Færsluflokkur: Bloggar

Af jörðu erum við

gaiaUndanfarna vetur hef ég kennt örlítið í háskólanum á Akureyri og reynt að fræða nema í kennaradeild um kristna siðfræði.

Eitt sinn urðu þar miklar umræður um sköpunarsöguna í fyrstu Mósebók. Sumir nemenda minna vildu endilega bera hana saman við þróunarkenninguna. Ég benti þeim á að textinn væri ekki náttúruvísindalegur. Það skemmdi hann bara að lesa hann með slíkum gleraugum. Sköpunarsagan ætti við okkur annað erindi.

Eftir kennslu mætti ég Haraldi Bessasyni, þáverandi rektor, í anddyri skólans. Hann spurði mig frétta og ég sagði honum frá hinum fjörlegu diskúsjónum um sköpunarsöguna.

Haraldur sagðist einmitt hafa verið í svipuðum umræðum. Hann hefði verið að fjalla um norrænar sköpunarsögur og hefði leyft sér að fullyrða að þær væru dagsannar.

Í Vafþrúðnismálum er þetta erindi:

Úr Ymis holdi
var jörð um sköpuð,
en úr beinum björg,
himinn úr hausi
ins hrímkalda jötuns,
en úr sveita sjór.

 

Sköpunarsögur norrænna manna sögðu þeim að jörðin væri lifandi vera. Hún væri sömu náttúru og manneskjurnar, fæddi þær af sér og eignaðist þær að lokum.

Tilvera manns og jarðar er samtvinnuð.

Mér finnst þetta ekki bara dagsatt.

Ég held að það sé lífsspursmál fyrir nútímamanninn að eignast þessa gömlu sköpunarvitund.

 


Trúarflóran

secularlivesFúndamentalistar, hvar í hópi sem þeir standa, aðhyllast ósjaldan mjög einfalda heimsmynd. Hún er annað hvort eða.  Annað hvort er fólk kristið - eða ekki. Annað hvort er fólk trúað - eða ekki. Annað hvort er fólk vantrúað - eða ekki.

Trúarbragðaflóran er fjölskrúðugri en þetta. Heimur trúarinnar er ekki svarthvítur. Þar má þvert á móti finna marga liti og litbrigði.

Það kemur vel fram í lítilli bók sem ég er að lesa þessa dagana. Hún er eftir prest í ensku biskupakirkjunni, Alan Billings, og heitir Secular Lives, Sacred Hearts. The role of the Church in a time of no religion (ISBN 0-281-05704-4).

Kenning höfundar er sú að tími trúarbragðanna sé ekki liðinn, þrátt fyrir undirtitil bókarinnar. Billings bendir á að enda þótt kirkjusókn í Englandi hafi minnkað sé fólk ennþá undir áhrifum kristninnar og tilfinningalega tengt kristinni trú.

Billings segir hið menningarlega samhengi bresks samfélags kristið enda sýni kannanir að Englendingar telji sig kristna þó að þeir komi sjaldan í kirkju. Tvær tegundir af kristni séu til. Annars vegar svonefnd kirkjukristni - kristni þeirra kirkjuræknu - og hins vegar menningarkristni - kristni þeirra sem mótaðir eru af kristinni arfleifð, sögum hennar, hugtökum, ímyndum, gildum og siðferði. Menningarkristið fólk íhugi ef til vill ekki mikið trúarlegar kenningar. Kristni þess eigi meira skylt við praxís en theóríu.

Áður en lengra er haldið ber að geta þess að Billings skrifar þessa bók sem prestur í ensku kirkjunni. Hann lýsir aðstæðunum og bendir á leiðir til að bregðast við þeim.

Menningarkristnin er ekki kirkjuvæn en hún lýsir sér engu að síður í því að enn sækist fólk eftir þjónustu kirkjunnar við tímamót í lífi sínu. Billing skoðar það atferli og fjallar um ástæður þess að menningarkristið fólk lætur skíra börn sín, giftir sig í kirkju og kemur í kirkju til að kveðja ástvini sína hinstu kveðjunni. Hann segir mikilvægt að kirkjan taki þetta alvarlega og reyni að mæta fólkinu þar sem það er. Líka þótt það kjósi ekki að tilheyra kirkjunni með formlegum hætti.

Kirkjan eigi að vera andlegt forðabúr bæði þeim sem tilheyra henni og hinum sem vilja standa utan skipulagðra trúarbragða.


Spá fyrir árið 2008

anno1pz[1]Nú horfum við inn á nýtt ár, lesum teikn garna, stjarna og talna, gerum vísindalegar áætlanir um þjóðarhag og gaumgæfum harla óvísindalegar vitranir ófreskra karla og kvenna.

Þessi spámennska er á margan hátt andstyggileg og gerir fólk að leiksoppum örlaganna.

Hvorki hagspár, stjörnuspár, hrakspár né aðrar spár mega taka af okkur ómakið við að lifa lífinu.

Þetta ár er okkur gefið og enda þótt við ráðum ekki alltaf miklu um framvindu atburðanna skiptir máli hvernig við mætum því sem á dagana drífur.

Spár þurfa ekki endilega að rætast. Spár geta verið varnaðarorð.

Við þurfum ekki að halda áfram að eyða um efni fram. Við þurfum ekki að halda áfram að vinna myrkranna á milli, vanrækja börnin okkar og taka þátt í dansinum og eltingarleiknum.

Við þurfum kannski ekki einu sinni að vera ríkasta þjóð í veröldinni, heldur ættum við frekar að reyna að skipta því af sanngirni og réttlæti sem aflast.

Lögmálin miklu í kringum okkur þurfa ekki að bera okkur ofurliði.

Árið 2008  verður fyrst og síðast það sem við leyfum því að verða og látum það verða með Guðs hjálp og góðra manna.

Þannig hljóðar spá mín fyrir nýbyrjað ár.


Vel sóttar kirkjur

akirkjaÍ rógsherferð síðustu mánaða gegn kirkju og kristni er því stundum haldið fram að kirkjur landsins standi meira og minna tómar.

Auðvitað á það ekki við rök að styðjast fremur en margt annað í þeim áróðri.

Á nýársdag sýndi Sveinn kirkjuvörður mér tölur um aðsókn að Akureyrarkirkju síðasta mánuð.

Hvorki fleiri né færri en sexþúsund manns komu í kirkjuna í desember.

Eru þá ekki taldar með æfingar kóra eða aðrar smærri samkomur.

Þessi desembermánuður í Akureyrarkirkju er sennilega sá albesti hvað aðsókn varðar síðan "mælingar hófust".

Skýringarnar á því geta verið margar. Ein er sú að aðförin að Þjóðkirkjunni hefur vakið fólk til vitundar um mikilvægi hennar.

Önnur er sú að starfið í kirkjunni verður sífellt fjölbreyttara og höfðar til fleiri en áður.

Ég leyfi mér að tilgreina þetta hér þó að það verði sjálfsagt ekki vel séð af mörgum.

Umræðan er orðin þannig að fólk leyfir sér flest í gagnrýni sinni á kirkjuna og trúna en séu veitt andsvör upphefst gjarnan mikill grátkór þar sem kvartað er undan "árásum á trúleysingja".


Sekúndan

urHún hefur alltaf töluvert á samviskunni síðasta sekúndan. Dag hvern veldur þessi örsmáa tímaeining því að sólarhringur nær saman endum og er kvaddur hinstu kveðjunni.

Samt lætur hún sér ekki segjast og heldur áfram að láta dagana hverfa. Slíkt er nú iðrunarleysið.

Í kvöld hefur þessi sekúnda meira á samviskunni en aðra daga. Ekki einungis dagurinn er sendur út á tímans rökkurbrautir og ekki bara heill mánuður, heldur eitt stykki ár.

Allt verður vitlaust þegar þessi sekúnda snappar. Á nokkrum andartökum brenna upp yfir höfðum okkar heilar áttahundruð milljón krónur. Sekúndan hleypir fram skriðu af árnaðaróskum og kossum og ræsir tölvuvírusa sem vakna upp með glott á vörum.

Sjaldan gefum við þessari sekúndu mikinn gaum. Þó er það hún sem baggamuninn ríður. Svo miskunnarlaus og brothættur er heimur tímans að þar getur ein sekúnda skilið á milli feigs og ófeigs.

Nú þegar við lítum til baka sjáum við að dýrmætustu kaflar gamla ársins voru oft ekki nema örfáar mínútur. Jafnvel örfáar sekúndur af árinu 2007 verða gulls ígildi í safnkistu minninganna.

Guð hellir örlitlum dreitli í tímaglösin okkar og býður okkur vel að njóta.

Dropa eftir dropa, sekúndu eftir sekúndu.


Míglekt jólalamb

raincloud[1]Hneykslisbylgja fer um bloggheima eftir að ég tók þannig til orða í jólafærslu minni að lambið sem ég lagði mér til munns á aðfangadagskvöld hafi migið í munni.

Hef ég verið húðskammaður hatrammlega fyrir dónaskapinn. Sjálfur presturinn!

Nú síðast var ég beðinn um að skýra þetta í gestabókarfærslu.

Umræður urðu um þetta á síðu bloggvinkonu minnar, Gretu saumakonu. Einn spekingurinn þar telur líklegt að ég hljóti að hafa snætt þvagblöðru lambsins og Viðar Eggertsson setur þessa menningarlegu umræðu í tengsl við áhuga ónefnds bloggara á endaþarmsmökum. (Ég held reyndar að Viðar hljóti að vera að grínast....)

Þegar það er lagt út á versta veg sem sagt er lýsir það kannski ekki síður hug þess sem les eða heyrir en hins sem skrifaði eða sagði.

Samkvæmt orðabókum mígur það í munni sem er lostætt og það ekki er óalgengt í mínu umhverfi að fólk taki þannig til orða. Að míga þýðir ekki bara að hafa þvaglát heldur mígur það líka sem lekur mikið.

Þegar eitthvað mígur í munni er það einfaldlega safaríkt og ekkert ósmekklegt við það - nema maður endilega vilji það.

Mér sýnist á öllu að þeir sem hneykslast á þessu komi einkum af suðvesturhorninu. Þar talar fólk gjarnan um mígandi rigningu.

Ekki mun fólk þó hlandblautt þegar það kemur inn úr slíku veðri.


Jól fyrir norðan

Fyrir þessi jól sendi ég vinum og vandamönnum örlítinn texta á jólakortum. Ég gerði hann við lagið Christmas in Dixie sem kántrísveitin Alabama gerði frægt.

Lagið má heyra með því að smella hér en textinn er svona:

 

Jól fyrir norðan

 

Það er autt í Skagafirði, á heiðina ég held,

og hríð í Giljareitum á veginn breiðir feld.

Nú sé ég dalinn Öxna með allt á kafi´ í snjó,

svo Eyjafjörður heilsar með stjörnugylltum sjó.

 

Jól fyrir norðan, ég sýð minn reykta sauð.

Ég sendi kveðju´ að norðan og fæ mér laufabrauð.

 

Það er fjúk á Hafnarstræti og kirkjuklukkan slær,

ég kakó drekk í París og þíði frosnar tær,

svo fer ég inn í Kjarna að kaupa jólatré

og kunningja svo marga á Glerártorgi sé.

 

Jól fyrir norðan, ég sýð minn reykta sauð.

Ég sendi kveðju´ að norðan og fæ mér laufabrauð.

 

Jólakveðja góð að norðan:

Guð blessi ykkur!

Við elskum ykkur!

Gleðilegt nýtt ár!

Góða nótt!

Gleðileg jól og

hangikjöt og laufabrauð!

 


Jólanótt

Jólalambið meig svo sannarlega í munni. Ég maríneraði það í íslenskri blóðbergsblöndu frá Sandi í Aðaldal og bláberjum. Pannakottað var líka frábært, borið fram með skógarberjablöndu. Ég gætti ekki hófs og var kærkomin hreyfing að labba sér niður í kirkju þar sem ég messaði klukkan 23:30.

Hér á Akureyri fengum við nánast hið fullkomna jólaveður, kyrrt og milt frost. Götur og garðar hjúfruðu sig undir mjallarsæng.

Sigrún Magna Þórsteinsdóttir spilaði á orgelið í miðnæturmessunni og Hymnodia, kammerkór Akureyrarkirkju, söng. Þær Valgerður Valgarðsdóttir, djákni, og Heiðdís Norðfjörð, meðhjálpari, þjónuðu líka í helgihaldinu. Mikill fjöldi var í kirkjunni og góð þátttaka í altarisgöngunni.

Hér er prédikun mín frá því í nótt.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Gleðileg jól, kæri söfnuður!

Hún er komin, jólanóttin. Leirtauið af veisluborði kvöldins stendur glansandi og heitt í uppþvottavélunum, búið er að troða út fulla ruslapoka af gjafapappír og börn landsins eru í frjálsu spennufalli.

Allt er með öðrum svip á jólanótt. Þegar við ókum til kirkju áðan var eins og jafnvel bílarnir pössuðu sig á því að fara hátíðlega um strætin. Fáir eru á ferli og hversdagsys víðs fjarri. Aldrei er flökt kertanna friðsælla en á þessari nótt. Og hvaða nótt á sætari söngva eða fallegri sögur?

Meira að segja myrkur jólanæturinnar virðist mýkra en húm annarra nátta.

Þegar diskaglamrið hefur hljóðnað og gjafirnar eru komnar á sinn stað finnum við kraft og kynngi þessarar nætur. Hún tengir okkur við eitthvað sem við ekki skiljum. Aðdragandi jólanna einkennist af veraldarvafstri en þegar jólanóttin rennur upp skynjum við að veröldin er ekki öll þar sem hún er séð. Undanfarnar vikur höfum við verið í kapphlaupi við tímann en þessi nótt hvíslar að okkur sjálfri eilífðinni. Og aldrei er meiri áhersla lögð á efnislega hluti en fyrir jólin, á það sem fer í kroppinn og á hann, en þegar friður þessarar nætur hellist yfir, munum við eftir því að maðurinn lifir ekki af brauði einu saman. Við finnum að hjartað er andlegt sem slær í öllum þessum kílóum af holdi og beinum.

II.

„Þú kemur enn þá, kyrra nótt,

og kyssir mína brá.

Í faðmi þínum fel ég mig

og finn þitt hjarta slá.

Eg hjá þér einni vaka vil,

unz vaknar dagur senn.

Því þótt ég hafi trúnni týnt,

þú töfrar hug minn enn."

 

Þannig yrkir skáldið Magnús Ásgeirsson í ljóði sínu Jólanótt. Skáldið segist vera búið að týna trúnni og ætli við getum ekki mörg tekið undir með honum.

Er ekki trú okkar veik, er hún ekki jafn flöktandi og lítið jólakerti sem slokknar á við minnsta andgust?

Og er ekki sífellt verið að þrengja að trúnni úr öllum áttum? Verður ekki stöðugt erfiðara að gangast við trú sinni?

Stuttu fyrir jólin vakti það athygli þegar Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, sagðist vera trúaður. Hann hefði ekki þorað að gangast við því meðan hann gegndi embætti sínu af ótta við fordóma samfélagsins.

Að undanförnu hefur hart verið tekist á um trúmál í samfélaginu. Því hefur verið haldið fram að trúin sé á undanhaldi og hafi enga þýðingu lengur. Heitar umræður síðustu vikna sýna að svo er hreint ekki. Af þeim má að vísu ekki draga miklar ályktanir um trúarhita fólks, en hin mikla umræða sýnir að trúin er fólki mikið umhugsunarefni. Það ætti ekki að koma á óvart. Trúin hefur fylgt manninum frá upphafi og hún tekur á sig margvísleg form í öllum samfélögum. Trúin á sér margar birtingarmyndir. Líka trúleysið er afdráttarlaus trúarleg afstaða.

Trúarlegar spurningar leita á manninn, hann veltir fyrir sér eilífðarmálunum, hann skoðar hvaðan hann komi, hvert hann stefni og til hvers hann lifi. Sjaldan verða þessar spurningar og hugleiðingar nærgöngulli við okkur en núna. Jafnvel þeir sem hafa týnt trúnni finna að eitthvert hjarta slær í myrkri jólanæturinnar.

III.

Og hingað erum við komin, sum með veika trú og önnur með týnda trú, hingað í kirkjuna og það eru komin jól. Við syngjum gömlu jólasálmana og heyrum þessa gömlu sögu um fæðingu barnsins í Betlehem. Við heyrum hjarta jólanæturinnar slá í þessari sögu og í þessum sálmum. Við finnum í þeim eitthvað sem við ekki getum útskýrt, eitthvað sem tengist hinu andlega eðli okkar, höfðar til þess og nærir það.

„Þótt ég hafi trúnni týnt, þú töfrar hug minn enn."

Öll erum við týnd. Öll höfum við villst af leið. Öll upplifum við myrkur jólanæturinnar, ekki bara í umhverfinu, heldur líka í sálinni.

En við erum ekki ein. Við erum aldrei ein. Við erum ekki ein þótt við séum týnd, villuráfandi og sjáum hvergi ljós.

Guð er hjá okkur og hann er ekki bara hjá þeim sem trúa mest á hann, hann er líka hjá þeim sem hafa týnt trúnni.

"Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs."

Hann er kominn til allra manna. Og hann ryðst ekki inn, hann neyðir engan, hann kemur í kvöld til þín á sama hátt og hann fæddist.

Hann kemur blíðlega, mildilega, hann kemur eins og nýfætt barn og hann býður þér að ganga að jötunni í gripahúsinu, sömu leið og fjárhirðarnir.

Hann býður þér að ganga inn úr myrkrinu.

Ljósið hans er milt og rómur hans er svo veikur að þú þarft að kyrra hug og sál til að heyra hann.

Það er jólanótt. Í myrkri hennar kviknar ljós og í kyrrð hennar hljómar rödd þess sem er kominn til að taka þig að sér, leiða þig, næra þig og blessa þig.

„Þú kemur enn þá, kyrra nótt,

og kyssir mína brá.

Í faðmi þínum fel ég mig

og finn þitt hjarta slá."

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda.


Við jötu þína, Jesús

Ég sendi öllum lesendum þessarar bloggsíðu

mínar bestu óskir um blessunarríka jólahátíð.

Guð geymi ykkur öll.

candle2[1]

 

Við jötu þína, Jesús,

ég játa mína trú

á þig sem forðum fæddist

og frelsar hér og nú.

Í þínum opnu augum

er undursamleg þrá

um nokkuð miklu meira

en mannlegt hjarta á.

 

Þitt hold er bróðir blómsins,

þitt bros er systir mín.

Þú þarfnast móðurmildi

því mennsk er vera þín,

en þó ert þú frá himni

og þú ert sjálfur Guð

og öll þín ár á jörðu

af englum vegsömuð.

 

Ég ljós á kerti kveiki

og kyrri mína sál.

Ég horfi út í húmið

og heyri englamál.

Ég skynja miklu meira

en mannsins auga sér:

Sú gjöf sem jatan geymdi

er Guð að játast mér.

 

Svavar Alfreð Jónsson


Þorláksmessa

vikskip2Á messu hins sæla biskups Þorláks er við hæfi að rifja upp tvennt úr sögu hans.

Fyrri sagan gæti tengst gagnsemi hins alræmda jólaofáts.

"Kona varð djöfulóð. En er menn helltu smjöri því í munn henni, er Þorlákur biskup hafði vígt, varð hún þegar heil."

Seinni sagan er hugsanlega tengd trúmálaumræðunni í samfélaginu þessa dagana. Þar þykir hverjum sitt silfur glansa mest.

Sagan er svona:

"Enn hétu menn á Þorlák byskup til byrjar sér og fengu góðan byr. Og er þeir sigldu út eftir firði sigldi í mót þeim annað skip hraðbyrja og höfðu þeir heitið á Þorlák biskup til byrjar og tóku að kveldi hvorir þá höfn er vildu."

Njótið svo skötunnar og annars sem messa hins sæla Þorláks biskups býður.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband