Færsluflokkur: Bloggar

Kynlíf og klám

  Í biðskýlinu var veggspjald frá sértrúarflokki með þessari spurningu: „Hefur þú drýgt einhverja synd í dag?"

Fyrir neðan hafði verið skrifað með rauðum varalit: „Ef ekki, hringdu þá í síma 6696969."

Nú á dögum er að mörgu leyti fyrirhafnarminna að syndga en í gamla daga. Ekki þarf að lyfta öðru en símtólinu til að drýgja hór. Það kostar ekki nema 66,90 kr. á mínútu að brjóta sjötta boðorðið.

Öll svið mannlífsins hafa verið markaðsvædd. Líka kynlífið. Allt er falt. Við kaupum okkur hamingju og ef við verðum fyrir óhamingju kaupum við okkur áfallahjálp. Við kaupum okkur mat og ef við étum of mikið kaupum við okkur megrunarsápu.

hrærivelAf hverju ætti þá ekki að vera hægt að kaupa sér kynlíf? Af hverju ætti ekki að vera hægt að kaupa sér eitt stykki kvenlíkama til að horfa á, fitla við eða njóta á alla kanta? Af hverju ætti þá ekki að vera hægt að kaupa sér svölun á hvötum sínum?

„Allir hlutir eru hreinum hreinir, en flekkuðum og vantrúuðum er ekkert hreint, heldur er bæði hugur þeirra flekkaður og samviska," segir í Títusarbréfi. Þegar við skilgreinum klám er m. ö. o. ekki nóg að skoða hlutina sem birta klámið heldur þarf ekki síður að huga að þeim sem nema það.

Klám er að minni hyggju ekki opinská umfjöllun um kynlíf. Klám er ekki myndir af fólki í villtum ástarleikjum. Klám er ekki munúð eða losti. Það er gamall brandari að klám sé loðið hugtak. Nú á dögum er klám notað um allt og ekkert. Hefur enga sérstaka þýðingu. Það er eiginlega nauðrakað og bersköllótt. Ef til vill lýsir klám sér einfaldlega í því að við gerum fólk að hlutum og kynlíf að söluvöru?

Nú á dögum er kynlíf markaðssett sem nauðsynjavara. Allir verða að fá það. Væntingar til kynlífsins eru geysilegar.

Er bólfimi ekki svipuð og bogfimi? Sé boginn spenntur of hátt slitnar strengurinn.

Kynlíf á yfirsnúningi er eins og hrærivél sem þeytir öllu deiginu upp úr skálinni. Kakan fer aldrei í ofninn en þú ert heillengi að þrífa eldhúsið.

Kynlífið er í eðli sínu náskylt trúarbrögðunum. Í kynlífi eins og í trúnni gilda ekki fyrst og fremst lögmálin um frammistöðu, árangur, afköst og skilvirkni, heldur lögmál nándar, hlýju, heiðarleika, öryggis, virðingar, elsku og sjálfstjáningar.


Ellefti níundi

jesus-as-soccer-player[1]Ellefta september verður allsérkennilegur fótboltaleikur á Hedenleikvanginum í Gautaborg. Þar takast á lið kristinna og múhameðstrúarmanna. Kristna liðið er m. a. skipað leikum og lærðum úr sænsku kirkjunni, þeirri kaþólsku og réttrúnaðarkirkjunni.

Múhameðstrúarmenn tefla fram sókndjörfum og stæltum trúarleiðtogum og trúmönnum frá Gambíu, Bosníu og Sómalíu.

Einnig eru nokkrir Gyðingar í báðum liðum, til frekari styrkingar og til að minna á rætur beggja fylkinganna.

Kl. 18:30 verður flautað til leiks. Biskup Gautaborgar flytur ávarpsorð. Gunnar Westberg, forseti alþjóðlegra læknasamtaka gegn kjarnorkuvá, verður á vaktinni með kæligel og teygjubindi.

Að sögn aðstandenda leiksins vilja þeir vinna gegn fordómum og staðalímyndum af trúarbrögðum.

Biðjum fyrir því að ekki sjóði upp úr í leiknum.

 


Nonni Fríðu

Í dag hélt Kristján Jóhannsson stórsöngvari tónleika hér í bænum. Þeir tókust frábærlega er mér tjáð en því miður hafði ég ekki tök á að sækja þá.

Aftur á móti kemst ég á tónleika annaðkvöld og hugsa mér gott til glóðarinnar. Þá heldur Jón Þorsteinsson, tenór, tónleika í Akureyrarkirkju í tilefni af útkomu hljómdisksins "Ó, Jesú, að mér snú". Diskurinn hefur að geyma 23 sálma úr Sálmabókinni. Undirleikari er Hörður Áskelsson. Flestir sálmanna voru á plötu sem kom út fyrir 16 árum þegar Ólafsfjarðarkirkja varð 75 ára. Jón hóf sinn söngferil á sönglofti þeirrar kirkju. Hann var ekki nema fimm ára þegar hann fékk að fylgja afa sínum og nafna Frímannssyni þangað, en sá gamli söng í kirkjukórnum.

Jón á að baki glæstan feril í söngnum og starfar nú við söngkennslu í virtum tónlistarháskóla í Hollandi.

Ég get hikstalaust mælt með þessum diski og þori alveg að fullyrða að enginn Íslendingur syngur sálma af meiri list og einlægni en Jón - eða Nonni Fríðu eins og Ólafsfirðingar kalla hann. Eða Nonni frændi eins og hann er nefndur á mínu heimili. Diskinn má kaupa hér.

Við Íslendingar eigum marga alveg yndislega sálma. Hreina dýrgripi. Bæði þeir sem vita það og hinir sem ekki hafa ennþá fattað það almennilega ættu að drífa sig á útgáfutónleikana. Þeir byrja kl. 20:30. Svo þurfa menn ekki að borga krónu fyrir að fá að hlusta á þennan snilling og öðling.


Síminn í kristniboði

Ég var eitthvað að rífa mig inni á síðunni hjá Jónu bloggvinkonu minni og þótti þessi athugasemd mín þar svo ægileg snilld að ég ákvað að birta hana hér sem sjálfstæða og kynþroska bloggfærslu. (Ég vona að maður megi gera svona og Jóna verði ekki reið.)

Þótt mér finnist miklu meira í ætt við frekju en fyndni þegar fyrirtæki notar söguna um heilaga kvöldmáltíð til að selja símtæki sé ég margt spaugilegt við þetta mál. Mér finnst það eiginlega alveg tröllfyndið að fólk telji Símann vera í einhverju kristniboði af góðsemi sinni með þessari auglýsingu.

Vilji Síminn stuðla að útbreiðslu kristinnar trúar eru ábyggilega margar betri leiðir til en þessi.

Ég veit að höfundur auglýsingarinnar hefur haldið þessu fram og þess vegna finnst mér líka fyndið að ekki heyrist múkk í þeim sem hvað harðast hafa gagnrýnt trúboð hér á landi. Þeir virðast þvert á móti flestir ekki eiga orð til að lýsa hrifningu sinni á auglýsingunni.

Og sé Síminn lagstur í kristniboð - hvað skyldu þeir viðskiptavinir hans segja sem ekki eru kristinnar trúar eða trúlausir?

Ég hef unnið á auglýsingastofu og þið megið treysta því að þessi auglýsing er ekkert öðruvísi en aðrar auglýsingar: Hún á að selja. "Show me the money!" - með hjálp heilagrar kvöldmáltíðar. 


Segðu upp Símanum og skráðu þig í Þjóðkirkjuna!

Ég hélt að þetta dæmalausa Símamál væri því sem næst búið. Heyrði svo álitsgjafa tala í útvarpið áðan þegar ég var á leiðinni heim. Held að það hafi verið Þorfinnur Ómarsson. Hann býsnaðist mikið yfir viðbrögðum Þjóðkirkjunnar við kvöldmáltíðarfarsímaauglýsingunni. Hvatti þá sem ekki væru sammála Þjóðkirkjunni í þessu máli að segja sig úr henni.

Ætli ég hafi misst af einhverju? Var ekki leitað eftir áliti biskups Íslands á þessari auglýsingu? Og gaf hann ekki bara álit sitt? Sagði að sér fyndist auglýsingin ekki smekkleg eða eitthvað í þá áttina? Er búið að kæra í málinu? Hefur einhverju eða einhverjum verið hótað?

Viðbrögðin við viðbrögðunum eru auðvitað miklu ofsafengnari en viðbrögðin sjálf. Hvaða sögu ætli það segi?

Áðan las ég pistil eftir Pétur Tyrfingsson, glerharðan guðleysingja. Hann kemst að miklu skýrari niðurstöðu í málinu en biskupinn. Segir auglýsinguna hreint guðlast.

Á þá ekki að hvetja Pétur Tyrfingsson til að skrá sig umsvifalaust í Þjóðkirkjuna?

Og sé hann í viðskiptum við Símann að hætta þeim án tafar - til að vera alveg öruggur?


Góðir synir

Eftir símaauglýsingarvandlætingu er við hæfi að birta hér eins og einn brandara.

Þrír synir afar guðhræddrar móður fóru að heiman til að spreyta sig á lífinu. Allir áttu þeir miklu láni að fagna og græddu peninga í stórum fúlgum. Að mörgum árum liðnum hittust þeir og ræddu meðal annars um gjafirnar sem þeir höfðu sent aldraðri móður sinni.

 „Ég reisti henni mömmu myndarlegt hús," sagði sá fyrsti.

„Ég sendi henni eitt stykki Mercedes Benz með bílstjóra," sagði annar.

„Ég gerði enn betur," sagði sá þriðji. „Þið munið hvað mamma hafði mikla unun af að lesa Biblíuna og að hún er farin að missa sjón. Þess vegna sendi ég henni stóran, brúnan páfagauk sem kann hana alla utan að. Það tók tuttugu presta tólf ár að kenna páfagauknum þetta. Verkefnið kostaði milljón dollara á ári, en það var þess virði. Mamma þarf ekki annað en að nefna rit, kafla og vers og þá fer páfagaukurinn með textann."

Skömmu síðar sendi móðirin sonum sínum þakkarbréf. Til fyrsta sonarins skrifaði hún:

„Kæri sonur! Húsið sem þú byggðir er risastórt. Ég bý aðeins í einu herbergjanna en þarf að þrífa allt húsið."

Sonur númer tvö fékk eftirfarandi bréf:

„Elskaði sonur! Ég er orðin alltof gömul til að ferðast. Ég er alltaf heima og nota Bensinn aldrei. Bílstjórinn er óttalegur dóni."

Þriðja syninum sendi móðirin þessi skilaboð:

„Yndislega afkvæmi! Þú varst eini sonurinn sem gerðir þér grein fyrir því hvernig ætti að gleðja hana móður þína. Kjúklingurinn var hreinasta hnossgæti."


Guðlast til sölu

Auglýsing Símans er umrædd. Ég skrifaði einu sinni pistil hér á bloggið sem hét "Hvað segja auglýsingarnar?". Þar nefndi ég til sögunnar þýska guðfræðinginn Horst Albrecht og sagði að hann héldi fram "að í samfélagi ofgnótta sé ekki nóg að halda fram ágæti tiltekinnar vöru. Meira þurfi til. Það þurfi að selja neytandanum heila veröld með vörunni. Máttur vörunnar er þannig ekki fólginn í því hagnýta heldur því ímyndaða. Tengja þurfi vöruna draumum, þrám og væntingum neytandans og í sívaxandi mæli fær varan því á sig trúarlegan blæ. Hlutverk þess sem auglýsir vöru eða þjónustu sé að skapa og glæða þrá neytandans eftir "einhverju betra". Auglýsingar eru þannig á vissan hátt prédikanir. Þær skapa það sem á að vera eftirsóknarvert í lífinu."

Kristnir menn geta eiginlega ekki verið húmorslausir þótt ábyggilega megi benda á undantekningar frá þeirri reglu. Góð rök hafa verið færð fyrir því að Guð hljóti að hafa skapað húmorinn (meira um það síðar). Sé allt hendingum háð er tilveran í eðli sínu húmorslaus. Tilviljunin hefur ekkert skopskyn. Þá ríkir ekkert nema ísköld alvaran, krakkar mínir.

Símaauglýsingin fer í taugarnar á mér vegna þess að mér finnst ekki tilhlýðilegt að nota þessa sögu til að selja símtæki eða annan varning. Auglýsing er alltaf auglýsing. Hún er notuð til að koma á framfæri vöru eða þjónustu. Auglýsing upphefur vöruna og Símaauglýsingin er gott dæmi um það hvernig varningur er látinn öðlast trúarlegan blæ.

Umræðurnar um þessa auglýsingu eru oft dálítið skrýtnar. Ágætur fjölmiðlamaður bloggaði um viðbrögð Þjóðkirkjunnar við henni undir yfirskriftinni "Hefur ekki Þjóðkirkjan skoðun á þessu líka?". Þar bendir hann á mikilvægi tjáningarfrelsis. Það virðist samt ekki eiga að vera fyrir alla því að í pistlinum hæðist höfundur að því að talsmenn Þjóðkirkjunnar hafi haft skoðun á umræddri auglýsingu og sagt hug sinn.

Finnst einhverjum asnalegt að kirkjan hafi skoðun á því hvernig Píslarsagan er meðhöndluð? Ekki síst ef leitað er eftir skoðun talsmanna hennar á því?

Neikvæð viðbrögð fólks við auglýsingunni hafa líka verið borin saman við líflátshótanir í kjölfar þess að dönsk blöð birtu skopmyndir af Múhameð spámanni. Það er til dæmis gert hér. Ég veit ekki til þess að nokkrum hafi verið hótað lífláti eða líkamsmeiðingum vegna símaauglýsingarinnar. Fólk hefur bara haft skoðanir á henni. Mörgum finnst hún ósmekkleg - og mér finnst ósmekklegt að gefa í skyn að þar með sé það fólk á leiðinni að fremja morð eða hryðjuverk.

Enginn þarf að segja mér að þeir sem unnu auglýsingarnar hafi ekki séð fyrir svona viðbrögð. Ágætur vinur minn benti mér á að ef til vill væru viðbrögðin hluti af plottinu. Það er í tísku að sparka í Þjóðkirkjuna og trúarbrögðin. Það þykir töff að hæðast að Biblíunni. Það er kúl að ögra prestunum. Síminn vill vera í tískunni og bæði töff og kúl.

Þetta er nú samsæriskenning sem bragð er að.

Egill Helgason skrifaði einu sinni bloggpistil þar sem hann hvatti fólk til að móðga trúarbrögðin. Auðvitað er ekki hægt að móðga trúarbrögð. Það er á hinn bóginn hægt að móðga fólk, særa það og lítilsvirða það sem því er heilagt og dýrmætt.

Er slíkt heróp ekki gott innlegg í hið umburðarlynda fjölmenningarsamfélag sem við Íslendingar þykjumst vera að mynda?


Annar vinkill á reiðina

rettir2[1]

 

Enn á ný hefur blogginu borist kvæði. Sendandi er enginn annar en góðbóndinn, stórvertinn, rútubílstjórinn, sóknarnefndarformaðurinn og kirkjukrítíkerinn Jónas Sigurðarson í Lundarbrekku í Bárðardal.

Er óhætt að segja að í kvæðinu sé annar vinkill á reiðina en í Reiðilestri meistara Jóns. Jónas vinur minn skrifaði kvæðið hér í gestabókina en þar sem nánast er ómögulegt að koma kveðskap á skjá í þessu bloggi, nema með ótrúlegum tilfæringum, klúðraðist það allt. Ég vona að mér auðnist að koma því rétt frá mér.

Ég efast ekki um að ég heyri frá Jónasi ef svo er ekki. 

Um höfund er ekkert sagt, ef til vill fyrir hógværðarsakir - þótt við Þingeying sé að eiga.

 

Fjallskilareglugerðin, hin nýja

 

Í smölun er oft þeim manni um megn

sem má ekki þola storm og regn.

Best er að sérhver búandþegn

sé bálreiður haustið út í gegn.

 

Þú skalt æða yfir storð,

aldrei tala hlýlegt orð.

Svipurinn þarf að minna á morð

ef menn eiga´ að smala á annað borð.

 

Hendi skal á móti hönd

þá heima eru smöluð lönd.

Orðin þá ekki valin vönd

vestur á Glámu og Barðaströnd.

 

Er réttinni safnið rennur nær

reynir á þol og fimar tær.

Hver sá er verður ekki ær

ætti´ ekki að teljast gangnafær.

 

Ef reksturinn kemur þú reiðast átt,

rífast um bæði stórt og smátt,

tvístra´ onum, öskra og hrópa hátt

en hirða hann bara, ef það er fátt.


Reiðilestur

"Hún afmyndar alla mannsins limi og liði. Hún hleypir blóði í nasirnar, bólgu í kinnarnar, æði og stjórnleysi í tunguna, deyfu fyrir eyrun. Hún lætur manninn gnísta með tönnunum, fljúga með höndunum, æða með fótunum. Hún skekur og hristir allan líkamann og aflagar svo sem þegar hafið er uppblásið af stórviðri. Og í einu orði sagt: Hún gjörir manninn að ófreskju og að holdgetnum djöfli í augum þeirra sem heilvita eru."

Þannig er rætt um reiðina í einni frægustu prédikun, sem til er á íslenskri tungu, svonefndum Reiðilestri meistara Jóns Þorkelssonar Vídalín. Ræðuna flutti hann í kirkju sinni sunnudaginn milli áttadags og þrettánda.

Jón Vídalín fæddist á sautjándu öld og aldir eru liðnar síðan hann las sóknarbörnum sínum pistilinn um hættur reiðinnar. Hann benti þeim líka á að heiftin væri aldrei einsömul. Öfund, drambsemi, rógur, lygi, bakmælgi, agg, þræta, tvídrægni og margt annað illþýði fylgir henni gjarnan.

Þessi gamla ræða er enn í fullu gildi. Heift sem súrnar í hjörtum manna breytist fyrr eða síðar í brennandi hatur. Við sjáum afleiðingarnar í kringum okkur og heyrum af þeim í fréttunum.

Oft eru þær í nafni trúarinnar. "Fáum sem reiðast þykir reiði sín ranglát," segir meistari Jón. Og "enginn hatar sá annan að hann hafi honum ekki fyrst reiður orðið," bætir hann við.

Fólskan er aldrei hættulegri en þegar hún er unnin í þeirri trú, að hún sé fyrir góðan málstað. Reiðin verður aldrei skelfilegri en þegar fólk telur sér trú um að reiði þess sé heilög.


Kvíðinn prestur

TitanicÝmislegt gekk á um borð í Titanic áður en skipið fórst. Það fengum við að sjá í stórmynd sem gerð var um slysið fyrir nokkrum árum. Mörgum árum áður var gerð mynd um sama atburð. Henni leikstýrði Jean Negulesco. Í aðalhlutverkum voru þau Clifton Webb og Barbara Stanwyck. Þar var líka mikið um að vera áður en hörmungarnar byrjuðu fyrir alvöru.

Hver finnur til dæmis ekki til með þessum kaþólska presti sem var farþegi með Titanic í þessari eldri mynd um slysið? Um hann er þetta sagt í prógrammi úr safninu hennar mömmu:

 "Júlía hittir dauðadrukkinn, ungan mann, Healey að nafni, á þilfarinu og hjálpar honum til káetu sinnar. Hann segir henni, að hann hafi verið kaþólskur prestur, en fyrir viku síðan hafi páfi svipt hann kjól og kalli fyrir drykkjuskap. Nú er hann á leið heim og kvíðir því að færa fjölskyldunni fréttina um smán sína."

Prestur þessi hlýtur að hafa gengið vasklega fram í fylleríunum fyrst sjálfur páfinn sá ástæðu til að koma að málinu.

Það jaðrar svo við að vera ósmekklegt að taka fram að líkega hefur prestur sloppið við að segja fjölskyldunni frá smán sinni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband