Færsluflokkur: Bloggar

Málfrelsið þá og nú

thorhallurbjarnarsonÉg hef áður skrifað um málfrelsið og hættur þess að setja því mörk.

"Á þessu ári hafa árásir á kirkju og kristnidóm verið tíðari en undanfarin ár og þó einkum miklu svæsnari. Um mörg ár hefir kristindómsárásin farið hámælum erlendis, og vér förum nú einnig að venjast því hér heima. Hve sárt sem það tekur trúaða kristna menn, má engum koma sú heimska í hug, að stemma megi eða stemma eigi stigu við slíku með aðhaldi laganna. Ég hefi orðið var við slíkan hugsunarhátt og finn því ástæðu til að mótmæla honum."

Þetta er finnst mér viturlega mælt. Sá sem skrifar er líklega Þórhallur nokkur Bjarnarson, ritstjóri Kirkjublaðsins - mánaðarrits handa íslenskri alþýðu. Þórhallur heldur áfram:

"Auðvitað hljóta allar svæsnar árásir, og ekki síst séu þær samfara hæðilegum orðum um hið helgasta og dýrasta hjá kristnum mönnum, að særa tilfinningar trúaðra manna, trúarlífið er öllum hið viðkvæmasta, en að mæla þeim mönnum sama mæli með vondum orðum álít ég ókristilegt, og Kirkjublaðið mun aldrei gjöra það, hversu margir sem krefjast..... Kaldyrði og háð kristindómsneitenda álítur Kbl. að beri að þola endurgjaldslaust. En þegar þeir færa rök fyrir skoðunum sínum, eða leitast við að sýna og sanna með ástæðum og rökum, að kristindómurinn sé heimska eða hneyksli, ber að svara ástæðum og röksemdum þeirra og hrekja þær."

Þetta Kirkjublað var útgefið árið 1895. Lítið hefur breyst síðan. Enn eru umræður um málfrelsið. Svæsnar árásir á kristindóminn eru heldur ekkert nýtt - og kynni maður sér þær er inntak árása nútímans svipað og fyrir rúmri öld. Og enn spá menn í það hvernig sé best að svara slíkum áhlaupum og upphlaupum.

Ritstjóri Kirkjublaðsins var framsýnn og reyndar var Kirkjublaðið alveg ótrúlega frjálslynt og á margan hátt róttækt.

Í sömu grein er minnst á hið mikla tabú íslenskrar fjölmiðlunar vorra daga, eignarhald á fjölmiðlum. Þar segir Þórhallur Bjarnarson:

"Málfrelsi og prentfrelsi er hin allradýrmætasta hnoss siðaðra þjóða. Það er hið verulegasta og varanlegasta af öllu því, sem 120 ára frelsisumbrot hafa veitt Evrópu og Ameríku. Hvernig sem sumir kunna með það að fara, er ávinningurinn þúsundfaldur. Án málfrelsis og prentfrelsis er hugsunarfrelsi í raun og veru alls ekki til. Málfrelsi og prentfrelsi er hinn besti og tíðum einasti skjöldur fyrir réttindum og hagsmunum lítilmagnans. Þá fyrst yrði hver þjóð til fulls ánauðug, þrátt fyrir allar stjórnarskrár, ef stjórnarvaldið eða auðvaldið, gæti kúgað eða keypt í sína þjónustu málgögn þjóðarinnar, blöðin, hið daglega sálarfóður almennings."

(Ég tók mjer það bessaleyfi að færa texta Kirkjublaðsins til nútímalegrar stafsetningar. Myndin með færslunni er af Þórhalli, tekin af vef Alþingis.)

ES.

Lesandi sem til þekkir benti mér á að myndin er alls ekki af Þórhalli heldur syni hans, Tryggva. Ekki get ég mótmælt því og hefði ég haft fyrir því að skoða vef Alþingis betur er þar greinilega fram tekið að myndin sé af Tryggva. Þetta leiðréttist hér með og biðst ég fyrirgefningar á ruglinu.


Fimm mínútur

fimmÞað má gera alveg óskaplega margt og mikið á fimm mínútum.

Svo er hægt að klúðra öllu saman á jafnvel enn styttri tíma.

Það er t. d. hægt að yrkja prýðilegt ljóð á fimm mínútum.

Fimm mínútur eru yfirleitt kappnóg til að lesa íslenskt dagblað eða til að vera kominn með veðrið næstu dagana á hreint - hér og í öðrum heimshlutum.

Ég hef útbúið dýrlegar máltíðir á fimm mínútum (þótt ég verði að viðurkenna að mér hefur aldrei tekist að ljúka sómasamlegri máltíð á þeim tíma).

Fimm mínútna ástaratlot geta verið hreinn unaður og bjargað hvort heldur sem er deginum eða nóttinni.

Fimm mínútur nægja fyllilega til að fá eitursnjalla hugmynd sem gæti leyst hlýnunarvandann í eitt skipti fyrir öll.

Og eftir aðrar fimm mínútur er maður svo búinn að gleyma lausninni sem hefði getað bjargað veröldinni.

Vel er hægt að eignast góðan vin fyrir lífstíð á fimm mínútum. Og hver hefur ekki tapað vini á innan við fimm mínútum?

Fimm mínútur eru góður tími til að mala baunir og sjóða þykkt og freyðandi espressó.

Fimm mínúturnar eru sennilega málið.

Ég er með flotta bók í höndunum. Fimm mínútna Biblían heitir hún og er að koma út þessa dagana.

Á hverjum degi lest þú stuttan kafla úr Biblíunni og færð útskýringar á því sem þú last á mannamáli. Hver lesning er skemmtilega uppsett með örlitlum pælingum til að koma þér af stað.

Þú þarft ekki nema fimm mínútur á degi hverjum til að kynnast bók bókanna og sjá "eilífðina á líðandi stund" eins og það er orðað á bókarkápu.

Bókin er þýdd úr norsku af sr. Hreini Hákonarsyni og það er ávísun á gott og vandað mál.

Það á svo ekki að taka nema í mesta lagi fimm mínútur að kaupa þessa bók.

Mínúturnar fimm gera gæfumuninn.


Við erum öll hræsnarar

hraesniOfangreind orð eru skrifuð á austurstafn Listasafnsins á Akureyri en þar er nú sýningin Bæ bæ Ísland.

Þessi ábending er þörf nú þegar fastan er að ná hámarki sínu.

Hver manneskja á sér tvær hliðar. Dökka og bjarta. Á föstunni erum við minnt á þá dökku. Þá erum við hvött til þess að horfa í eigin myrkur, heimsku og hroka. Við eigum að kannast við það, viðurkenna það.

Hver sem ekki vill sjá dimmuna í sér er dæmdur til að vera á eilífum flótta undan henni og þar með sér.

Það er mikill en töluvert vinsæll misskilningur að kristindómurinn sé ætlaður góðu fólki og grandvöru. Hann er þvert á móti fyrir hitt fólkið.

Að vísu elskar Guð alla en góða og sterka og hrausta fyrirmyndarfólkið kemst sennilega vel af án hans.

Guð elskar syndarana. Hann elskar manneskjuna eins og hún er. Ekki eins og hún gæti orðið eða ætti að vera.

Okkur er ekki viðbjargandi. Við erum vanmáttug, viljum ekki heyra sannleikann, allra síst um okkur sjálf og þvoum hendur okkar af náunganum.

Aðeins í ljósi Guðs afberum við myrkrið í okkur sjálfum.

Einhvers staðar las ég um mann sem var mjög duglegur að mæta í messur og hafði fyrir sið að þakka presti sínum stólræðuna við kirkjudyr með þessum orðum:

"Gott hjá þér! Þú sagðir þeim heldur betur til syndanna!"

Presti leiddist þessi kveðja. "Sagðir þeim heldur betur til syndanna!" Þessi maður tók auðsýnilega aldrei neitt til sín af því sem sagt var í ræðunni. Aðrir áttu að gera það.

Einn sunnudaginn gerði ægilegan hríðarbyl rétt fyrir messu. Lengi leit út fyrir að ekki kæmi nokkur sála til kirkju vegna óveðursins, en viti menn:

Rétt áður en hringt var inn birtist umræddur maður og fékk sér sæti á sínum vanalega stað.

Það hlakkaði í presti þegar hann steig í stólinn. "Nú læt ég hann heyra það," hugsaði hann með sér og skóf ekki af því, heldur flutti þrumandi ræðu yfir manngarminum, þar sem hann útlistaði hinn efsta dóm, loga heljar og þær ótrúlegu píslir sem fordæmdra bíða.

Prestur beið spenntur eftir því hvernig maðurinn þakkaði honum ræðuna. Sá brá ekki út af vananum, þrýsti hönd prestsins við kirkjudyrnar og sagði:

"Gott hjá þér, prestur minn! Þú sagðir þeim heldur betur til syndanna! Bara að þeir hefðu mætt!"


Alveg á móti syndinni

Karl nokkur var orðvar og fámáll. Eitt sinn er hann kom úr kirkju spurði kona hans hvernig honum hefði þótt messan.

"Ágæt," svaraði hann.

"Um hvað talaði presturinn?"

"Syndina."

"Og hvað sagði hann um hana."

"Hann var á móti henni."

Þeir sem á annað borð tala um syndina eru yfirleitt alveg á móti henni.

Við prestarnir líka. Kirkjan er á móti syndinni. Fólk er held ég með það á hreinu.

Spurningin er bara hvernig kirkjan er á móti syndinni.

Sumir vilja meina að veröldinni sé skipt upp í tvö algjörlega aðgreind svið, það veraldlega og það andlega. Kirkjan eigi að halda sér við andlega sviðið en láta öðrum eftir að skipta sér af því veraldlega.

Hvernig starfaði Jesús Kristur?

Hann lét sér ekki nægja að vera á móti syndinni.

Hann læknaði til dæmis sjúka, reisti fallna, mettaði svanga og veitti þeim útskúfuðu von og virðingu.

Kirkja sem hefur Jesú Krist að leiðtoga og fyrirmynd getur því aldrei orðið að rabbklúbbi um eilífðarmálin, einhvers konar sálarrannsóknarfélagi, með lífið handan grafar að sínu eina leyfilega viðfangsefni.

Jesús hafði óþrjótandi áhuga á jarðnesku lífi. Hann átti í stöðugum samskiptum við fólk með alls konar þarfir og vandamál. Hann vildi mæta því þar sem það stóð.

Kirkjan sem vill líkjast meistara sínum hlýtur að láta sig heill mannsins varða, til líkama og sálar. Hún stendur ekki undir nafni og verðskuldar ekki að vera kennd við Krist nema hún skipti sér af því hvernig mannfólkinu reiðir af á jörðinni.

Ef við teljum að kirkjan eigi ekki að hafa áhyggjur af ranglætinu sem viðgengst í kringum okkur, bara til að fá frið til að spjalla um eilífðarmálin, þá erum við komin langt frá þeirri fyrirmynd sem Jesús var.

Og kirkjan á að hafa kjark til að nefna það illa með nafni.

Annars er hún bara á móti syndinni.

Þýski guðfræðingurinn Dietrich Bonhoeffer sagði:

"Kirkja sem er aðeins til fyrir sig sjálfa er ekki lengur nein kirkja."


Horft í gegnum freyðivínsglasið

listak_frettir_0208[1]Ekki er hægt að kvarta undan lognmollu í kringum Listasafnið á Akureyri. Forstöðumaðurinn, Hannes Sigurðsson, fær snjallar hugmyndir. Ég minnist menningarvitans sem eitt sinn logaði á þaki safnsins og bænaákallsins íslamska sem hljómaði þaðan reglulega, frómum gestum Akureyrarkirkju til mismikillar ánægju, en kirkjan stendur á barmi Listagilsins þar sem safnið er að finna.

Því miður sá ég ekki sýninguna Búdda á Akureyri en las veglegan bækling sem safnið gaf út og dreifði ókeypis til bæjarbúa, útblásinn af skömmum um kristindóminn og Þjóðkirkjuna. Útgáfuna styrktu ýmis vel megandi fyrirtæki auk Akureyrarbæjar.

Nú á að taka fyrir einkavæðingu, kvótakerfi, græðgi, útrás, innflytjendur og stóriðju á sýningu á safninu sem kölluð er Bæ bæ Ísland - Uppgjör við gamalt konsept en þá bregður svo við að engir finnast styrktaraðilarnir.

Auðvitað er ekki sama í hvern er sparkað.

Mér þykir samt gott ef listamönnum tekst að sparka dálítið í okkur, borgarana, og vekja okkur til umhugsunar um lífið og tilveruna. Það er ekki síst við hæfi nú þegar fastan, tími íhugunar og iðrunar, nær hámarki.

Í gær spjallaði Björn Þorláksson við Hannes safnstjóra í fréttatíma Stöðvar tvö. Ég vona að forsjónin fyrirgefi mér glottið sem læddist fram á varir mínar þegar ég hlustaði á Hannes lýsa því hvernig allt væri að fara fjandans til á þessu skeri. Fólk fengi að upplifa það á sýningunni, sjálft helvíti, eins og það var orðað.

Glottið á sér þá skýringu að ég er að lesa bókina Dýrðlegt fjöldasjálfsmorð eftir finnska rithöfundinn Arto Paasilinna. Óborganlegar bókmenntir. Sjálfsmorðskandídatarnir fara til Noregs þar sem þeir hyggjast gera út af við sig með því að keyra á lúxusrútu fram af sjávarhömrum. Stuttu áður en ég heyrði í Hannesi las ég um það þegar kandídatarnir  minntust í sameiningu síns óblíða föðurlands.

Finnland væri miskunnarlaust, þjóðin harðbrjósta, græðgi almenn, fullt af svikahröppum, falsspámönnum og lygurum, fátækir undirokaðir af ríkum, ungmenninn óalandi, skrifræðið óskaplegt og almenningur mergsoginn af kaupmönnum og heildsölum.

Í Finnlandi vinna iðnjöfrar og trjábjöllur saman að því eyða skógunum, súrt regn eitrar akra og bithaga, víkur og flóar eru að fyllast af eitruðum þörungum, ökuníðingar á þjóðvegunum sjá kirkjugörðum landsins fyrir nógu að bíta og brenna og einelti og kynferðislegt áreiti viðgengst á vinnustöðum.

Síðan segir í bókinni:

"Eftir því sem lengra leið á samræðurnar var sjálfsmorðskandídötunum smám saman farið að finnast að þegar öllu væri á botninn hvolft væru þeir lukkunnar pamfílar í samanburði við þá Finna sem voru nauðbeygðir til að halda áfram ömurlegu lífi sínu í þessu skelfilega heimalandi. Þessi uppgötvun gladdi hópinn í fyrsta skipti í langan tíma."

Skyldi sýningin gleðja akureyska elítu með sama hætti?

(Svo ég sparki pínulítið í hana.)


Vændi er glæpur

vaendiAthyglisvert var að heyra viðtal í Kastljósi ríkissjónvarpsins í gær. Þar skiptust þær Drífa Snædal og Heiðrún Lind Marteinsdóttir á skoðunum um vændi.

Heiðrún lýsti þeirri skoðun sinni að við ættum ekki að segja skynsömu fólki mun á réttu og röngu. 

Ef til vill er kjarni vandamálsins sú andstyggilega frjálshyggja að "skynsamt" fólk eigi að fá að ákveða sjálft hvað sé rétt og rangt.

Vilji skynsöm kona selja skynsömum kúnna afnot af líkama sínum eigi það að vera sjálfsagt. Það séu bara viðskipti skynsemdarfólks.

Ekki er ég nú sannfærður um að skynsemin ráði alltaf ferðinni í viðskiptum - jafnvel þótt í hlut eigi skynsamt fólk. Þessa dagana kynna íslenskir viðskiptajöfrar okkur stjarnfræðilegar taptölur fyrirtækja sinna og viðurkenna að óskynsamlega hafi þeir höndlað.

Að mínu mati eigum við alls ekki að láta skynsömu fólki eftir að ákveða hvað sé rétt og hvað sé rangt.

Þrælakaupmenn fyrri tíma voru ekki óskynsamir. Kaupmennska þeirra var úthugsuð. Sjálfir sáu þeir ekkert athugavert eða óskynsamlegt við framferði sitt.

Nú á dögum á þrælahald ekki að viðgangast í samfélagi okkar vegna þess að það samrýmist ekki þeim gildum sem þar eru lögð til grundvallar og þeim hugmyndum sem við höfum um manneskjuna og helgi hennar.

Guði sé lof fyrir að "skynsömu" fólki var ekki eftirlátið að ákveða rétt og rangt í þrælabransanum.

Samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna eru 700.00 konur og stúlkur neyddar út í vændi á hverju einasta ári.

Umfangsmesta verslunin með konur og stúlkur eru í hinni siðmenntuðu Evrópu. Árlega er hálf milljón sett þar á markað. 120.000 kvenna og barna er á hverju ári flutt frá Austur-Evrópu til Evrópusambandsríkja og seld þar hæstbjóðendum. Amnesty International telur að 15% þeirra séu undir 18 ára aldri - sem er ríflega íbúafjöldi Akureyrar.

Á hverju ári!

Hvers konar verslun með konur og börn er siðleysi sem við eigum ekki að láta viðgangast.

Og það er líka alvarleg tegund af siðleysi ef skynsamt fólk fær að ákveða sjálft hvað sé rétt og hvað sé rangt.


Prédikunin

predikariÍ kjölfar umdeildrar prédikunar unglingspilts í Laugarneskirkju á æskulýðsdegi Þjóðkirkjunnar hafa menn velt fyrir sér eðli prédikunarinnar.

Prédikari hefur vald og engum ætti að hleypa í stólinn sem ekki gerir sér grein fyrir því, hvort sem um er að ræða fimmtán ára strák eða rígfullorðinn og sprenglærðan eðalklerk.

Vald prédikarans er í því fólgið að hann má tala en hinir verða að þegja - og jafnvel að hlusta á það sem hann segir hvernig sem þeim líkar það.

Valdi er oft misbeitt og sagan sýnir að manneskjan kann illa að fara með það. Við prédikarar erum þar engin undantekning. Of langar ræður er algengasta ofbeldið sem áheyrendur þurfa að þola af prédikurum. Það er þó ekki það versta.

Stundum föllum við prédikarar í þá gryfju að telja prédikun okkar vera orð Guðs. Þó að siðbótarmennirnir hafi staðhæft "praedicatio verbi Dei est verbum Dei" (prédikun orðs Guðs er orð Guðs) er málið ekki svo einfalt. Áhrifamesti guðfræðingur síðustu aldar, Karl Barth, sagði verkefni prédikarans vonlaust. Einungis Guð sjálfur geti um sig rætt.

Eina von prédikarans er sú að Guði þóknist að tala í hinum mannlegu orðum hans.

Verði prédikun raunveruleg prédikun, verði hin mannlegu orð prédikarans að guðlegum orðum í eyrum áheyrenda og veki trú í hjörtum þeirra, er það aldrei prédikaranum að þakka heldur verk heilags anda "ubi et quando visum est Deo" - hvar og hvenær sem Guði þóknast.

Maðurinn framleiðir ekki orð Guðs og raunar er hann ekki einu sinni framleiðandi eigin orða.

Þegar ég tala er ég ekki að búa til neitt nýtt. Ég nota orð, hljóð og bendingar sem ég hef lært af öðrum. Tal mitt er því ekki mitt eigið. Það er frá öðrum komið og þeim ætlað.

Og einmitt vegna þess að tal mitt er ekki mitt eigið heldur annarra get ég vænst þess að þeir skilji það.

Mál mannsins er margslungið fyrirbæri og ekki verður það auðskiljanlegra þegar búið er að blanda Guði almáttugum inn í það.

Myndin með færslunni er af höggmynd eftir Bob Perkoski.


Gagnlegt málþing

Málþingið um skóla og kirkju sem ég sagði frá í síðustu færslu var mjög gagnlegt - og ótrúlega skemmtilegt.

Þetta var engin halelújasamkoma jásystkina. Ég var alls ekki sammála öllu sem sagt var en annað var eins og talað út frá mínum nýrum.

Framsögumenn stóðu sig með mikilli prýði. Doktor Svanur reið á vaðið og fór á kostum. Hann skaut engum púðurskotum. Sagði lýðræðið eins og við þekkjum það komið úr kristni og að hinn kristni arfur væri það eitt af því dýrmætasta í eigu þessarar þjóðar.

Ekki var hann sáttur við það hvernig Þjóðkirkjan fer með þann arf og skammaði okkur prestana fyrir aumingjaskap. Ónýtir þjónar erum vér. 

Mér þykir óskaplega vænt um Svan. Hann er gegnheill. Og mikil manneskja. Ég vildi að ég gæti oftar heyrt í honum.

Kollegi minn, sr. Þórhallur Heimisson, flutti okkur stórfróðlega sögulega samantekt um tengsl kirkju og skóla sem hér á landi eru enn meiri en ég hélt. Þórhallur er með áheyrilegri prestum.

Kristín Dýrfjörð er nú meiri perlan. Erindið hennar var mjög vel unnið og eftir að hafa heyrt það skil ég þá betur sem ekki eru sáttir við framgöngu sumra kirkjunnar manna í skólum landsins.

Karl Frímannsson, skólastjóri hins háverðlaunaða Hrafnagilsskóla, var síðastur framsögumannanna. Erindi hans var áminning um að aðkoma kirkjunnar að skólum landsins eigi alltaf  að vera á forsendum skólanna. Flott ræða hjá Kalla Frím.

Umræður spunnust um hvort skólastarf þurfi að vera í anda kristilegs siðgæðis og sýndist sitt hverjum. Einnig var töluvert rætt um stöðu kristindóms- og trúarbragðafræðslu í skólunum. Margt skólafólk hefur áhyggjur af greininni sem á að verða hluti af samfélagsfræðum í nýjum lögum.Virðist mér miklu frekar ástæða til að hafa áhyggjur af því en brottfalli margfrægra orða um anda kristilegs siðgæðis úr grunnskólalögum. Síðari breytingin mun m. a. s. hafa verið gerð í samráði við Biskupsstofu.

Ekki má gleyma frábæru framlagi þeirra Tjarnarhjóna, Kristjönu og Kristjáns, sem fluttu okkur fallega tónlist, m. a. yndislegan sálm sem snillingurinn Böðvar Guðmundsson þýddi úr dönsku.

Og allra síst má sleppa því að minnast á veitingarnar, sem foreldrahópur Stúlknakórs Akureyrarkirkju annaðist.

"Sár er kirkjusulturinn," sögðu þeir austur í Mjóafirði

Og "sætur er kirkjusvefninn" sögðu þeir víst suður í sýslum - en það er allt annar landshluti.

ES

Er það ekki týpískt að ég skuli gleyma fundarstjóranum, Bergþóru Þórhallsdóttur? Fundarstjórar gleymast gjarnan en þó er góð fundarstjórn forsenda góðra málþinga. Begga var svo sannarlega góður og röggsamur fundarstjóri!


Kirkjan og skólarnir - Kristur og menningin

skoliÁ morgun verður málþingið "Kirkja og skóli" í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju og að undanförnu hef ég hugleitt tengsl þessara tveggja stofnana. Ég hef meðal annars gluggað í fræga bók eftir bandaríska guðfræðinginn H. Richard Niebuhr, "Christ and Culture" (ISBN 0-06-130003-9). Hún kom út fyrir rúmri hálfri öld og var tímamótaverk.

Ágætan útdrátt úr bókinni er að finna hér.

Í bókinni gerir Niebuhr grein fyrir því hvernig kristindómurinn hefur tengst menningunni. Hann sér fimm leiðir til þess.

Í fyrsta lagi hafa menn á borð við Leo Tolstoy stillt Kristi upp gegn menningunni.

Önnur leiðin er andstæða þeirrar fyrstu. Þar segja menn Krist vera í menningunni, hann sé að finna í því besta í siðmenningunni hverju sinni. Áhangendur þeirrar leiðar sjáum við til dæmis í kristnum mönnum sem uppteknir eru af pólitískum rétttrúnaði og vilja finna samsvaranir milli hans og kristinnar trúar.

Þriðju leiðina nefnir Niebuhr "Kristur ofar menningunni" og þar er stuðst við kenningar Tómasar frá Akvínó. Hann viðurkenndi mikilvægi þess að vera hluti af því veraldlega en taldi það eilífa og guðlega þó alltaf æðra.

Fjórða leiðin er sérstaklega áhugaverð fyrir okkur lútherana því hennar helsti talsmaður er Marteinn Lúther. Hana nefnir Niebuhr "Christ and Culture in Paradox". Í henni er sagt að kristinn maður tilheyri bæði Kristi og menningunni. Þar sé um að ræða tvö ólík fyrirbæri og spennan milli þeirra sé og eigi að vera viðvarandi, dýnamísk og skapandi. 

Síðustu leiðina segir Niebuhr svo fólgna í því að líta á menninguna sem nokkuð sem þurfi að umbreytast af Kristi. Meðal umbreytingarsinna eru Ágústínus kirkjufaðir og Kalvín.

Séu tengsl kirkju og skóla skoðuð í ljósi lútherskra kenninga kemur margt fróðlegt í ljós. Lúther vildi hafa býsna skörp skil milli veraldlegs og andlegs valds og liggur í augum uppi að skólarnir, sem hér á landi eru veraldleg fyrirbæri, eigi samkvæmt þessu að hafa vel afmarkað svið að starfa á. Þeir eiga að fá að vinna að sínu.

Mér þykir líka fróðlegt að skoða tengsl kirkju og skóla með hliðsjón af köllunarguðfræði Lúthers og kenningum hans um almennan prestsdóm allra trúaðra. 

Lúther hélt því fram að hver kristinn maður væri kallaður til starfa sinna og ynni í Guðs þágu. Ekki einungis presturinn, heldur líka bóndinn, sjómaðurinn, bankamaðurinn, eiginmaðurinn, eiginkonan og kennarinn.

Guð kallar manninn til starfa. Störf mannsins, "kallanir hans", taka breytingum bæði að formi og innihaldi og það er hlutverk kristins manns að sinna köllun sinni eins vel og mögulegt er, laga hana að síbreytilegum þörfum heimsins.

Sá kennari sem leggur sig fram við að mennta nemendur sína er að vinna sína prestsþjónustu, enda þótt hún sé unnin með gjörsamlega veraldlegum aðferðum.

Ef til vill má orða það þannig að samkvæmt lútherskri kenningu eigi skólarnir að fá að vera það sem þeim er ætlað að vera:

Skólar. 

Í því er þeirra heilaga hlutverk fólgið.

Sá skóli sem vinnur sitt veraldlega verk er Guði þóknanlegur. 

Og í augum kristins manns er hann í raun kirkja enda þótt skólahúsið sé ekki merkt með krossi og þar vinni ekki aðrir prestar en kristnir kennarar.


Ekki gera ekki neitt

relative.jpgHeimurinn er ekki svarthvítur, samanstendur ekki af góðu fólki annars vegar og vondu fólki hins vegar og oft getur verið snúið að átta sig á því hvað sé gott og hvað sé slæmt.

Mörg verstu ódæði mannkynssögunnar hafa verið unnin í góðri trú, af fólki sem var sannfært um að það væri að gera rétt.

Þetta þýðir samt ekki að allt sé afstætt, ómögulegt sé að eiga sannfæringu og hugsjónir og vonlaust sé að reyna að láta gott af sér leiða; það gæti hugsanlega orðið til ills á endanum.

Þannig nýtur það vonda vafans.

Afstaðan sem við tökum gæti reynst röng. Þess vegna sé illskást að vera hlutlaus.

Eitt er þó alveg öruggt: Gjörðir okkar, orð, viðmót og hugsanir verða annað hvort til góðs eða ills.

Líka þær gjörðir sem aldrei urðu að veruleika og líka orðin sem aldrei voru sögð.

Við skulum gæta að því sem við segjum og gerum, en við skulum líka gaumgæfa það sem við ekki gerðum eða létum ósagt.

Og það að aðhafast ekkert, hafa enga skoðun og passa sig á því að sannfærast ekki um neitt, getur verið hin mesta synd.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband