Færsluflokkur: Bloggar
4.3.2008 | 08:26
Maðurinn með ljáinn skemmtir landanum
Allt skal vera skemmtilegt. Fréttirnar. Jafnvel hörmulegustu tíðindi verða að hafa afþreyingargildi þegar þau eru borin okkur. Einhver kvartaði undan því að umfjöllun um efnahagsmál væri leiðinleg. Mér finnst að umfjöllun um efnahagsmál sé hvorki áhugaverð né fagleg nema hún sé að minnsta kosti hundleiðinleg líka.
Messurnar eiga að vera skemmtilegar. Prestarnir fyndnir. Kirkjukórarnir eiga að syngja skemmtileg lög. Organistinn á að iða af fjöri. Það liggur við að gamla konan hafi hitt naglann á höfuðið þegar hún sagðist oft fara á útfarir. Þær væru eina skemmtunin sem hún leyfði sér nú orðið.
Fyrr á tíð var gengið aftur landsmönnum til hrellingar. Vofur höfðu í frammi kvikyndislega hrekki og beittu hvers konar Þorgeirsbolabrögðum til að fá hárin á fólki til að rísa. Þurfti að hafa mikið fyrir því að kveða niður draug. Stundum dugði ekkert minna en að gera hann höfðinu styttri og leggja það við þjó hans.
Nú er búið að hotta öllu því illþýði suður yfir heiðar og austur fyrir fjöll þar sem ekkert er nema galopin flatneskjan og hvergi dimm gil í að leynast. Afturgöngum landsins er komið haganlega fyrir á þar til gerðu safni á Stokkseyri þar sem þær eru til sýnis fyrir kalla með derhúfur, kellingar í flíspeysum og ofdekraða krakkaorma með sleikipinna. Þvílík niðurlæging.
Haldnir eru miðilsfundir í útvarpinu. Amma og afi tala úr dulheimum undir lyftutónlist. Við heyrum skilaboð að handan og fáum okkur flögur með ídýfu.
Það er sko líf eftir dauðann. Bæði líf og fjör.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.3.2008 | 08:52
Menntasmiðja kvenna
Menntasmiðja kvenna á Akureyri hefur verið í fréttum. Eftir því sem mér skilst er verið að gera breytingar á rekstri og fyrirkomulagi smiðjunnar. Ég sá haft eftir forsvarskonum hennar að þær hefðu áhyggjur af framtíð þessarar mikilvægu fræðslustofnunar.
Ekki treysti ég mér til að leggja mat á fyrirhugaðar breytingar á Menntasmiðju kvenna en ég veit að starf hennar hefur reynst mörgum konum alveg ómetanlegt. Ekki síst þeim konum sem upplifa straumhvörf í lífi sínu.
Menntun er marghliða þarfatól. Við menntum okkur ekki bara til að vita meira. Menntun víkkar sjóndeildarhringinn, opnar glugga svo að við sjáum í nýjar áttir og dyr svo að við göngum á vit nýrra vídda.
Menntun hefur líka þerapeutíska verkan. Hún eflir sjálfstraustið, skýrir sjálfsmyndina, kennir manni að nýta kosti sína og hjálpar manni að takast á við gallana.
Á netinu er Menntasmiðja kvenna nú að finna undir Menntasmiðjunni á Akureyri, til hliðar við Menntasmiðju unga fólksins.
Full þörf er á að stofna Menntasmiðju karla líka.
Menntasmiðja kvenna hefur verið rekin af metnaði og hugsjónakrafti. Ég vona að hún fái áfram að blómstra á þeim forsendum.
Myndin er tekin af ofangreindri heimasíðu Menntasmiðjunnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.3.2008 | 17:23
Djöflaspegill
Djöfullinn gleðst að sjálfsögðu aldrei innilegar en þegar djöfulskapur ríkir í mannheimum.
Einu sinni gerði hann sér spegil til að auka enn við þá illyrmislegu gleði sína. Sá var þeirrar náttúru að þar minnkaði allt gott í veröldinni en það vonda stækkaði.
Kærleiksverk og frómar hugsanir skruppu saman eins og ullarsokkar í suðuþvotti um leið og ódæði og illhugur bólgnuðu út eins og íslensk bankalán.
Spegillinn varð uppáhaldsleikfang Kölska. Þar gat hann svalað fýsn sinni í að sjá grimmd og vonsku. Góðmennsku greindi hann varla í speglinum enda á hann erfitt með að umbera allt þess háttar.
Svo var það einn daginn þegar Sá svarti var að gamna sér með spegilinn sinn að þar birtust þvílík ósköp af ólýsanlegum hrottaskap og rotnu hugarfari að hann gat ekki hamið fögnuð sinn. Hlátur hans var svo óstjórnlegur, hár og hvellur að spegillinn splundraðist.
Brot hans þeyttust í þúsundmilljónatali yfir jörðina.
Flest brotanna voru svo örsmá að þau geta auðveldlega hafnað í augum okkar mannanna án þess að við verðum þess áskynja. Sjálfur hef ég fundið fyrir flísum úr djöflaspeglinum í mínum. Þá vex mér það illa í augum en það góða og fagra verður varla sýnilegt.
Önnur brot voru myndarlegri og henta vel í gleraugu.
Enn stærri brot eru notuð í sjónvarps- og tölvuskjái.
Oft er t. d. bloggið óttalegur djöflaspegill.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.2.2008 | 08:34
Gamli fermingarsöngurinn
Nú er að upphefjast gamli söngurinn um að fermingarbörn landsins viti ekkert hvað þau eru að gera þegar þau fermast og að þau séu bara að þessu til að fá dýrar gjafir.
Í fjölmiðlum er kynt undir kötlum markaðshyggjunnar í tengslum við ferminguna en jafnframt alið á samviskubiti og sektarkennd fermingarbarnanna; þau þiggja gjafir sem þau verðskulda ekki.
Framangreint á að sjálfsögðu einungis við um kirkjulega fermingu. Þau börn sem láta ferma sig kirkjulega hafa ekki hugmynd um hvað þau eru að gera. Hin eru meðvituð.
Undanfarin 20 ár eða svo hef ég átt því láni að fagna að taka þátt í fermingarfræðslu og fermingarathöfnum með frábæru ungu fólki.
Þetta unga fólk er eins og æskan á að vera: Það er lífsglatt og hæfilega sannfært um óbærilegan léttleika tilverunnar. Það getur verið mjög áhugasamt um ýmis trúarleg mál og mórölsk fyrirbæri. Það hefur gaman af því að fá góðar og nytsamar gjafir eins og við hin og lítur með tilhlökkun til fermingardagsins og framtíðarinnar.
Mér finnst dýrmætt að vera með þessu unga fólki og fá að taka þátt í að búa til dag sem verður í margra hugum einhver bjartasti dagur æskunnar.
Ég lærði ekki óskaplega margt í minni fermingarfræðslu. Þegar ég lít til baka minnist ég þess helst að séra Birgir blessaður var oft að segja okkur skemmtilegar sögur. Honum sárnaði þegar við slugsuðum á náminu - og honum sárnaði ekki sjaldan. Samt hló hann oftar. Mér fannst ekki gaman í messunum en á góðar minningar um þann samfund við Þjóðkirkjuna sem fermingarveturinn minn var.
Fermingardagurinn var yndislegur, ég fékk græjur frá mömmu og pabba og fyrir fermingarpeningana keypti ég mér m. a. plötu með Uriah Heep.
Og ég er sannfærður um að eitthvað gott úr fræðslunni síðaðist engu að síður inn í minn tornæma haus.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
28.2.2008 | 08:50
Kirkjuvika
Kirkjuvikur hafa verið haldnar í Akureyrarkirkju allt frá árinu 1959. Þær hafa alltaf byrjað fyrsta sunnudag í mars, á æskulýðsdegi Þjóðkirkjunnar. Jón Kristinsson, fyrrum formaður sóknarnefndar Akureyrarsóknar, sagði í ávarpi við setningu 16. kirkjuvikunnar árið 1990 að hún hefði þann tilgang að "auka fjölbreytni í safnaðarlífinu og kalla söfnuðinn til virkara liðsinnis í kirkjunni".
Nú er 25. kirkjuvikan að hefjast. Dagskráin er fjölbreytt. Nokkur dæmi:
Mánudaginn næsta, 3. mars, verða tónleikar Ragnheiðar Gröndal í Akureyrarkirkju.
Hefð er komin á tónleika í kirkjunni í tengslum við æskulýðsdaginn. Andrea Gylfadóttir reið á vaðið fyrir mörgum árum ásamt Kjartani Valdimarssyni en síðan hafa margir þjóðkunnir listamenn komið fram á þessum samkomum.
Tónleikar Ragnheiðar hefjast kl. 21 og undirleikari er Ómar Guðjónsson.
Stúlknakór Akureyrarkirkju hefur oftast lagt sitt af mörkum til æskulýðsdagstónleikanna og verður væntanlega ekki breyting á því að þessu sinni.
Laugardaginn 8. mars er blásið til heilmikils málþings í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju undir yfirskriftinni "Kirkja og skóli", en töluverð umræða hefur verið í þjóðfélaginu um samvinnu þessara stofnana.
Framsögumennirnir fjórir hafa allir kynnt sér málið, hver með sínum hætti.
Dr. Svanur Kristjánsson, prófessor við Háskóla Íslands, fer í saumana á grundvallaratriðum í erindi sem hann nefnir "Lýðræði, kristni og íslenska þjóðkirkjan".
Sr. Þórhallur Heimisson, prestur í Hafnarfjarðarkirkju, skoðar efnið í sögulegu samhengi eins og heiti hans innleggs gefur til kynna, "Kirkja og skóli í sögu og samtíð".
Kristín Dýrfjörð, lektor við Háskólann á Akureyri, spyr í sínu erindi hvort það sé forsjárhyggja leikskólakennara að vilja eða vilja ekki sunnudagaskólann inn í leikskólann.
Karl Frímannsson, skólastjóri Hrafnagilsskóla, veltir því fyrir sér hvort gildi skólastarfs þurfi að vera kristileg. Hrafnagilsskóli fékk íslensku menntaverðlaunin í fyrra.
Að íslenskum kirkjusið verður boðið upp á kaffi og með því á málþinginu og til að gera það enn safaríkara ætla hjónin frá Tjörn í Svarfaðardal, þau Kristjana Arngrímsdóttir og Kristján Eldjárn Hjartarson, að flytja gestum tónlist á milli erinda.
Umræður um erindin verða eftir kaffihlé og framsögumenn svara fyrirspurnum. Fundarstjóri er Bergþóra Þórhallsdóttir, aðstoðarskólastjóri Brekkuskóla á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.2.2008 | 22:01
Kirkjan og nasisminn
Þann 4. nóvember árið 1942 efndi Ameríkudeild Alkirkjuráðsins til hádegisverðarfundar í New York. Ræðumaður var norski stjórnmálamaðurinn Johan Ludwig Mowinckel, frjálslyndur jafnaðarmaður, sem gegnt hafi embættum forsætis- og utanríkisráðherra í heimalandi sínu.
Þegar Þjóðverjar hertóku Noreg árið 1940 flýði Mowinckel landið ásamt útlagastjórninni. Hann talaði máli Noregs í Bandaríkjunum en lést þar árið 1943.
Tæpu ári áður flutti hann þessa ræðu sem hann nefndi "The Fight of the Norwegian Church".
Ég birti hér kafla úr ræðu Mowinckels.
Þar lýsir hann aðstæðum norsku Þjóðkirkjunnar og uppbyggingu hennar auk þess sem hann segir frá innrás Þjóðverja og valdatöku nasista eftir uppgjöf norska hersins.
"It soon became apparent that the Norwegian Church as well as the religious life in Norway was in grave danger. The pressure became increasingly strong, with an ever-growing demand that the Church not only adopt the New Nazi Order, but that it should also give the Order its blessing."
Baráttan var rétt að byrja. Stormsveitir Quislings réðust á skóla og menningarstofnanir, kennarar og prófessorar voru handteknir, norska lagakerfið var afnumið með þeim afleiðingum að hæstaréttardómarar sögðu af sér og norskum prestum var tilkynnt að þeir væri ekki lengur bundnir þagnareiði.
15. janúar 1941 sendu biskupar norsku kirkjunnar frá sér mótmælabréf. Mowinckel vitnar í hluta þess í ræðu sinni.
"When the authorities permit acts of violence and injustice, and exert pressure on our souls, then the Church becomes the defender of the people's conscience."
Norska leppstjórnin gerði allt til þess að hindra útbreiðslu bréfsins og með lögregluvaldi var reynt að koma í veg fyrir að það yrði lesið upphátt í kirkjum landsins.
Mowinckel segir frá frekari aðgerðum nasista gegn kirkju og kristni í Noregi:
"Even Luther's catechism was revised to fit into the New Order. Pastors were discharged all over the country, but their congregations remained faithful to them."
Þann 1. febrúar árið 1942 marseruðu nasistarnir inn í dómkirkjuna í Niðarósi, þjóðarhelgidóm Norðmanna, og lokuðu henni þannig að prestur kirkjunnar, Fjellbu, gat ekki embættað þar. Á þriðja þúsund manns stóðu fyrir utan kirkjuna og sungu hinn forna sálm Lúthers "Vor Guð er borg á bjargi traust". (Hann má lesa hér í íslenskri þýðingu.)
Atburðirnir í Niðarósi leiddu til þess að séra Fjellbu var leystur frá störfum og handtekinn.
Hinir sjö biskupar norsku kirkjunnar gripu þá til þess ráðs að segja af sér enda töldu þeir sér ekki lengur fært að gegna embættum sínum. Í uppsagnarbréfi sögðu þeir:
"The Bishops of the Norwegian Church would be unfaithful to their calling if they continued as part of an administration, which in this manner and without ecclesiastical reason offends the congregations and adds injustice to violence. I therefore give notice that I hereby resign my office. That is to say, I give up the office with which the State has entrusted me. The spiritual mission which was bestowed upon me when I was consecrated at the Altar of the Lord is still mine with all rights and privileges. It is still my office to preach the gospel, to watch over the congregation, and to be the spiritual guide of the Clergy. I shall in the future carry on in this Mission so far as is possible for one who is not a government official. But to continue administrative cooperation with a State that violates the Church would be to betray the holiest of holy."
1.100 af 1.139 prestum norsku kirkjunnar fylgdu fordæmi biskupa sinna.
Eivind Berggrav, Oslóarbiskup, var fangelsaður.
Þessu næst létu nasistar á ný að sér kveða í skólum landsins, eða eins og Mowinckel segir frá í ræðu sinni:
"The Quislings now took a new decisive step declaring that the schools and the teachers should adhere to the philosophy of the New Order. At the same time, and in keeping with the New Order, the education of children was to be organized along lines which would altogether remove them from the influence of their parents and of their homes."
Kirkjan brást við með yfirlýsingu sem lesin var upp við páskamessur sama ár. Þar segir:
"The Church would fail in its duty towards Christian education were it to stand by and calmly watch a secular Power plan the moral and spiritual education for Children and Adults independent of, and contrary to all Christian precepts. Parents and Teachers must not be forced to violate their conscience and leave Children to be brought up in a way which will revolutionize their minds, and introduce a lasting spiritual injury altogether foreign to Christianity."
Stuttu áður en Mowinckel flutti þessa ræðu á hádegisverðarfundinum í New York barst norsku leppstjórninni bréf frá norsku kirkjunni. Mowinckel hafði undir höndum eintak af því. Þar stendur m. a.:
"Here we stand today. God has given us grace and strength to stand up under all that has befallen us. We have been sustained by the prayers and the faith of our ministers and congregations. At this moment we do not know whether it will be negotiations with the Church or an open breach. But even so, we stand fearlessly here."
Það er mikið í húfi í baráttu norsku kirkjunnar, segir Mowinckel:
"And this all the more so as it is not only a fight by the Church to protect the Church, but to safeguard the spiritual and cultural life on the whole, which has been subjected to the most brutal violation. The Nazi religion will neither tolerate the continuation of spiritual freedom, nor the free and scientific life and work at the universities, nor the wholesome activities of the schools."
"The Church is also protecting the homes. For even into the holiest of the holy in the homes, into the relationship between parents and children has the New Order violently thrust itself. The Nazis demand that children hardly out of their cradles be surrendered and given over to compulsory education, and be altogether removed from parental influence."
Mowinckel heldur áfram:
"The Church is the leading factor in this fight to safeguard and protect Culture, Science, Schools and Homes. With the Lutheran State Church stand all other denominations, Protestant and Catholic, firmly and unbreakably together. It has become an "Ecclesia militans"."
"It is truly a cultural fight. It is two different phases of culture, two spiritual elements that fight each other. It is two kinds of faith, two religions."
Mowinckel vitnar í bók sem þá var nýkomin út í Þýskalandi, "Gott und Volk - Soldatisches Bekenntnis". Þar segir höfundur bókarinnar að kynslóð hans hafi sagt skilið við gamlar trúarsetningar. Nokkrar tilvitnanir í bókina eru í ræðu Mowinckels.
T. d. þessar:
"We have deviated from the Jewish fables..."
"Christianity is but a sprout on the tree of Judaism."
"It is the religion of the small and the weak, the religion of cowardly and pitiable people."
"We Germans have by fate been chosen to be the first to break with Christianity. To us it is an honor."
Lokaorð Mowinckels eru:
"I feel this will suffice to make clear to you all that is involved in this war. It is not only a war for liberty and democracy. It is a war for deep spiritual ideals. It is a war for a culture that dates back some two thousand years, for an ethical conception which has formed the basic principles of civilisation for a whole world, and which is now being threatened in its innermost being."
"It is in this World Struggle for total freedom, the Church of Norway courageously takes her place. It is a struggle in which all Christian Churches throughout the world, even the German Church, of necessity, must stand together, because it vitally concerns the future of them all."
Ræðu Mowinckels er að finna hér.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.2.2008 | 13:32
Grálúðugirnd
Oft fæ ég mér aftur á diskinn og fyrir kemur að ég setji á hann í þriðja skiptið þó að magafylli sé náð.
Það heitir víst græðgi og er höfuðorsök þess að ég telst yfirgripsmikill maður.
Græðgin er ofarlega á lastalistum kristninnar og hef ég því miður oft gert mig sekan um þá dauðasynd.
Er grunnt á frjálshyggjumanninum í mér hvað það varðar en fræðimenn af þeim skóla hafa uppgötvað að ekki nema sjónarmunur sé á græðgi og framfarahvöt. Hafa sumir gengið svo langt að útnefna græðgina eina uppsprettulind almennra hagsbóta.
Voru það ekki þeir Hume og Smith sem bentu á að sjálfhverf hegðun gróðabrallara leiddi á endanum til almannaheilla enda þótt þeir vöruðu við algjörlega óbeislaðri græðgi?
Í sundlauginni nú í vikunni var verið að spjalla um reyktan rauðmaga en sá vorboði er farinn að sjást. (Reyndar ekki í sundlauginni.)
Vék ég talinu að reyktri grálúðu sem ég smakkaði einu sinni hjá fiskverkandi vini mínum. Reykt grálúða er einstakt hnossgæti.
Mígur í munni - ef þannig má að orði kveða.
Sundfélagar mínir ráku upp skellihlátra þegar ég minntist á grálúðuna. Sögðu hana löngu uppveidda. Einu grálúðuna væri að hafa langt úti á djúpsævi.
Græðgi veiðimanna í grálúðuna hefur valdið stórfelldri rányrkju á stofninum.
Því er borin von að ég fái svalað girnd minni í reykta grálúðu.
Græðgin hefur því hvorki orðið mér né öðrum unnendum reyktrar grálúðu til góðs eða hagsbóta.
Kenningar frjálshyggjumanna eru þar með afsannaðar.
Bloggar | Breytt 27.2.2008 kl. 16:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.2.2008 | 13:58
Hver skilur konur?
Vegna veislustjórastarfa þurfti ég að leita að bröndurum á netinu. Helst um konur.
Mikið framboð er af slíkum bröndurum, smekklegum og ósmekklegum, fyndnum og misheppnuðum, en einu tók ég eftir:
Oft er gert grín að því að ekki sé hægt að skilja konur.
Konur eru óskiljanlegar.
Þá liggur beinast við að spyrja:
Óskiljanlegar hverjum?
Auðvitað okkur körlunum.
Og ef okkur körlunum gengur svona illa að skilja konur geta verið tvær ástæður fyrir því.
Annað hvort eru konur ofboðslega dularfullar verur eða þá við karlarnir svo takmarkaðir að okkur er ómögulegt að skilja þær.
Annað hvort er það konum að kenna eða körlum.
Ég geri mér grein fyrir því að hæfileikum karlkynsins til að skilja hin ýmsu fyrirbæri eru miklar skorður settar. Ekki síst þegar í hlut eiga konur.
Engu að síður hallast ég að því að konur séu óskiljanlegar. Og ég leyfi mér að halda því fram að þannig eigi þær að vera.
Það sem gerir konurnar aðlaðandi er að maður botnar ekkert í þeim.
Sú manneskja sem ég tel mig þekkja mest og best er alltaf að koma mér á óvart.
Sem betur fer.
Myndin með færslunni er af málverki ítalska endurreisnarmálarans Raffaello Sanzio (Raphael), "La donna gravida".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.2.2008 | 22:33
Bænakransinn
Erfiður dagur er liðinn.
Blessun hans var að sjá hlýjuna og elskuna sem sorgin laðar fram í manneskjunum.
Við erum oft upptekin af því neikvæða.
Á svona degi sést hvað við getum verið góð hvert við annað.
Ég gerði þetta ljóð fyrir vinkonu mína sem söng það inn á disk fyrir síðustu jól.
Sé sál mín þreytt og þjáð
og þessi veröld grá,
ef engin á ég ráð,
sé engin svör að fá,
engin gefast grið,
glötun blasir við,
ljósið finnur leið,
líknin mína neyð.
Bænin vekur von og frið.
Sú bæn sem borin er
frá brjósti þjakaðs manns
til himinhæða fer
og hnýtt er þar í krans.
Öll þau óskablóm
áttu hvert sinn róm,
hrópið hjarta frá,
heit og einlæg þrá.
Bæn er ekki orðin tóm.
Þótt myrkrið mitt sé kalt
og margt sem ég ei skil,
er einn sem heyrir allt,
með öllum finnur til.
Upp í dimmum dal
dagur renna skal,
sálin þreytt og þjáð
þiggur ást og náð.
Bæn er aldrei eins manns tal.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.2.2008 | 23:12
Innaugu
"Þú heyrir það sem þú vilt heyra," er stundum sagt við óstýriláta krakka sem hafa óhlýðnast fyrirmælum og bera því við að þau hafi ekkert heyrt.
Einhvers staðar las ég að stundum væru slíkar afsakanir sannar. Alveg óviljandi heyra börn það sem þau vilja og annað alls ekki.
Þannig er það með okkur öll. Við heyrum það sem við viljum heyra. Viljinn er stórlega vanmetið fyrirbæri.
Sannleikurinn er ekki einungis þarna úti, staðreyndir sem bíða þess að við sjáum þær. Sannleikurinn er ekki síður inni í okkur. Það sem er fyrir utan okkur er meðhöndlað af því sem er inni í okkur.
Við túlkum það sem við sjáum og heyrum. Við breytum því. Snúum því jafnvel gjörsamlega á hvolf.
Því hefur verið haldið fram að í raun sé stærsti hluti allra mannlegra samskipta helber misskilningur - vegna þessarar áráttu mannsins að þurfa að vinna úr öllu sem hann sér og heyrir.
Þegar sú mikla maskína hrekkur í gang blandar hún því sem er fyrir innan augu okkar saman við það sem er utan við þau.
Þekkingu okkar, verðmætamati og fordómum er dælt inn í upplýsingarnar sem við nemum.
Þess vegna sjáum við ekki bara það sem fyrir augun ber og eða heyrum það sem á hlustum dynur heldur sjáum það sem við viljum sjá og heyrum það sem við viljum heyra, meðvitað og ómeðvitað.
Og ef við skiljum eitthvað er ekki ólíklegt að þar sé um ægilegan misskilning að ræða.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)