Færsluflokkur: Bloggar
11.11.2007 | 22:54
Vissara að fá sér bara rækjusamloku
Á fyrri hluta síðustu aldar var hreint magnaður prédikari í Berlín. Fólk flykktist í kirkjuna til að hlusta á hann. Ekki áttu þó allir kost á því. Sumir þurftu að vinna á sunnudagsmorgnum. Þar á meðal voru burðarmennirnir á aðalbrautarstöð borgarinnar.
Hinn frægi prédikar brá því á það ráð að láta prenta ræður sínar og bauð að þeim skyldi dreift meðal vinnandi stétta.
Einn þeirra sem annaðist dreifinguna fór á brautarstöðina og bauð þar burðarmanni eitt stykki prédikun eftir hinn kunna kennimann.
Burðarmaðurinn afþakkaði hana pent. Kvaðst hafa heyrt að þessi prédikari væri alveg einstaklega snjall. Læsi hann ræðu eftir hann væri vibúið að hann yrði fyrir djúpstæðum áhrifum af þeim lestri og þyrfti jafnvel að breyta lífi sínu. Hann kærði sig ekki um það.
Ég mundi eftir þessari sögu þegar ég horfði á Edduna í kvöld. Þar var birt brot úr mynd sem er í vinnslu og var einhvern veginn svona:
Maður kemur inn á bensínstöð við þjóðveginn. Hann skoðar mynddiska sem þar eru til útleigu. Tekur eina mynd úr rekkanum, sýnir afgreiðsludömunni og spyr:
"Góð?"
"Breytir lífi þínu," svarar konan.
Maðurinn kvaðst ekki hafa áhuga á neinum breytingum.
Þá spyr hún:
"Af hverju færðu þér þá ekki bara rækjusamloku?"
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.11.2007 | 22:50
Aðkomumannahátíð á Akureyri
Nýlega las ég einhvers staðar að á nýju ári yrði efnt til borgarafundar á Akureyri um hátíðahöld í bænum um verslunarmannahelgar. Það finnst mér gott framtak.
Þau sem lásu þessa síðu fyrir og eftir síðustu verslunarmannahelgi þekkja þá skoðun mína að Akureyri hafi nú upp á ýmislegt fleira að bjóða en tjaldsvæði fyrir drukkna unglinga og dílera og húsgarða til að gera í þarfir sínar.
Akureyringar eru stoltir af bænum sínum og kæmi mér ekki á óvart þótt ofangreint sé það síðasta sem þeir vildu hrósa sér af.
Svo vænt þykir Akureyringum um bæinn sinn að þeir geta ekki hugsað sér að vinna á honum spjöll. Þess vegna eru öll skemmdarverk í bænum nánast undantekningarlaust unnin af aðkomufólki.
Þar er komin eðlileg skýring á því að aðkomufólk á Akureyri er oftar fréttaefni en hinir friðsælu og sómakæru bæjarbúar.
Hin undarlega skemmdarfýsn sem grípur gesti bæjarins stafar auðvitað ekki af neinu öðru en öfund. Aðkomumenn sjá að bærinn er miklu fallegri og flottari en heimabyggðin og una því ekki. Hafi þeir áfengi um hönd - en slíkt er ekki óalgengt - verður öfundin dómgreindinni yfirsterkari og skemmdarfýsnin hömlulaus.
Er nema von að misjafnt orð fari af aðkomufólki í þessum bæ?
Nú legg ég til að um hverja verslunarmannahelgi verði á Akureyri haldin aðkomumannahátíð með fjölmenningarlegu yfirbragði.
Akureyringar eiga ekki að skammast sín fyrir óvild sína á aðkomumönnum. Þeir eiga þvert á móti að markaðssetja hana, eins og Keli á Amtinu hefur bent á.
Á aðkomumannahátíð væri hægt að sýna gestum bæjarins það fjölmarga sem Akureyri hefur upp á að bjóða og fyllir Akureyringa stolti.
Burtfluttir Akureyringar gætu fengið að fljóta með því þeir eru næstum því aðkomumenn.
Nýinnfluttir líka. Það gæti ef til vill stytt þann alltof langa tíma sem það tekur fyrir þá að verða sannir Akureyringar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.11.2007 | 16:01
Við Petrea
Í dag var jarðsungin frá Akureyrarkirkju Petrea Guðný Konráðsdóttir.
Um það bil mánuður er síðan Petrea kom til mín og lagði línurnar um athöfnina en hún var með ólæknandi sjúkdóm.
Petrea var ljósmóðir og af ætt yfirsetukvenna. Hún tók á móti mér þegar ég fæddist og vel við hæfi að hún fengi sína hinstu þjónustu af þeim sem hún veitti þá fyrstu.
Segir það sína sögu um samhengi lífsins og hringrás.
Petrea kvaddi heiminn þar sem ég leit hann, á sjúkrahúsinu á Akureyri.
Hún andaðist 29. október síðastliðinn.
Ég fæddist 29. október 1960.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.11.2007 | 23:40
Mundu
Þótt einsemd þín sé hundrað ára skaltu muna að Guð er til.
Ekki gleyma því. Settu miða á ísskápinn.
Mundu að kraftaverkin gerast. Þau eru á hverju strái. Í orðsins fyllstu.
Haltu í vonina.
Hvað á þá að gera þegar engin verða kraftaverkin og vonirnar bregðast samt?
Lestu þá miðann á ísskápnum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
7.11.2007 | 11:36
Menntun blaðamanna
Á bloggi Egils Helgasonar eru umræður um íslenska blaðamennsku. Agli líst ekki nema mátulega á þá skoðun að gera þurfi kröfur um menntun blaðamanna. Spinnast af því forvitnileg skoðanaskipti þar sem margt merkilegt kemur í ljós.
Egill heldur því fram að blaðamennska lærist fyrst og fremst af reynslunni. Það á við um fleiri störf. Ekki væri til dæmis árennilegt að leggjast undir hnífinn hjá skurðlækni sem ekki þekkti skurðaðgerðir nema úr bókum. Mér fyndist heldur ekki gott að láta mann taka úr mér botnlangann sem hefði enga menntun í læknisfræði - en segði mér að hann hefði langa reynslu af því að vinna á skurðstofu.
Blaðamenn læra vonandi af reynslunni eins og annað fagfólk en þar með er ekki sagt að blaðamenn þurfi ekki menntun til starfa sinna. Mér finnst íslensk blaðamennska oft mjög yfirborðskennd. Það getur stafað af tímaskorti, sem er sívaxandi vandamál í alþjóðlegri fjölmiðlun, en ástæðan fyrir yfirborðsmennskunni er líka lítil þekking viðkomandi blaðamanns á viðfangsefni sínu. Mér ofbýður t. d. oft metnaðarleysi blaðamanna þegar þeir skrifa um þann málaflokk sem ég þekki best.
Þar að auki virðast margir blaðamenn misskilja hlutverk sitt. Sumir hafa afneitað því að fjölmiðlar hafi völd. Segjast aðeins spegla raunveruleikann. Það er hrapalegur misskilningur og beinlínis hættulegur. Ég skrifaði einu sinni örlitla grein um það sem lesa má hér.
Í umræðunum á bloggsíðu Egils segir málshefjandi að blaðamennska útheimti "...forvitni, ákveðna tegund af greddu, skjót vinnubrögð" og bætir því við að við þessa eiginleika sé ekki lögð rækt í "...umhverfi skólanna sem oft vill vera frekar syfjulegt, ekki síst í hugvísindadeildum."
Eru þetta ekki fordómar um menntun? Ekki veit ég hvaða hugvísindum Egill hefur kynnst en ég hef numið við nokkra háskóla og eitt af því dýrmætasta sem ég lærði þar var einmitt að temja mér forvitni, ákveðna tegund af greddu (svo notað sé það skemmtilega orðalag) og skjót og öguð vinnubrögð.
Taka ber fram að margir mjög vel hæfir blaðamenn starfa á Íslandi og þeir hafa alls ekki allir feitar háskólagráður. En menntun stéttarinnar getur ekki sakað. Starf blaðamannsins er mikilvægt og öllum til góðs að til þess séu gerðar miklar kröfur.
Hitt verður að muna að enda þótt við höfum góða, reynslumikla og vel menntaða blaðamenn leysir það okkur ekki frá því hlutverki að vera myndugir lesendur með dómgreind og skynsemi.
Þegar rætt er um fjölmiðla er með öðrum orðum ekki nóg að benda á menntunarleysi blaðamanna. Líka þarf að mennta þá sem fjölmiðlana nota, neytendurna.
Svo ég segi það einu sinni enn: Það er löngu tímabært að taka upp kennslu í fjölmiðlanotkun í skólum landsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.11.2007 | 11:59
Yfirvinna fyrir jólin?
Við berum okkur vel, Íslendingar og getum vel við unað, eigum fleiri sjónvörp per haus en nokkur önnur þjóð í veröldinni og óvíða er algengara að heimili hafi tvo bíla til umráða en hér á Fróni. Reyndar höfum við mikið fyrir þessum eignum. Íslendingar leggja hart að sér í þeirra þágu. Við vinnum langa vinnudaga, tökum flestum þjóðum fram í því, enda er iðjusemi kristin dyggð og vinnan hefur ekki bara gildi að því leyti að af henni höfum við lifibrauð.
Vinnan er hluti af sjálfsskilningi okkar. Það þekkja þeir trúlega best sem verið hafa atvinnulausir í langan tíma. Mikilvægi vinnunnar er augljóst.
Hitt er ef til vill ekki jafnljóst að enda þótt manninum sé mikilvægt að vinna er það honum ekki síður dýrmætt að vinna ekki.
"Það sem mér hefur virst gott og fagurt er að maðurinn eti og drekki og njóti fagnaðar af öllu striti sínu því er hann streitist við undir sólinni alla ævidaga sína, þá er Guð gefur honum, því það er hlutdeild hans," segir í Prédikaranum.
Einmitt það gerum við þegar við bregðum okkur í betri fötin og höldum veislu eða hátíð. Þá erum við að njóta fagnaðar af striti okkar - hvert sem það er.
Sú þjóð telst rík sem á nóg af bílum í heimreiðunum og sjónvarpstækjum í stofunum en það land er fátækt og aumkunarvert sem ekki kann að njóta fagnaðar af vinnu sinni og gera sér dagamun. Margar þjóðir eru fátækari en við á Íslandi. Engin þjóð er þó svo fátæk og aum að þar þekkist ekki veislur eða hátíðir, líka þótt veisluföng séu oft af skornum skammti.
Hátíðirnar eru til að minna okkur á að við lifum ekki til þess að vinna heldur vinnum við til að lifa.
Við þurfum ekki að vinna til að geta tekið okkur almennilegt frí eða gert okkur dagamun sómasamlega. Þessu er þveröfugt farið.
Við höldum hátíð til að sjá tilganginn í striti okkar, amstri og handtökum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.11.2007 | 12:53
Fórnarlömb pólitísks rétttrúnaðar
Nýlega kom út í Bandaríkjunum bókin Until Proven Innocent: Political Correctness and the Shameful Injustices of the Duke Lacrosse Rape Case eftir þá félaga Stuart S. Taylor og K. C. Johnson. Ég rakst á ritdóm um bókina hér og styðst við hann í þessari færslu.
Lacrosse er íþrótt sem ég kann ekki að skilgreina, einhvers konar hokkí. Það nýtur töluverðra vinsælda í Bandaríkjunum. Margir háskólar þar vestra leggja metnað í að hafa gott lið í lacrosse, meðal annars hinn virti Duke háskóli í Durham í Norður-Karolínu.
13. mars í fyrra gerðu liðsmenn lacrosseliðsins í Duke sér glatt kvöld og fengu til sín tvær fatafellur. Þær voru báðar þeldökkar en liðið er því sem næst alhvítt. Komið var fram undir miðnætti þegar nektardansinn hófst og upp úr því urðu viðburðir sem áttu eftir að vera fjölmiðlum aðalfréttir og eitt helsta umræðuefni þjóðfélagsins næstu mánuðina.
Nektardansinn stóð ekki nema fjórar mínútur. Önnur fatafellan hafði þá hnigið niður og leit út fyrir að hún væri drukkin eða undir áhrifum eiturlyfja. Stuttu síðar kvöddu þær stöllur veisluna. Í kveðjuskyni skiptust þær og liðið á skammaryrðum, sumum rasískum.
Ekki var viðskiptum þeirra og veislugesta þó lokið, því síðar um kvöldið fullyrti önnur fatafellan að henni hefði verið nauðgað af fleiri en einum íþróttamanni í veislunni. Tíu dögum síðar tilkynnti lögreglan í Durham að enginn vafi léki á því að viðbjóðsleg nauðgun hefði átt sér stað í gleðskap háskólaliðsins. Lögreglan hefði áþreifanlegar sannanir fyrir því. Saksóknarinn, Michael Nifong, sagði að í lacrosseliðinu væru "bullur og nauðgarar". Þrír liðsmanna voru ákærðir í málinu. Saksóknarinn kveikti heita elda í samfélaginu þegar hann líkti glæpaverkinu við brennandi krossa, en meirihluti íbúa í Durham er þeldökkur.
Allt varð vitlaust í háskólanum þegar ákærurnar urðu heyrinkunnar. Mótmælendur marseruðu á staðinn þar sem meint nauðgun átti að hafa átt sér stað og veifuðu skiltum með áletrunum eins og "Játið!" eða "Geldið þá!". Nokkrum dögum síðar var háskólasvæðið þakið WANTED-plakötum með myndum af öllum 46 meðlimum lacrosseliðsins.
Ekki stóð á yfirlýsingum frá róttækum háskólakennurum. Þeir komu fram hver á eftir öðrum og fordæmdu íþróttaliðið. Einn prófessoranna sakaði liðsmennina opinberlega um viðbjóðslegt kynferðisofbeldi og kynþáttahatur og sagði þá vera dæmigert hvítt forréttindafólk. Þeir væru alidýr. Hópur menntamanna birti undirritaða heilsíðuauglýsingu í háskólablaðinu þar sem Duke var lýst sem félagslegu stórslysi fyrir stúdenta. Skólinn væri löðrandi í kynþáttahyggju. Það kæmi vel í ljós í atburðum líðandi stundar. Mótmælendum var hrósað fyrir að láta í sér heyra.
Háskólarektorinn, Richard Broadhead, sagði kynferðislegt ofbeldi engan veginn eiga heima í Duke. Ásakanirnar á hendur liðinu gætu leitt til þungra refsinga og dró rektor liðið út úr keppni. Síðar vísaði hann þeim ákærðu úr skóla.
Sagan var ekki lengi að fá fætur og komst á forsíðu New York Times og fleiri blaða. Fjallað var um málið á sjónvarpsstöðvum og alls staðar var málinu stillt þannig upp að aðilar þess væru annars vegar drukknir, hvítir og hrokafullir forréttindastrákar en hins vegar fátæk, þeldökk og einstæð móðir, sem var að vinna sér fyrir framhaldsnámi.
Fjölmiðlarnir þénuðu vel á þessari hneykslissögu en á henni var þó einn ljóður. Smám saman kom í ljós að hún var alls ekki sönn. Hið meinta fórnarlamb varð uppvíst að margháttuðum lygum og saksóknarinn í málinu reyndist hafa hagrætt sönnunargögnum og falsað. Í janúar á þessu ári tók yfirsaksóknari fylkisins málið að sér og í apríl voru hinir ákærðu lýstir saklausir.
Í nýliðnum september bað háskólarektorinn í Duke lacrosseliðið opinberlega afsökunar en hinir róttæku kennarar skólans sáu enga ástæðu til þess. Hluti þeirra vísaði á bug öllum kröfum um opinbera afsökunarbeiðni og sagði fyrri skrif hópsins um málið hafa verið mistúlkuð.
Fjölmiðlar áttuðu sig á því að umfjöllun þeirra um þetta sakamál var byggð á röngum forsendum - með nokkrum undantekningum. Þannig stendur New York Times ennþá við sín skrif.
Kjarni málsins er sá að nánast enginn þorði að halda uppi vörnum fyrir sakborninga af ótta við fordæmandi viðbrögð samfélagsins. Lacrosseliðið var hið eiginlega fórnarlamb í þessu sakamáli og sökudólgurinn svonefndur pólitískur rétttrúnaður.
Í þágu hans var æra þessara manna dregin niður í svaðið og réttur þeirra að vera álitnir saklausir uns sekt er sönnuð að engu hafður.
Það var pólitískur rétttrúnaður sem svipti þessa menn mennskunni og gerði þá að "alidýrum" eins og einn prófessorinn kallaði þá.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
4.11.2007 | 11:43
Rangir menn á röngum stöðum
Friðrik Olgeirsson, sagnfræðingurinn ólafsfirski, stendur í stórræðum og skrifar ævisögu Davíðs Stefánssonar, eins og fram kemur í Fréttablaðinu í dag. Ég hlakka mikið til að lesa hana. Friðrik heldur því fram að Davíð hafi aldrei notið sannmælis í menntamannaelítunni á Íslandi. Hann hafi ekki þótt nógu pólitískur. Þessu get ég vel trúað.
Þó held ég að það hafi ekki verið skáldinu frá Fagraskógi til framdráttar hvar hann átti heima. Hann var á vitlausum stað - fyrir norðan en ekki fyrir sunnan.
Ekki er langt síðan ég heyrði mann halda því fram í sjónvarpi að Kristján frá Djúpalæk hafi verið stórlega vanmetið skáld. Ég tek undir það. Kristján er að mínu mati eitt af stóru skáldunum okkar. Ef til vill var hann bara búsettur á vitlausum stað?
Þriðja skáldið sem hugsanlega hefði náð lengra hefði það stofnað heimili í nánd við hina viðurkenndu elítu var snillingurinn Heiðrekur Guðmundsson. Mynd af honum prýðir þessa færslu. Ef þið eigið ekki bók eftir hann hvet ég ykkur að nálgast eina hið fyrsta. Heiðrekur bjó hér niðri á Eyri í samfélagi við slippkalla og frystihúsfrúr, fjarri kaffihúsunum í hundrað og einum.
Ekki get ég fullyrt að það hafi riðið baggamuninn hjá þessum skáldum hvar þeir bjuggu en ég er viss um að það var þeim ekki til framdráttar. Listamenn úti á landi eiga enn erfitt með að öðlast viðurkenningu. Þeir drekka hvorki kaffi né brennivín með rétta fólkinu og komast ekki í sviðsljós fjölmiðlanna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
2.11.2007 | 11:58
Móðurást
Ef til vill er hugtakið móðurást" ekki viðeigandi á okkar tímum.
Er það ekki karlremba að ætla móðurinni einhverja sérstaka ást til barna sinna, með öllum þeim skuldbindingum og ábyrgð sem því fylgir?
Nú á dögum eru mæður heldur ekkert nauðsynlegar - nema þá kannski sem einhvers konar meðgöngumaskínur.
Fjöldi barna missir mæður sínar eða elst upp fjarri þeim.
Ef við tölum um einhverja sérstaka móðurást", erum við þá ekki að segja að þau börn búi við lakari uppeldisaðstæður og verra atlæti sem aldrei kynnast raunverulegri móður sinni?
Svo eru mörg dæmi um alveg afleitar mæður.
Þú varst líknin, móðir mín,
og mildin þín
studdi mig fyrsta fetið,yrkir Örn Arnarson, eitt þeirra fjölmörgu skálda sem gerði falleg og hástemmd kvæði um móðurástina.
Er þannig skáldskapur aðeins arfur liðinna tíma?
Hvað er svona sérstakt við móðurástina?
Lítill strákur, freknóttur með útstæð eyru, alltaf grenjandi, linur, lélegur í íþróttum, gengur illa í skólanum, kennararnir kvarta, óvinsæll, á enga vini.
Móðirin á þennan dreng. Hann er gimsteinninn hennar. Hún fæddi hann í heiminn. Hann er hennar. Hún elskar hann.
Hún er líknin hans í hörðum heimi. Mildi hennar bjargar honum. Hún lætur hann finna að hann er dýrmætur og elskaður eins og hann er.
Auðvitað er til föðurást og foreldraást en þeir sem kynnst hafa móðurást vita að hún er engri ást lík.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
31.10.2007 | 15:37
Bannað að lesa!
Rómverski rannsóknarrétturinn varð ekki jafn frægur og sá sem starfaði Spáni, enda yngri og þeir rómversku töluverðir eftirbátar kollega sinna í smásmygli og nákvæmri skriffinnsku.
Rannsóknarrétturinn rómverski var settur á laggirnar árið 1542. Hann starfar enn undir heitinu Congregatio pro Doctrina Fidei. Verkefni og starfsaðferðir hafa breyst frá því sem var.
Frægasta mál réttarins var árið 1663 gegn vísindamanninum Galileó Galileí (málverkið með færslunni sýnir Galileí í yfirheyrslum).
Rannsóknarrétturinn fékkst ekki einungis við vísindakenningar. Trúað fólk varð ekki síður fyrir barðinu á honum vegna trúarskoðana sinna. Gyðingar, múslimar, orþódoxar og mótmælendur voru þar á meðal. Heilög Teresa, einn uppáhaldsdýrlingurinn minn, lenti í klónum á rannsóknarréttinum. Öðlaðist síðan heldur betur uppreisn æru sinnar.
Árið 1559 gaf rómverski rannsóknarrétturinn út lista yfir bannaðar bækur, Index Librorum Prohibitorum. Er hann býsna fjölskrúðugur og Biblíur ýmsar áberandi á honum.
Skiljanlega er þar þó hvorki hin nýja íslenska þýðing heilagrar ritningar né Tíu litlir negrastrákar.
Lista þennan má skoða hér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)