Færsluflokkur: Bloggar

Gamlar sögur

Sumir halda því fram að Biblían sé ekkert nema gamlar sögur sem gerðust fyrir löngu og ómögulegt sé að sanna að hafi gerst.

Sumir biðja um staðreyndir, takk fyrir. Fréttir af raunverulegu fólki og raunverulegum atburðum.

Verði þeim að góðu.

Stundum erum við svo hrædd um að missa af því sem skiptir máli að við missum akkúrat af engu nema því sem skiptir máli.

Biblían hefur ótalmargt að geyma sem skiptir máli og flest af því er sett fram í sögum. Oftar en einu sinni er um það talað í Nýja testamentinu að Jesús hafi talað til lærisveina sinna í sögum og m. a. s. sagt að öðruvísi hafi hann ekki til þeirra talað.

Í okkar samfélagi virðumst við á margan hátt hafa glatað hæfileikanum til að hlusta á sögur. Þeim virðist fara fjölgandi sem leggja að jöfnu gamla sögu og gamla lygi.

Jesús var sagnameistari eða "storyteller". Hann gerði sér grein fyrir mætti sögunnar. Hann þekkti hvað sagan getur verið nærgöngul. Við getum sett okkur inn í sögu en erfiðara er að setja sig inn í línurit og tölur.

Og þegar öllu er á botninn hvolft er fátt raunverulegra en góð saga sem hreyfir við manni og snertir sálina.

Þegar ég lít til baka sé ég að sennilega hefur fátt mótað mig meira en sögurnar. Sögur sem sagðar voru um sérkennilegt fólk. Ævintýrin sem amma sagði mér. Biblíusögurnar í sunnudagaskólanum. Bækurnar sem ég las. Bíómyndirnar sem ég sá.

Vá! 

Ég þakka sögunum. Þær hafa borið mig hingað.


Hin bljúga bæn

Bæn er meira en orð og hugsanir.

Bæn er þögn. Bæn er vitundin um að maðurinn er hvorki sá sterkasti né sá æðsti. Bæn er óhugsandi án auðmýktar. Bæn er að vita að maður á ekki heimtingu á hlutunum.

Bæn er sú viska að vita sig ekkert eiga. Hún er allsleysi og nekt. Hún er fátækt. Hún er hið sanna tungumál öreigans.

Bænin er andstæða lífshátta nútímans. Nú á dögum eigum við heimtingu á öllu. Nú gildir að gera kröfur til lífsins. Fá mikið út úr því. Kreista það.

Nútíminn trúir ekki á neitt nema þetta líf. Við höfum ekki nema þessa einu ævi. Þessi veruleiki er okkar eini séns. Og stöðugt sá síðasti.

Tækifærið er að renna okkur úr greipum. Stundaglasið gæti verið að tæmast.

Við lifum í skugga dauðans og menning nútímans er á margan hátt dauðamenning. Miðuð við dauðann en ekki lífið.

Sá sem biður þorir að vera auðmjúkur. Hann segir: "Verði þinn vilji." Hann treystir framvindunni.

Bæn er að treysta lífinu.

 


Ég er langsætastur

skinny-fat-phobia[1]Við vorum að vigta okkur í búningsklefum Sundlaugar Akureyrar, bosmamiklir alvörukarlmenn, ekki skornir við öxl eftir jólaát, þorrablót og bolludag, loksins þegar við dröttuðumst í sundið eftir þær tarnir - enda kominn sprengidagur.

Menn heyrðust taka andköf þegar stafræn vogin birti þeim nöturlegan sannleikann.

Einn vildi ekki á vigtina. Kvaðst ekkert hafa með það að gera. Hann væri ánægður með sig eins og hann væri.

"Þegar ég var lítill sagði mamma mín mér að ég væri fallegur drengur. Ég sé enga ástæðu til að draga það í efa. Mamma sagði alltaf satt og hafði alltaf rétt fyrir sér," sagði hann skælbrosandi og smellti teygjunni á nærhaldinu yfir neðstu ístruna á sér.

Og tilfellið var að maðurinn var miklu myndarlegri en við hinir sem þræddum á okkur larfana, niðurbrotnir og eyðilagðir og vorum að íhuga hvort við ættum að þora að lúskrast út á meðal fólks.


Fjölmiðlatrú

tru-og-sjonvarpÍ athugasemd við einn af fjölmiðlapistlunum mínum komu til tals tengsl fjölmiðla og trúar. Glöggur lesandi benti á að þegar fjölskyldan safnaðist saman við imbakassann væri þar um helgistund að ræða - og kassinn/skjárinn altarið.

Í sumarbúðunum við Vestmannsvatn þar sem ég vann fjögur sumur er altari í aðalsal. Yfir því er fallegur upplýstur kross. Altarið er gamalt lampaútvarp, frá þeim tíma er viðtæki voru alvöru stofumublur. Þegar ég vann á Vestmannsvatni var tækið hulið fallegri yfirbreiðslu en nú þjónar gamla lampaútvarpið hlutverki sínu kviknakið.

Tímanna tákn?

Fjölmiðlatrú hefur orðið mörgum umhugsunarefni. Einn af mínum uppáhaldsguðfræðingum, Þjóðverjinn Horst Albrecht, lét það verða sitt síðasta verk að skrifa bók um efnið áður en hann andaðist á fimmtugasta aldursári. Bókin heitir "Die Religion der Massenmedien". Þar skilgreinir Albrecht trúarlegar upplifanir í heimi fjölmiðlanna og í lokakafla ritar hann drög að fjölmiðlaguðfræði.

Eftirminnileg er umfjöllun Albrechts um notkun auglýsingabransans á trúarlegum táknum og aðferðum. Ritskýring hans á auglýsingu fyrir eðalviskíið Chivas Regal er hrein snilld.

Í bók sinni "Television and Religion. The Shaping of Faith, Values and Culture" veltir bandaríski guðfræðingurinn William F. Fore fyrir sér hvernig sjónvarpið mótar gildismat okkar og menningu.

Þar heldur hann því fram að undirliggjandi hlutverk sjónvarpsins sé að segja okkur hvernig veröldin sé, hvernig hún virki og hvaða merkingu hún hafi.

Fore notar skemmtilega líkingu til að útskýra það.

Ímyndum okkur að við séum í báti á leiðinni yfir lygnt fljót. Það er svo breitt að við sjáum ekki hinn bakkann þegar við leggjum af stað. Á siglingunni mætum við öðrum bátum. Sumir fara hratt, aðrir rólega, sumir eru stórir með mikinn farm, aðrir litlir með engan flutning nema ræðarann. Við erum upptekin af því að skoða bátana og það sem þeir flytja, svo upptekin, að við gleymum því að öll erum við borin áfram af fljótinu sjálfu.

Fljótið sjálft er þetta undirliggjandi og oft dulda hlutverk sjónvarpsins.

Þessi síðarnefnda bók er aðgengileg á netinu. Hana má nálgast hér.


Bænin

bidjandihendurVið verðum fyrir áföllum, harmi og vonbrigðum.

Þá liggur okkur ekki mest á að fá rökrænar skýringar á bölinu og þjáningunni í veröldinni. Þá eigum við heldur ekki að byrja á því að sætta okkur við orðinn hlut, láta áhyggjurnar hverfa, sorgirnar hjaðna og kvíðann eyðast.

Þá er okkar helsta verkefni að öðlast traust til lífsins á ný.

Til þess var okkur gefin bænin.

Í bæninni nálgumst við Guð með brennandi spurningar á vörunum og hjörtun full af kvíða, sorg og áhyggjum.

Ef til vill kunnum við aldrei betur að biðja en þegar við vitum ekki okkar rjúkandi ráð.

Jesús kom til þeirra Mörtu og Maríu.  Marta var á þönum í kringum hinn góða gest en María settist við fætur hans og naut þess að vera í návist hans.

Jesús sagði að hún hefði valið góða hlutann.

Þann hluta veljum við þegar við biðjum.

Þá setjumst við hjá Jesú Kristi. Finnum nálægð hans. Skynjum elsku hans. Öðlumst traust og trú.

Geðlyf hjálpa mörgum og hafa blessað og bjargað.

Auðvitað eiga þeir að taka töflurnar sínar sem þurfa þess.

Kunningi minn úr læknastétt sagði mér samt að hann væri viss um að minnka mætti notkun á slíkum lyfjum í okkar heimshluta ef við kynnum betur að nýta okkur gjöf bænarinnar.

Værum meiri María en minni Marta.


Um fjölmiðlafrumvarpsdrauginn

Ítrekað hef ég reynt að vekja upp fjölmiðlafrumvarpsdrauginn - en þau drög liggja líklega einhvers staðar falin í skúffu.

Eitt af því sem hvað sárast var undan kvartað þegar hið alræmda fjölmiðlafrumvarp var lagt fram (sem var víst ekki annað en breyting á gildandi útvarpslögum) var að engin umræða hefði verið um málið.

Það var held ég alveg rétt. Og umræðan sem auglýst var eftir hefur varla farið fram síðan - allra síst af þeim sem mest söknuðu hennar.

Lýðræðisleg menning er meðal annars í því fólgin að ólík viðhorf fá að takast á. Fjölmiðlar eru helsti vettvangur þeirra átaka. Þess vegna skiptir máli hverjir eiga fjölmiðlana.

20. október árið 2005 birtist leiðari í Fréttablaðinu. Þar segir:

"Þeir miðlar sem standa sig ekki, þykja óspennandi, óvandaðir eða ótrúverðugir, tapa kaupendum og auglýsendum og lúta í lægra haldi fyrir vandaðri eða vinsælli miðlum. Um þetta eru nokkur nýleg dæmi á okkar litla fjölmiðlamarkaði, bæði hvað varðar dagblöð og ljósvakamiðla. Þetta hlutverk markaðarins eiga stjórnmálamenn ekki að taka að sér, enda stríðir það gegn grundvallarreglum lýðræðisins."

Vinstri menn á Íslandi hafa helst gerst talsmenn þessara frjálshyggjuviðhorfa til fjölmiðla. Markaðurinn á að ráða. Ríkið á ekki að vera með puttana í þessu.

Árið 1997 sendu kaþólsku og evangelísku kirkjurnar í Þýskalandi frá sér sameiginlega yfirlýsingu um fjölmiðla.

Þar er því haldið fram að mælikvarðinn á góða fjölmiðlun sé ekki sá hvort takist að selja hana neytendum heldur hvort hún þjóni manneskjunni og möguleikum hennar til góðs lífs.

Þeirri grundvallarþörf mannsins að hafa samskipti sé í síauknum mæli sinnt af fjölmiðlum. Þeir verða því alltaf meiri áhrifavaldar á einstaklinga og samfélög. Fjölmiðlar hafa þróast bæði til góðs og ills en ekki er allt í mannsins þágu sem er efnhagslega og tæknilega mögulegt.

Í yfirlýsingunni er sérstaklega vikið að því þeirri þróun í veröldinni að fjölmiðlavaldið færist sífellt á færri hendur. Hún leiðir til minnkandi fjölbreytni og jafnvel skoðanaeinræðis. Það er ógnun við lýðræðið.

"Fjölmiðlar og opinber samskipti þjóna manninum ekki lengur þegar sérhagsmunir ráða ferðinni og fyrirtæki komast í markaðsráðandi stöðu. Andspænis slíku verður að tryggja gagnsæi og takmörkun fjölmiðlavalds, afnema forréttindi og skapa réttlátar aðgangsleiðir. Fjölmiðla- og samskiptakerfið verður að vera þannig að það hvetji ekki til samþjöppunar valds, hvorki á sviði stjórnmála né viðskipta, upplýsinga eða tækni," segir í yfirlýsingunni sem má lesa í heild sinni hér.


Tyggjó fyrir skynfærin

tyggjoReiðilestur minn um fjölmiðla fékk mikil viðbrögð. Aðsóknarmet var slegið á bloggsíðunni.

Mér leið eins og pokapresti sem messað hefur fyrir fullri kirkju.

Ekki sagði ég samt neitt nýtt í færslunni. Fyrir næstum því aldarfjórðungi skrifaði bandaríski fjölmiðla- og menningarkrítíkerinn Neil Postman þá frægu bók "Amusing Ourselves to Death: Public Discourse in the Age of Show Business". Þar heldur hann því fram að við verðum sífellt heimskari og það sé fyrst og fremst sjónvarpinu að kenna. Sá miðill breyti hvers konar samræðu í skemmtun. Alvarleg mál séu gerð að afþreyingu og almenningur sé smám saman að verða ónæmur á þau.

Margir hafa spunnið þennan þráð Postmans áfram, þar á meðal þýski blaðamaðurinn Robert Islinger í bók sinni "Vom Abendland zum Disneyland. Wohin steuern unsere Medien?" sem út kom árið 2003 (ISBN 3-7632-5393).

Islinger heldur því fram að Þjóðverjar viti sífellt minna. Hann talar um menningarlegt hrun þjóðar sinnar og telur fjölmiðlana helst bera ábyrgð á því.

Í bókinni rekur Islinger sögu þýsks sjónvarps og þau straumhvörf sem urðu með tilkomu einkarekinna sjónvarpsstöðva. Samkeppni um auglýsendur og áhorfendur varð þess valdandi að mest áhersla var lögð á ódýrt efni sem höfðaði til sem flestra.

Sú dagskrárformúla hefur haft áhrif á fréttaflutning og blaðamennsku nútímans. Þar verður afþreyingargildið sífellt mikilvægara og með hverju árinu verður erfiðara að greina á milli frétta og fræðsluefnis annars vegar og hins vegar skemmtunar og auglýsinga.

Sjónvarpið hefur umbreytt öðrum fjölmiðlum, bæði hljóðvarpi og blöðum. Dagblöð verða alltaf sjónvarpslegri með mörgum og stórum myndum á kostnað texta. Umfjöllunin verður yfirborðskennd.

Eitt sinn var menning okkar grundvölluð á orðinu og hæfileika okkar til að hugsa. Nú erum við ofurseld valdi myndanna og yfirborðsmennskunni.

Fjölmiðlar gegna ekki lengur því hlutverki fyrst og fremst að vera "gluggi út í veröldina" og stuðla að þátttöku borgaranna í samfélaginu.

Þeir eru fyrst og fremst tyggjó fyrir skynfæri okkar.


Reiðilestur um fjölmiðla

Það sem skiptir máli í íslensku þjóðfélagi er ekki það sem gerist þar heldur hvernig fjölmiðlar fjalla um það sem gerist þar.

Sjálf Spaugstofan virðist hætt að bregða spegli spaugsins á atburði úr íslenskum veruleika. Að eigin sögn voru þeir Spaugstofumenn í nýjasta þætti sínum ekki að gera grín að andlegri lurðu borgarstjórans í Reykjavík heldur því hvernig fjallað var um andlega lurðu borgarstjórans í Reykjavík.

Fjölmiðlafólk landsins er á fullu við að gera okkur grein fyrir því hvernig fjölmiðlafólk fjallar um veruleikann.

Uppáhaldsviðfangsefni fjölmiðla eru fjölmiðlar, einkum þó hinir fjölmiðlarnir. Íslenskir fjölmiðlar virðast fyrst og fremst hafa áhuga á sér sjálfum.

Á sama tíma er skorturinn á faglegri fjölmiðlagagnrýni nánast algjör.

Sú skoðun virðist útbreidd meðal fjölmiðlafólks að það sé heldur verra ef það menntar sig til starfa sinna.

Umfjöllun sem ber vott um góða þekkingu blaðamanns á viðfangsefni sínu er alltof sjaldgæf í íslenskum fjölmiðlum.

Yfirborðsmennskan er allsráðandi.

Veruleikinn í íslenskum fjölmiðlum er sýndarveruleiki.

Fjölmiðlar hafa vald og áhrif.

Íslenskir fjölmiðlar virðast ætla að nota vald sitt og áhrif til að búa hér til aulaþjóðfélag.

 


Klerkur í kukli

galdrarpesturEnskur kollegi minn, Christopher Horseman, fer ekki troðnar slóðir í starfi sínu.

Nýlega stofnaði hann fyrirtæki og útvegar fólki prest til giftinga og útfara. "Rent-a-Rev" nefnist það. Séra Horseman tekur að sér um 250 útfarir á ári og þær þurfa ekki að vera kristnar. Reyndar er minnihluti þeirra samkvæmt rítúali ensku kirkjunnar og brátt verða þær alveg úr sögunni.

Biskupinn þar sem hinn frjálslyndi prestur starfar hefur nefnilega bannað honum að annast athafnir í nafni þeirrar kirkju.

Horseman ætlar ekki að láta það aftra sér og heldur áfram að bjóða þjónustu sína.

Til að bæta samkeppnishæfni sína er hann byrjaður í þriggja ára fjarnámi í vikkatrú, sem er einhvers konar nútímaútgáfa af nornagaldri.

Námið fer fram við College of the Sacred Mists í Kaliforníu.

Skólastýra þar er engin önnur en Lady Raven Moonshadow.

Þetta má lesa á heimasíðu enska tímaritsins Church Times.

Ef til vill er þetta lúkkið á prestum framtíðarinnar?


Hrossakjötsveður

snowstorm[1]Tvo vetur bjó ég í útlöndum og þar kom aldrei stórhríð. Aldrei fékk maður afsökun fyrir því að vera heima hjá sér. Neyddist til að fara út alla daga.

Þetta eru einhverjir alhörðustu vetur sem ég hef lifað.

Nú er vont veður fyrir sunnan og ég öfunda fólkið þar. Vel má njóta óveðurs kunni maður til verka.

Hægt er að skríða upp í sófa með góða bók, hlusta á gufuna, kveikja á kertum og ráða krossgátur. Það má skrifa snilldarblogg eða lesa þau - eins og þú ert einmitt að gera núna.

Gráupplagt er að nota svona veður til að véla um splunkunýjan borgarstjórnarmeirihluta.

Ólafsfirðingar höfðu fyrir sið að sjóða hrossakjöt þegar brast á stórhríð. Hrossakjöt þarf langa suðu. Óþarfi er að taka fram að fátt mígur meira í munni en spikfeitt hrossakjöt.

Myndin með færslunni er víst tekin í Gúlaginu. Hríðarbylur minnir okkur líka á að þó að margt herji á okkur á Fróni er samt skárra hér en víða annars staðar.

Nú er veðrið að versna hérna fyrir norðan. Þetta er reyndar ekki alveg heiðarleg stórhríð, grenjandi norðanátt með glerhörðum snjókornum sem grafast inn í andlitið á manni, heldur frekar gruggugur sunnanstormur.

Nú er ekki eftir neinu að bíða.

Ég brýst til búða á hömmernum og fæ mér saltað hrossakjöt með hnausþykku og sólskinsgulu spiklagi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband