Færsluflokkur: Bloggar
31.10.2007 | 08:59
Klifun lyginnar
Í 24 stundum í dag leggst Óli Gneisti Sóleyjarson á árarnar með Illuga Jökulssyni við að telja Íslendingum trú um að ný þýðing Biblíunnar sé full af breytingum á frumtexta hennar. Þjóðkirkjan standi að þessum breytingum og helstu sérfræðingar þjóðarinnar í frummálum Biblíunnar séu aðeins strengjabrúður. Fræðimennska þeirra er lítilsvirt og vegið dólgslega að starfsheiðri mæts fólks.
Óli Gneisti og Illugi virðast svo vel að sér í grísku að þeir vita betur en fólk með margra ára nám að baki í þeirri tungu. Illugi veit meira að segja betur en grískar orðabækur.
Þó hefur Óli Gneisti vinninnginn í grískukunnáttu eins og hér sést.
Sem dæmi um fölsun Þjóðkirkjunnar á frumtextum Biblíunnar nefnir Óli Gneisti stað í Fyrra Korintubréfi og segir að gríski frumtextinn bendi til annars en þess sem stendur í nýju Biblíúútgáfunni íslensku og segir orðrétt:
"Gríski frumtextinn bendir einfaldlega til þess að hér sé verið að tala um samkynhneigð (sbr. Sjötíumannaþýðinguna)."
Lesandinn getur ekki ímyndað sér annað en að Óli Gneisti hafi frumtextann fyrir framan sig þegar hann kemst að þessari niðurstöðu, svonefnda Sjötíumannaþýðingu.
En hver er nú þessi Sjötíumannaþýðing sem Óli Gneisti notar til að skoða texta Nýja testamentisins?
Jú, þar er um að ræða gríska þýðingu á textum Gamla testamentisins, en frumtexti þess er á hebresku. Er talið að henni hafi verið lokið um 130 fyrir Krist.
Fyrra Korintubréf var því ekki í Sjötíumannaþýðingunni - né önnur rit Nýja testamentisins.
Verður að teljast til tíðinda þegar íslenskur bókasafnsfræðingur finnur rit í þýðingu sem gerð var löngu áður en ritið var skrifað.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
30.10.2007 | 13:37
Það er eitthvað að mér
Hamingjan er falboðin á hverju götuhorni. Okkur er sagt að hún sé málið. Sá sé tilgangurinn. Að vera hamingjusöm.
Einkennilegt er það nú samt með þetta hamingjusama fólk. Alltaf þarf það að vera annað fólk en við.
Aldrei er ég almennilega þar á meðal.
Eitthvað hlýtur að vera að mér.
Stundum er ég nefnilega óhamingjusamur.
Fyrir nokkrum árum var verið að ræða hjónabandið og ástina í sjónvarpsþætti. Talið barst að hamingjunni og lyklinum að henni.
Einn gesta þáttarins sagði að sér þætti eiginlega nóg að reyna að lifa heilsusamlegu lífi og borða trefjaríka fæðu næstu fjörutíu árin eða svo. Og spurði síðan:
"Þarf maður að vera alveg trylltur af hamingju líka?"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
28.10.2007 | 22:27
Dæmalaus leiðindi
Í barnaskólanum í gamla daga fengum við dæmahefti. Þau voru full af reikningsdæmum sem við áttum að spreyta okkur á. Aldrei var ég öflugur í stærðfræðinni og alls ekki öruggt að niðurstöður mínar væru sannar og réttar.
Til hliðar við dæmaheftin höfðum við svokölluð lausnahefti sem eins og nafnið gefur til kynna höfðu að geyma réttar lausnir á dæmunum í hinum heftunum.
Þegar talað er um sannleikann minnist ég oft þessara lausnahefta. Þau voru sannleikurinn. Þar var ekkert nema endalaus, borðleggjandi og gegnheill sannleikur.
Frekar voru þessi lausnahefti þurr aflestrar og sumir kennaranna vildu helst ekki að við börnin fengjum þau afhent. Þeir sögðu að útkoman skipti ekki meginmáli. Aðalatriðið væri að við reyndum að reikna dæmin og lærðum réttar aðferðir.
Þessir kennarar áttu til að gefa manni rétt fyrir dæmi þótt maður fengi vitlaust út úr þeim - ef þeir sáu að rétt var reiknað.
Sennilega er það líka þannig með sannleikann. Fleira en svörin og lausnirnar hefur gildi. Ekki er síður mikilvægt að spreyta sig á sannleikanum og glíma við hann en að komast að endanlegri niðurstöðu. Kunna réttu aðferðirnar, þekkja leiðirnar, vita spurningarnar.
Og eru það ekki miklu fremur dæmaheftin en lausnaheftin sem gera tilveruna spennandi verkefni og lífið þess virði að lifa því?
Bloggar | Breytt 29.10.2007 kl. 21:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
27.10.2007 | 16:45
Að breyta orðabók
Illugi Jökulsson skrifar pistil í 24 stundir sem hann nefnir "Að breyta bók". Þar heldur hann því fram að "þýðendur Biblíunnar hafi vísvitandi breytt frumtextanum vegna þess að í íslensku þjóðkirkjunni nennir enginn lengur að trúa á meyfæðinguna" og á þá við að í nýju þýðingunni er gríska orðið "monogenes" ekki lengur þýtt "eingetinn" heldur "einkasonur".
Illugi er heldur ekki lengi að sjá samsæriskenningu í því athæfi þýðingarnefndar Biblíunnar að þýða gríska orðið "adelfoi" með "bræður og systur" í staðinn fyrir "bræður" og segir það sögufölsun.
Í fórum mínum er grísk-ensk orðabók "An Intermediate Greek-English Lexicon" gefin út í Oxford og ætti að vera hægur vandi fyrir góða grískumenn eins og Illuga - sem er jafnvel enn betur að sér um gríska tungu en þýðingarnefndin - að nálgast hana eða önnur þvílík rit.
Þar stendur um "monogenes":
"only-begotten, single"
Við orðið "adelfoi":
"brother and sister"
Virðist fokið í flest skjól fyrir Illuga sem þó er þjóðkunnur fyrir þýðingar sínar úr grísku.
Ekki nema að orðabókin sé hreinlega vitlaus.
Eða þá að Þjóðkirkjan hafi beitt sér fyrir breytingum á henni líka?
(Vilji menn lesa meira um "monogenes" er ágæt umfjöllun um hugtakið hér.)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.10.2007 | 23:42
Gagarín
Þegar sovéski geimfarinn Gagarín kom úr fyrstu mönnuðu geimferðinni hélt Krústsjov honum veglegt kvöldverðarhóf. Eftir að menn höfðu neytt matar og drykkja tók Krústsjov geimfarann afsíðis og spurði hann:
"Alveg okkar á milli, Gagarín, sástu hann, þú veist HANN, nokkuð þarna uppi?"
Gagarín hvíslaði í eyra leiðtogans: "Jú."
"Hálfpartinn grunaði mig þetta," sagði Krústsjov lágum rómi og mjög alvarlegur í bragði. Svo bætti hann við:
"En ekki orð um þetta við nokkurn mann!"
Nokkru síðar leiddi æðsti yfirmaður rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar geimfarann með sér út í horn og vildi fá að vita það sama:
"Alveg okkar á milli, Gagarín, sástu hann, þú veist HANN, ekki þarna uppi?"
Gagarín hristi höfuðið.
"Hálfpartinn grunaði mig þetta," muldraði guðsmaðurinn og bætti við áhyggjufullur:
"En í Guðs bænum ekki orð um þetta við nokkurn mann!"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.10.2007 | 22:40
Einkavæðing Drottins allsherjar
Rabbí Jakob Emden var eitt sinn spurður að því hvers vegna nýárshátíð Gyðinga stæði í tvo daga. Hann svaraði:
"Jú, fyrri daginn leitum við til Guðs og biðjum hann að láta allar okkar óskir rætast.
Þann seinni biðjum við hann að láta óskir óvina okkar ekki rætast."
Það sem einn þráir er annars kvíði. Draumurinn minn getur verið martröðin þín.
Nú láta menn ekki nægja að einkavæða alla skapaða hluti heldur snúa sér að því óskapaða. Guð sjálfur er í miðju einkavæðingarferli. Trúin á hann er algjört einkamál. Hver hefur sinn guð og smíðar sér trú að smekk.
Skipulögð trúarbrögð eiga undir högg að sækja. Trúin tilheyrir einkageiranum. Fólk þarf ekki á öðrum að halda í þeim efnum. Enda er annað fólk yfirleitt til vandræða.
Trúin er mitt mál og kemur öðrum í raun ekki við. Mín einkatrú er trú í mína þágu, mér til gagns og yndisauka og hagræðis. Mitt valíum og víagra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
23.10.2007 | 22:13
Sing if you´re glad to be straight!
Fróðlegt hefur verið að fylgjast með því hvernig umræðan um samkynhneigð hefur þróast.
Nú virðast mörg af helstu baráttumálum samkynhneigðra vera í höfn. Þeir njóta sömu réttinda og annað fólk. Þeir geta gift sig borgaralega. Þjóðkirkjan veitir hjúskap þeirra blessun. Allar líkur eru á að prestar Þjóðkirkjunnar fái rétt til að gefa þá saman að lögum og þá geta þeir gift sig kirkjulega líka.
En hjúskaparformið heitir ennþá "staðfest samvist" en ekki "hjónaband" og því vilja samkynhneigðir ekki una. Þeir vilja að hjúskapur þeirra nefnist það sama og hjúskapur gagnkynhneigðra. Vilja alls ekki vera hinsegin - að því leyti.
Þá rísa upp gagnkynhneigðir og finnst að sér vegið. Þeir vilja verja hjónabandið sem hjúskaparform gagnkynhneigðra. Þeir vilja varðveita þau sérkenni sín að vera gagnkynhneigðir. Rétt sinn til gagnkynhneigðar. Þeir koma undan rúmunum og öfugir út úr skápunum.
Þeir vilja fá að vera þau en hvorki þeir né þær.
Ég spái stofnun Samtakanna 87.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
21.10.2007 | 16:52
Drukkinn prestur klúðrar hjónavígslu
Hjónabönd og hjónavígslur eru skeggræddar. Slíkt hefur verið með mörgu móti eins og sagan sýnir.
Hjónavígsla héraðshöfingjans Eyjólfs í Svefneyjum og Guðrúnar Jóhannsdóttur var harla skrautleg eins og fram kemur í bók Jóns Helgasonar "Íslenskt mannlíf" (I. bindi).
Guðrún var prestsdóttir. Faðir hennar, séra Jóhann glænefur Bergsveinsson í Garpsdal, annaðist giftingu hennar og Eyjólfs. Var hann allölvaður við athöfnina og leist ekki betur en svo á mannsefni dóttur sinnar að í miðri athöfn reyndi hann að telja hana á að hætta við að játast Eyjólfi.
Eyjólfur var sagður bæði ráðríkur og harðfengur, gæddur víkingseðli, og þeir eiginleikar komu fram á þessari ögurstundu fyrir altarinu sem hlýtur af hafa verið neyðarleg brúðhjónum og prúðbúnum kirkjugestum. Greip Eyjólfur til þess ráðs að binda enda á óvæntar umleitanir verðandi tengdaföður síns með því að taka brúði sína í fangið "og bera hana brott úr kirkjunni".
Jón Helgason segir að lögboðinni hjónavígslu hafi því aldrei verið komið á, "en veizla var haldin, og því voru þau álitin hjón".
Til að taka af allan vafa um að veislan hafi skapað lögmæti vígslunnar bætir hann við:
"Rengdi það enginn, þar eð allir máttu drekka eins og þeir vildu, segir séra Friðrik Eggerz í ritum sínum."
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.10.2007 | 11:23
Ný þýðing grundvallarrits
Fyrir nokkrum árum var vinur minn að ljúka prófum í sagnfræði frá þýskum háskóla. Síðasta sumarið hans í námi var honum sett fyrir að lesa Biblíuna. Prófessorinn hans sagði honum að engin ein bók hefði haft jafn mikil áhrif á vestræna menningu, listir og löggjöf og Biblían. Því lærði maður ekki sögu í evrópskum háskóla nema að lesa Biblíuna. Vinur minn var dálítið glottandi þegar hann sagði mér frá þessu því hann hefur aldrei talist biblíufastur maður.
Til að skilja Biblíuna er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að hún er í raun ekki ein bók heldur mikið ritsafn sem varð til á löngum tíma. Enginn veit með vissu hversu gömul elstu ritin eru. Burtför Hebrea úr Egyptalandi gæti hafa verið um 1300 fyrir Krist, ríki Davíðs er talið hafa staðið um 1000 fyrir Krist og herleiðingin til Babýlon hófst 587 fyrir Krist. Yngstu rit Gamla testamentisins eru frá því um 300 fyrir Krist en elstu rit þess nýja á að giska 400 árum yngri.
Kólumbus sigldi frá Spáni árið 1492. Engar smáræðis breytingar hafa orðið í veröldinni frá þeim atburði fram á okkar daga. Aldur rita Biblíunnar spannar meira en tvisvar sinnum þann tíma. Ritin urðu til á mörgum mismunandi tímum og þau voru skrifuð af alls konar fólki í ýmiskonar þjóðfélagsaðstæðum auk þess sem þau eru sjálf mjög mismunandi að gerð.
Þess vegna er engin ein guðfræði í Biblíunni. Þar er að finna margar hugmyndir um Guð og hin hinstu rök tilverunnar. Engin ein siðfræði er á sama hátt í öllum hinum fjölbreytilegu ritum Biblíunnar heldur er þar fjöldinn allur af ólíkum siðferðilegum sjónarmiðum.
Kristnir menn trúa ekki á Biblíuna sem slíka enda höfðu þeir framan af mjög takmarkaðan aðgang að henni. Til dæmis er talið að sjálf heilög Teresa hafi lengst af aldrei lesið Biblíuna. Bókin góða þótti hvorki kvenna né leikmanna meðfæri á tímum Teresu. Þó var hún tekin í dýrlingatölu og hlaut fyrst kvenna þann sess að vera útnefnd ein af lærimeisturum kirkjunnar.
Til að finna siðfræðilegan og guðfræðilegan samhljóm í Biblíunni er farin sú leið að túlka það sem þar stendur. Þá er sumum textum gefið meira vægi en öðrum og reynt að lesa það sem milli línanna leynist. Hugað er að merkingu orða og hugtaka og ljósi þeirrar þekkingar sem við höfum á ritunartíma Biblíunnar brugðið á það sem þar stendur.
Að mínu mati er mikill misskilningur að annað hvort verði að taka Biblíuna bókstaflega eða henni sé alls ekki tekið. Biblíuna er ekki hægt að taka bókstaflega. Telji menn það mögulegt verða þeir að taka fram hvaða Biblíu þeir ætli að "taka bókstaflega".
Er það sú íslenska eða sú gríska?
Biblíuna verður að túlka - eins og annað sem við lesum, heyrum eða sjáum.
Biblían er samt óumdeilanlega trúarrit kristinna manna. Þeir leita þangað til að dýpka og skerpa trú sína. Kristnir menn hafa fundið svör við knýjandi spurningum í Biblíunni. Siðferði þeirra og trú hefur mótast af heilagri ritningu og textar hennar hafa veitt þeim huggun og styrk. Síðast en ekki síst eru sögurnar af Jesú í Biblíunni, guðspjöllin, helstu heimildirnar um líf, störf og kenningar frelsarans.
Til hamingju með nýja Biblíuþýðingu!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
18.10.2007 | 20:50
Lækningar og kraftaverkalækningar
Í kjölsogið á umræðum um kukl og skottulækningar kemur enn einn þátturinn af hinum sæla Þorláki. Hann átti aldrei við góða heilsu að stríða, eins og kallinn sagði, "var aldrei allvel heill í sínum biskupsdómi", eins og það er orðað í Þorláks sögu helga.
Auk þess var honum mjög stirt um mál sem hlýtur að hafa komið sér illa fyrir mann í hans stöðu.
Enginn þarf að efast um að Þorlákur helgi hafi trúað heitt og innilega á kraftaverk enda urðu honum ýmis tilreiknuð eftir að hann hófst úr þessum heimi.
Þorlákur hafði líka trú á læknum þeirra tíma og álit hans á þeim er á margan hátt það sama og kirkjunnar í dag:
Guð er ekki einungis að verki í kraftaverkalækningum heldur líka í hinum hefðbundnu.
Það endurspeglast í þessum orðum úr Þorlákssögu:
"Aðgerðir lét hann lækna oft hafa að sér við sinni meinsemi og sýndi það að guð hefir til setta lækna að þeir skulu stundum mega að drottins vilja með skömmum sárleikum stöðva löng óhægindi."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)