Færsluflokkur: Bloggar

Hin sataníska afbökun veruleikans

 Mig minnir að Pétur Gunnarsson hafi sagt söguna um manninn sem fór inn í skartgripaverslun til að kaupa sér kross og fékk þau svör frá afgreiðsludömunni að hann væri dýrari „ef hann sé með kalli á".

„Sem trúleysingi, þá hefur kirkja ekki meiri merkingu fyrir mér heldur en banki eða bílageymsla. Þetta er bara bygging!" hljóðar ein athugasemdin við síðustu bloggfærslu mína. Kollegi minn, Toshiki Toma, segir  á bloggsíðu sinni að guðfræðilega séu kirkjuhúsin ekkert meira en húsnæði.

Tákn er nokkuð sem vísar út fyrir sig. Það hleypir manni svo að segja í gegnum sig. Tákn merkir eitthvað annað en það er. Það sem er táknrænt getur haft margar merkingar. Kirkjuhúsin eru tákn og þau eru líka full af táknum.

Þeir sem segja kirkjuhús eintómar byggingar og berstrípað húsnæði hafa einhverra hluta vegna - hvort sem það er trú eða trúleysi - svipt þessi hús táknrænni merkingu sinni.

Einu sinni setti austurríski listamaðurinn  Hermann Nitsch á svið heilaga kvöldmáltíð og notaði þar hvorki brauð né vín heldur alvöru kjöt og ekta blóð.

Blóð er aðeins blóð og getur aldrei verið nema blóð.

Þessi staðhæfing er í kristnum dómi hvorki meira né minna en satanísk afbökun veruleikans - þrátt fyrir íkonóklasmið.

Ef það er rétt að blóð sé aðeins blóð og kirkjur ekki meira en kirkjur, ef veruleikinn getur ekki lengur verið táknrænn, ef fyrirbærin eru ekki margræð, þá er listin búin að vera og yfirleitt allt það sem við köllum menningu.

Þetta er ekki einungis álit kristinna manna. Karl Marx benti á að til þess að þrífast þurfi kapítalisminn að umbylta samfélaginu. Þessi byltingarhlið kapítalismans, sem Marx nefndi svo, felst í því að ráðast gegn öllu sem talið hefur verið sjálfsagt, endurmeta öll gildi, afhelga allt sem heilagt er og síðast en ekki síst að eyða því táknræna. (Þeir sem vilja kynna sér þetta nánar ættu að lesa bók franska heimspekingsins Dany-Robert Dufour L´art de réduire les têtes - sur la nouvelle servitude de l´homme libéré à l´ère du capitalisme total, Paris 2003)

Á endanum á tilveran ekki að hafa neitt gildi nema verðgildið og manneskjan enga dómgreind nema til að geta hagnast sem mest á lífinu.


Liðlegheitin í Fríkirkjunni

Kirkjur eru hús. Þær hafa veggi og á þeim er þak. Samt eru kirkjur sérstök mannvirki. Þær eru hannaðar og byggðar með sérstök not í huga. Ekki vefst til dæmis fyrir neinum sem í kirkju kemur að þar á fólk einkum að sitja. Að því leyti eru kirkjurnar eins og kvikmyndahúsin. Í báðum þeim húsum er gert ráð fyrir áhorfendum og áheyrendum. Hönnun kvikmyndahúsanna gengur út á að sitjendur horfi á tjaldið en kirkjurnar eru hannaðar með það í huga að þar sé horft á altari og prédikunarstól.

Kirkjur snúa oftast í austur og vestur. Þær - eins og aðrir helgidómar - eru gjarnan á upphöfnum stöðum í miðju samfélaganna. Með turnum sínum benda kirkjurnar til himins. Innanrýmið er þrískipt, forkirkja, skip og kór.

Kirkjur eru fullar af helgum gripum. Þar er altari og altaristafla, prédikunarstóll og skírnarfontur. Þar eru ýmis listaverk, málverk, tákn og höggmyndir.

Listin í kirkjuhúsunum þjónar ákveðnum tilgangi. Líka tónlistin eins og söngloftin og staðsetning hljóðfæra í kirkjunum gefur til kynna.

Kirkjur eru ekki einungis hús hönnuð fyrir ákveðin not, tilbeiðslu og boðun ákveðinna sanninda. Kirkjuhúsið er hluti af tilbeiðslunni og boðuninni. Sá sem í kirkju kemur er umvafinn ákveðinni heimsmynd og er orðinn hluti af henni.

Hjónaleysi sem ekki vilja láta hjónavígslu sína tengjast Guði eða kristni geta eiginlega ekki valið óheppilegri stað fyrir þá athöfn en kirkju.

Það er eiginlega eins og að halda matreiðslunámskeið fyrir grænmetisætur í sláturhúsi.

Mikið eru þeir samt liðlegir í Fríkirkjunni í Reykjavík að lána sitt fallega guðshús fyrir veraldlega hjónavígslu. Það hefur reyndar gerst áður. Ég veit um minnsta kosti eitt dæmi þar sem fulltrúi hins veraldlega valds gaf saman hjón í lítilli sveitakirkju. Auðvitað var enginn prestur viðstaddur og altarið var smekklega falið meðan á athöfninni stóð.

Sem minnir mig á kirkjuna í Berlín. Þar var mynd af krossfestingunni á altaristöflu. Neðst á henni stóð: "Faðir, fyrirgef þeim, því þeir vita ekki hvað þeir gjöra."

Kirkjuvörðurinn hafði fyrir sið að hylja þessi orð vandlega með blómaskreytingum þegar hjónavígslur fóru fram í kirkjunni.

 


Moska í Reykjavík

Ég veit ekki hvaða hagsmunum það þjónar að stilla upp öllu múhameðstrúarfólki sem mögulegum terroristum. Sannleikurinn er sá að sennilega eru allir mögulegir hryðjuverkamenn, hverrar trúar sem þeir eru og jafnvel þótt þeir séu trúlausir. Ofbeldismennirnir eru alls staðar og ef til vill styttra í hann í okkur sjálfum en okkur finnst þægilegt að kannast við.

Hinu skulum við ekki gleyma að það er líka gott fólk alls staðar.

Í bókinni The Rigtheous. The Unsung Heroes of the Holocaust eftir breska sagnfræðinginn Martin Gilbert er falleg saga.

logmalidGríska eyjan Ródos komst undir yfirráð nasista og þurftu gyðingarnir þar að þola miklar hörmungar. Þegar ljóst var í hvað stefndi fór ímaminn á Ródos á fund rabbínans og bauðst til að grafa helgirit gyðinga, lögmálsrollurnar, í garði moskunnar sinnar. Rabbíninn þáði boðið og fékk þær síðan óskemmdar eftir stríð.

Trúfrelsi er ekki bara fólgið í því að mega trúa því sem maður vill. Trúfrelsi er líka það að geta iðkað trú sína, mega eiga sér helga gripi og hafa leyfi til að búa þeim sómasamlegt umhverfi.

Þeir sem vilja tilbiðja almættið í mosku eiga að fá að gera það.

Þeir eiga ekki að þurfa að geyma helgigripi sína í íslenskum kirkjugörðum.


Grillblæjurnar blakta

barbeque_grill[1]Haustið er tími grillblæjunnar. Gasgrill Íslendinga standa nú vel dúðuð á pöllum og svölum og bjóða frosthörkum og norðanhríð byrginn.

Nýlega las ég grein um útigrill eftir ástralskan félagsfræðing. Þegar hann var strákur voru útigrill oftast hlaðin úr múrsteinum, einföld tæki, en dugðu vel til brúks síns. Á þeim tímum var félagsleg athöfn að grilla. Ástralinn minntist þess að þegar kolareykurinn fór að stíga upp af grillinu í garðinum komu nágrannarnir kjagandi með eitthvað til að leggja á ristina, meðlæti og drykki. Grillið safnaði fólki saman. Það var samfélagsmyndandi að grilla.

Nú er öldin önnur, segir þessi andfætlingur okkar. Með hverju sumrinu gerast grillin flottari. Þau eru ekki úr steinum heldur stáli. Ganga fyrir gasi. Hafa þrefaldan brennara. Með upphitunarhellu og skáp fyrir alls konar grillgræjur.

Nú eru grillin ekki samfélagsmyndandi heldur sundrandi. Allir keppast við að eiga flottara grill en það sem stendur í garði nágrannans.

Og jafnvel þótt nágrannanum dytti í hug að láta sjá sig við grillið okkar með kjötsneið, salat og bjórdós eru garðarnir nú á dögum víggirtir himinháum skjólveggjum sem enginn kemst yfir nema reykurinn af fullkomnustu útigrillum.


Hvað er fyndið?

Í umræðum um símaauglýsinguna frægu kom margoft fram sá misskilningur að með því að segja hana ósmekklega væri verið að segja hana ófyndna. Þeir sem hneyksluðust á auglýsingunni voru sakaðir um húmorsleysi.

Þær ásakanir hafa ábyggilega átt við rök að styðjast í einhverjum tilfellum en samt er það þannig að þó manni finnist eitthvað ósmekklegt er ekki þar með sagt að manni finnist það ekki fyndið. Smekkleysa getur verið drepfyndin.

Stundum eru m. a. s. einu réttu viðbrögðin við ósmekklegheitum að hlæja að þeim.

Kræfur gagnrýnandi símaauglýsingarinnar þyrfti í raun að byrja á því að skilgreina hvort tveggja, ósmekklegheitin og fyndnina.

Ég hef verið að íhuga það síðarnefnda svolítið og fletti í þeim tilgangi bókinni Erlösendes Lachen eftir félagsfræðinginn Peter L. Berger (heitir á frummálinu Redeeming Laughter).

Heimspekingar hafa ekki fjallað mikið um kómík. Tvennt hafa þeir þó bent á um það fyndna.

Í fyrsta lagi er það fyndna bæði huglægt og hlutlægt. Það fyndna er ekki einungis að finna í skynjun mannsins. Það fyndna „er til" þótt ekki hafi allir sama skopskyn.

Í öðru lagi er það sem er fyndið alltaf á einhvern hátt fólgið í þversögninni milli reglunnar og óreiðunnar. Maðurinn er í stöðugri leit að skikkan í kaótískum heimi. Kómíkin er spennan þar á milli.

Það fyndna verður til þegar reglur eru brotnar, lögmál rofna og það óvænta gerist.


Karl Einfer og Færeyingurinn sem fékk ekki Nóbelsverðlaunin

husavik[1]Nú bylta menn sér í rúmunum og fá ekki sofið út af lóðum á Húsavík. Útboð er framundan og hægt að ná sér í landskika austur þar fyrir tiltölulega lítinn pening. Lóðirnar má svo selja fyrir stórfé þegar álversblómið teygir krónu sína upp úr þingeyskri grund.

Ég skrifaði einu sinni pistil á tru.is sem hét "Virkjum orðróminn!". Þar rifjaði ég upp smásöguna "Völuspá á hebresku" eftir Halldór Laxness. Karl Einfer, hetja sögunnar, kunni þá list að virkja orðróminn. Hann var í útrásinni, spákaupmaður og skáld, sem orti á dönsku til að kenna dönskum skáldum að yrkja - en á frönsku sér til skemmtunar.

Einfer sá aumur á færeyskum barnakennara, Jeggvani frá Trangisvogi, sem hafði flækt sig í skuldir í kóngsins Kaupmannahöfn. Greip hann til þess klókindabragðs að láta þá sögu fá fætur að Jeggvan væri við það að fá Nóbelsverðlaunin. Það þóttu mikil tíðindi og voru blaðamenn sendir í kippum til Færeyja. Jeggvan barnakennari geymdi kvæði sín í þúsundavís í kistum á háalofti sínu. Í sögunni segir:

„Jeggvan var spurður hvernig hann hugsaði til Nóbelsverðlaunanna og hann sagði vel, og hvað hann ætlaði að gera við þau og hann sagði að þau mundu „renna inní húsholnínguna", en það þótti mörgum fyllirafti á Norðurlöndum miðlungi skáldlegt svar."

Þegar viðtöl blaðamanna við þennan færeyska barnakennara höfðu birst í dönskum blöðum þekkti hvert einasta mannsbarn í Danaveldi Jeggvan frá Trangisvogi sem var við það að fá Nóbelsverðlaunin. Var Karl Einfer ekki lengi að koma dönskum peningamönnum í skilning um að slíkur maður mætti ekki hafa smáskuldir en þyrfti eitt stórt lán til greiðslu hinna smærri.

Svo heldur sagan áfram:

„Síðan leið framá haustið og Nóbelsverðlaunum var úthlutað - einhverjum miklu verri manni. Og frægð Jeggvans sem fékk ekki Nóbelsverðlaunin féll í gleymsku og dá eingu síður en frægð þess sem fékk þau."


Gamli draumurinn um upprætingu trúarbragðanna

EnverHoxhaTrúarbrögðin eru milli tanna fólks og margir segja að heimurinn væri betri án þeirra.

 

 

Fórnarlömb öfgamanna og siða sem eru andstyggilegir í augum vestræns fólks efla þá skoðun margra að trúarbrögðin séu rót alls ills í veröldinni.

 

 

PolpotÞau eru sögð samfélagsmein  hér á landi.

 

 

Menn hvetja til upprætingar trúarbragðanna.

 

 

Lesið sum moggabloggin.

 Stalin

 

Benda má á að slíkar tilraunir hafa verið gerðar.

 

 

 

Árið 1967 lýsti Enver Hoxha, leitogi albanskra kommúnista, Albaníu fyrsta og eina guðlausa ríki veraldarinnar.

 mao

 

Reynt var að uppræta trúarbrögðin í Kambódíu Rauðu khmeranna.

 

 

Stalín og Maó sýndu tilburði í sömu átt.

 

 Hitler

Hitler ætlaði að snúa sér að kirkjuvandamálinu þegar hann væri búinn að leysa Gyðingavandamálið.

 

 

Enn sætir trúað fólk grimmilegum ofsóknum í Norður-Kóreu.

 

 

 

 

 


Lyktin af þér

das-leben-der-anderenÍ gærkvöldi horfði ég á þýsku kvikmyndina "Das Leben der Anderen". Hún er afskaplega vel gerð og frábærlega leikin. Umfjöllunarefnið er líka mjög spennandi - lífið í þýska alþýðulýðveldinu. Aðalsöguhetjan er starfsmaður Stasi, austur-þýsku leyniþjónustunnar.

Upphafsatriði myndarinnar vakti upp minningar hjá mér. Vorið 1994 var ég á ráðstefnu í Berlín. Þá heimsótti ég aðalbækistöðvar Stasi sem eru til húsa í gamla flotamálaráðuneyti nasistanna. Yfirmaður Stasi, Joachim Gauck, tók á móti okkur.

Húsakynnum Stasi var ekki lokað eftir fall múrsins. Þar er að finna gríðarlegt magn upplýsinga um fólk, aðallega fyrrum borgara DDR. Þegar alþýðulýðveldið varð gjaldþrota var ákveðið að fólk gæti nálgast upplýsingar um sig hjá Stasi og fólk var ráðið til stofnunarinnar til að gera þær aðgengilegar. Einnig gast þú fengið að vita hverjir það voru sem gáfu upplýsingarnar um þig, eins og fram kemur í Das Leben der Anderen. Gauck var settur yfir þessa nýju Stasi.joachim-gauck

Gauck sagði okkur sögu Stasi og leiddi okkur um húsakynni stofnunarinnar. Við sáum meðal annars deildina sem sá um að opna bréf til almennings. Það eftirminnilegasta var samt risastór geymslusalur, fullur af vandlega lokuðum glerkrukkum. Hver þeirra var merkt mannsnafni og hafði að geyma klút. Við gestirnir vissum ekkert hvað þetta var en Gauck vissi af eigin raun hvað hér var um að ræða.

Á sínum tíma var Gauck æskulýðsprestur í borginni Rostock í gamla austurhlutanum. Margir prestar létu um sig muna í andófi gegn alræðinu og auk þess var kirkjan bakhjarl friðarhreyfinga sem voru stjórnvöldum mikill þyrnir í augum. Einu sinni sem oftar var Gauck færður til yfirheyrslu. Að henni lokinni var honum réttur klútur og hann beðinn að nudda honum við nára sér. Þar er víst mesta útstreymi lyktar á líkamanum og þess vegna hoppa hundar gjarnan í klof manna.

Stasi%20bodyjars[1]Klúturinn var svo gripinn með töng og settur ofan í krukku. Henni var lokað og síðan var hún merkt og komið til geymslu á vísum stað. Gauck var einn fjölmargra borgara sem þótti líklegur til að reyna flótta vestur yfir. Þess vegna fannst þeim vissara að eiga lykt hans til að geta sent hundana á eftir honum.

Stasi fylgdist vel með sínum, skráði hjá sér daglega hegðun fólks, hlustaði á það tala við sína nánustu við eldhúsborðið og elskast á kvöldin. Þar að auki átti ríkið lykt af þúsundum borgara sinna.


Fjölmiðlalögin

Íslensk þjóðfélagsumræða er óskapleg skrykkjótt. Einn daginn eru allir fjölmiðlar uppfullir af einu máli og hver einasti bloggari hefur á því skoðun. Næsta dag er málið gjörsamlega horfið og enginn hefur minnsta áhuga á því lengur.

Einu sinni voru svonefnd fjölmiðlalög hitamál svo um munaði. Forsetinn sjálfur blandaði sér eftirminnilega í þann slag. Blaðamenn tóku líka afstöðu í málinu og fundu fjölmiðlalögunum meðal annars það til foráttu að þau hefðu ekki verið nægjanlega rædd.

Það var nokkuð til í því hjá þeim. Og hver skyldi bera ábyrgð á því? Ætli fjölmiðlafólkið sjálft sé saklaust?

Nei, það held ég ekki. Umfjöllunin um fjölmiðlalögin var að mínu mati fátækleg þó að yfirleitt þurfi ekki að hvetja fjölmiðlafólk til að beina kastljósi að sér sjálfu. T. d. var varla gerð tilraun til þess að setja þessi umdeildu lög í víðara samhengi en víðar en hér á landi hefur verið hitamál hverjir eigi fjölmiðlana.

Enn hafa þeir sem sárast söknuðu umræðu um eignarhald á fjölmiðlum ekki efnt til hennar svo heitið geti.

Rannsóknir hafa sýnt að samhengi er á milli innihalds fjölmiðla, dagskrárefnis og gæða annars vegar og hins vegar eignarhalds á fjölmiðlum. Þetta kemur m. a. fram í bók þýska blaðamannsins Robert Islinger "Von Abendland zum Disneyland. Wohin steuern unsere Medien?" (ISBN 3-7632-5393-9).

Þar gengur Islinger meira að segja svo langt að fullyrða að blaðamenn hafi ekkert að segja í eigendur fjölmiðla, sem sífellt verða háðari lögmálum markaðsaflanna. Því segir hann að lög um eignarhald sé nauðsynlegur stuðningur við vandaða blaðamennsku.

Í umræðunni um hin alræmdu fjölmiðlalög rak mig í rogastans þegar ég heyrði vinstri menn taka undir þá skoðun harðsvíraðra frjálshyggjumanna að líta beri á fjölmiðla sem hverja aðra markaðsvöru og því sé ekki þörf að hafa um þá sérstök lög.

Vel er hægt að láta fjölmiðla lúta sömu lögmálum og gilda um aðrar neysluvörur - en ef við drögum fjölmiðla og skeinipappír í sama dilkinn er hætt við að á endanum verði ekki nema sjónarmunur á þeim varningi. 


Blessaðar áhyggjurnar

fuglarÞað er alls ekki í flimtingum hafandi að vera manneskja á þessum síðustu og verstu. Ríkisstjórnin er ómöguleg - eins og aðrar ríkisstjórnir fyrr og síðar - fiskurinn er horfinn úr sjónum, landbúnaðurinn er á heljarþröm að venju, andrúmsloftið hlýnar stöðugt, Þjóðkirkjan er í upplausn, vaxtaokur sligar heimilin í landinu, unglingarnir eru á kafi í eiturlyfjum og börnin ánetjast sjónvarpsglápi og tölvuleikjum.

Þar við bætist að greiðslukortareikningurinn er ógreiddur, enn þarf að hækka yfirdráttinn, taka upp gírkassann í bílnum, koma parketi á stofugólfið, bjarga hjónabandinu og fara til læknis út af verkjum í brjósti sem maður er lengi búinn að vera smeykur við.

Öll góð rök hníga að því að hafa áhyggjur. Hefði maður engar áhyggjur ætti að hafa af því sverar áhyggjur.

Hvað eru menn svo að þvæla um fugla himinsins og liljur vallarins?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband