Færsluflokkur: Bloggar
8.12.2007 | 12:25
Skólar og trú
Þessa dagana er tekist á um skólastarf og trúmál. Ekki er alltaf gott að sjá um hvað deilurnar snúast nákvæmlega. Sumir segja að trúboð í skólum sé ásteytingarsteinninn. Ég ekki viss um að svo sé. Í formála að þeim kafla aðalnámskrár grunnskóla sem fjallar um kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði segir:
"Skólinn er fræðslustofnun en ekki trúboðsstofnun og er því fyrst og fremst ætlað að miðla þekkingu og auka skilning á kristinni trú og öðrum trúarbrögðum."
Hér eru sýnist mér tekin af öll tvímæli. Skólinn hefur það ekki á sinni stefnuskrá að boða trú. Kennsla í kristnum fræðum hefur það markmið að miðla þekkingu og auka skilning á kristindómi. Um það er held ég ekki ágreiningur.
Þjóðfélagið er að breytast. Lífsskoðanir fólks verða fjölbreyttari. Að mínu mati eru það mikil mistök að bregðast við þeim breytingum með því að gera trúmál og lífsskoðanir fólks að feimnismálum í skólunum. Eitthvað sem helst megi ekki koma til tals eða sjást.
Íslensk börn þurfa að þekkja eiginn menningararf. Þau þurfa að skilja kristni. Og vissulega þurfa þau líka að skilja önnur trúarviðhorf en sín eigin.
Til þess er nauðsynlegt að láta ekki nægja að fjalla um trúarbrögðin heldur þarf að gera börnunum kleift að "setja sig í annarra spor og skoða viðkomandi átrúnað innan frá..." eins og segir í aðalnámskrá grunnskólanna.
Það gerum við ekki með því að gera trúarlegar stofnanir tortryggilegar. Það gerum við heldur ekki með því að þurrka út allt trúarlegt í skólunum, afnema helgileiki á litlu jólunum, leggja af heimsóknir skólabarna í kirkju á aðventunni og banna prestum að koma í skólana.
Í aðalnámskrá grunnskóla segir:
"Vettvangsferðir í kirkjur og aðra helgidóma, á söfn, sögustaði, tónleika o. fl. eru til þess fallnar að tengja sögu og samtíð með lifandi hætti og hjálpa nemendum að kynnast margvíslegri trúarlegri túlkun og tilbeiðsluháttum."
Er hættulegt að börn fái að kynnast "margvíslegri trúarlegri túlkun og tilbeiðsluháttum"?
(Myndin með færslunni er af hríseyskum skólabörnum að sýna helgileik. Hún er tekin af akureyri.is.)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
7.12.2007 | 16:39
Góð kirkjuáramót í Eyjafirði
Á síðasta degi kirkjuársins var boðað til húsblessunar í Kirkjubæ, nýrri kirkjumiðstöð við sjálft Ráðhústorg á Akureyri. Þar munu starfa Jóna Lovísa Jónsdóttir, rekstrarstjóri Kirkjubæjar og framkvæmdastjóri Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar, sr. Guðmundur Guðmundsson, héraðsprestur og Ásta Garðarsdóttir, umsjónarmaður vinaheimsókna Eyjafjarðarprófastsdæmis. Er hvert horn gjörnýtt í Kirkjubæ því auk þess hafa vígslubiskupinn á Hólum og prófastur Eyfirðinga þar aðstöðu. Fjölmenni var við blessunina og gæddu gestir sér á piparkökum sem rennt var niður með rjúkandi súkkulaði.
Nýtt kirkjuár hófst með sama glæsibrag og því gamla lauk. Á fyrsta degi þess lá leið mín út í minn gamla Ólafsfjörð því til stóð að vígja nýtt safnaðarheimili við Ólafsfjarðarkirkju. Gamla fallega kirkjan, sem reist var árið 1916, var lengd og endurnýjuð fyrir nokkrum árum. Nú er söfnuðurinn búinn að innrétta safnaðarheimilið og búa það húsgögnum. Hefur einstaklega vel til tekist, bæði með kirkjuna og heimilið. Er full ástæða til að óska Ólafsfirðingum til hamingju með safnaðarheimilið. Það er lýsandi fyrir þann hlýhug sem þeir bera til kirkju sinnar.
Og ekki sér fyrir endann á þessu, því næsta föstudag verður vígð ný kapella á Sjúkrahúsi Akureyrar. Ég tók reyndar pínulítið forskot á sæluna því um daginn skírði ég þar barnskríli. Óhætt er að fullyrða að kapellan er fagur og hlýr helgidómur og bætir úr brýnni þörf. Munu þær stöllur sr. Guðrún Eggertsdóttir, sjúkrahúsprestur, og Valgerður Valgarðsdóttir, djákni, taka sig vel út þar, en þær annast trúarlega þjónustu á sjúkrahúsinu.
Það er því heilmikið um að vera í kirkjugeira hinnar eyfirsku tilveru þessa dagana.
(Myndirnar með færslunni eru af vef Eyjafjarðarprófastsdæmis.)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.12.2007 | 21:55
Ritstjórn - ritskoðun
Ítrekað var kvartað yfir útlitinu á gamla blogginu. Mörgum fannst erfitt að lesa hvítu stafina á rauða grunninum.
Ég hef því breytt um útlit eins og sjá má og vona að það nýja sé læsilegt.
Einnig hef ég ákveðið að birta ekki athugasemdir hér nema að hafa lesið þær yfir áður.
Ekki á ég von á að öllum finnist það góð tilhögun. Eflaust fæ ég skammir fyrir hugleysi og að vilja hefta tjáningarfrelsið. Og ábyggilega verð ég sakaður um ritskoðun.
Ég mun skoða það sem hér er ritað í athugasemdum og birti það sem ég tel við hæfi.
Sú tilhögun er líka nefnd ritstjórn. Þetta er mitt blogg.
Ég vona að mér auðnist að vera sanngjarn ritstjóri. Eða ritskoðari ef þið viljið frekar nota þann titil.
Ef ekki bið ég ykkur að kvarta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
5.12.2007 | 10:37
Siðmennt???
Forsvarsmenn Siðmenntar harðneita því að þeir séu á móti kristnifræðikennslu í skólum.
Ég las greinasafn á heimasíðu Siðmenntar. Þar svarar Sigurður Hólm Gunnarsson, formaður Siðmenntar spurningunni "Merkir aðskilnaður ríkis og kirkju að kristnifræðikennsla í skólum verði bönnuð?"
Svar hans er:
"Já og nei. En sérstök kristinfræðikennsla og trúaráróður, eins og sá sem stundum á sér stað í skólum nú, á að sjálfsögðu að vera bönnuð. Stranglega bönnuð. (Leturbeytingar eru mínar)
Siðmennt er ekki á móti litlu jólunum, segja forsvarsmenn samtakanna. Þau mega bara ekki vera kristileg.
En hvað segir formaðurinn um jólin sjálf?
Svona svarar formaður Siðmenntar spurningunni um hvort aðskilnaður ríkis og kirkju hafi í för með sér að verslanir og skólar verði opnir á jóladag og bíóin á aðfangadagskvöld:
"Já, því það er í hæsta máta óeðlilegt að nokkrir bókstafstrúarmenn ákveði hvenær borgarar þessa lands megi vinna og hvenær ekki."
Einnig segir formaður Siðmenntar þá breytingu verða við aðskilnað ríkis og kirkju að hætt verði að útvarpa messum í útvarpinu.
Um þjóðsönginn segir formaður Siðmenntar:
"Það er því ljóst að skipta verður um þjóðsöng einhverntímann í náinni framtíð."
Og þetta segir hann um íslenska þjóðfánann:
"Enginn eða í það minnsta mjög fáir líta á krossinn í fána okkar sem kristið tákn."
Nú skilst mér að Siðmennt krefjist afsökunarbeiðni biskups Íslands vegna þeirra ummæla hans að Siðmennt séu hatrömm samtök.
Í enn einni grein formannsins heimasíðu samtakanna lesum við:
"Kirkjan hefur barist hatrammlega gegn vísindum, framförum og þekkingu allt fram til dagsins í dag."
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (111)
3.12.2007 | 17:12
Varúð! Prestur!
Þessi orð voru rituð í hrím á afturrúðu bifreiðar samstarfsmanns míns og blöstu við honum þegar hann kom úr kirkju eftir skírn núna um helgina.
Í ljósi (eða myrkri?) umræðunnar síðustu vikuna mætti ætla að við prestarnir værum viðsjálsgripir - einkum í skólum landsins. Í þeim húsum er full þörf á að vakta presta sérstaklega því þær gætu í ógát gloprað út úr sér nafni Guðs og þar með stefnt í voða sálarheill ungra og saklausra barna, eins og bent var á af góðum manni.
Forsvarsmenn Siðmenntar keppast nú við að sverja af sér það að þeir séu á móti kennslu í kristnum fræðum. Þeir staðhæfa líka að þeir séu heldur ekki á móti litlu jólunum í skólunum.
Siðmennt hefur ekkert á móti því að börn séu frædd um kristna trú og þeir amast heldur ekki við jólahaldi í skólunum.
Þarna kemur reyndar ekki punktur. Smáa letrið vantar því ekki sé ég betur en að jólahald í skólum landsins þurfi að mati Siðmenntar að vera laust við hvers konar trúarlegar skírskotanir.
Þau jól sem teljast boðleg börnum þessa lands eru án helgileikja, trúarlegra jólasöngva og sagna með trúarlegum boðskap, svo nokkuð sé nefnt.
Og jólaguðspjallið eyðileggur Siðmenntarjólin svo endanlega.
Slíkur er nú rausnarskapurinn sem Siðmennt sýnir börnum þessa lands.
Hvernig ætli sú kristindómsfræðsla megi þá vera sem félagið vill leyfa?
Þegar búið er að sótthreinsa skólana af hvers konar trúarlegum skírskotunum verða sömu rök þá ekki notuð á aðrar opinberar stofnanir?
T. d. sjúkrahúsin (barnadeildirnar ekki síst), fangelsin og elliheimilin. Að ég tali nú ekki um ríkisútvarpið.
Hvaða réttlæti er í því að útvarp allra landsmanna útvarpi aftansöng klukkan sex á aðfangadag?
Það er alla vega lágmarkskrafa að vara börn og viðkvæmar sálir við slíku efni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (139)
1.12.2007 | 11:50
Sæunnarmál
Sæunn Jónsdóttir fæddist á Geitaskarði í Langadal kringum 1790. Hún var fullkomlega eins og önnur börn nema að einu leyti. Fyrstu árin var henni stirt um mál og gekk jafn illa að skilja aðra og öðrum hana. Smám saman fór hún að þroska með sér eigið tungumál og á tíunda aldursári var hún orðin altalandi á það.
Systkini hennar lærðu Sæunnarmál - eða alla vega nóg til þess að systir þeirra gæti gert sig skiljanleg við þau. Sæunn lærði aldrei að tala né skilja íslensku. Hún talaði þetta tungumál sitt ævina á enda og dó gömul kona með það á vörum. Íslenska var henni alltaf framandi tunga.
Sæunnarmál þótti merkilegt mál. Árið 1858 birtust um það lærðar greinar í dönskum blöðum. Önnur var rituð af háskólaprófessor í Kaupmannahöfn, Eschricht að nafni. Út af því spunnust deilur og diskúsjónir fræðimanna um fyrirbærið.
Sum orð í Sæunnarmáli líktust íslenskum. Brauð var t. d. brauja, skór dóna, ljár heyjádd, fiskur fikk, svart fakk.
Önnur virtust algerlega ótengd íslensku. Sæunn var mjög trúuð og Guð hét Iffa. Heiti hans virtist dregið af ljósi á Sæunnarmáli, iff-iff. Sólin var iffa-umha, tunglið úfa-hara ho-fakk og stjörnurnar úta-da-da ho-fakk. Hof-fakk var nótt. Hvítasunnuna kallaði Sæunn offína húja, en venjulega sunnudaga offína morða. Snjór var hújara, sumar mah-mah en vetur mah-mah hújara.
Sæunn var skírð og fermd og hafði mikla unun af því að koma í kirkju. Oft grét hún undir altarisgöngunni. "Iffa í-inna da-arðigga" þýddi "Guð er alls staðar nálægur". Iffa í addigga, Guð veit allt. Iffa komba sagði Sæunn þegar hún vildi að Guð hjálpaði sér.
Karlmenn voru fúffa, stúlka hall-hall, barn ro-ro, svefn ibo, sjór sa-odo, regn fa-fa, prestur faff-faff, kaupmaður trapa, kóngur kondúra, fátækt doju, að syngja fí-fí og að gefa mamba.
"Hæja offo-umh igg avv-avv" þýddi: "Sæunni þykir fjarska leitt að geta ekki talað."
Sæunnarmál virtist einungis hafa nafnorð, lýsingarorð, töluorð og sagnorð, en sagnorðin notaði hún þannig að tvö ólík orð voru höfð um sama hlutinn eftir því hvort setningin var jákvæð eða neikvæð, í stað þess að nota "ekki". Fornöfn og beygingar þekkti hún ekki.
Jón Helgason segir frá þessu í bók sinni Íslenskt mannlíf, III. bindi, Reykjavík 1960.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
29.11.2007 | 22:28
Kirkjan og skólarnir
Ég skil ekki alveg umræðuna um kirkjuna og skólana. Heyrði í fréttum að einhverjir leikskólar fyrir sunnan hefðu ákveðið að úthýsa þjóðkirkjuprestum.
Mér þótti það pínulítið fyndið. Sá fyrir mér einhvern kollegann klappandi á leikskóladyr í reykvíska rigningarsuddanum og grátbiðja: "Hleypið mér inn, hleypið mér inn....!"
Börnin stóreygð fyrir innan spyrja kennarann: "Af hverju má greyið maðurinn ekki koma inn?"
Kennarinn sprakri röddu: "Þetta er prestur."
Hérna fyrir norðan förum við prestarnir helst ekki í leikskólana - nema sem foreldrar.
Fyrir kemur þó að til okkar er leitað úr skólunum og við beðin um að veita þjónustu. Er hún þá veitt á forsendum þeirra sem um hana biðja.
Kennararnir vita að við erum til taks hafi þeir þörf fyrir okkur.
Nú á aðventunni er vinsælt að koma í kirkjuna með hópa úr skólum bæjarins. Hafa þær stundir verið einstaklega ánægjulegar og heldur fjölgað ef eitthvað er.
Sum börn mega ekki taka þátt í neinu sem tengist trú eða kirkju. Ég veit að innan skólanna er enginn áhugi á því að misbjóða neinum og allt gert til að koma til móts við þarfir slíkra barna og foreldra. Sé hægt að gera betur í þeim efnum er ekki nema sjálfsagt að benda á það.
Kristindómsfræðslan er dálítið vandræðafag, vanrækt víða og of fáir kennarar treysta sér að kenna greinina. Að mínu mati er hún samt nauðsynleg. Skólinn á að gera börnum kleift að vera virkir og ábyrgir þjóðfélagsþegnar. Kristni og kirkja er hluti hins þjóðfélagslega veruleika hvað sem fólki kann að finnast um þau fyrirbæri.
Einnig þarf að stórefla trúarbragðafræðsluna í skólunum, ekki síst á framhaldsskólastigi.
Við í Akureyrarkirkju ætlum að efna til málþings í mars næstkomandi um kirkju og skóla og erum þegar byrjuð að viða að okkur fyrirlesurum.
Ég hlakka mikið til að ræða þessi mál og skiptast á skoðunum við kennarana.
Samvinna kirkju og skóla er hreint ekki ný af nálinni. Sumum finnst að efla þurfi samstarfið, aðrir vilja draga úr því en allir geta held ég verið sammála um að gagnlegt sé að ræða það.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (53)
28.11.2007 | 15:25
Horfst í augu við illskuna
Pistillinn minn hérna neðar um að ekki væri alltaf á manneskjuna að treysta fór illa í suma. Einn móðgaður lesandi sagði ótrúlega mannvonsku birtast í þessum skrifum.
Árið 1994 reyndu íbúar Afríkuríkisins Rúanda þetta bókstaflega á eigin skinni. Á 100 dögum voru 800.000 borgarar, menn, konur og börn, brytjaðir niður í þjóðarmorði.
Veröldin aðhafðist ekkert, hvorki ríki, alþjóðlegar stofnanir né kristin kirkja.
Mannkynið brást.
Í gær sá ég myndina Shake Hands with the Devil. The Journey of Romeo Dallaire. Þetta er margverðlaunuð heimildarmynd frá árinu 2004.
Romeo Dallaire er kanadískur herhöfðingi og var foringi friðargæslusveita Sameinuðu þjóðanna þegar þjóðarmorðið var framið. Hann þurfti að horfa upp á það án þess að geta aðhafst nokkuð. Hvergi fékk hann stuðning þótt hann grátbæði um hann. Öllum var skítsama.
Dallaire var lengi að ná sér eftir þessa atburði og í myndinni sést hann heimsækja Rúanda aftur áratug eftir hin hryllilegu morð.
Myndin er nefnd eftir bók sem Dallaire skrifaði um upplifanir sínar. Heiti hennar segir hann dregið af því að einu sinni heilsaði hann einum forsprakka morðingjasveitanna með handabandi. Höndin sem hann fann var náköld og augu mannsins full af ólýsanlegri illsku. Dallaire fannst þetta vera djöfullinn sjálfur.
Ég mæli með þessari mynd.
Ekki síst fannst mér athyglisvert að í raun hafa fáir viðurkennt þau afdrifaríku mistök sem gerð voru í Rúanda. Leiðtogar heimsins virðast ekki tilbúnir að horfast í augu við eigin illsku og afglöp. Þess vegna gæti svona lagað hæglega gerst aftur.
Það er kaldhæðnislegt að í myndinni segist Romeo Dallaire hafa gert mistök, einn af fáum sem það viðurkenna.
Jafnframt er hann einn sárafárra sem bjargaði einhverjum mannslífum í hildarleiknum árið 1994.
Við hin horfðum á tennis eða gæddum okkur á spældum eggjum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
27.11.2007 | 09:25
Sjoppun tilverunnar
Kaupalausi dagurinn er nýliðinn og styttist í daga kaupæðisins. Í hittifyrra keypti ég bókarkorn úti í Englandi í. Sú heitir Shopped. The Shocking Power of British Supermarkets (ISBN 0 00 715804 1) og er eftir enska blaðakonu, Joanna Blythman.
Eins og nafnið gefur til kynna fjallar höfundur þar um verslunarhætti nútímans og finnur þeim ýmislegt til foráttu. Margt í bókinni á við um það sem er að gerast hér á landi.
Blythman segir mollavæðinguna hafa eyðilagt litla og krúttlega miðbæi enskra borga sem gjarnan iðuðu af menningu. Í þeirra stað koma ópersónlegar ofurbyggingar og gerfiveraldir umkringdar hryllilegum bílastæðum.
Stóru verslanirnar, þar sem öllu ægir saman, gerðu út af við hornkaupmennina. Þeir voru kannski ofurlítið dýrari en aðrir en vissu yfirleitt hvað þeir voru að selja. Stundum þekktu þeir kúnnana svo vel að þeir vissu hvað þeir áttu að kaupa líka.
Stóru verslanirnar eru með ódýra starfskrafta, gjarnan óreynda. Ég hef lent í því hér á Akureyri að stúlka í kjötborði stórverslunar vissi ekki hvað kótilettur voru. Framundan eru erfiðar tímar fyrir kótilettukarla landsins.
Blythman heldur því einnig fram að stórverslanamenningin geri okkur ónæm á árstíðirnar. Verslanirnar keppast við að bjóða okkur allt á öllum tímum. Rjúpur fást m. a. s. frameftir sumri. Spurning hvenær verður byrjað að bjóða rauðmaga, hrogn og lifur allt árið um kring. Þá er sá blessaði fyrsti fyrirboði vorsins búinn að vera.
Samkvæmt bókinni kaupum við of mikið inn í einu í stóru búðunum. Þar liggja frammi alls konar ómótstæðileg tilboð sem við freistumst til að grípa með, pakkamatur og kex á niðursettu verði. Einu sinni í mánuði förum við svo í gegnum skápana okkar og hendum úr þeim matvælum sem eru útrunnin. Peningarnir sem við töldum okkur hafa sparað með því að gera innkaupin í lágvöruverslunum lenda í ruslatunnunni.
Blaðakonan breska mælir með því að við kaupum inn upp á gamla móðinn þegar börnin voru send í kaupfélagið að kaupa tólfhundruð grömm af kjötfarsi og eitt smjörlíkisstykki. Svo voru steiktar kjötbollur. Við eigum að kaupa minna og kaupa í minni búðum líka. Kjötið hjá kjötsölum, grænmeti hjá grænmetissölum og fisk hjá fisksölum. Nýta sérþekkingu þeirra.
Hann Yngvi minn í Hafnarbúðinni þraukar enn hér á Akureyri, einn fárra hornkaupmanna landsins. Búðin hans heitir reyndar Hólabúðin núna út af soltlu. Yngvi er alltaf sami öðlingurinn. Fyrir nokkru skrapp ég inn til hans og ætlaði að fá hann til að skipta í stöðumæli. Þurfti að koma bréfi í póst og var bara með hundraðkall.
Ákvað svo að sennilega væri alltaf verið að kvabba í Yngva með svona skiptingar og ætlaði að kaupa af honum eldspýtur.
Yngvi sagði að ég væri svo dj... sætur í dag að hann ætlaði að gefa mér kveikjara merktan Hólabúðinni.
Ég gafst ekki upp og sá rommí uppi í hillu á 75 kr. stykkið. Bað hann að selja mér eitt og greiddi fyrir með hundraðkallinum mínum. Sá fram á að hafa góðan afgang í stöðumælinn.
Þegar Yngvi sá peninginn sagði hann:
"Þú ert nú svo andsk... sætur í dag að þú færð tvö rommí fyrir hundraðkallinn!"
Ég yfirgaf Hólabúðina með kveikjara og tvö rommí. Stöðumælasekt virtist óumflýjanleg.
Svona eiga kaupmenn að vera.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.11.2007 | 21:47
Mæliskekkjan stóra
Nú á dögum er maðurinn sjálfur hinn endanlegi mælikvarði alls, grunnurinn sem hvaðeina byggist á og hin eina rétta undirstaða.
Það er svo sem ágætt - ef ekki kæmi til sú niðurstaða flestra helstu trúarbragða heimsins að ekki sé endilega alltaf á manninn að treysta.
Í kristni er maðurinn fallinn syndari. Hann er kengboginn inn í sjálfan sig. Hann er sjálfum sér ekki nógur. Hann er sinn eiginn böðull og sjálfs sín fórnarlamb. Hann er sjálfum sér tækifæri og ógn.
Maðurinn er ekki jafn blindur á neitt og sig sjálfan og engri lygi trúir hann greiðlegar en þeirri sem hann skrökvar að sér sjálfum.
Hann sér það sem honum hentar, skilur það sem hann vill skilja og heyrir það sem kemur honum vel.
Þess vegna er hæpið að gera manneskjuna að hinum eina mælikvarða allra hluta.
Blinda mannsins, heimska hans, sjálfsréttlætingarárátta, langanir hans, ótti og áhyggjur skekkja þann mæli.
Kristin trú er ekki fólgin í því að stallkjafta kenningarstaup kirkjunnar. Hún er meira en vitsmunaleg tileinkun á hátimbraðri guðfræði, siðfræði eða heimspeki.
Kristin trú er viðurkenning á vanmætti mannsins. Hún er tilfinning fyrir því að maðurinn sé sjálfum sér ekki nógur.
Og hún er vitund um að til sé góður og náðarríkur Guð sem viðurkennir manninn eins og hann er.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)