Færsluflokkur: Bloggar
24.11.2007 | 01:09
Bernskuþjófar
Leikritið "Ökutímar" er á fjölunum hjá Leikfélagi Akureyrar. Það er ískyggilegt.
Fullorðinn maður dregur stúlku á tálar. Fer samt aldrei lengra en hún leyfir.
Barnið þurfti ekki annað en að segja stopp.
Barnið sagði það ekki því það kunni ekki að segja stopp.
Börn eiga heldur ekki að þurfa að stoppa fullorðið fólk.
Suma heyri ég halda því fram að ekki eigi að skíra börn því að börnin eigi að fá að velja sjálf.
Eiga börn að velja sjálf?
Eiga þau ekki miklu frekar heimtingu á að þurfa ekki að velja sjálf? Er það ekki réttur barna að við, fullorðna fólkið, kennum þeim og höfum vit fyrir þeim?
Börn alast aldrei upp í einhverju siðferðistómarúmi. Þau svífa ekki um í andlegu þyngdarleysi. Hlutlaust uppeldi er ekki til - nema þá kannski sem afsökun fyrir vanrækslu og áhugaleysi.
Börn verða fyrir áhrifum. Þau mótast. Þau læra það sem fyrir þeim er haft.
Við þurfum að taka ákvarðanir fyrir börnin okkar. Við þurfum meira að segja að taka óvinsælar ákvarðanir fyrir þau.
Fullorðinn einstaklingur sem getur tekið sjálfstæðar ákvarðanir sér og öðrum til heilla dettur ekki af himni ofan.
Slík manneskja hefur alist upp hjá elskandi foreldrum, lært af skynsömum kennurum og mótast af góðum fyrirmyndum.
Og hefur fengið að vera barn meðan þörf var á því.
Eða eigum við að láta nægja að afhenda unglingnum lyklana að bílnum og segja:
"Þú lærir þetta best sjálfur."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
22.11.2007 | 21:46
Að gefa það sem maður ekki á
Heilagur Ambrósíus var biskup í Mílanó á 4. öld. Hann var merkilegur maður, m. a. vegna afstöðu sinnar til fátækra og allra veraldarinnar gæða.
Eftir honum er haft:
"Gefir þú fátækum manni
eru það ekki þín eigin gæði
sem gera þig örlátan.
Þú ert að gefa aftur það
sem honum tilheyrir
því þú hefur tekið af því
sem til sameiginlegra nota er ætlað.
Jörðina eiga allir,
ekki bara þeir ríku."
Mósaíkmyndin með færslu þessari er af Ambrósíusi. Hana er að finna í kirkju sem er við hann kennd í Mílanó. Ekki er útilokað að hún hafi verið gerð á hans dögum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.11.2007 | 22:21
Já & nei
Orðið "já" er ekki tilkomumikið. Ekki nema tveggja stafa skítti og fremur þjált í munni.
Þess vegna getur verið hættulega einfalt að segja "já" og orðið sleppur fram af vörum okkar í algjöru hugsunarleysi. Það getur reynst afdrifaríkt.
Sumar játningar okkar reynast til blessunar en við játumst líka ýmsu sem við hefðum betur neitað.
Ef til vill er listin að lifa ekki síst í því fólgin að kunna að nota orðin "já" og "nei" á réttum stöðum.
Lykillinn að velferð okkar og hamingju er að neita því sem skaðar okkur og skemmir en játast því heilbrigða og uppbyggilega.
Og viti maður ekki hvort eigi að segja já eða nei er alltaf best að gera hvorugt þangað til annar hvor þessara risastóru dverga finnur okkur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.11.2007 | 23:06
Blogg sem enn er verið að skrifa
Um suma er sagt að þeir séu óskrifað blað. Ég held að ekki sé síður gott en slæmt að vera óskrifað blað. Það er meiri spenna í því að vera óskrifaður.
Sé maður þéttskrifaður er þá nokkru við að bæta?
"Vindurinn blæs þar sem hann vill, og þú heyrir þyt hans. Samt veistu ekki hvaðan hann kemur né hvert hann fer. Svo er um hann sem er af andanum fæddur," sagði Jesús við Nikódemus.
Ekki virðist það beinlínis vera aðlaðandi að vera af andanum fæddur. Finna vindinn blása og vita hvorki hvaðan hann kemur né hvert hann fer.
Við viljum vita hvaðan og enn frekar hvert. Annars verðum við óörugg.
Blöðin okkar þurfa að vera býsna vel skrifuð. Óskrifuð blöð eru ávísanir á svefnlausar nætur, háan blóðþrýsting og magasár.
Þess vegna herðum við tökin á tilverunni. Vitum ekki okkar rjúkandi ráð þegar við missum þau og finnum hvorki hvaðan vindurinn kemur né hvert hann fer.
Sú árátta okkar að þurfa að kasta eign okkar á sem flest og mest er birtingarmynd þess óöryggis.
Mikið er hún sönn sagan af manninum sem hékk í hríslunni á klettabrúninni og bað Guð að bjarga sér.
Og Guð svaraði honum og sagði:
"Þú þarft ekki að gera nema eitt til að ég bjargi þér og það er að sleppa hríslunni."
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
19.11.2007 | 09:06
Biðspeki
Í gær kvöddum við Björn Steinar Sólbergsson, organista, við messu í Akureyrarkirkju. Síðustu rúmu tvo áratugi hefur hann leikið á orgel kirkjunnar, stjórnað kórum og látið um sig muna í lista- og menningarstarfi á Akureyri. Nú heldur hann til nýrra starfa í Hallgrímskirkju og stýrir einnig Tónskóla Þjóðkirkjunnar.
Svo fyrirhyggjusamir voru Akureyringar að þegar þeir réðu Björn Steinar var hann enn við nám úti í París. Var beðið meðan hann lauk því og sat söfnuðurinn í festum á meðan, alls í um þrjú ár. Sú bið borgaði sig margfaldlega.
Þess vegna var vel við hæfi að íhuga gildi þess að bíða í messu gærdagsins.
Þrátt fyrir sívaxandi biðraðamenningu og rafræna númeratækni sem á að tryggja að þeir fyrstu verði fremstir og þeir síðustu hinstir fer biðlund fólks minnkandi. Við viljum ekki bíða á Íslandi nútímans. Við lifum hratt og viljum það strax. Pítsusendlar þeytast um úthverfin. Flatskjárinn er kominn á vegginn áður en innistæða er fyrir honum. Börnin þurfa ekki að bíða eftir því að verða fullorðin. Aðventan er ekki lengur biðtími. Á aðventunni tosum við jólin til okkar. Við flýtum fyrir þeim því það er ómögulegt að bíða.
Bið er samt merkilegt fyrirbæri. Hún er ekki algjört aðgerðarleysi. Bið krefst einbeitingar. Sá sem bíður þarf að halda vöku sinni. Hann bíður þess sem kemur. Þess vegna er bið undirbúningur fyrir það sem koma skal. Við sjáum ekki inn í framtíðina en við getum undirbúið okkur fyrir hana ef við kunnum að bíða almennilega. Þar með höfum við gert það sem í okkar valdi stendur til að hafa áhrif á það ókomna.
Bið er líka ákveðin tegund af trausti og trú. Þegar við bíðum leggjum við árar í bát. Við hættum að hamast á hafinu. Reynum ekki að troðast fram úr þeim sem á undan okkur eru. Treystum því að röðin komi að okkur. Treystum framvindunni. Treystum lífinu. Treystum Guði.
Að sýta sárt og kvíða / á sjálfan þig er hrís. / Nei, þú skalt biðja´ og bíða, þá blessun Guðs er vís," segir í þekktum sálmi.
Ekki er hægt að njóta listar nema að kunna að bíða. Maður sem ég þekki rekur gallerí í Lundúnum. Hann segir mér að oft þurfi fólk undarlega lítinn tíma til að skoða sýningarnar þar. Eyði meiri tíma í að virða fyrir sér verðlistann en listaverkin. Fólk er að flýta sér. Það kann ekki að bíða.
Í fermingarfræðslunni í Akureyrarkirkju skoðum við m. a. hinar myndskreyttu gluggarúður kirkjunnar. Þar verður að byrja á því að kenna krökkunum að bíða. Gera ekkert. Bíða sallaróleg þangað til myndirnar taka til máls.
Sama máli gegnir um tónlistina. Um daginn var ég að skúra stofugólfið heima hjá mér og setti disk í bósinn minn. Allt í einu kom svo yndislegt lag að ég varð að hætta hreingerningarstörfum, fá mér sæti og bíða eftir tónlistinni.
Í ræðunni í kirkjunni í gær benti ég líka á að mjög oft væri með óþreyju beðið eftir því að prestarnir kláruðu prédikanir sínar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.11.2007 | 18:20
Blessaðar freistingarnar
Við skulum passa okkur á freistingunum. Þær eru stórvarasamar. Þær ætti að merkja vel eins og sígarettupakka eða hættulega vegi.
Þó eru freistingar ekki bara neikvæðar. Þær geta verið eins og prófin í skólunum. Próf eru ekki einhver kvöð. Þau eru réttur. Ekki fær hver sem er að taka próf. Ég fæ til dæmis ekki að taka meiraprófið bara si svona. Fyrst þarf ég að klára þar að lútandi námskeið. Þegar ég er búinn með það öðlast ég rétt til að taka prófið.
Freistingar eru ekki einhverjar refsingar. Þær eru á vissan hátt líka tækifæri.
Hver freisting er tækifæri því í henni er ekki einungis fólgin hættan að falla fyrir henni heldur einnig sú vegsemd að standast hana.
Freistingarnar herja ekki bara á okkur þar sem við erum veikust. Mönnunum er ekki síður hætt við að falla fyrir freistingum sem höfða til styrkleika þeirra.
Freistingarnar eru svo útsmognar að þær sitja fyrir okkur í hæfileikum okkar.
Sá sem er gæddur miklum persónutöfrum freistast til þess að nota þá til að komast upp með hvað sem er. Mælskumaðurinn fellur oft í þá freistni að réttlæta sig með lipru tungutaki og draga athyglina frá eigin brestum.
Pössum okkur á freistingunum. Þetta eru ólíkindatól. Samt skulum við ekki hörfa undan þeim. Tökumst á við þær.
Þeim sem tekst að standast lævísa og öfluga freistingu líður eins og manni sem er búinn að landa digrum laxi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
16.11.2007 | 13:36
Ein með áleggi
Færsla dagsins er úr Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar sem út kom árið 1540:
En hann sagði til nokkurra þeirra sem trúðu sig sjálfa réttláta vera og forsmáðu aðra þessa eftirlíking:
Tveir menn þá gengu upp í musterið að biðjast fyrir. Einn var faríseus, en annar tollheimtumaður. Farísearinn stóð og baðst þannig fyrir með sjálfum sér:
Guð, eg þakka þér að eg em eigi svo sem aðrir menn, ræningjar, óréttferðuggir, hórdómsmenn eða svo sem þessi tollheimtumaður. Eg fasta tvisvar í viku og gef tíundir af öllu því eg á."
Og tollheimtumaðurinn stóð langt í frá og vildi eigi upp hefja sín augu til himins, heldur barði hann á sitt brjóst og sagði:
Guð, vertu mér syndugum líknsamur."
Eg segi yður fyrir sann að þessi fór meir réttlættur í sitt hús en hinn því hver sig sjálfur upphefur, hann mun niðurlægjast, og hver sjálfan sig niðurlægir, hann mun upphafinn verða."
Færslan er til heiðurs þjóðtungu vorri og ennfremur sneið til faríseanna allra í bloggheimum.
Er ég sjálfur þar ekki undanskilinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.11.2007 | 10:07
Fordómafóbía
Þegar bæjarstjórinn á Akureyri ákvað að leyfa ekki ákveðnum aldurshópi að tjalda á tjaldsvæðum bæjarins um verslunarmannahelgina síðustu varð allt vitlaust. Hann var sakaður um fordóma gagnvart ungu fólki og skorað á hann að segja af sér.
Einn áskorenda rekur skemmtistað hér í bæ. Nú hefur hann ákveðið að banna ákveðnum hópi manna aðgang að krá sinni vegna drykkjuláta og klofþukls. Þannig vill til að í þessu tilviki er um Pólverja að ræða og er öldurhúsaeigandinn að sjálfsögðu sakaður um fordóma gagnvart þeim.
(Þess má geta að einu sinni hafði ég pólskan organista. Sá var ætíð bláedrú og reyndi aldrei að seilast milli fóta kvennanna í kirkjukórnum - eða karlanna. Sjaldan hef ég kynnst öðrum eins öndvegismanni.)
Úr Reykjavík berast fréttir af íbúum í miðbænum. Þeir sofa ekki um nætur vegna gleðiláta á skemmtistað sem standa fram á morgna. Hafa þeir kvartað en uppskera lítið annað ásakanir um fordóma gegn samkynhneigðum. Skemmtistaðurinn umræddi er vinsæll í þeirra hópi.
Við Akureyringar eru taldir mjög fordómafullir þegar í hlut á aðkomufólk eins og ég skrifaði um nýlega. Akureyringi er vissara að gæta tungu sinnar þegar utanbæjarmenn ber á góma. Þá er fordómafelgulykillinn oftar en ekki reiddur til höggs.
Auðvitað eru það einungis fordómar um Akureyringa að þeir séu fordómafullir. Það eru meira að segja fordómar um Akureyringa að þeir séu Akureyringar. Aðfluttir eru til dæmis í miklum meirihluta á mínum vinnustað. Séra Óskar er Sunnlendingur, séra Halla hörgdælsk, Eyþór Ingi organisti úr Dölunum, hinn organistinn, Sigrún Magna, Höfðhverfingur sem lengi hefur verið búsett í Kaupmannahöfn og Elín húsmóðir Dalvíkingur svo nokkur dæmi um frábærlega vel heppnað aðkomufólk séu nefnd.
Ekki einu sinni konan mín er akureysk heldur úr Svarfaðardal. Fer vel á því að öndvegi íslenskra kvenna sé úr öndvegi íslenskra dala.
Alls konar fordómar og fóbíur eru í gangi í þjóðfélaginu.
Hommafóbían er eiginlega nýr fjárkláðafaraldur hér á landi og spurning hvort eigi að bregðast við honum með böðum eða klárum niðurskurði.
Á netinu er allt löðrandi í fólki sem annað hvort hefur ofnæmi fyrir Guði eða fyllist óskiljanlegum ofsa þegar á hann er minnst.
Gæti verið um theofóbíu að ræða, guðsfælni?
Og eru ekki kirkjufóbía (ekklesiofobia), prestafóbía (pastorofóbía) og kristnifóbía (kristíanófóbía) nátengd svoleiðis fælni?
Svo er til fólk sem ekki fælist neitt nema fordómana. Það er annað hvort upptekið af því að sýna okkur hinum fram á að það hafi ekki neina fordóma eða er sífellt að segja okkur hvað aðrir séu ofboðslega fordómafullir.
Þannig fólk er sennilega haldið svæsinni fordómafóbíu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
14.11.2007 | 14:12
Vörn málfrelsis og frelsi málsvarna
Tjáningarfrelsið gefur mér rétt til að segja hvað mér finnst. Margir taka það á orðinu og segja allt sem þeim í huga býr. Útbreiða lygar og svívirðingar um fólk.
"Hvað? Ég má það!"
Á þjóðvegi 1 er yfirleitt 90 km hámarkshraði. Sé hann minni er það sérstaklega merkt.
Segjum sem svo að þú sért að keyra á þjóðvegi 1. Þar sem þú ert er 90 km hámarkshraði og engin merki um annað. Þú keyrir fram á bilaðan bíl í kantinum. Nokkrir hafa stoppað til að hjálpa. Fólk er á þönum. En þú hægir ekkert á þér. Þú mátt keyra á 90. Það er þinn réttur.
Þú mátt það.
Framkölluðu dönsku skopmyndirnar af Múhameð spámanni mörg bros? Ég sá þær. Þær voru ekkert fyndnar enda voru þær sennilega ekki birtar í þeim tilgangi. Þær voru ögrun. Prófsteinn á það sem má.
Vissulega má segja að við höfum öll ekki nema gott af því að láta ögra okkur og storka. Spurningin er hversu langt skuli ganga í þeim efnum. Rasistasíðan íslenska hefur orðið mér og öðrum umhugsunarefni. Þar finnst mér farið langt yfir mörkin.
En það getur verið snúið að setja tjáningarfrelsinu mörk. Það reyndu til dæmis andfætlingar okkar í Ástralíu. Þar í landi voru fyrir nokkrum árum sett lög sem bönnuðu fólki að útbreiða andúð á trúflokkum og trúarskoðunum, svonefnt "hate speech". Margir tóku lögunum fagnandi. Vinstri menn töldu þau samræmast þeirri skyldu ríkisins að verja fólk hvert fyrir öðru. Múhameðstrúarmenn sáu í þeim vörn gegn islamófóbíu.
Tilgangur laganna var að sjálfsögðu sá að standa vörð um frið og reglu í samfélaginu.
Útkoman varð þveröfug. Lögin hafa kynt undir ófriðareldum sem enn loga. Hver sem talar ógætilega um trúmál á yfir höfði sér málssókn.
Fyrsta stóra dómsmálið eftir lögin var sótt af islömskum samtökum. Þau ákærðu lítinn kristinn sértrúarflokk. Á samkomum hans hafði verið talað afar niðrandi um múhameðstrú og fylgjendur hennar.
Málið fékk alþjóðlega umfjöllun og sakborningarnir, fámennur hópur ástralskra bókstafstrúarmanna, urðu að píslarvottum og merkisberum tjáningarfrelsisins. Stuðningsmenn þeirra fóru að láta sjá sig á samkomum múhameðstrúarmanna, vopnaðir skrifblokkum og upptökutækjum, til að ná því nú örugglega ef þar yrði eitthvað miður gott sagt um kristni. Réttarhöldin stóðu mánuðum saman og kostuðu stórfé. Þar var tekist á um alls konar trúarlegar og guðfræðilegar skilgreiningar. Arabísk málfræði kom einnig við sögu.
Dómurinn féll hinum kristna sértrúarflokki í óhag. Forsvarsmenn hans urðu að biðjast opinberlega afsökunar á ummælum sínum.
Sér nú ekki fyrir endann á málssóknum. Dæmdur barnaníðingur stefndi Hjálpræðishernum fyrir að bendla galdra við djöflatrú. Fylgjendur hins víðfræga satanista Alistair Crowley drógu þekktan barnasálfræðing fyrir rétt. Hann átti að hafa gefið í skyn að börn væru misnotuð í trúarathöfnum hópsins.
Frægasta dæmið er samt mál kynskiptingsins og nornarinnar Oliva Watts gegn áströlskum hvítasunnumönnum. Árið 2003 bauð hún sig fram til borgarstjórnar í sinni heimabyggð. Það athæfi mætti harðri andstöðu hvítasunnumanna á svæðinu en sú kirkjudeild er þar útbreidd. Þeir gátu ekki hugsað sér kynskipting og norn í borgarstjórn. Efnt var til bænasamkoma gegn frú Watts sem brást hin versta við andstöðunni.
Deilan breiddist út. Í hana blönduðu sér samtök á borð við Pagan Awareness Network (PAN). Amerísk samtök, Witches Voice in America, sendu frú Watts fjárframlag. Hið ástralska samfélag var sagt gegnsýrt af nornafóbíu (wiccaphobia).
Réttarhöldin tóku 14 mánuði með tilheyrandi fjárútlátum.
Sennilega hefur enginn grætt á þessum lögum.
Nema þá nokkrir lánsamir lögfræðingar. Og ef til vill blöðin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.11.2007 | 08:25
Óvinir Íslands: Enn er hægt að komast á listann!
Heimsræflarnir á rasistasíðunni skapari.com eru með lista yfir helstu óvini Íslands. Eru þar margar prýðismanneskjur.
Þeir skaparamenn eru svo liðlegir að bæta fólki á listann sé þess óskað. Þannig tókst bloggvini mínum Hreiðari Eiríks að komast á hann enda fylginn sér. Einnig guðfræðinemanum Þorkeli Ágústi Óttarssyni.
Enn eru því möguleikar á að fá sig metinn sem óvin fósturjarðarinnar og hvet ég fólk til að drífa í því. Þetta er ekki amalegur félagsskapur.
Sakar ekki að undirritaður er á listanum því þar eru að sjálfsögðu allir prestar landsins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)