Færsluflokkur: Bloggar
5.10.2007 | 09:07
Hver er sjálfum mér næstur?
Ég hef verið að íhuga dálítið tengsl trúar og hreysti. Nærtækt dæmi um þessi tengsl er sú staðreynd að margir fíklar finna ómetanlega hjálp í trú sinni. Þegar menn missa tök á eigin lífi er með öðrum orðum ekki eina úrræðið að borða töflur. Þá þarf að breyta lífi sínu.
Fíkillinn stendur frammi fyrir því verkefni að breytast. Hann þarf að endurskoða sig, raða sér saman upp á nýtt, huga að skoðunum sínum, viðhorfum og gildum. Hann þarf að uppgötva hvað sé raunverulega mikilvægt í lífinu og eftir hverju hann sækist. Til að ná bata spyr fíkillinn sig nærgöngulla spurninga, hann gerir upp fortíð sína og nær sáttum við sjálfan sig og umhverfi sitt.
Þetta eru snúin verkefni og þeir sem standa frammi fyrir þeim leita gjarnan í trúna því trúarbrögðin hafa þróað aðferðir til að takast á við þau. Þar að auki er afstaða þess sem ræður ekki við tilveruna í eðli sínu trúarleg því kjarni trúarbragðanna er sá að maðurinn sé sjálfum sér ekki nógur.
Nú á dögum þykir ekki smart að tala um syndina. Hún er í margra augum hallærisleg. Sá skilningur kristinna manna að maðurinn sé fallinn syndari á ekki upp á pallborðið í þjóðfélagi þar sem maðurinn og möguleikar hans eru ofar öllu. Við trúum á framfarir og þróun. Sérfræðingahyggja nútímans er reist á grunni ofurtrúar á mátt vísindanna, því viðhorfi að illskan sjálf sé tæknilegt vandamál. Hugkvæmni mannsins muni að lokum útrýma bölinu og í fyllingu tímans skapi hann himnaríki á jörðu.
Á síðustu öld gerðu menn róttækar tilraunir til að búa til hið fullkomna þjóðfélag. Þær fyrirætlanir breyttust í martröð botnlausrar mannfyrirlitningar eins og sagan kennir okkur, því sá maður sem gerir sig að miðpunkti alheimsins gleymir sínum skæðasta óvini:
Sjálfum sér.
Þeir sem hneppst hafa í fjötra fíknarinnar vita vel hversu hættulegur maðurinn er sér sjálfum. Hann er veikastur fyrir þeim freistingum sem hann leggur fyrir sig sjálfur. Aldrei er hann blindari en þegar hann sjálfur á í hlut. Engri lygi trúir hann jafn greiðlega og þeirri sem hann skrökvar að sér sjálfum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
4.10.2007 | 09:08
Læknisfræðileg áhrif trúar
![p_profile_koenig[1] p_profile_koenig[1]](/tn/200/users/30/svavaralfred/img/c_documents_and_settings_sunna_my_documents_my_pictures_blogg_p_profile_koenig_1.jpg)
Harold G. Koenig er prófessor í geðlækningum og atferlisvísindum við læknadeild Duke háskólans í Bandaríkjunum. Sérsvið Koenig er tengsl trúar og heilsu. Hann er stofnandi rannsóknarstofnunar um það efni við Duke (Centre for the Study of Religion, Spirituality and Health).
Niðurstaða Koenig er sú að trúin hjálpar sjúklingum. Hún gefur þeim jákvæða sýn til heimsins og býður leiðir til að takast á við streitu, áföll og þjáningar. Trúin getur gætt það neikvæða tilgangi. Sá trúaði vonar - jafnvel í vonlausum aðstæðum.
Trú sjúklings hefur áhrif á það hvernig sjúklingur mætir sjúkdómi sínu, hvaða ákvarðanir hann tekur varðandi heilsu sína og þá meðferð sem í boði er.
Koenig segir mjög mikilvægt að á sjúkrahúsum og meðferðarstofnunum sé tillit tekið til andlegra og trúarlegra þarfa sjúklinga.
Harold Koenig hefur m. a. sent frá sér bækurnar The Healing Connection: The Story of a Physician's Search for the Link Between Faith and Health" (Templeton Foundation Press, Philadelphia & London, 2000) og Spirituality in Patient Care: Why, How, When and What" (Templeton Foundation Press, Philadelphia & London, 2007).
Viðtal ástralska ríkisútvarpsins við Koenig er hér. Líka hérna er forvitnilegt spjall við hann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
3.10.2007 | 21:56
Hefðbundnar skottulækningar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.10.2007 | 23:33
Guðsbarn burstar í sér tennurnar
Í fyrramálið þegar þú stendur fyrir framan spegilinn:
Þú ert órakaður - eða ósnyrt og ótilhöfð. Kannski áttirðu erfiða nótt? Varð þér ekki svefnsamt út af áhyggjum?
Augun eru blóðhlaupin og hrukkurnar dýpri en nokkru sinni áður. Þér líst ekkert á það sem þú sérð. Þú vildir vera einhver annar, ekki þú, með þitt líf, heldur einhver sem á betra líf og er betri manneskja en þú.
Mundu þá að þú ert meira en þessi blóðhlaupnu augu og þetta hrukkótta andlit, þessir sáru og slöppu vöðvar, þessi þreytti kroppur og þessi friðlausa sál.
Mundu þá að þú ert barn Guðs. Verksummerki hans eru í þér. Þú ert af himnesku bergi brotinn og þangað stefnir þú. Þú ert meira en þú ert.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
1.10.2007 | 18:11
Einkaritari Hitlers
![Traudl_Junge_November_1945[1] Traudl_Junge_November_1945[1]](/tn/200/users/30/svavaralfred/img/c_documents_and_settings_sunna_my_documents_my_pictures_blogg_traudl_junge_november_1945_1.jpg)
Aðdáunarvert er hvað þeim tekst að lesa mikið úr þessari ríflega 100 orða færslu minni. Og fyrst hún var svona stutt mega þeir til með að bregðast við hlutum sem ég sagði ekki í henni.
En hvað um það. Þeim vantrúarmönnum er mikið kappsmál að sverja trúleysið af Adolf Hitler.
Þeim til gamans birti ég hér kafla úr bókinni Til hinstu stundar. Einkaritari Hitlers segir frá" eftir Traudl Junge sem var ritari foringjans frá 1942 allt til stríðsloka. Bókin kom út í íslenskri þýðingu Arthúrs Björgvins Bollasonar árið 2004.
Þegar Traudl Junge snæddi með Hitler segir hún að stundum hafi spunnist
...forvitnilegar samræður um kirkjuna og þróun mannkyns. Samræður er kannski ekki rétta orðið, því þegar einhver okkar varpaði fram spurningu eða kom með athugasemd, þá hóf hann að útlista hugmyndir sínar og við hlustuðum. Hann hafði engin tengsl við kirkjuna, heldur leit hann svo á að kristindómur væri úrelt fyrirbæri sem byggðist á hræsni og viðleitni til að drottna yfir fólki. Hans eigin trúarbrögð voru náttúrulögmálin. Það var auðveldara fyrir hann að samræma þau að ofbeldisfullum kreddum sínum en kristilegan boðskap um náungakærleik. Vísindin hafa enn ekki getað svarað því til fulls, hver sé uppruni mannkynsins. Við erum að öllum líkindum æðsta þróunarstig einhvers spendýrs, og hugsanlega frá apa til manns. Við erum hluti af sköpunarverkinu og börn náttúrunnar og sömu lögmál gilda fyrir okkur og aðrar lífverur. Og í náttúrunni hefur baráttulögmálið alltaf verið ríkjandi. Öllu því sem er veikt og vanhæft til að lifa, er eytt. Það er fyrst með tilkomu mannsins og umfram allt kirkjunnar sem menn setja sér það markmið að halda lífinu í því sem er veikt, vanhæft til að lifa og minni máttar."
Það er leitt að ég skuli einungis muna brot úr þessum kenningum og að ég skuli ekki geta sett þær fram með jafn miklum sannfæringarkrafti og Hitler hafði þær yfir okkur," segir Traudl Junge (bls. 144).
Lesendum til fróðleiks vísa ég á nokkrum stöðum í tilvitnuninni í færslur á vantru.is þar sem menn geta lesið nánari og nútímalegri útlistanir á kenningum nasistaforingjans.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
30.9.2007 | 17:50
≤ nóg
Ég elska það sem er minna en nóg.
Ég hefði ekki ástæðu til að vona væri ég fullkomlega ánægður með allt og alla.
Ekki hefði ég neins að spyrja vissi ég öll svör.
Ég gæti lagt árar í bát ef ég væri algjörlega sáttur og hefði fundið hamingjuna.
Trúlaus væri ég fengi ég ekki að efast.
Lifi ófullnægjan!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.9.2007 | 10:48
Böðlar og bjargvættir
Enda þótt ég sé oft ekki alveg nógu góður og mér sé á margan hátt ábótavant, hugga ég mig við að aðrir eru ekkert skárri. Sumir jafnvel verri. Unga fólkið er á villigötum og heimur versnandi fer. Sagan geymir fjölmörg dæmi um grimmd og mannvonsku. Fortíð og framtíð virðast jafnslæm.
Ýmislegt bendir til þess að þó að ég sé ekki nógu góður sé ég samt illskástur.
Breski sagnfræðingurinn Martin Gilbert skrifaði áhrifamikla bók um Helförina. Ég á erfitt með að ímynda mér að mannfyrirlitning og hatur geti náð hærra stigi en þar er lýst. Mikið getur manneskjan verið vond. Þegar ég les um alla fólskuna sé ég að níðingarnir eru það miklu verri en ég að mér líður eins og einstöku góðmenni, sem er notaleg tilfinning.
Martin Gilbert skrifaði aðra bók, Hinir réttlátu, um hetjurnar í Helförinni, þá sem lögðu eigið líf og líf fjölskyldna sinna í hættu til að bjarga Gyðingum. Bókinn er byggð á 25 ára löngum rannsóknum á staðfestum tilfellum úr Helförinni. Og hún er þykk, ánægjulega þykk og feit, á sjötta hundrað síður.
Á þessum miklu ógnartímum var til fólk sem var tilbúið að fórna öllu til að bjarga einum. Að vísu voru hinir fleiri sem ekki sýndu sama hugrekkið, grátlega miklu fleiri, en þessi veröld átti fólk sem sýndi mennsku, kærleika, fórnfýsi og ótrúlegan kjark, gaf flóttafólki mat, skaut yfir það skjólshúsi og faldi það og varði með öllum tiltækum ráðum. Líka þótt á þessum tíma væru skýr viðurlög við því að hjálpa Gyðingum: Fólk var tekið af lífi, oft á staðnum, og fjölskyldunnar allrar gátu beðið sömu örlög.
Böðlarnir eru verri en maður sjálfur. Auðvelt er að finna fyrir feginleika faríseans þegar óhæfuverk þeirra verða ljós og hugsa: "Guð, ég þakka þér að ég er ekki eins og þeir. Ég þakka þér að þeir eru verri en ég."
Erfiðara er að lesa um bjargvættina, þá réttlátu. Hvernig hefði ég brugðist við? Hefði ég verið tilbúinn að hætta öllu fyrir manneskjur sem ég þekkti ekki neitt?
Ég þori varla að hugsa svarið og um mig fer hrollur þegar ég uppgötva að ef ég hefði ekki verið tilbúinn að hjálpa þessu fólki hefði ég trúlega ekki verið langt frá því að gerast einn af böðlum þess.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.9.2007 | 08:36
Yndislegt líf
Fékk þetta myndband sent og má til með að birta það hér. Þvílík snilli! Og þar að auki uppáhaldslagið mitt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.9.2007 | 08:42
Að deyja ekki ráðalaus
Prestur nokkur var í sumarfríi á Spáni. Á útimarkaði rakst hann á einkar vel gerðar styttur af guðspjallamönnunum fjórum. Hann keypti stytturnar og gaf kirkjunni sinni þegar hann kom heim. Þar var þeim komið fyrir á sérstöku borði. Á því var pappaskilti með áletruninni "Guðspjallamennirnir Matteus, Markús, Lúkas og Jóhannes".
Skömmu síðar var brotist inn í kirkjuna og einni styttunni stolið. Ekki lét prestur það slá sig út af laginu. Hann bjó til nýtt skilti á borðið hjá styttunum sem eftir voru og stóð nú á því: "Vitringarnir þrír, Kaspar, Melkjör og Baltasar"
Enn lét kirkjuþjófurinn til sín taka og stal styttu. Presti datt ekki í hug að játa sig sigraðan fyrir þessum misyndismanni og enda þótt styttunum hefði fækkað um helming skrifaði hann á skiltið við þær: "Postularnir Pétur og Páll"
Þjófurinn var ekki síður staðfastur en klerkur og í þriðja skiptið fór hann inn í kirkjuna í leyfisleysi. Þá lét hann ekki nægja að stela öðrum postulanum heldur fékk hann útrás fyrir skemmdarfýsn sína á styttunni sem hann skildi eftir, braut m. a. af henni hausinn og hafði á brott með sér.
En prestur dó ekki ráðalaus. Nú stóð á skiltinu á styttuborðinu: "Jóhannes skírari daginn eftir að hann var hálshöggvinn"
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.9.2007 | 14:08
Hjónabandið® og borgaralegar athafnir
Einn áheyrilegasti bókmenntagagnrýnandi þjóðarinnar sagði nýlega á bloggsíðu sinni að hjónabandið væri borgaraleg stofnun og kirkjunni óviðkomandi. Einn besti penni landsins tók undir þetta í blaðagrein og sagði ekki rétt að hjónavígslan væri á einhvern hátt í eðli sínu kirkjuleg.
Þessir mætu menn hafa nokkuð til síns máls. Eins og ég hef áður bloggað um eru rætur hjónabandsskilnings miðalda í rómverskum rétti. Til hjónabands var stofnað með samkomulagi aðila sáttmálans. Hvorki kirkjan né borgaraleg yfirvöld þurftu að koma þar við sögu.
Mjög snemma í sögu kirkjunnar varð siður að efna til brúðarmessu eftir að hjónabandssáttmáli hafði verið gerður. Þar var hjónabandið blessað og sáttmáli hjónanna staðfestur. Þannig var þetta fram á daga Karlamagnúsar (747 - 814).
Lengi var hjónabandssáttmálinn eitt og blessun hans af kirkjunni annað. Helsta orsök þess að hvort tveggja færðist inn í kirkjuna er talin vera sú venja að gera hjónasáttmálann fyrir dyrum þeirrar kirkju þar sem brúðarmessan átti að fara fram.
Um 1200 fara prestar að taka að sér að gera sáttmálann auk þess að veita honum blessun Guðs og um svipað leyti festir hjónabandið sig í sessi sem sakramenti í kaþólsku kirkjunni.
Lúther taldi hjónabandið ekki til sakramenta og leit á það sem veraldlegan gjörning ("ein weltlich ding"). Hann aðhylltist tvískiptingu hjónavígslunnar og í riti sínu frá 1529 gerir hann ráð fyrir að prestur staðfesti hjónasáttmála fyrir kirkjudyrum en blessi hann svo inni í kirkjunni. Tilefni hinnar kirkjulegu athafnar er að mati Lúthers ekki annað en að brúðhjónin óska eftir fyrirbæn sér til handa ("ein gemein christlich gebet").
Þó að ég sé sammála Lúther, gagnrýnandanum og rithöfundinum um að hjónabandið sé þessa heims hlutur get ég ekki tekið undir það að kirkjunni komi það ekki við eða megi ekki hafa á því skoðun. Sögulega hefur kirkjan sennilega haft meira með hjónabandið að gera en borgaraleg yfirvöld. Hvorki kirkjan né hið veraldlega vald getur þó slegið eign sinni á hjónabandið.
Ekki er ég á móti borgaralegum athöfnum við tímamót í lífi mannsins en mér finnst óþarft að mæla þeim bót með því að gefa í skyn að í raun komi slíkir siðir kirkjunni ekkert við.
Og er hægt að hugsa sér öllu jarðneskara fyrirbæri en greftrun?
Getur hún á einhvern hátt talist "kirkjuleg í eðli sínu"?
Bloggar | Breytt 26.9.2007 kl. 09:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)