Færsluflokkur: Bloggar
24.1.2008 | 09:01
Vængjasláttur á malbiki
Við erum engir englar. Höfum ekki vængi. Ferðumst á fótum og getum því einungis gengið, hlaupið eða stokkið.
Ekki flogið. Erum jarðbundin. Hreyfum okkur eftir yfirborðinu. Erum háð snertingunni við yfirborð þess.
Englar hafa vængi. Þeir geta flogið. Þurfa ekki jörðina til að geta ferðast heldur svífa um loftin.
Englar eru ekki jafn háðir jörð og menn. Englar eru himneskir.
Við erum jarðnesk. Þess vegna er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt að við hugsum um það jarðneska.
Um veðrið. Hús og bíla, mat og föt, sjónvarpstæki og nuddpotta.
Og síðast en ekki síst er mannlegt að hugsa um peninga. Við þurfum pening. Við þurfum að vinna til að eignast pening. Við þurfum hærra kaup. Við þurfum meiri yfirvinnu. Við þurfum.
Verkefnin bíða okkar, ótalmörg og krefjandi. Í vinnunni og heima. Lífið er sko enginn leikur. Það er dauðans alvara.
Við erum mikilvæg og gegnum mikilvægum hlutverkum. Við erum þung og berum þungar byrðar.
Við erum engir englar. Höfum ekki vængi - en þótt við hefðum þá gætum við ekki flogið með öll þessi þyngsli.
Þau draga okkur niður.
Sífellt nær jörðinni og ef við gætum okkar ekki draga þau okkur alla leið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
22.1.2008 | 17:12
Blessaðir óvinirnir
Nú á dögum eiga öll dýrin í skóginum að vera vinir. Nútíminn er óvinveittur hvers konar óvináttu.
Það veit ekki á gott.
Miklu betra er að eiga ærlega óvini en vini fulla af smjaðri og fagurgala.
Er ekki pólitíkin á Íslandi ein sönnun þess?
Hægara er að verjast hnífslagi í brjóstið en rýtingsstungu í bakið.
"Við" skilgreinum okkur út frá "þeim". Hluti þeirrar myndar sem ég geri mér af sjálfum mér er sú mynd sem ég hef af óvinum mínum. Því sem ég er ekki og vil ekki vera. Óvinirnir skerpa sjálfsmynd mína.
Sá sem ekki þekkir óvini sína þekkir ekki sjálfan sig. Firring nútímamannsins stafar meðal annars af því að honum er helst ekki leyft að eiga óvini.
Nútíminn vill bæla niður agressjónir. Það er óheilbrigt og leiðir til yfirborðsmennsku og geðrænna truflana.
Getur nokkur átt vini nema hann kunni líka að eiga óvini?
Óvinir eru dýrmætir - enda eigum við að elska þá.
Hvað værum við KA-menn án Þórsaranna?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
20.1.2008 | 15:24
Þegar ég gerðist klæðskiptingur
Um árabil hafa verið mömmumorgnar í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju, á miðvikudagsmorgnum yfir vetrartímann. Þeir eru merkilegt grasrótarstarf, skipulagðir og framkvæmdir af mömmum.
Ég var að róta í gömlum myndum og rakst þar á þessa. Á henni gefur að líta mig ásamt Höllu Gunnarsdóttur, snyrtifræðingi. Myndin gæti verið tíu ára gömul.
Mömmurnar spurðu mig hvort Halla mætti farða mig og breyta mér í konu. Ég hélt það nú.
Ég gerði mér víst ekki alveg grein fyrir hversu gagngerar og róttækar breytingar Halla vinkona mín ætlaði að gera á mér enda er ég glaðhlakkalegur á myndinni.
Ekki var nóg með að Halla málaði mig. Sett var á mig hárkolla og ég klæddur í kjól og skó með háum hælum.
Að sögn viðstaddra var ég einstaklega sjarmerandi og sexí kona.
Þegar umbreytingunni var lokið birtust óvænt hjónaleysi í viðtal. Ég var búinn að taka að mér að koma þeim í eina sæng.
Þau ráku upp stór augu þegar þau sáu prestinn sem átti að gifta þau.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
18.1.2008 | 12:06
Hreinar meyjar í hjólbörum
Einn frægra prédikara kirkjunnar, Abraham a Santa Clara, fyllti kirkjur Vínarborgar á 17. öld. Hann flutti ræður sínar af sannri snilld en gat látið tilfinningarnar ná tökum á sér lægi honum mikið á hjarta.
Einn góðan drottinsdag fjallaði Abraham um lauslætið í Vínarborg sem honum blöskraði. Í hita augnabliksins gleymdi hann sér og staðhæfði í stólnum að ekki væru fleiri hreinar meyjar í borginni en svo, að aka mætti þeim út úr henni í einum hjólbörum.
Safnaðarfólki sárnaði mjög að sitja undir þessum ummælum prédikarans. Eftir messu var honum gert ljóst að ekki kæmi annað til greina en að hann leiðrétti þau.
Abraham þráaðist eitthvað við en lofaði síðan að færa þetta til betri vegar strax næsta sunnudag.
Þá sté hann í stólinn og hóf prédikun sína á þessum orðum:
"Kæri söfnuður!
Síðasta sunnudag fullyrti ég að lauslætið í Vín væri svo mikið að ekki þyrfti nema einar hjólbörur til að aka út úr borginni þeim hreinu meyjum sem enn fyrirfinnast hér.
Ég viðurkenni fúslega að þau ummæli mín voru ekki fullnægjandi og því má auðveldlega misskilja þau.
Ég gleymdi nefnilega að geta þess hversu margar ferðir þyrfti að fara með hjólbörurnar en læt ykkur eftir, góðu vinir, að ráða þá gátu."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.1.2008 | 14:36
Ófriður sé með yður
Við höldum að friður sé fólginn í rólegheitum. Friður er áreitaleysi. Friður er að vera látinn í friði. Friður er þögn og kyrrð.
Friður er suðið í boltalaga fiskiflugum í hrörlegri sveitakirkju í því sem næst yfirgefinni sveit.
Friður er kjötsviminn eftir steikina, unaðs- og ónotavíman sem færist yfir okkur þegar meltingarfærin komast á yfirsnúning.
Friður er nautnalyf, kannabis fólksins.
"Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur," segir Jesús.
Það á líka við um friðinn sem hann vill gefa okkur. Hann er enginn kjötsvima- og fiskiflugufriður.
Jesús vill ekki svæfa okkur, heldur vekja. Friður hans er andlegur kraftur, eldsneyti til lífs og starfs.
Friðurinn sem hann vill gefa okkur er ekki friður til að una sæll á sínum bás þar sem baulað er eftir næstu tuggu.
Friður Jesú Krists opnar sálarlásana og leysir okkur af básunum.
Sá sem þiggur þann frið getur ekki látið ófriðinn í friði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.1.2008 | 08:33
Þakklætið er þjóðhagslega óhagkvæmt
Hvers vegna fáum við einhvern veginn aldrei nóg?
Getur verið að hin stanslausa ófullnægja, þessi óseðjandi magi, þetta tóm sem aldrei tekst að fylla, stafi af síminnkandi hæfileika okkar til að vera þakklát?
Við verðum alltaf fátæk ef við kunnum ekki að þakka, sama hversu mikið af peningum við eignumst.
Við verðum alltaf svöng ef við kunnum ekki að þakka, sama hversu mikinn mat við borðum.
Við verðum alltaf smá og veik ef við kunnum ekki að þakka, sama hversu stórkostleg við erum.
Við sjáum svo fátt þakkarvert. Við sjáum ekki það sem við höfum. Daginn út og inn er verið að kenna okkur að horfa fyrst og fremst á það sem við höfum ekki. Daginn út og inn er verið að kenna okkur að sætta okkur ekki við það sem við höfum. Daginn út og inn er verið að ala á ófullnægjunni í okkur. Við eigum að vera upptekin af því sem okkur vantar.
Hugsaðu ekki um það sem þú ert. Hugsaðu frekar um það sem þú gætir orðið.
Hugsaðu ekki um fiskana sem komu í netið. Hugsaðu frekar um alla hina sem fá að synda um óáreittir í sjónum.
Hugsaðu ekki um daginn í dag. Hafðu frekar áhyggjur af morgundeginum.
Vertu hrædd sál, stöðugt upptekin af öllum þínum brýnu þörfum, öllum þínum skorti og sáru nekt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.1.2008 | 12:18
Tækni í stað siðferðis?
Rafaugað sér sífellt lengra og betur. Með hverju árinu verður erfiðara að komast undan tilliti þess. Ef þú áræðir út úr húsi í Lundúnaborg máttu reikna með að eftirlitsmyndavélarnar fylgist með þér í um það bil átta mínútur af hverjum tíu sem þú ert að heiman.
Síðustu árin hefur sala á þessum myndavélum aukist mjög á Íslandi. Þótt ekki séu hafðar jafn nánar gætur á borgurum þessa lands og víða annars staðar hefur þessi tækni sannað gildi sitt á breyskum Íslendingum sé mark takandi á fréttum.
Myndavélarnar sýna okkur stela veskjum í búningsklefum og veitast að vegfarendum með brandana brugðna þannig að ekki þarf lengur að fara í grafgötur um hverjir séu sökudólgar í þessu þjóðfélagi.
Nú harðnar sumsé óðum í ári fyrir hvers konar dólga, skíthæla, svikahrappa, lygara, þjófa, fanta og morðingja. Alltaf verður snúnara að komast upp með fólsku og glæpi. Þökk sé tækninni.
Þó leysir tæknin ekki allt. Eftirlitsmyndavélarnar geta komið upp um lögbrot og þær hafa ábyggilega forvarnargildi. Samt leysa þær siðferðiskenndina ekki af hólmi. Þær koma ekki í staðinn fyrir heiðarlegar manneskjur með heilbrigð viðhorf.
Og komi tæknin inn hjá okkur þeirri hugsun að í lagi sé að fremja glæpi meðan ekki sjáist til manns skapar hún ekki minni vanda en henni var ætlað að leysa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.1.2008 | 20:23
Söguhroki
Ísland nútímans er Ísland genginna kynslóða, þeirra sem búa á elliheimilunum og þeirra sem hvíla í moldinni. Það Ísland sem við þekkjum varð til mann fram af manni og kynslóð eftir kynslóð.
Við erum það sem við erum vegna þess að við hættum að vera það sem við vorum, segir fólk. Það má til sanns vegar færa. Nú þekking fellir gamla úr gildi. Ný tækni gerir gamla úrelta. Ný viðhorf koma í stað fornra.
Svo hugfangin erum við stundum af okkar tímum og svo sannfærð um ágæti þeirra að rætt er um þá sem "endi sögunnar" svo notað sé orðfæri bandaríska stjórnmálafræðingsins Francis Fukuyama.
Nútíminn telur sig yfir fortíðina hafinn. Á sama hátt mun framtíðin sennilega telja sig betri og merkilegri okkar tímum. Hvaða einkunn munu þeir fá hjá þeim komandi, þegar allir flottu gemsarnir standa máðir í hillum minjasafnanna og þekking okkar er orðin aðhlátursefni í fermingarveislunum?
Við höfum engin efni á því að setja okkur á háan hest og ættum að skoða fortíð okkar sömu augum og við viljum að framtíðin sjái okkur með. Við viljum verða metin á okkar forsendum og í ljósi þeirrar þekkingar sem við búum yfir en ekki í ljósi þess sem var okkur hulið.
Við vonum að komandi kynslóðir geti fundið margt eftirbreytnivert hjá okkur og við vonum líka að afkomendur okkar láti þau mistök sem við gerum verða sér víti til varnaðar.
Við vonum að framtíðin geri sér grein fyrir því að hún er þar sem hún verður vegna þess að hún var þar sem við eitt sinn vorum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
12.1.2008 | 11:30
Trúin sér lengra
Sumir halda því fram að Guð sé ekki til vegna þess að hörgull er á því hagstæða en skammturinn óþarflega drjúgur af því slæma.
Þeir spyrja líkt og séra Matthías í kunnum sálmi: "Hvað hjálpar heilög trú?"
Ekki reiðir þeim neitt betur af sem trúa en hinum? Verða þeir ekki fyrir allskonar áföllum, þrátt fyrir trúna? Bera þeir eitthvað meira úr býtum en aðrir?
Við erum kannski alveg til í trúa á Guð sem grípur inn í framvinduna, sveigir tilveruna í rétta átt, lætur hlutina gerast og góða atburði verða.
Ef við erum að trúa á Guð á annað borð má aldrei afskrifa hann. Hann getur gert ótrúlega hluti. Við skulum aldrei missa vonina.
En trúin er samt miklu dýpri, víðari, lengri og hærri en svo að hún gangi einungis út á að hagstæðu atburðirnir verði og góðu hlutirnir gerist. Trú sem takmarkast við það er grunn, þröng, stutt og lág. Og þannig trú er í raun einskis virði. Hún kulnar um leið og okkur fer að ganga illa, hún kafnar í áföllunum og visnar í skortinum. Hún lýsir bara í ljósinu en hverfur í myrkrinu.
Á Írlandi eiga þeir margar fallegar blessunaróskir. Ein er svona:
"Morgundöggin lífgi hendur þínar og fætur,
hádegissólin vermi hjarta þitt,
að kvöldi leiði rísandi máninn þig heim."
Við skulum vera dugleg við að óska hvert öðru alls þessa.
En trúin sér enn lengra.
Þegar morgundöggin þornar áður en við fáum snert hana, hádegissólin felur sig bak við dökk ský og enginn máni sést á himni sér trúin lengra og hærra.
Hún gefur því góða og fagra enn meiri glans og fyllingu og hún ein sveipar neyðarmyrkrið vonarbirtu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
10.1.2008 | 21:37
Byrjaður á jólainnkaupunum
Ekki lærir mannskepnan af reynslunni.
Ár eftir ár kaupum við alls konar varning á uppsprengdu verði fyrir jól, vitandi að strax eftir jól er allt klabbið falt fyrir smáaura.
Í gær keypti ég mér londonlamb með sjötíu prósenta afslætti og í dag fékk ég mér þessa fínu úlpu á sömu kjörum.
Útsölurnar eru sem sagt byrjaðar og ef eitthvert vit væri í manni keypti maður allar jólagjafir núna ítem hátíðarklæðnað.
Þessa dagana bjóða þeir meira að segja upp á bifreiðar sem kosta kúk með kanil.
Jólamaturinn er boðinn á þvílíku absúrdverði að varla tekur því að borga hann. Upplagt að fylla frystikistuna af honum næstu dagana.
Eftir rúma ellefu mánuði veiðir maður svo hróðugur upp úr henni frostþurrkað lambalæri og klakabrynjaðan kalkúna. Geymslubragðið hverfur með sæmilega öflugri maríneríngu. Gefur bækurnar sem komu út fyrir þessi jól og lætur sig hafa það að klæðast ársgamalli tísku.
Þannig er hægt að græða stórfé á næstu jólum.
Og með fyrirhyggjunni ætti maður síðan að geta gert óvenju vel við sig páskana þar á eftir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)