraldar sem á máli margra borgarbúa nefnist "landsbyggð".´
Í Reykjavík er rætt um landsbyggðina eins og þar sé um eitthvert eitt afmarkað svæði að ræða og um landsbyggðarfólk eins og eina sérstaka þjóð. Eins konar hobbíta.
Á Landsbyggð eru ekki súlustaðir, fáar hamborgarabúllur og menningin snauð enda eiga íbúarnir þá ósk æðsta að geta selt húsin sín til að komast suður í borgina - sem þeir eru reyndar búnir að stórskemma með heimtufrekju og tilætlunarsemi.
Borgarbúar sjá margir hverjir ofsjónum yfir hvers konar framkvæmdum úti á landi. Nú nöldra þeir út af jarðgöngum og kenna þeim um sitt Sundabrautarleysi.
Mér finnst höfuðborgarharmagráturinn enn leiðinlegri en landsbyggðarvælið. Þó er það slæmt.
Ég er að lesa hið mikla rit Sléttuhreppur fyrrum Aðalvíkursveit. Byggð og búendur eftir þá Kristinn Kristmundsson og Þórleif Bjarnason sem út kom árið 1971.
Í lok bókarinnar er kaflinn Hvers vegna eyddist Sléttuhreppur?
Hér er eitt svar höfunda við spurningunni:
"Skortur samtaka til verklegra framkvæmda var aðalástæða þess, að ungt fólk leitaði úr hreppnum til staða, sem höfðu upp á betri vinnubrögð og öruggari atvinnu að bjóða. Samstaða náðist aldrei innan hreppsins um uppbyggingu atvinnulífs við sjóinn. Staðhættir skipta hreppnum í smærri heildir, og samkomulag varð ekki um framkvæmdir á einum stað, nema allir fengju eitthvað."
Ég held að Slétturhreppur geti verið dálítið Ísland í hnotskurn hvað þetta varðar.
(Myndina hér að ofan tók ég sumarið 2005 af þeim dýrðarfallega unaðsreit Flateyjardal. Hann fór í eyði á síðustu öld og fást þar ekki hamborgarar síðan.)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
17.4.2008 | 00:20
Glímt við drauga
Forfeður mínir vestur á fjörðum voru alvörukarlar. Lífsbaráttan var hörð og ekki létti hana að draugar léku lausum hala á svæðinu. Víluðu menn ekki fyrir sér að ráðast gegn slíku skaðræði með berum hnefunum.
Í Hornstrendingabók Þórleifs Bjarnasonar er sagt frá því víkingslynda karlmenni og tryggðatrölli Jakobi Tómassyni (d. 1908).
Þar er meðal annars þessi saga af glímu Jakobs við drauga:
"Haust eitt, meðan Jakob bjó á Nesi í Grunnavík, kom hann kvöld eitt, er tekið var að skyggja, út á hlað. Hann var örlítið hýrgaður af víni. Á hlaðinu voru þeir fyrir, Bjarni sonur hans og mágur, er Ólafur hét. Niðri á túninu stóðu móhrip tvö (rimlakassar undir mó, innsk.), er notuð höfðu verið til þess að reiða í á völl.
Þegar Jakob kemur út á hlaðið, starir hann um stund niður á túnið, en snýr sér svo að syni sínum og mági og segir, að helzt til mikið sé gert úr vaskleika þeirra, þar eð þeir láti afskiptalaust, að draugar og forynjur umkringi bæinn.
Spurði þá Bjarni sonur hans, hvar hann sæi nú drauga.
Jakob sagði, að minna mætti nú sjá en þá djöfla tvo, er niðri á túninu stæðu, og mundi hann ekki una því, að þeir fengju óhindrað að leika sér umhverfis bæinn, og skyldi hann nú gera þeim yngri og vaskari skömm til handa.
Bjarni glotti við, en svaraði engu, þótt vel sæi hann, hverjir draugar þeir væru, er hann talaði um.
Hljóp nú Jakob niður á túnið, tók móhripin og kastaði þeim hátt í loft upp, greip þau aftur og mölvaði, og voru jafnan mörg brot að sjá á lofti. Sjálfur stökk Jakob hátt í loft upp, er hann lék sér með spelabrotin (rimlabrotin, innsk.), og hætti ekki við, fyrr en bæði hripin voru mélmölvuð.
Kom hann þá heim hélaður af svita og sagði, að vart mundu djöflar þeir, er hann hefði átt í höggi við, gera meiri óskunda.
Daginn eftir var Jakob allsgáður. Tíndi þá Bjarni saman stærstu spelabrotin og færði föður sínum með þeim ummælum, að hér væru nú leifarnar af draugum þeim, er hann hefði barizt við kvöldið áður.
Jakob horfði á brotin, glotti við og sagði:
"Einhver ráð munu verða til þess að bæta um þetta, Bési minn.""
Þessi saga er ekki bragðminni fyrir þá sök að Bési, Bjarni Jakobsson, var fyrri maður langömmu minnar, Pálínu Guðrúnar Pétursdóttur. Þau eignuðust tvær dætur, Rebekku og Kristínu. Bjarni dó ungur.
Langafi minn og seinni maður Pálínu var Guðjón Kristjánsson bóndi á Langavelli á Hesteyri. Þeirra börn voru tvíburarnir Jón Stefán og Bjarney Pálína, amma mín.
Og ætli nafnið á ömmu sé ekki komið frá Bjarna Jakobssyni?
ES
Á þessum síðustu jafnréttistímum verður auðvitað að láta þess getið að formæður mínar vestur á fjörðum kölluðu ekki allt afa sinn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.4.2008 | 21:59
Ég býð í mat
Borðhald er ekki bara fólgið í því að borða.
Viðskiptamáltíðir eru gott dæmi um það. Rétt framferði manna við matarborð getur ráðið úrslitum um mikilvæga samningsgerð. Ekki að ástæðulausu hefur séntilmaðurinn Bergþór Pálsson tekið að sér að kenna viðskiptafólki borðsiði á svonefndu etiquette-námskeiði.
Góðrar máltíðar er best notið í hópi góðra vina. Þeir gera matinn enn betri. Samfélagið er Kryddið með stórum staf.
Það er mikil kúnst að bjóða vinum sínum í mat.
Matarboð eiga að vera rausnarleg en rausninni má samt ofgera.
Við Íslendingar erum snillingar í að ofgera. Þar erum við sennilega sterkastir þjóða.
Of rausnarlegt og flókið matarboð skyggir á gestina. Veitingarnar og tilstandið verða aðalatriði. Gestunum er eiginlega ofaukið.
Drekkhlaðin veisluborð geta sent gestunum þau skilaboð að gestgjafinn hafi í kannski ekki síður áhuga á veitingunum en fólkinu.
Félagsskapurinn verði óbærilegur án veiganna.
Ofvaxið matarboð er eins og hjónavígsla sem ég heyrði um. Þar var mikið tónlistarprógramm, flutt af landsþekktum listamönnum. Fluttar voru drepfyndnar ræður og hástemmd ástarljóð lesin.
Rétt áður en leika átti útgöngumarsinn uppgötvaði presturinn svo að hann hafði gleymt að gefa hjónin saman.
Munaði engu að giftingin gleymdist í sjálfri giftingunni.
Erum við stundum svo gestrisin að við gleymum gestunum?
Þessa speki má svo yfirfæra á lífið sjálft.
Hvernig bjóðum við Lífinu í heimsókn til okkar?
Árið 1994 kom út ljóðakverið Andalúsíuljóð. Það geymir þýðingar Daníels Á. Daníelssonar á ljóðum arabískra riddaraskálda í Andalúsíu á Spáni frá 10., 11. og 13. öld. Ég hef mikið dálæti á þessari litlu bók og lít oft í hana.
Þar er þetta snilldarljóð eftir ´Abd al- ´Aziz ibn al-Quabturnuh sem dó einhvern tíma eftir 1126. Það heitir Heimboð.
Morgunn rakur af döggfalli
og vangi jarðarinnar þakinn
grænum nálum.
Vinur þinn býður þér
að njóta tveggja kraumandi potta
sem nú þegar gefa frá sér
sterka lykt,
nokkurn ilm,
fallega flösku víns,
yndislegan stað,
og ég gæti boðið meira
ef ég vildi.
En það er ekki tilhlýðilegt
að skemmta vinum
með of mikilli viðhöfn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.4.2008 | 10:39
Sofa liggjandi, borða sitjandi, syngja standandi
Vilji fólk lifa góðu og heilbrigðu lífi er þrennt nauðsynlegt:
Að sofa liggjandi, borða sitjandi og syngja standandi.
Þetta er allt þverbrotið í nútímanum.
Nú heyrir nánast til undantekninga fái fólk sér sæti til að njóta máltíðar. Fólk borðar á hlaupum þangað til því verður fótaskortur í mæjónesslummunni sem næsti maður á undan skildi eftir sig.
Fólk rembist við að syngja sitjandi í keng eins og það er nú gáfulegt.
Og ekki nóg með að allt sé löðrandi í sitjandi sofandi fólki, það er á hlaupum meira og minna steinsofandi.
Nú til dags getur þú hæglega átt von á því að vera hlaupinn niður af manneskju í fastasvefni eða lenda í árekstri við hrjótandi ökumann.
Pinnamatur er skelfilegt uppátæki en alveg eftir okkur að finna upp á honum.
Pinnamatur er hannaður með það fyrir augum að hans megi neyta í fljótheitum, standandi, í félagsskap fárra og jafnvel einn síns liðs einhvers staðar úti í horni.
Pinnamatur er ósiður sem helst aldrei ætti að sjást heima hjá sómakæru fólki og aðeins í örgustu neyðartilfellum.
Það er bráðheilsuspillandi ef ekki bráðdrepandi gefi maður sér ekki tíma til að borða.
Og ef borðið vantar borð-um við í raun og veru ekki heldur étum.
Borðið kallar á samveru við aðra. Máltíð er félagsleg athöfn. Borðsamfélag.
Meira um það í næsta bloggi.
(Þess má geta að höfundur bloggar ævinlega sitjandi.)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
12.4.2008 | 23:34
Skellivor
Söngur fuglanna var enn frostsprakur.
Börnin í götunni voru ekki á leið út í leiki.
Hvað þá að flögraði að öspinni að birta eitt lauf.
Enginn aukamannskapur á dekkjaverkstæðunum.
Andvana ísvélar stóðu í sjoppunum.
Snjórinn í heiðinni uggði ekki að sér.
Meira að segja veðurkortin voru grandalaus
þegar vorið kom allt í einu
og gerði allt vitlaust.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
11.4.2008 | 09:27
Hamingjan læðist á tánum
Ég las grein eftir konu þar sem hún lýsti því hvernig hún og maðurinn hennar voru stöðugt að bíða eftir hamingjunni.
Hamingjan kæmi þegar þau væru búin að ljúka náminu. Hamingjan kæmi þegar þau hefðu fengið góða vinnu. Hamingjan kæmi með börnunum. Hamingjan kæmi með draumahúsinu. Hamingjan kæmi þegar börnin væru farin að heiman. Hamingjan kæmi með eftirlaununum.
Hamingjan lét alltaf bíða eftir sér.
Svo sátu þau eitt kvöldið saman hjónin, bæði orðin gráhærð og hrukkótt, og voru að skoða myndir frá þeim tíma þegar börnin voru lítil.
"Þarna áttum við engan pening. Stelpan hafði átt svo erfitt í skólanum. Strákurinn hafði verið svo ofboðslega lasinn."
Það var basl. Skelfilegir álagstímar.
Þau urðu hissa þegar þau sáu eigin andlit á myndunum.
Þau voru brosandi. Þau ljómuðu af hamingju.
Hamingjan hafði verið þarna.
Hún var þarna allan tímann.
Þau höfðu bara ekki veitt henni eftirtekt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
9.4.2008 | 22:23
Bænir virka
Ekki láta staðalímyndirnar villa um fyrir þér þegar ég nefni bænafólk. Bænafólk er alls konar fólk. Bænir eru mun algengari en margir telja. Ólíklegasta fólk fer með bænir.
Bænir virka. Þó er misskilningur að bænir séu bara tæki til að láta óskir okkar rætast.
Bænir eru samskiptatæki. Við nálgumst Guð í bæninni og leyfum honum að snerta okkur.
Bænir okkar birta það sem er hjörtunum næst. Ég er nokkuð viss um að hvorki stærri hús né flottari bílar eru algengustu bænarefnin.
Ég veit ekki hvort gerðar hafa verið á því kannanir hvað komi oftast fyrir í bænum fólks.
Ég giska á að fólki biðji oftast fyrir ástvinum sínum. Börnum og þeim sem erfitt eiga.
Hvernig eru þínar bænir? Hvenær eru þær heitastar?
Þegar við biðjum fyrir öðrum nálgumst við þá. Í bæninni færum við okkur nær þeim. Tökum okkur stöðu við hlið þeirra.
Bænir byggja brýr á milli fólks og heima.
Og bænir virka. Þær gera gagn. Þú mátt trúa því.
Verum dugleg að biðja hvert fyrir öðru.
(Myndin með færslunni er eftir Albrecht Duerer (1471-1528), einhver frægasta bænamynd sem gerð hefur verið.)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
8.4.2008 | 21:18
Berfættur sálnahirðir
Í hinu virðulega blaði Church Times, einu helsta málgagni anglíkana, rakst ég á frétt um prest í ensku kirkjunni sem er hættur að nota skó og fer allra sinna ferða berfættur.
Presturinn, Stephen Lowe, segist þar feta í fótspor ekki ómerkari manns en heilags Frans frá Assisi. Kveðst hann öðlast alveg sérstaka andlega innsýn við það að ganga berfættur. Hann sé næmari á það sem hann gengur á enda finni berfættur maður betur fyrir mýkt, hörku, kulda og hita gangflata en sá sem er í skóm.
Hin fjölbreytilegu áreiti á iljar prestsins minnir hann á það hlutverk hans að mæta fólki þar sem það er með sínar fjölbreytilegu þarfir.
Fyrr á árum var séra Lowe skólastjóri í Nýju-Gíneu og telur hann skó dæmi um firringu vestrænna manna frá veruleikanum.
Berfættir menn þurfi að stíga varlega niður og séu því umhverfisvænni en þeir sem þramma um þungsólaðir.
Fyrir þetta tiltæki sitt uppskar Lowe einhverjar háðsglósur frá forhertum og skilningslausum sóknarbörnum en lét þær ekki bíta á sig - ekki frekar en glerbrot, flísar, smásteina og annað sem undir hæla hans leggst.
Þó sýnir hann söfnuðinum þá tillitssemi að klæðast skóm við útfarir - og kann heldur ekki við að fara á veitingastaði á tásunum.
Fréttina má lesa á heimasíðu Church Times og þaðan er myndin fengin.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.4.2008 | 22:49
Skötubarðvængjuð fjandafjöld
Ég heyri að djöfullinn hafi ekkert að gera lengur og næsta skrefið sé að leggja niður helvíti.
Mín vegna má það allt fara andskotans til.
Þó held ég að slík helvítislaus tilvera verði óttaleg flatneskja.
Er það ekki ofverndunarstefna að banna helvíti?
Höfum við nokkuð nema gott af því að vera hæfilega smeyk við það?
Við megum bara ekki gleyma að elska okkar til himnaríkisins á alltaf að vera sterkari en hræðslan við andstæðu þess.
Við eigum frekar að lifa í fangi eftirvæntingarinnar en í greipum óttans.
Meistari Jónas Hallgrímsson orti um helvíti:
"Mér finnst það vera fólskugys
að fara niður til helvítis
og eyða aldri sínum
innan um brennu illan geim,
ólíkan drottins sólarheim,
svo hrollir huga mínum.
Skötubarðvængjuð fjandafjöld
flaksast þar gegnum eilíft kvöld,
glórir í glóðir rauðar;
þar er ei nema eldur og ís;
allt í helvíti brennur og frýs,
Satan og sálir dauðar."
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.4.2008 | 21:43
Tónlistarhelgi
Tónlistin setur sterkan svip á þessa mína helgi.
Á föstudagskvöldið bauð Haukur á Græna hattinum til veglegrar tónlistarveislu.
Andrea Gylfadóttir og hennar blúsmenn fóru á kostum.
Andrea er auðvitað mín oltæmfeivorituppáhaldssöngkona en hún hafði heldur engar liðleskjur með sér að sunnan, valmenni á hverju hljóðfæri. Þetta var stórkostlegt og í kvöld ætlar söngkonan og hennar fylgisveinar að skemmta Húsvíkingum. Þeir eru öfundsverðir.
Í fyrramálið ætla ég svo að skíra barn í messu. Móðirin er húsvísk - pabbinn húnvetnskur. Hann ku vera vel liðtækur söngvari en hún er einn albesti fiðluleikari sem ég hef heyrt og ætlar að leika fyrir okkur forspilið.
Í messunni verður einnig frumfluttur sálmur eftir sómamanninn Hauk Ágústsson. Hann lét sig ekki muna um að gera bæði textann og lagið.
Klukkan fimm á morgun ætla ég síðan á tónleika í Akureyrarkirkju. Eyþór Ingi Jónsson, orgelsnillingur, efnir þá til árlegra óskalagatónleika. Þeir eru þannig framkvæmdir að fólki gefst kostur á að senda Eyþóri tillögur að lögum til flutnings.
Í fyrra spilaði hann allt mögulegt, m. a. Dallaslagið, sem var eftirminnilegt.
Ég sendi inn tvö óskalög. Annað verður flutt. Irish Boy eftir Mark Knopfler.
(Vissuð þið að risaeðlutegund er nefnd eftir honum og heitir masiakasaurus knopfleri? Steingervingafræðingarnir voru með Dire Straits á fóninum þegar þeir uppgötvuðu tegundina.)
Hitt lagið verður að bíða betri tíma. Two out of three ain´t bad með Meatloaf. Ég er viss um að það er flott á pípuorgeli.
Eyþór ætlar líka að spila lag með uppáhaldshljómsveitinni minni, Queen. Er ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur. Bohemian Rhapsody verður spilað.
(Bohemian Rhapsody hefur að geyma mörg skemmtileg orð - scaramouche, fandangos, basmala, Galileo Galilei, Beelzebub - að ógleymdu Mama mia. "Oh mama mia, mama mia, mama mia let me go..." Lagið sem velti Bohemian Rhapsody úr fyrsta sæti breska vinsældarlistans var einmitt Mama mia með Abba.)
Ég er heppinn að hafa eyru þessa helgina.
ES
Í messunni áðan tjáði meðhjálparinn minn mér að hún hefði sótt yndislega tónleika á Græna hattinum á fimmtudagskvöldinu. Þar spilaði og söng stórsjarmurinn Hörður Torfason.
Bloggar | Breytt 6.4.2008 kl. 12:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)