Færsluflokkur: Bloggar

Náðin sem bandamaður mennskunnar

gjafirÍ athugasemdum við pistil hér að neðan báðu tveir bloggvinir mig að skýra aðeins náðina og hvernig væri hægt að segja hana bandamann mennskunnar.

 Orðið náð er komið af gríska orðinu cháris. Það er af sama stofni og cháirein - að gleðjast - og chára - gleði. Náð er því nokkuð sem gleður manninn, kemur honum gleðilega á óvart. Cháris er á latnesku gratia.

Þegar þegn á dögum Nýja testamentisins var náðaður af konungi sínum þýddi það meira en að sakamanni hafi verið fyrirgefið. Náðun fól í sér að konungurinn hafði persónuleg afskipti af örlögum þess sem náðaður var. Náðin í Nýja testamentin hefur sömu þýðingu. Þar er um að ræða milliliðalaus afskipti Guðs af manninum.

Afstaða okkar til Guðs einkennist gjarnan af því að við höldum að Guð sé að rukka okkur um eitthvað. Hann eigi jú inni hjá öllum. Smásyndir hér og þar og jafnvel stórsyndir. Guð hlýtur að vilja stefna okkur til reikningsskila. Hann á margt sökótt við okkur.

Þegar talað er um náð Guðs er verið að benda á að hann sjái okkur ekki með augum rukkarans, heldur opni okkur faðminn og taki okkur í sátt eins og við erum.

Hann rukkar okkur ekki um getu, hæfileika, afl eða gæði. Við þurfum ekki að vinna okkur inn elsku hans. Hann elskar okkur ekki vegna þess að við séum svo frábær, höfum náð svo ágætum árangri og komið svo miklu til leiðar. Hann elskar okkur af náð og í náðinni gefur hann okkur hlutdeild í sjálfum sér án milliliða.

Þegar Lúter mómælti sölu aflátsbréfa á sínum tíma var það ekki síst með rökum náðarinnar. Maðurinn kaupir sér ekki inn velþóknun Guðs. Hann vinnur ekki fyrir henni. Hann á ekki heimtingu á henni í krafti auðs, hæfileika eða góðra verka. Guð elskar manninn vegna þess að hann hefur kosið að gera það. Hann elskar okkur af náð.

Elska hans er ókeypis. Án skilyrða. Hún er líka ætluð þeim sem ekkert eiga eða geta. Og ef til vill fyrst og fremst þeim því þeir sem geta mikið og eiga mikið hafa oft ekkert með neinn Guð að gera, nema þá til að þakka honum fyrir að vera ekki lúserar.


Árangursmiðað líf

Í þjóðfélagi okkar verða allir að ná árangri og skila honum. Frá blautu barnsbeini erum við alin upp við að við verðum að vera eitthvað, verða eitthvað og gera eitthvað til að kallast gjaldgeng. Alltaf er verið að segja okkur hvað við verðum að vera og eigum að eiga.

Sumir ná engum árangri og láta ekkert af sér leiða, eru ekkert, gera ekkert og eiga ekkert. Örlög þeirra eru öllum ljós og skilaboðin skýr: Þeir eru lúserar.

Smám saman er mennskan að deyja í veröldinni. Hún kafnar undir öllum þessum kröfum. Mennskan er dæmd til dauða í heimi, þar sem við verðum að verða eitthvað annað en við sjálf til að þóknast samtíðinni. Mennskan á sér enga von þar sem mistök leyfast ekki.

Þess vegna er náðin helsti bandamaður manneskjunnar.


Einn voða neikvæður

 

Um fyrirgefningu fæst ég ekki.

Ég fer á lappir ekki sáttur.

Mitt hlutskipti er ekki, ekki.

„Ekki" segir minn hjartasláttur.

 

Fegurð morgunsins eygi ég ekki.

Ekki heilsa ég nýjum degi.

Sofnaður ég segi „ekki"

og segi það líka ef ég þegi.


Slúður til sölu

Einhverra hluta vegna hafa sögusagnir um náungann ætíð átt greiðan aðgang að eyrum manneskjunnar, hvort sem þær eru hálflognar eða algjör uppspuni. Slúður er mikilvæg söluvara í þeirri miklu markaðsmaskínu sem fjölmiðlar samtímans eru.

Slúður er sjaldnast meinlaust. Það getur þvert á móti verið stórhættulegt. Það er særandi, meiðandi, niðurlægjandi og sundrandi. Fram til þessa hefur slúður þótt mein í siðmenntuðum samfélögum. Það virðist vera að breytast.

Slúður verður ekki til fyrir þá sök eina að einhver er til að breiða það út. Líka þarf að hlusta á það, lesa það og síðast en ekki síst - að kaupa það.

Þegar við kaupum slúður erum við að kosta framleiðslu þess. Við verðlaunum þá sem níða æruna af fólki og leggjum þeim lið við að bera ljúgvitni gegn náunganum.


Dyravígsla

noto_door[1]Þessi atburður átti sér nokkurn aðdraganda. Hann og sagan öll er auðvitað aðeins fyrir þá sem nenna að lesa.

Vorið 2006 festi ég kaup á forláta parketi á íbúðina. Greiddi ég góssið út í hönd, tæplega hálfa milljón króna að mig minnir.

Smiðir voru torfengnir og þegar hálft ár var liðið frá kaupunum bauðst parketsalan til að útvega einn slíkan, enda var parketið í geymslu hjá þeim. Loksins þegar sá smiður kom reyndist hann ekki hafa tíma til að taka að sér verkið. Greip ég þá til minna ráða og skrækti út smið, son vinkonu móður minnar. Sá gat sinnt parketlögnum í hjáverkum. Þegar hann hófst handa höfðum við ákveðið að sleppa að setja þetta parket á eina vistarveru. Mig vantaði aftur á móti hillur í þvottahúsið. Þær keypti hjá fyrirtækinu sem geymdi parketið. Var ákveðið að hillurnar yrðu skrifaðar á mig og ég gerði allt upp þegar ég skilaði afgangsgólfefninu. Þessi afdrifaríku viðskipti voru upp á rúmar átjánþúsund krónur.

Ekki tókst mér að ljúka parketlögnum áður en ég fór í sumarfrí og er reyndar ekki alveg búinn að því enn. Þegar ég kom úr sumarfríi beið mín bréf frá lögfræðingi í Reykjavík. Var ég krafinn um þessar 18.000 krónur ella skyldi ég hafa verra af. Ég hringdi strax í lögfræðinginn og útskýrði málið. Sá kvaðst ekkert geta gert. Benti mér að tala við búðina. Daginn eftir fór ég þangað niður eftir. Allir vildu ljúka málinu. Þær sættir tókust í málinu að ég mældi rýmið sem átti eftir að leggja á og skilaði umframparketi auk einnar hillu, sem reyndist vera ofaukið.

Ég gerði það og fékk þessa líka fínu innleggsnótu senda í pósti nokkru síðar. Hún hljóðaði upp á nánast sömu upphæð og lögfræðingurinn hafði farið fram á. Beið ég rólegur eftir því að fá nýjan reikning frá fyrirtækinu - sem hefði þó varla hljóðað nema upp á nokkur hundruð krónur. Átti ég alveg eins von á að málinu væri lokið.

Í gær tók ég mig svo til og steypti í skemmdir á útidyratröppunum hjá mér. Var ég býsna hreykinn af verkinu. Ekki spillti ánægjunni að í dag birtust óforvarindis smiðir og settu nýjar útidyr á húskofann, en þær pantaði konan mín í vor.

Er aðkoma að húsinu orðin gullglæsileg.

Þegar smiðirnir eru í þann mund að reka lokahönd á verkið gengur maður upp hinar endurbættu útidyratröppur, knýr á hinar glænýju útidyr og krefst inngöngu á heimilið. Ég fagna honum innilega en hann þakkar fyrir sig með því að birta mér stefnu. Sú er frá áðurnefndum lögfræðingi í Reykjavík. Eru krónurnar 18.000, sem ég átti reyndar inni hjá fyrirtækinu, orðnar tæplega 23.000 mér í óhag. Vandaði lögfræðingurinn mér ekki kveðjurnar.

Stefnuvotturinn var ekki lengi að ljúka sér af. Eftir stóð ég, ekki laus við óhug þegar ég hugsaði um hver hefði fyrstur gengið inn um hinar nýju dyr.

Óhugurinn rjátlaðist heldur af mér þegar ég uppgötvaði hver hefði fyrstur gengið út um þessar sömu dyr.


Athafnir daglegs lífs

Þolinmæðin er ekki erfiðust þegar verkið krefst hennar. Það þarf þolinmæði til að mála gluggalista, eiga við óstýrilátan ungling eða fara í megrun.

Erfiðara getur verið að sýna þolinmæði við hinar einföldu og sjálfsögðu athafnir, að standa, ganga, sitja, borða og tala. Þar er um svo léttvæga iðju að ræða að við sjáum ekki ástæðu til að vanda okkur við hana.

Okkur finnst merkilegra að standa upp en sitja, mikilvægara að ganga en standa og meira um vert að komast á áfangastað en að ganga.

Þá yfirsést okkur að ekki er hægt að standa upp án þess að hafa setið, ganga án þess að hafa staðið upp og leiðarenda náum við ekki nema að ganga.

Meira að segja þögn okkar skal vera heilshugar.


Svartur köttur

Free_cat_black[1]Bloggfærslan mín "Engin undankomuleið" fór fyrir brjóstið á sumum, ekki síst frómustu trúleysingjum.  Sem var ekki nema von því í færslunni var ósvífinn brandari um viðskipti prests og forherts trúleysingja.

Nú ætla ég að bæta fyrir þetta með því að skýra muninn á frumspeki, heimspeki og guðfræði.

 

 

Frumspeki líkist því að leita að svörtum ketti í koldimmu herberbergi með bundið fyrir augun.

Heimspeki líkist því að leita að svörtum ketti í koldimmu herbergi með bundið fyrir augun og kötturinn er alls ekki í herberginu.

Guðfræði líkist því að leita að svörtum ketti í koldimmu herbergi með bundið fyrir augun og kötturinn er alls ekki í herberginu en allt í einu hrópar maður:

 "Ég er búinn að finna hann!"


Vísindi og sjálfsþekking

Sú skoðun virðist útbreidd að engin þekking sé sönn nema hún hafi vísindalegan grunn. Það óvísindalega er grunsamlegt í okkar eyrum, ótraust og hefur á sér yfirbragð blekkingar, því okkur finnst að eina leiðin að sannleikanum sé með aðferðum vísindanna. Þess vegna er trú og vísindum gjarnan stillt upp sem andstæðum. Sumir vísindamenn eru í krossferð gegn trúarbrögðunum og sumir trúmenn hafa sagt vísindunum stríð á hendur.

Auðvitað eru vísindin ein leið til að þekkja hlutina. Þau eru mikil og þakkarverð Guðs gjöf og hafa fært manninum mikla blessun.

En þau eru mannanna verk og undir sömu rök seld og önnur slík. Sannleikur vísindanna er til að mynda ekki endanlegur. Hann breytist. Ekki er langt síðan Plútó missti stöðu sína sem níunda reikistjarnan frá jörðu og sú sem er lengst frá plánetunni okkar, svo dæmi sé tekið. Vísindin eru augu okkar og eyru en oft eru hlutirnir ekki eins og við sjáum þá eða heyrum þá.

"Gnóthí seáton" eða "þekktu þig sjálfan" sögðu Grikkir til forna. Síðan hefur margt gerst og mannkyninu fleygt fram. Nú vitum við alveg ótalmargt sem hinir gömlu Grikkir vissu ekki.  Getum við þá fullyrt að þeir hafi ekki þekkt sig jafnvel og við? Þekkir nútímamaðurinn sjálfan sig betur en forverar hans? Hvað um hin gömlu meistaraverk bókmenntanna, sem mörg bera vott um djúpa og hispurslausa sjálfsþekkingu höfunda? Og þekki nútímamaðurinn sig betur en fólk á fyrri tíð, hvernig stendur þá á því að við virðumst sífellt firrtari okkur sjálfum, erum sjálfum okkur framandi, þekkjum ekki hver við erum? Hvernig stendur þá á því að margir telja sjálfsfirringu mannsins einn helsta vanda okkar upplýstu tíma?

Vísindin geta svarað ýmsu um okkur en þau svipta ekki hulunni af okkur í eitt skipti fyrir öll. Fólk sem ekkert kann fyrir sér í vísindalegum aðferðum getur öðlast mikla sjálfsþekkingu. Hálærðir vísindamenn geta á sama hátt verið sjálfum sér gjörsamlega firrtir.

Vísindin eru alveg mögnuð. Þau eiga svör við mörgu en leysa ekki allt. Þau svara til dæmis engu um margt af því sem varðar manninn mestu.

Vísindin geta stundum hjálpað okkur að finna hvað við þurfum. Þau eru samt frekar máttlaus í því finna hvað við viljum. Sá veit hvað hann vill sem þekkir sig sjálfan.

Kannski þess vegna reynist svo auðvelt að telja upplýstu nútímafólki trú um að það þurfi ýmislegt sem það vill ekki eða vilji eitthvað sem það í raun og veru hefur enga þörf fyrir.


Staðalímyndaæfingar

urbino

 

VI. hluti Markafararsögu

Töluvert er síðan ég bloggaði um Ítalíuferðina í sumar. Nú er komið að því að segja lítillega frá heimsókn til borgarinnar Urbino á Mörkum.

Hún er merkileg fyrir margra hluta sakir. Ég held að ég hafi aldrei komið í jafn gegngamla borg og er ekkert hissa á að hún sé á menningarminjaskrá UNESCO. Merkustu minjarnar eru frá stjórnarárum hertogans Federico da Montefeltro (1422 - 1482) sem var einn af leiðtogum ítölsku endurreisnarinnar. Víða um borgina mátti sjá platta með myndum af hertoganum. Hann er eins konar faðir Urbino.

Frægasti sonur borgarinnar er síðan án efa málarinn Raphael (Raffaello Sanzio), sem fæddist ári eftir að hertoginn lést. Raphael er af mörgu þekktur en margir kannast best við hann fyrir það að skapa englum alheimsins staðalímynd. Hann málaði þá sem "fljúgandi blóðmörskeppi" eins og rithöfundurinn og pílagrímurinn Jón Björnsson orðaði það einhvers staðar.

Urbino er hreinn unaður. Borgin sjálf er afskaplega falleg, byggð á hæð með gömlum byggingum við þröngar götur. Umhverfið er líka ægifagurt. Það veitir ekkert af heilum degi í Urbino.

Í Urbino starfar einn elsti háskóli heimsins. Þar er hægt að læra allt mögulegt. Við sem heimsóttum borgina gengum örlítið um og fengum okkur hressingu á hinum ótalmörgu börum og kaffihúsum borgarinnar.

Það leyndi sér ekki að Urbino er skólabær. Mikið af ungu fólki var á ferðinni og alvarlegir prófessorar með þungar töskur. Við aðaltorgið sátum við og gátum okkur til um hvaða fag prófessorarnir kenndu sem fram hjá gengu. Brynjólfur læknir taldi sig sjá á einum að þar hlyti að fara eiturefnafræðingur. Ég var ekki í nokkrum vafa um að annar væri starfandi við guðfræðideildina. Sá ekki betur en biskupsbagallinn hefði verið rekinn niður hálsmálið á honum að aftan. Gestur velti mikið fyrir sér manni með káetugluggagleraugu. Fótabúnaður mannsins kom svo endanlega upp um hann. Ekki þurfti frekar vitnanna við, þetta var félagsfræðingur. Hann var í sandölum.

Svo sáum við eldri borgara á torginu sem við töldum ekki ólíklegt að væri einn af gömlu drengjunum (en þannig nefndum við meðlimi mafíunnar sem við þorðum ekki að nefna úti þar). Hann var í hvítum jakkafötum, með samlitan hatt á höfði, sígaretta í sama lit stóð út úr munnviki en biksvört sólgleraugu huldu augun. Öldungur þessi lét sig hverfa mjög snyrtilega þegar lögreglumaðurinn á myndinni hér fyrir ofan birtist. Þá vorum við alveg viss um gamla drenginn.

Annars verður Urbinoferðin ekki síst eftirminnileg vegna þess að einum samferðamanna minna varð mál á leiðinni. Varð að stöðva bifreiðina og brá hann sér út í nærliggjandi runna að sinna brýnum erindum. Reyndist því miður um þyrnirunna að ræða og vætlaði blóðið úr viðkvæmum líkamspörtum mannsins þegar hann hafði lokið sér af. Þótti framgangan karlmannleg.


Blessaðir gamlingjarnir

cato-the-elder-1-sized[1]Nú þykir fínt að vera grannur. Þess konar holdafar ber vott um sjálfsaga og heilbrigðan lifnað. Feitt fólk er á hinn bóginn kærulaust og ber hvorki virðingu fyrir sér sjálfu né öðru. Landnámsmaðurinn hér í Eyjafirðinum, Helgi magri, þyrfti ekki að skammast sín fyrir sitt viðurnefni væri hann uppi nú á dögum.

Öðru máli gegnir um annan tveggja landnámsmanna Ólafsfjarðar. Sá hét Gunnólfur og var kallaður gamli. Nú þykir nefnilega ekki síður hallærislegt að vera gamall en digur.

Ég er oft í vandræðum með hvernig ég eigi að ávarpa gamalt fólk. Langt er síðan ég var áminntur um að nefna það ekki gamalt. Ég hef líka verið spurður að því hvort mér finnist sæmandi að kalla fólk sem komið er af léttasta skeiði aldrað. Nú má helst ekki tala um elliheimili. Þau eru dvalarheimili. Þar eru hvorki öldungar né gamlingjar heldur eldri borgarar og meira að segja "fullorðið fólk".

Spurning hvort einhvern tíma verði tekið upp lýsingarorðið "óungur"?

Það er svo ófínt að vera gamall að ég þekki konu sem hvað eftir annað fékk synjun um vinnu vegna þess að hún þótti of gömul. Hún var sum sé rúmlega fimmtug.

Mér þykir gamalt fólk hið skemmtilegasta. Það býr yfir mikilli reynslu og speki. Það hefur frá mörgu að segja og hefur unun af því ef einhver hefur tíma til að hlusta. Oft eru miklir húmoristar í hópi gamals fólks. Það er líka gjarnan sérviturt og með aðrar skoðanir en mannkynsfrelsararnir allir og álitsgjafarnir í fjölmiðlunum. Ég tek undir með Kaj heitnum Munk sem segir: "Maður getur elskað heilt býli vegna þess eins að þar er hressilegur, ljúfur öldungur, karl eða kona."

Hér fyrir ofan er mynd af frægum öldungi, Kató gamla. Hann fæddist árið 234 fyrir Krist og lést 85 árum síðar. Náði með öðrum orðum háum aldri og stóð undir nafni, alla vega seinni hluta ævi sinnar. Þetta var agalegur nagli eins og myndin sýnir. Ekki var hann ýkja hrifinn af hellenskri menningu og framgangi hennar. Taldi að hún ógnaði Róm og þess vegna væri nauðsynlegt að eyða borginni Karþagó. Hafði Kató fyrir sið að enda ræður sínar á því að hvetja til verksins. "Carthago delenda est!"

Kató gamli var valdamikill maður og býsna sprækur. Hann - eins og aðrir - þurfti samt að lokum að beygja sig fyrir valdi ellinnar. Heilsan bilaði. Sjálfsagt hefur hann barmað sér og vantreyst að hætti gamals fólks. Hvaða gagn er af gömlum manni? Hvaða not hefur Guð fyrir þá sem búnir eru með alla sína krafta?

Því svarar Kaj Munk og ég enda þessar hugleiðingar mínar á því svari:

"Já, stundum getur hann haft meiri not af þeim en hinum, sem eru heilir og hraustir, því að þeim er tíðum gjarnt að krafta sína í sjálfs sín þjónustu en ekki hans." 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband