Færsluflokkur: Bloggar

Jesús og Hórus

jesusÍ Fréttablaðinu í morgun var greinin Sóldýrkendur nútímans. Hún er rituð af blaðamanni Fréttablaðsins en Sigurður nokkur Hólm, stjórnarmaður í Siðmennt, segir hana mikið til byggða á grein sem hann sjálfur skrifaði.

Auk þess styðst þessi jólakveðja Fréttablaðsins við áróðursmyndina Zeitgeist sem farið hefur um netheima eins og eldur í sinu.

Flestir sem til þekkja viðurkenna að Zeitgeist hagræði sannleikanum, svo ekki sé sterkar að orði kveðið.

Framleiðendur myndarinnar sjá sjálfir ástæðu til að vara fólk við því að taka myndinni sem sannleika og benda fólki á að leita hans eftir sínum leiðum.

horus[1]Tæplega verður því haldið fram að Fréttablaðsgreinin sýni að höfundur hennar hafi tekið varnaðarorð höfunda Zeitgeist alvarlega og grennslast fyrir um hvort staðhæfingar þeirra eigi við rök að styðjast.

Greinin er að mestu gagnrýnislaus endurtekning á áróðrinum og rangfærslunum í Zeitgeist.

Dæmi um það eru samanburðurinn á Jesú og Hórusi. Þeir sem hafa fyrir því að kynna sér egypska goðafræði sjá fljótlega að með þeim er fátt sameiginlegt.

Það hvernig fólk hugsaði sér útlit Jesú og Hórusar segir sína sögu. Stundum tala myndir skýrar en orð.

Þar að auki er í hvorugri sögninni um fæðingu Hórusar um meyfæðingu að ræða þvert á það sem fullyrt er í Fréttablaðinu. Og Hórus var hvorki krossfestur né reis hann upp frá dauðum.

En Hórus átti reyndar tólf fylgjendur.

"A-ha!" hugsa sumir. "Samsvörun við lærisveina Jesú!"

Þegar betur er að gáð eru hinir tólf fylgjendur Hórusar stjörnumerkin enda var Hórus guð himinsins. Stjörnumerkin eiga lítið sameiginlegt með lærisveinum Jesú - nema þá kannski fjöldann.

Ég hvet fólk til að fara að ráðum höfunda Zeitgeist og kynna sér málin sjálft. Um Hórus má til dæmis lesa á vikkípedíu. Þótt hún sé ekki óbrigðul heimild sýnist mér hún í þessum efnum vera töluvert ábyggilegri en Zeitgeist og Fréttablaðið.

Ég tek á hinn bóginn undir orð sr. Þórhallar Heimissonar sem rætt er við í Fréttablaðsgreininni. Þórhallur segir Biblíuna fulla af þekktum táknum.

Trúarbrögðin eiga ótalmargt sameiginlegt. Það eru engin tíðindi fyrir okkur sem erum áhangendur trúarbragðasögulega skólans.


Grímseyskur jólastrútur

struturÍ vikunni hitti ég vin minn úr Grímsey í Bónus. Ég sýndi honum hróðugur feng minn í mínum innkaupavagni:

Eitt risavaxið skagfirskt lambslæri, einn 6 kílóa kalkúni, tvær temmilegar hangikjötsrúllur og myndarlegur konfektkassi.

Spurði svo og sagði svo hvað þeir ætluðu að snæða þessi jólin undir norðurheimskautsbaugnum.

Grímseyingurinn sagðist vera í strútsleit.

Allt er að breytast í veröldinni. Líka jólasteikin. Í mínu ungdæmi (og er ég þó ekki gamall) voru rjúpur, svín eða lömb snædd undir hátíðartóni séra Bjarna snemma á aðfangadagskvöldi.

Nú á dögum hafa menn á jóladiskunum rjúpur, svín og lömb og þar að auki dádýr, krónhirti, nýsjálenska tudda, hreindýr, kengúrur, fasana, akurhænur, krókódíla og strúta.

Fyrir jólin minna frystiborð matvöruverslananna alltaf meira og meira á örkina hans Nóa.

Þetta er sko fjölmenning sem bragð er að.


Orð

Í upphafi var Orðið og orð eru til alls fyrst. Guð sagði og það varð. Orð lífga og deyða, eyðileggja langa og trausta vináttu, slíta tengslum elskenda en stofna líka til sambanda á milli manna. Orð eru særandi og bindandi en líka uppörvandi og frelsandi. Orð banna og leyfa. Orð verða að styrjöldum. Orð eru grundvöllur friðar og sátta. Orð skapa. Þau koma einhverju til leiðar.

Orðið er frumafl tilverunnar eins og fram kemur í jólaguðspjalli Jóhannesar.

Nú á dögum virðist orðið hafa misst gildi sitt. Það er offramboð af orðum. Framboð af hinum stóru orðum er fyrir löngu komið fram úr eftirspurninni.

Lesið bara moggabloggið.

Við trúum stjórnmálamanninum mátulega þegar hann gefur loforð sín. Ekki er hægt að leggja trúnað á það sem sagt er í auglýsingunum. Fréttirnar í fjölmiðlunum reynast heldur ekki alltaf sannleikanum samkvæmar.

Orð geta verið innantóm og stundum eru þau stór einungis fyrir þá sök að þau eru útbelgd af merkingarleysi.

Margir segja Guð þannig orð. Það sé merkingarlaust, innantómt og gagnslaust. Ekkert gerist innra með okkur þegar við heyrum það. Við vitum ekki hvað það þýðir.

Guðleysi samtímans, vantrúin sem helst ekki má hnjóða í öðruvísi en að vera talinn sérstakur hatursmaður yfirlýstra trúleysingja, er ekki einungis fólgið í því að afneita tilvist Guðs. Guðleysið felst ekki síður í því að Guð skiptir fólk engu máli. Guðleysinginn þarf ekkert endilega að vera á móti Guði. Hann þarf ekki að vera antíþeisti. Hann getur verið aþeisti. 

Sá guðlausi er laus við Guð. Guð er honum fjarlægur. Guð er langt í burtu.

Við erum öll töluverðir guðleysingjar. Guðleysið er hluti af glímu trúmannsins. Honum finnst oft að Guð sé fjarlægur og skilji manninn eftir í fullkomnu umkomuleysi.

Gegn því skrifar Jóhannes. Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Það er í eðli Guðs að vera ekki fjarlægur. Hann vill tengjast manninum í Orðinu. Í Orðinu vill hann vera eitthvað í lífi mannsins.

"Og Orðið varð hold, hann bjó með oss," hljómar jólaguðspjall Jóhannesar.


Atvinnurógur

Á dögunum tók blaðakona bæjarblaðsins Vikudags við mig örlítið viðtal.

Ég birti það hér.

"Umræða um presta og heimsóknir þeirra í leik- og grunnskóla landsins hefur verið hávær undanfarna daga og hefur að sumu leyti komið Svavari A. Jónssyni sóknarpresti í Akureyrarkirkju á óvart. Hann hefur tvívegis undanfarna daga fjallað um málið á bloggsíðu sinni og fengið geysileg viðbrögð, vel yfir 100 athugasemdir hafa verið skráðar við umfjöllun hans um efnið. Svavar segir presta á Akureyri lítið vera ágenga við skóla á öllum stigum.
Hann segir að leikskólabörnum gefi þeir aðventudagatal í upphafi aðventu en að öllu jöfnu komi þeir ekki í skóla bæjarins nema við sérstakar aðstæður og þeir þá kallaðir til af skólayfirvöldum. „Ég finn það samt þegar við komum að mér finnst örla á óöryggi hjá kennurum, þeim finnst þetta erfitt og hafa eflaust áhyggjur af því að misbjóða einhverjum," segir Svavar. Akureyrarkirkja hyggst efna til málþings í mars á næsta ári þar sem fjallað verður um kirkju og skóla og er þegar farið að leita til hugsanlegra fyrirlesara um þátttöku. „Umræðan nú er svolítið skrýtin á köflum, það er látið að því liggja að prestar landsins reyni hvað þeir geti að komast inn í skólana í þeim tilgangi einum að stunda trúboð, að snúa börnum til kristinnar trúar. Þetta er atvinnurógur og beinist ekki bara að okkur prestum, heldur líka kennurum," segir Svavar og bendir á að í þeim tilvikum sem Akureyrarprestar séu kallaði inn í skólana sé faglega að heimsókninni staðið. Þykir honum ekki sæmandi að fjalla um málið með þeim hætti sem gert hefur verið, þ.e. að prestar stundi trúboð í miklum móð í skólaheimsóknum sínum. Það sé villandi málflutningur og beinist ekki síður að kennurum, sem vændir eru um að láta slíkt viðgangast. Þá telur Svavar að í allri umræðunni hafi gleymst að skilgreina hvað trúboð er.

Svavar bendir á að skólarnir beri ábyrgð á skólastarfinu og hann treysti skólafólki fullkomlega til að hafa stjórn á sínu starfi, sem og að leysa þau ágreiningsefni sem upp kunna að koma t.d. í tengslum við jólahald og annað slíkt sem einhverjir taki ekki þátt í. „Mér þykir sjálfgefið að skólar hafi samvinnu við aðrar stofnanir samfélagsins sem þeir telja að geti orðið börnunum til heilla, en það starf og samvinna á að fara fram á forsendum skólans," segir Svavar. „Samvinna kirkju og skóla er hreint ekki ný af nálinni. Sumum finnst að efla þurfi samstarfið, aðrir vilja draga úr því en allir geta held ég verið sammála um að gagnlegt sé að ræða það.""


Jólakort á kortajólum

 
070104-christmas[1]

Af forsjálni ég fyrirbyggi skort

með fjármagn rúmt og góðan höfuðstól

og hef til reiðu öll mín kreditkort

svo keypt ég geti efnishyggjujól.

 

Í búðarhillu sé ég góða gjöf

og greiðsluna á Vísarað ég set

því þannig næst á skuldaskilum töf

og skrimt til vors með naumindum ég get.

 

Mitt hangilær ég kaupi út á krít

og klæðin ný á afborgunum fæ.

Þótt sífellt aukist eyðslu minnar hít

ég upp í geð á skuldunautum hlæ.

 

Og þegar heimild hver er nýtt í topp

og hækkun yfirdráttar vonlaust mál,

þá loksins fæ ég frið í lúinn kropp

og fróun minni kröfuhörðu sál.

 

Svo klingja bjöllur, klukkan verður sex,

við kyrjum sálminn góða "Heims um ból",

þá óróleikinn innra með mér vex

því enn ég skulda síðastliðin jól.

 

 

SAJ


Hjólið og boðorðin

hjol1.jpgEinn sunnudaginn kom presturinn inn á lögreglustöð og sagði sínar farir ekki sléttar. Hjólinu hans hafði verið stolið.

Lögreglumanninum hugkvæmdist snjallráð.

"Næsta sunnudag skaltu taka fyrir boðorðin tíu í prédikuninni. Þú skalt fylgjast vel með áheyrendunum þegar þú kemur að boðorðinu "þú skalt ekki stela". Verði einhver flóttalegur eða vandræðalegur er ekki ólíklegt að sá geti haft þjófnaðinn á samviskunni."

Að viku liðinni kom presturinn aftur á lögreglustöðina. Hann fór beint til lögreglumannsins og sagðist vilja þakka honum fyrir sig. Ráð hans hefði dugað.

"Grunaði mig ekki," sagði lögreglumaðurinn, "kauði hefur farið í kerfi þegar þú fórst að tala um að ekki mætti stela."

"Nei, þannig var það reyndar ekki," svaraði prestur, "enginn lét sér bregða þegar ég ræddi um það boðorð.

En þegar ég kom að boðorðinu "þú skalt ekki drýgja hór" mundi ég hvar ég hafði skilið hjólið eftir."


Kristilegt plastsiðgæði

hinheilagafjölskyldaÍ byrjun aðventu stingum við Maríu, Jósef og Jesúbarninu í samband í inngangi safnaðarheimilisins. Þetta eru stórar styttur og hafa ábyggilega gnæft yfir þvottavélarnar og þurrkarana í raftækjaversluninni þar sem þær voru á sínum tíma keyptar. Þær eru úr plasti, búnar til í Tævan og í hverjum fjölskyldumeðlimi er að minnsta kosti ein pera.

Enda þótt ég tali svona óvirðulega um hina heilögu fjölskyldu fyllast börnin sem koma í heimsóknir í kirkjuna núna á jólaföstunni djúpri lotningu þegar þau sjá þessar upplýstu plaststyttur. Sum þeirra mega ekki til þess hugsa að fara án þess að kyssa barnið í jötunni á kinnina.

Einn úr sóknarnefndinni spurði samt hvort ekki færi betur að hafa slíkar eftirmyndir í raunverulegu gripahúsi en á gljáfægðu marmaragólfi Safnaðarheimilis Akureyrarkirkju. Innan um kindur og hesta, þar sem kaldir vindar næða um þil, í týruflökti og jafnvel stækri skepnulykt.

Þó að mér finnist syndsamlega gott að borða og mali eins og gamall högni við kræsingar hlaðborða aðventunnar má ég vita að hin heilaga fjölskylda er ekki þar. Hún er miklu fremur þar sem fólk verður að láta fyrirberast við þröngan kost.

Utanríkisráðherran okkar Ingibjörg Sólrún komst vel að orði um stöðu Íslands efst á lista yfir þær þjóðir sem búa við best lífskjör. Hún sagði að því sæti fylgdi mikil ábyrgð. Eftir því sem við færðumst ofar á þessum lista ykjust skyldur okkar við fátækustu þjóðir þessa heims.

Aðventan er helsti söfnunartími Hjálparstarfs kirkjunnar. Ég minni á þá stofnun og aðrar sem eru útréttar hendur auðugs fólks til þeirra sem ekkert eiga, fátækra fjölskyldna sem hírast í kulda og örbirgð vítt og breitt um veröldina.

Rík þjóð má ekki halda aðventu án þess að muna eftir sínum minnstu systkinum og enn síður þjóð sem er annt um kristilegt siðgæði.

Annars erum við bara að tala um kristilegt plastsiðgæði á Íslandi.


Hvít jól á öðrum hnöttum

whitechristmasEinhvers staðar las ég að "White Christmas" væri frægasta jólalagið. Sagan segir að höfundurinn, Irving Berlin, hafi vakað heila nótt við að semja lagið. Morguninn eftir fór hann á skrifstofuna sína og sagði við einkaritarann sinn:

"Gríptu pennann þinn og skrifaðu niður þetta lag. Ég var að semja besta lag sem ég hef nokkurn tíma gert - fjandinn hafið það - ég var að semja besta lag sem nokkurn tíma hefur verið gert!"

Lagið var frumflutt árið 1942 í söngvamyndinni Holiday Inn. Bing Crosby söng það ásamt leikkonunni Marjorie Reynolds en Martha Mears lagði henni til röddina í myndinni.

Því hefur verið haldið fram að ekkert lag, hvorki jólalag né annað, sé flutt jafn oft í útvarpi og þessi óður til hvítra jóla. Gildir þá einu hvort um er að ræða norðlægar slóðir þar sem fönn hylur jörð meirihluta ársins eða suðræn lönd þar sem aldrei fellur snjókorn úr lofti.

Hvít jól virðast einhver arkaískur draumur mannkynsins.

Ef líf er á öðrum hnöttum og vitsmunaverur þar heyra jarðneskar útvarpsbylgjur kynnu þær að draga þá ályktun að jarðarbúar ættu enga ósk heitari og æðri en að eiga hvít jól.

Ef til vill er draumurinn um hvít jól alls ekki svo afleitur?


Gistihús umburðarlyndisins

maria&josefJól eru margslungið fyrirbæri. Þau eru mikil neysluveisla. Landsmenn eyða stórum fjárfúlgum í fatnað, mat og gjafir fyrir jólin. Jólin eru efnhagslega mikilvæg. Góð jólaverslun skiptir sköpum fyrir marga kaupmenn.

Jól eru líka einfaldlega frí. Að vísu eru ekki allir í fríi á jólunum, til að mynda við prestarnir, en þá eru flest fyrirtæki lokuð. Skólarnir gefa frí á jólum. Flestar opinberar stofnanir loka sínum dyrum á jólunum.

Sannarlega eru jólin veraldleg. Þeim fylgja alls konar þessa heims siðir. Jól eru ekki bara kristileg og á það hefur verið bent að jól voru haldin löngu áður en Jesús fæddist.

Engu að síður er ekki hægt að horfa framhjá því að jól hafa trúarlega merkingu í hugum flestra landsmanna. Sú merking er ef til vill mismikil og ristir ekki alls staðar jafn djúpt, en óhætt er að fullyrða að stór hluti landsmanna fagni jólum sem fæðingarhátíð Jesú Krists.

Á mínu æskuheimili voru hvers konar veraldlegir jólasiðir viðhafðir en mér var innrætt að kjarni jólanna væri fæðing Jesúbarnsins í Betlehem. Það kenni ég líka mínum börnum og þannig held ég að það sé á meirihluta íslenskra heimila.

Nú hefur félagið Siðmennt áréttað hvernig það vill haga litlu jólunum í skólum landsins. Samkvæmt nýjasta bréfi félagsins til biskups Íslands verður ekki betur séð en að það telji mannréttindabrot að hafa litlu jólin með trúarlegum áherslum. Þar má t. d. hvorki syngja jólasálma og né sýna helgileiki. Í stuttu máli: Engar trúarlegar áherslur.

Auðvitað útilokar slíkt jólahald ekki einungis sálmana Heims um ból og Bjart er yfir Betlehem. Göngum við í kringum einiberjarunn hlýtur líka að bannast, því enda þótt þar sé um að ræða veraldlegan söng, lýkur honum með grímulausum áróðri fyrir heimsókn í kristna kirkju - seint á sunnudagsmorgni.

"Svona gerum við er við göngum kirkjugólf!"

Söngurinn hlýtur því að teljast til "trúboðs í skólum".

Fram til þessa hefur jólahald í skólunum verið á sömu nótum og í samfélaginu, blanda af trúarlegum og veraldlegum siðum.

Nú á að úthýsa því trúarlega í nafni mannréttinda og umburðarlyndis.

Litlu jólin eiga að vera trúlaus. Þar er eigi rúm fyrir Jesúbarnið.

Áróður getur líka falist í þöggun. Þegar aðeins má fagna jólum í skólum landsins með því að minnast ekki á Jesú Krist eru í því fólgin skilaboð til barnanna.

Jesús er óæskilegur á sinni eigin fæðingarhátíð.

Geta foreldrar kristinna barna sætt sig við slíkt "hlutleysi"?

Í Fréttablaðinu í morgun skrifar Guðmundur Andri Thorsson að við Íslendingar búum "...umfram allt í sekúlaríseruðu samfélagi...".

Í því samhengi er fróðlegt að íhuga þá staðreynd að yfir 90% landsmanna teljast til einhverra trúfélaga og samkvæmt nýrri rannsókn Erlendar Haraldssonar, prófessors við Háskóla Íslands, telja 78% Íslendinga sig hafa orðið fyrir dulrænni reynslu. Fyrir meira en þrjátíu árum var það hlutfall 64%.


Íslenska viðskiptavitið

hlæjandihesturÞessa dagana les ég hinar skemmtilegu og vel skrifuðu bækur Jóns Helgasonar, Íslenskt mannlíf. Bloggfærslan mín um Sæunnarmál var þaðan ættuð.

Í fjórða bindi ritraðarinnar segir frá heimsókn hins danska krónsprins Friðriks til Íslands. Hann kom hingað árið 1834. Ekki var för sú af hans fúsa og frjálsa vilja því prinsinn mun hafa verið sendur hingað eftir að hafa lent í hjónabandsveseni sem lauk með skilnaði.

Þetta var heilmikill leiðangur. Var Hannesi Johnsen, kaupmanni, falið að kaupa eitt og annað hér á landi sem prinsinn þurfti til ferðarinnar. Þar á meðal voru þrjátíu hestar.

"Hannes tók að fala hesta, sem fljótt stigu í verði við eftirspurnina..." skrifar Jón.

Í maílok kom krónprinsinn til landsins og hófst löng ferð hans um landið. Lenti hann í miklum ævintýrum, m. a. frægri drykkju með amtmanninum á Möðruvöllum. Lyktir hennar urðu þær að prinsinn skondraði með byssuhólk sinn upp í Staðarfjall og skaut tvo spóa.

Prinsinn komst líka í hlutverk bráðarinnar. Vergjörn kona á Akureyri lagði fyrir hann snörur og voru menn ekki á einu máli um hvern árangur hún hafði.

Landsmönnum féll vel við krónprinsinn. Hann þótti um margt sérstakur en gat verið alþýðlegur og hið mesta vaskmenni.

Um haustið kom snekkja að utan að sækja Friðrik krónprins. Þannig lýsir Jón Helgason viðbrögðum skipverja við því þegar höfuðstaður Íslands blasti við þeim:

"Þótti skipsforingjum undarlegt um að litast, og varð þeim starsýnt á kotaþyrpingarnar uppi í holtunum. Spurðu þeir, hvaða rústir þetta væru eða hverju slíkt jarðrask sætti."

Þegar prinsinn var farinn seldi Hannes kaupmaður Johnsen hestana sem hann hafði keypt um vorið undir krónprins Dana á uppsprengdu verði. Er þeirra viðskipta getið í Íslensku mannlífi með þessum orðum:

"En nú brá svo við, að verð á hestum hafði mjög fallið....."


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband