Færsluflokkur: Bloggar
20.2.2008 | 08:51
Goðsögnin um tómar kirkjur
Aftur og aftur les maður staðhæfingar um að kirkjur landsins séu illa nýtt hús, þangað komi fáir og þar sé lítið sem ekkert um að vera.
Það virðist fara óskaplega í taugarnar á mörgum sé bent á það gagnstæða.
Nú í vikunni fékk ég niðurstöður talningar kirkjuvarða Akureyrarkirkju á fólki sem sótti kirkjuna síðasta ár.
Helgihald, messur og fyrirbænastundir sóttu 9.910 manns. Alls komu 21.677 í kirkju í aðrar athafnir (t. d. skírnir, giftingar og útfarir) á hennar vegum, eða samtals 31.587 gestir.
2.697 mættu þar að auki í Akureyrarkirkju á tónleika sem ekki voru á hennar vegum.
Kirkjan er einn vinsælasti áfangastaður ferðafólks í bænum. Því miður hefur ekki verið unnt að telja þann hóp nákvæmlega en kirkjuverðir og aðrir sem vinna við móttöku ferðafólks í kirkjunni álíta að sá fjöldi sé ekki undir 35.000.
Þá er ótalið það fólk sem kemur í Safnaðarheimili kirkjunnar. Sunnudagaskólinn fer þar fram að mestu og annað æskulýðsstarf, fermingarfræðsla, kóræfingar og ennfremur eru prestar kirkjunnar með viðtalstíma í Safnaðarheimili. Þar eru haldnir ýmsir fundir. Félög hafa þar aðstöðu, t. d. AA-samtökin, Samhygð, samtök syrgjenda að ógleymdu sjálfu Kvenfélagi Akureyrarkirkju, sem nýlega fagnaði 70 ára afmæli sínu. Þróttmikið tónlistarstarf kirkjunnar er í Safnaðarheimilii og kapellu. Einnig eru veisluhöld tíð í aðalsal Safnaðarheimilis, t. d. eru þar oft drukkin erfi.
Það er því ljóst að vel yfir 100.000 manns komu í húsakynni Akureyrarkirkju á síðasta ári.
Ég er svo heppinn að vinna með frábæru fólki í Akureyrarkirkju, duglegu og hugmyndaríku. Það er því að þakka að starf kirkjunnar alltaf að aukast - og Guði almáttugum.
Myndin með þessari færslu sýnir Kór Akureyrarkirkju syngja fyrir fullum sal í Safnaðarheimili.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
19.2.2008 | 08:20
Himnaríki og helvíti
Himnaríki getur hellst yfir okkur hér á jörðu í hinum ólíklegustu aðstæðum, rétt eins og andstæða þess, helvíti, gerir vart við sig jafnvel þar sem maður á síst von á því.
Þó að við getum fundið himnaríkið hér og nú er sú kenning stundum misskilin. Við höldum að himnaríki sé bara ástand. Það sé enginn staður. Fyrir löngu fór úr tísku að tala um himnaríkið sem stað. Himnaríkið er einhvers konar alsælufyrirbrigði. Óáþreifanlegt. Óhlutlegt. Ó-orð og búið er að koma því inn í hausana á okkur að hættulegt sé að elska það og þrá.
Aðdáendur himnaríkis eru sagðir sekir um að vilja flýja raunveruleikann.
Þess vegna hræðast margir himnaríki meira en helvíti. Taka sér heiti þess síðarnefnda oftar í munn en þess fyrrnefnda. Alsiða er að segja þeim sem maður á eitthvað sökótt við að fara til helvítis. Hitt er sjaldgæft að heyra þeim óskað himnaríkis sem gert hefur eitthvað vel.
Vinsælt er að benda á að fyrr á öldum hafi kirkjan notað helvítisóttann til að hotta fólki inn í himnaríkið.
Það er ekkert að því að óttast helvíti og reyna að forðast það í öllum þess myndum.
Myndin verður skökk ef við förum að óttast helvíti meira en við elskum himnaríkið.
Gæti það ekki verið eitt ógnarmein á okkar tímum að við látum stjórnast af óttanum við vonda staðinn en kunnum svo illa að elska þann góða?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.2.2008 | 21:51
Óþjóð
Þjóðir eiga undir högg að sækja. Þær eiga í erjum og gengur illa að búa saman.
Ekki eru menn á einu máli um hvað geri þjóð að þjóð. Því er meira að segja haldið fram að þjóðir séu ekki til.
Þjóðir eru til bölvunar og þjóðernissinnar eru vandræðamenn.
Sumir sjá fyrir sér heim án þjóða.
Eiga sér draumsýn um heim án landamæra, eina alþjóðlega menningu og eina heimstungu.
Væri spennandi að ferðast um slíka veröld?
Stundum finnst manni að sumir talsmenn fjölmenningarhyggjunnar vilji í raun einhvers konar einmenningarhyggju. Flata og litlausa veröld.
Óþjóð er það sama og illþýði og skríll í íslenskum orðabókum.
Ef til vill er það vísbending um ástandið í þjóðlausri veröld?
Fjölmenning er það kallað þegar ólíkir hópar geta búið saman í sátt og samlyndi.
Misvel gengur að koma á slíkum samfélögum.
Til þess að mismunandi menningarhópar geti þrifist friðsamlega í einu samfélagi þurfa þegnarnir að sýna umburðarlyndi og tillitssemi.
Tjáningarfrelsið er einn af hornsteinum samfélags okkar. Það verður þó að nota af ábyrgð eins og annað frelsi.
Ég er ekki sannfærður um að það sé í þágu fjölmenningar þegar tjáningarfrelsinu er beitt til þess eins að vanvirða það sem öðrum er heilagt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
16.2.2008 | 14:39
Kirkjur og fjöll
Menn fara á fjöll til að skjóta rjúpur, keyra á jeppum, þjóta á vélsleðum, til að komast á framandi staði og vera víðsfjarri stressinu og hávaðanum sem ríkir á flatneskjunni.
Fjöll hafa mikið aðdráttarafl og á hverju ári kostar mikla peninga að ná fólki þaðan.
Sumir hafa þessa fjallaáráttu á hornum sér og skilja ekkert í henni en ég held að flestir sjái að eitthvað seiðandi er við fjöllin, jafnvel heilagt.
Einfaldasta skýringin á kynngi fjallanna er sú að þau eru hærri en landið umhverfis þau. Af þeim er styttra upp í himininn en af láglendi. Fjöllinn benda upp til stjarnanna og þangað sem Guð á heima, samanber orðin:
"Faðir vor, þú sem ert á himnum."
Þess vegna ættum við að vera nær Guði hérna á Brekkunni en þeir sem búa t. d. niðri á Eyri.
Kirkjuturnarnir benda upp eins og fjöllin.
Sagt er að þegar Guðjón Samúelsson hafi sest niður til að teikna Akureyrarkirkju hafi hann haft Vaðalfjöll að fyrirmynd.
Vaðalfjöll standa u. þ. b. 100 metra upp úr heiðinni fyrir ofan Berufjörð og Þorskafjörð í Reykhólahreppi. Þau blasa við frá Skógum í Þorskafirði þar sem sr. Matthías Jochumsson fæddist - eins og Akureyrarkirkja gnæfir yfir Sigurhæðum, húsi skáldsins á Akureyri.
Mörgum finnst kirkja án turns hálfgert plat og engin alvörukirkja. Kannski vegna þess að turnlaus kirkja bendir ekki afdráttarlaust til himins og myndar ekki sýnilega tengingu við æðri heima.
Kirkjur og fjöll eiga margt sameiginlegt. Margir fara á fjöll til að komast frá skarkala heimsins. Við förum líka í kirkjurnar til að finna þar frið og ró.
Á fjöllum er fjallafriður.
Friður kirknanna er himneskur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.2.2008 | 09:27
Bakaraskírn
Glæpasafnið í Rothenburg í Suður-Þýskalandi er meðal merkilegustu safna sem ég hef skoðað (Mittelalterliches Kriminalmuseum). Þar er t. d. hægt að fræðast um réttarfar á miðöldum.
Eitt líkananna á safninu var af þorpi. Lítil á rann í gegnum það og við hana hafði safnast nokkur fólksfjöldi. Einn mannanna var í bakarafötum og auðsjáanlega ekki með hinum af fúsum og frjálsum vilja.
Hér átti að framkvæma svokallaða bakaraskírn eins og útskýrt var á spjaldi við líkanið. Draga átti þorpsbakarann í kafi yfir ána.
Á þessum tíma þurftu þeir bakarar sem seldu of létt brauð sæta þessari refsingu.
Þess var einnig getið að þeir bakarar sem seldu of þung brauð hefðu fengið sömu skírn.
Of létt brauð var glæpur, fólginn í gróðafíkn og svikum. Of þungt brauð var líka glæpur og þótti bera vott um oflæti og ófyrirgefanlegt bruðl.
Brauð bakaranna máttu hvorki vera of létt né of þung.
Nú á dögum hrósum við happi ef við fáum meira en við borguðum fyrir. Á sumum veitingastöðum þykir sjálfsagt að bera fram ofurskammta sem borin von er að nokkur geti torgað. Heil ósköp eru eftir á diskunum þegar maður gengur frá borði. Þá hefur maður svo sannarlega fengið mikið fyrir peningana sína.
Í nýlegri bók eftir breskan neytendablaðamann eru stóru matvöruverslanirnar harðlega gagnrýndar og fólk hvatt til að kaupa sinn mat í litlum búðum. Steikurnar hjá slátraranum, soðninguna hjá fisksalanum, grænmetið í grænmetisbúðinni og brauðið í bakaríinu.
Sannað sé að neytendur kaupi einfaldlega allt of mikið í stórum verslunum. Grípi með sér alls konar óþarfa á sértilboðum og kostakjörum.
Svo þurfum við reglulega að hreinsa út úr ísskápum okkar og eldhúshirslum og henda pakkamat og öðrum útrunnum neysluvarningi.
Við eigum aldrei að kaupa of mikið heldur lítið í einu, helst ekki nema í næstu máltíð, segir í bókinni.
Margt bendir til þess að á okkar tímum sé sóunin ekki lengur glæpur heldur dyggð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.2.2008 | 09:37
Homo oeconomicus
Ég hef verið að lesa Bréf til Maríu, prófetíska bók þess fróða og vel skrifandi miðaldasagnfræðings, Einars Más Jónssonar.
Þar kemur við sögu rit frá árinu 1978, Demain le Capitalisme (Á morgun, kapítalisminn) eftir franska frjálshyggjuhagspekinginnn Henri Lepage. Sá heldur úti bloggi með því skemmtilega nafni La page lepage.
Ekki hef ég lesið neitt eftir Lepage, en samkvæmt Einari heldur hann fram einhvers konar alræðiskapítalisma. Kapítalisminn er í raun eina alvöru stjórnmálastefnan, því hann er í samræmi við eðli mannsins, segir Lepage.
Manneskjan er með þeim ósköpum gerð að hún hugsar bara um eigin hag. Maðurinn er homo oeconomicus og hægt er að gera grein fyrir allri hegðun hans með hagfræðilegum aðferðum.
Markaðslögmálin eru í raun hið eina lögmál í veröld þar sem allt er vara. Meira að segja börnin. Þau kosta peninga. Sá sem eignast barn er að fjárfesta í ákveðnum gæðum.
Finnist einhverjum ógeðfellt að líta á barn sem neysluvarning ætti hann að lesa bókina The Economic Approach to Human Behavior eftir bandaríska hagfræðinginn Gary Stanley Becker, sem út kom um svipað leyti og Demain le Capitalisme.
Þar heldur Becker því fram að hagfræðileg lögmál ráði nánast öllu í mannheimum, allt frá þróun tungumálsins til messusóknar, svo dæmi séu tekin.
Meira að segja hin hinstu rök mannlegrar tilveru, dauðinn, er hagfræðilegt fyrirbæri. Becker segir flest ef ekki öll dauðsföll sjálfsvíg, því hægt hefði verið að slá dauðanum á frest ef fjárfest hefði verið meira í einhverju af því sem lengir lífið.
Becker lætur ekki nægja að útskýra ýmsa þætti mannlegrar hegðunar með hagfræðirökum. Hann býr til formúlur um þá.
Um börn segir hann að þau sé yfirleitt ekki hægt að nálgast á frjálsum markaði heldur verði fólk að framleiða börnin sjálft. Fjölskyldur nútímans séu hættar hvers konar sjálfsþurftarbúskap nema að þessu leyti. Þær framleiði sjálfar börnin.
Becker heldur því líka fram að þar eð dýrara sé fyrir ríkt fólk að skilja en annað slíti það síður samvistir en fátækara fólk.
Hann hefur einnig tjáð þá skoðun sína að versla ætti með líffæri fólks á frjálsum markaði og fann út viðmiðunarverð á nýrum og lifrum.
Sanngjarnt verð fyrir nýru er 15.000 dollarar en fyrir lifur þarf maður að punga út heilum 32.000 bandaríkjadölum.
Gary Becker fékk nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 1992.
Hann gerir líka út bloggsíðu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.2.2008 | 00:30
Ískirkjan
Í gær var ég á fundi með fólki í ferðaþjónustu á Akureyri.
Það á sér þá eðlilegu skýringu að Akureyrarkirkja er einn vinsælasti viðkomustaður ferðamanna í bænum. Við áætlum að 30- 40.000 túristar komi í kirkjuna á hverju ári.
Þjónusta kirkjunnar við ferðafólk er alltaf að batna. Mörg undanfarin sumur höfum við verið með manneskju í vinnu við að sýna kirkjuna.
Síðustu tvö sumur hefur ferðamannaprestur, sr. Jóna Lísa Þorsteinsdóttir, einnig verið í kirkjunni. Hún annast helgihald og ýmsa þjónustu við ferðafólk.
Akureyrarkirkja er til í myndaalbúmum fólks vítt og breitt um veröldina. Gjarnan taka ferðamenn sér stöðu neðst í kirkjutröppunum og beina myndavélum sínum upp í brekkuna.
Sumir Þjóðverjar kalla Akureyrarkirkju "Eiskathedrale" eða Ískirkjuna. Það er t. d. gert hér og því haldið fram að fólk streymi til kirkjunnar úr öllum heimshornum til að láta skíra börn sín og gifta sig.
Ekki er það nú alveg sannleikanum samkvæmt, ekki frekar en sú staðhæfing þýsku vikkípedíunnar að kirkjan sé nefnd Jóakimskirkja.
Kirkjan heitir heldur ekki Matthíasar-Jochumssonar-kirkjan.
Þessi ferðamaður sér klukkan hvað hann tók þessa mynd af kirkjunni.
Og hér er ágæt ítölsk umfjöllun um Akureyri og Akureyrarkirkju.
Ferðaskríbent stórblaðsins Times skrifar líka vel um höfuðstað Norðurlands og segir Akureyrarkirkju "fascinating Art Deco cathedral".
Þessir túrhestar náðu hefðbundinni mynd af kirkjunni en máttu ekki inn ganga vegna útfarar.
Mynda má Akureyrarkirkju frá ýmsum hliðum eins og sést hér og hér.
Að lokum er hér mynd sem vann í samkeppni Iceland Express en það ágæta flugfélag flýgur tvisvar í viku milli Akureyrar og Kaupmannahafnar sumarmánuðina.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.2.2008 | 23:58
Að elska Guð og náungann
Maðurinn er meira en hold og bein. Hann er andleg vera. Hann er mold og himinn. Hann er skapaður í mynd Guðs. Hver einasta manneskja er barn Guðs.
Allar þessar lýsingar á manninum tjá að við eigum öll hlutdeild í veruleika sem er okkur æðri og meiri.
Það guðlega býr í okkur öllum.
Þess vegna eru náin tengsl milli þess að elska Guð og elska náungann.
Elskir þú Guð, elskar þú náungann. Í náunga þínum sérðu verksummerki Guðs.
Alltaf þegar þú stendur andspænis náunga þínum stendur þú andspænis nokkru sem er meira en þið báðir, þú og hann.
Stundum heyri ég trúaða segja að ekki sé hægt að elska náungann nema að elska Guð.
Í kristni er þetta í raun þveröfugt.
Ekki er hægt að elska Guð nema elska náungann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
10.2.2008 | 14:33
Að gleyma sér
Við eigum að blómstra. Við eigum að uppgötva hæfileika okkar og finna þeim farveg. Við eigum að finna okkur sjálf. Og til þess að finna okkur sjálf þurfum við að leita okkar.
Við erum upptekin af okkur sjálfum. Eigum að vera meðvituð um okkur. Sættast við okkur.
En við höfum sennilega aldrei verið firrtari okkur sjálfum en í þessari stöðugu naflaskoðun okkar.
Ástæðan fyrir því gæti verið sú að við finnum okkur ekki bara í okkur.
Þó að mikilvægt sé að þekkja sjálfan sig, kosti sína og galla, drauma sína og kvíðaefni, er ekki síður dýrmætt að upplifa sjálfan sig meira en sig, sem hluta af nokkru stærra og meira en ein einstök manneskja getur nokkurn tíma verið.
Öll trúarbrögð eiga sameiginlegt að þar er manneskjan hluti af stærri heild.
Til þess að finna hana þurfum við eitt:
Að gleyma okkur sjálfum.
Einmitt þannig tökum við til orða þegar við upplifum mikla hamingju eða gleði. Þá segjum við:
"Ég gleymdi mér alveg."
Í austrænni speki er þetta orðað þannig að Guð sé dansarinn en þú dansinn.
Þú ert dansaður eða dönsuð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.2.2008 | 01:39
Málefnaleg umræða...
Viðbrögð frá lesendum á moggabloggi....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)