Færsluflokkur: Bloggar

Fórn hjúkrunarkonunnar

fornhjukrunarkonunnarGeiri á Góldfínger er ef til vill á vissan hátt frumkvöðull í því að bjóða upp á að menn borgi fyrir dans hér á landi, en sú tegund danslistar hefur lengi verið tíðkuð. Ekki bara ólánsamar stúlkur hafa séð fyrir sér með dansi.

Á sínum tíma vann franska kvikmyndin Fórn hjúkrunarkonunnar (Les orgueilleux) til verðlauna. Hún var tekin í Mexíkó af Ivés Allégret en sýnd hér í Stjörnubíói. Með aðalhlutverk fóru Michele Morgan og Gerard Philipe.

Líka hámenntaðir menn geta tekið upp á ýmsu sé mikið í húfi. Jafnvel dansað fyrir greiða. Samkvæmt prógrammi sem myndinni fylgdi er fremur illa komið fyrir lækninum Georgs. Þar segir:

"Hvers vegna er Georgs, ungur, franskur læknir í mexíkönskum smábæ orðinn forfallinn drykkjumaður og flakkari? Hvernig má það verða, að læknir gerist trúnaðarmaður hórkvenna staðarins, til þess eins að verða sér úti um glas af víni? Hann ber töskur ferðamanna og vílar ekki fyrir sér að sýna skrípalega dansa á veitingahúsinu, ef gestgjafinn heimtar, að hann skemmti gestunum, áður en hann gefur honum hressingu."

Hér þarf svo sannarlega að færa fórnir.

Á ljósmynd framan á prógramminu sést útlifaður læknir með hýjung og hatt halda fast um heilbrigða hjúkrunarkonu sem horfir dreymin út í buskann.

Bæði virðast fáklædd enda heitt í Mexíkó.


Þetta er yndislegt líf

Birti hér prédikun mína í Hallgrímskirkju í gær, en þar vorum við Akureyringar í messuheimsókn á lokadegi kirkjulistahátíðar. Prédikunartextinn var Lúkas 7, 36 - 50.

Ég er heppinn í dag. Fæ bæði að að fjalla um eina af uppáhaldssögunum mínum úr Nýja testamentinu og ég ætla líka að tala um eitt af mínum uppáhaldslögum. 

Í laginu „What a Wonderful World" eftir þá Bob Thiele og George David Weiss syngur Louis Armstrong um hina undursamlegu veröld. Armstrong syngur um græn tré, rauðar rósir, sem blómstra fyrir mig og þig. Hrjúfur rómur söngvarans málar fyrir okkur bláan himin, hvít ský, bjartan og blessaðan dag og dimma og heilaga nótt. Litir regnbogans birtast í tónum lagsins og þar er sagt að þeir litir séu líka á andlitum fólksins, sem á vegum okkar verður. Armstrong syngur um vini sem heilsast og segir að þegar þeir spyrji hver um annars líðan séu þeir í raun að tjá væntumþykju og ást. „Ég heyri börn gráta," syngur Armstrong, „ég fylgist með þeim vaxa. Þau eiga eftir að læra meira en ég mun nokkurn tíma gera. Og ég hugsa með mér: Þetta er yndislegt líf."

Núna eftir Hinsegin daga erum við minnt á að allar dagar eru hinsegin. Hver dagur einstakur í veröld þar sem hver manneskja er einstök. Þetta er undursamleg veröld, litskrúðug eins og blómum prýtt engi og litir regnbogans eru í andlitum fólksins sem við mætum.

Það er svo satt sem einu sinni var sagt: Merkilegt hvað fáir eru eins og fólk er flest.

Louis Armstrong sá undursamlega veröld í fyrirbærum, sem við höfum oft fyrir augunum, í trjám, blómum, himni, skýjum, deginum, nóttinni, regnboganum, andlitum, vinum, kveðjum og grátandi börnum. Hann bendir á þetta allt og segir: Þetta er yndislegt líf. Þetta er undursamleg veröld.

II.

Þann 6. ágúst árið 1945 var kjarnorkuvopninu í fyrsta skipti beitt gegn fólki, þegar Bandaríkjamenn vörpuðu atómsprengjunni „Litli drengur" á borgina Hiroshima í Japan. Þremur dögum síðar sprakk sprengja sömu gerðar í borginni Nagasaki. Sú hét „Feiti maður".

Aldrei fyrr í sögunni hafði sú ógn orðið augljósari sem manninum stafar af sjálfum sér. Maðurinn er hættulegur og svo mikill er máttur hans að hann getur tortímt öllu lífi á þessari jörð.

Jörðin er í uppnámi, öll þessi yndislega veröld. Það eru ekki einungis gjöreyðingarvopn sem ógna henni. Hugkvæmni manneskjunnar virðist fá takmörk eiga sér þegar um er að ræða að finna leiðir til að skemma og eyðileggja þennan heim.

Við sóum auðlindum heimsins, við mengum loftið svo gegndarlaust að veðurfar er að breytast. Við munum, ef ekkert verður gert, úthýsa sjálfum okkur af þessari plánetu. Við látum viðgangast að fólk úti í heimi deyi úr hungri, vosbúð og sjúkdómum, því gæðum heimsins er svo misskipt, að meðan sumir vita ekki hvað þeir eigi að gera við auðæfi sín, fá aðrir ekki nóg til að lifa.

Afstaða okkar til heimsins einkennist ekki af þeirri lotningu, aðdáun og þakklæti, sem fram kemur í söngnum um hið yndislega líf. Við viljum drottna og ríkja. Við viljum neyta og eignast. Hafa fremur en vera.

Jörðinni okkar stafar hætta af lífsháttum okkar og viðhorfum. Svo upptekin erum við af því að fá okkar skerf, öðlast okkar hlutdeild, skera okkar sneið af því sem heimurinn hefur upp á að bjóða, að smám saman glötum við hæfileikanum til að dást að honum, finna til lotningar gagnvart sköpunarverkinu og vera þakklát fyrir allar þess gjafir.

III.

Guðspjall dagsins fjallar um lotningu. Bersyndug og fyrirlitin kona kemur inn í hús Símonar farísea. Hún hafði frétt af Jesú þar inni og hefur með sér alabasturbuðk með dýrum smyrslum. Þessi kona sem á ekki einu sinni mannorð gengur til Jesú, sest grátandi við fætur hans. Án þess að mæla orð tekur hún að væta fætur Jesú með tárum sínum, þerra þá með hári sínu, kyssa þá með vörum sínum og rjóða þá hinum dýru smyrslum.

„Ó, ég þarf að krjúpa, krjúpa, koma til þín heitri þökk," yrkir önnur kona í Sálmabókinni okkar. Sú er í sömu stellingu og bersynduga konan í guðspjallinu. Báðar krjúpa niður og vilja tjá heitar þakkir, lotningu, aðdáun og ást.

Kristnir menn geta verið með mörgu móti, þeir geta haft mismunandi skoðanir, litið lífið ýmsum augum og þess  vegna getur verið erfitt að tala um sérstakan kristinn lífsstíl. En ef við leitum hans, ef við leitum að því sem helst ætti að einkenna kristna manneskju, ættum við ef til vill að líta til þessara tveggja kvenna. Lífsstíll þakklætisins hæfir kristnum manni best. Hann er þakklátur. Hann lítur lífið og tilveruna augum þakklætisins, aðdáunarinnar og lotningarinnar.

Og nú, þegar við höfum haldið hátíð kirkjulegra lista, eru þakklætið, aðdáunin og lotningin meginþræðirnir sem öll trúarleg listaverk eru spunnin úr. Kirkjulist er í raun ætíð smyrsl í gifsbauk og tár á fótum frelsarans, kossar manneskju sem þarf að tjá heita þökk.

Kirkjulist er að þessu leyti andstæða við þann lífsstíl sem nútíminn aðhyllist, kröfuhörkuna og ófullnægjuna. Við erum upptekin af því sem okkur skortir og sífellt er verið að minna okkur á það. „Ekki nóg, ekki nóg," segja allar heimsins klukkur. Tif þeirra er ein forsenda hagkerfisins. Þar þurfa alltaf að vera einhverjar ófullnægðar þarfir. Hagkerfið þrífst ekki án undirliggjandi óánægju. Það þarf áhyggjufullt fólk, sem lifir í stöðugum ótta við að vera að missa af einhverju, er hrætt um að verið sé að hlunnfara það og sneiðin af kökunni sé of lítil.

IV.

Það að trúa er ekki fólgið í því að uppgötva með einhverjum hætti að til sé Guð. Jafnvel Óvinurinn sjálfur trúir þannig á Guð. Það að trúa er að treysta Guði. Treysta honum fyrir lífi sínu. Lifa í ljósi orðanna úr 23. sálmi Davíðs: „Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta."

Mig mun ekkert bresta. Kristin manneskja trúir því að Guð muni vel fyrir sjá. Trúin á góðan Guð veitir öryggi. Við erum örugg í faðmi Guðs. Hann er alltaf að gefa okkur eitthvað. Hann er Gjafarinn, sem er eitt heita Guðs á íslensku. Við erum umvafin gjöfum hans og þær allar vitna um gæsku hans. Og þess vegna er enginn lífsstíll kristnari en sá, sem birtir heitar þakkir fyrir þá gæsku, náð og miskunn.

Þetta er yndislegt líf. Þetta er undursamleg veröld. Hin grænu tré, hinar rauðu rósir, hinn blái himinn og hin hvítu ský, hinn bjarti og blessaði dagur og hin myrka og heilaga nótt. Litir regnbogans, kveðja góðra vina, þroski lítilla barna. Hvílík undur! Og mikill er sá Guð, sem allt þetta gefur og gerir!

Og við tökum undir með orðum sálmsins, sem var lexía dagsins:  „Gleðjist yfir Drottni og fagnið, þér réttlátir, kveðið fagnaðarópi, allir hjartahreinir."

 

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.


Glöð og góð er vor æska

fermingarskoli2007a

Unglingarnir okkar eru frábærir - þótt þeir komist helst ekki í fréttir nema ef þeir fara fram úr sjálfum sér um verslunarmannahelgina og brjóta rúður í miðbænum.

Þessi aldurshópur átti einstaklega góða fulltrúa á fermingarskóla Akureyrarkirkju á Vestmannsvatni þaðan sem ég er nýkominn. Mikið ofboðslega var gaman að vera með krökkunum.

Æska landsins er kurteis, lífsglöð, hugsandi og falleg.

Á Vestmannsvatni var hvorki útvarp né sjónvarp. Tölvur voru engar og farsímar sparlega notaðir. Unglingarnir voru samt ekki lengi að læra á staðinn þrátt fyrir ókræsilegt veður, norðansudda með rigningarúða og hitastigi sem þokaðist ekki upp í tveggja stafa tölur.

Það er útbreiddur misskilningur að hafa þurfi einhverja ægilega dagskrá til að hafa ofan fyrir ungu fólki. Á Vestmannsvatni tíndu krakkarnir ber. Voru í útileikjum. Spjölluðu saman inni í herbergjum. Sögðu prestunum brandara. Spiluðu bingó. Sungu. Tóku af áhuga þátt í fræðslustundunum. Sofnuðu kannski fullseint - en voru þess í stað bæði hljóð og prúð í morgunbænunum. Glöddust ósegjanlega þegar tilkynnt var að boðið yrði upp á nýbakaðar vöfflur með kaffinu.

Meira þurfti nú ekki.

Maður yngist um mörg ár við að vera með svona fólki. Og eldist alveg óhræddur fyrst þau sem landið erfa eru svona vel gerð. 


Fermingarskóli á Vestmannsvatni

Fermingarskóli 2006 014

Er að fara á fermingarskóla Akureyrarkirkju á Vestmannsvatni í Aðaldal. Verð þar fram undir helgi. Færslunni fylgir mynd úr fermingarskólanum þar eystra í fyrra.


Blessað trúboðið

Trúboð er eitt þeirra hugtaka sem fengið hefur á sig fremur neikvæðan hljóm. Mörgum þykir mesta ósvinna að stunda trúboð, ekki síst ef börn eiga í hlut. Háværar raddir segja að kirkjan eigi helst ekki að vera til í skólum landsins. Að þeirra mati er kirkjan ekkert annað en ein allsherjar trúboðsmaskína.

Margt getur falist í því að boða trú. Trúboð er að segja frá trú sinni, hverju ég trú, hvað ég telji mikilvægt og hvaða viðhorf ég hafi til lífsins og tilverunnar. Er nokkuð að því að stunda þannig trúboð? Gerum við það ekki öll daginn út og inn, meðvitað og jafnvel oftar ómeðvitað, með orðum okkar, framferði og verkum?

Á sama hátt er alltaf verið að innprenta okkur, fullorðnum sem börnum, hvað sé mikilvægt í þessari veröld, til dæmis í auglýsingunum öllum í fjölmiðlunum, leyndum sem ljósum.

Margir líta þannig á markmið trúboðans hljóti að vera að sannfæra viðmælendur sína um að hans trú sé sú eina rétta og miklu betri en þeirra. Trúboðið er samkvæmt því ákveðin tegund af umburðar- og virðingarleysi. Kirkjan á ekki að stunda þannig trúboð en ég er ekki frá því að þeir sem mest amast við kirkju og kristindómi í þessu landi gangi harðast allra fram í því að þeirra skoðanir séu þær einu réttu og brúklegu. Veraldarhyggjan er umburðarlaus í þessum efnum. Trúboðar hennar sýna einatt dæmalausan hroka í málflutningi sínum og margir þeirra neita því blákalt að sýna eigi öðrum skoðunum virðingu en eigin jásystkina.

Trú kristins manns er ekki hans eigin verk. Trú hans er ekkert sem hann getur stært sig af eða notað til að gera lítið úr öðrum. Við getum ekki hrósað okkur af trú okkar. Þvert á móti á hógværðin og auðmýktin að einkenna trúaða manneskju ásamt virðingu fyrir öðru fólki.

Þar með er ég ekki að segja að trúaður maður þurfi alltaf að vera sammála síðasta ræðumanni. Alls ekki. Enda þótt hann eigi að umgangast annað fólk af nærgætni þarf hann ekki að fara í felur með skoðanir sínar. Hann á að segja það sem honum finnst.

Ef til vill hefur það aldrei verið meira freistandi en nú á dögum að ganga sína ævileið með veggjum, gæta þess að gára aldrei mannfélagsflötinn, skilja eftir sig sem fæst ummerki og spor. "Sá sem stingur hausnum út um glugga má búast við því að fá á kjaftinn," sagði bæjarstjóri úti á landi einu sinni. Okkur finnst því öruggast að hafa hægt um okkur innan harðlokaðra glugganna.

Kristnin er ekki innhverf trúarbrögð. Hún leitar út. Kristinn maður finnur trú sinni farveg í veröldinni og notar hana á sama hátt og aðrar gjafir sínar, hæfileika og gáfur. Hann grefur þau auðæfi ekki í jörðu.

Að elska Guð og náungann, það er hið sanna trúboð.


Yndislega Akureyri!

AkureyriAkureyri er menningarbær. Þar eru frábærir skólar á öllum stigum og stórkostlegir listamenn í öllum greinum. Þar eru leikhús og bíó. Listagil og flott menningarhús í byggingu. Bærinn iðar af lífi. Skemmtilegur kaffihúsakúltúr er að myndast. Akureyringar eiga ekki lengur Lindu og KEA, en enn eru þar JMJ og Hafnarbúðin (sem heitir reyndar Hólabúðin), rótgrónar verslanir með kaupmönnum sem kunna sitt fag. Verslunum fjölgar stöðugt og sama máli gildir um veitingahúsin sem sum eru á heimsmælikvarða. Akureyri er safnabær. Þar er minjasafn, iðnaðarsafn, flugminjasafn, listasafn og skáldahús þeirra Matta Jokk, Davíðs frá Fagraskógi og Nonna. Í bænum og nágrenni hans er fjöldi stórkostlegra gönguleiða. Akureyri er af mörgum talinn fegursti bær landsins, bæði bærinn sjálfur og umhverfi hans. Er Sjallinn ekki frægasti skemmtistaður landsins? Það er mjög fjölskrúðug öldurhúsaflóra á Akureyri. Alls konar íþróttamannvirki eru á Akureyri. Golfvöllur, skautahöll, skíðasvæði og sundlaugar. Akureyringar eiga bæði Lystigarðinn og Kjarnaskóg. Úr Pollinum má draga þorsk og jafnvel silung. Á Akureyri er prýðileg aðstaða fyrir ferðafólk, gististaðir af ýmsum gerðum og - öhömm - tjaldsvæði.

Margt fleira mætti nefna en ofan á það allt hefur Akureyri upp á sjálfan Akureyringinn að bjóða, homo akureyrensis, þetta seintekna og sérkennilega eintak sem er svo stolt af bænum sínum og finnst veðrið þar undantekningarlaust gott. Homo akureyrensis tekur aðkomufólki með fyrirvara. Auðvitað ætti fyrir löngu að vera búið að markaðssetja þá andúð, eins og Keli á bókasafninu stakk upp á. Ekki síst fyrir þá sök að meira en helmingur Akureyringa er einmitt aðkomufólk.

Akureyri er ekkert smáræði. Maður veit þess vegna ekki hvort á að hlæja eða gráta þegar menn reyna að lokka þangað ferðafólk með því að benda á að þar sé svo gráupplagður vettvangur fyrir barnafyllerí og dópneyslu og mun betra sé að láta nauðga sér á Akureyri en til dæmis einhvers staðar úti í sveit.


Helgin eftir Helgina

Ég er búinn að vera að blogga mikið um verslunarmannahelgina. Nú hætti ég því í bili. Þess í stað ætla ég að skrifa örlítið um helgina eftir verslunarmannahelgina, sem er auðvitað löngu hætt að vera frídagur verslunarmanna. Nær væri að tala um verslunardag frímanna, eins og ágætur bloggari hefur bent á.

Núna, um helgina eftir verslunarmannahelgi, eru tveir stórviðburðir. Úti á Dalvík er hinn mikli Fiskidagur. Frábært framtak og allt til fyrirmyndar á Böggvisstaðasandi. Vonandi tekst hinum alræmdu bæjarhátíðarbullum, sem Hjöri á Tjörn kallar réttilega svo, ekki að skemma þennan gimstein. Lifi Fiskidagurinn!

Fyrir sunnan fer fram gleðigangan geipræd. Ég veit að nokkrir kollegar ætla í gönguna með kollar og allt. Því miður kemst ég ekki en samgleðst hommum og lesbíum á þessum degi. Til hamingju með daginn!

Bæði samkynhneigðir og Dalvíkingar geta borið höfuðið hátt þessa helgi.

Að ég tali nú ekki um ef maður er samkynhneigður Dalvíkingur.


Hugaður bæjarstjóri

Stjórnmálamenn þurfa stundum að taka erfiðar ákvarðanir. Oft hafa þeir ekki mikinn tíma til að hugsa þær. Þeir geta átt von á því ákvarðanir þeirra geti mælst misjafnlega fyrir.

Sigrún Björk tók góða en erfiða ákvörðun í þessu máli. Hún hafði velferð borgaranna að leiðarljósi - ekki síst barna og unglinga - og ímynd bæjarins.  Einnig hagsmuni og öryggi þess ferðafólks sem hingað vildi koma um verslunarmannahelgina og njóta góðrar dagskrár með fjölskyldum sínum.

Hún hefur ábyggilega gert sér grein fyrir því að ákvörðun þessa væri hægt að leggja út á versta veg. Hún hefur líka gert sér grein fyrir því að peningaöflin í bænum fögnuðu ekki þessari ákvörðun. Hvort tveggja hefur enda ræst.

Sigrún Björk tók rétta ákvörðun í erfiðum aðstæðum. Hún er skynsöm kona og hugrökk.

Við skulum vera stolt af bæjarstjóranum okkar, Akureyringar.


mbl.is Ákvörðun um að banna ungmennum að tjalda tekin af illri nausyn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað á að gera við 3000 hamborgara?

hamburgerMér er sama þótt ég hljómi eins og biluð plata, en:

Í fyrra voru tvær nauðganir kærðar á Einni með öllu, fjölskylduhátíðinni á Akureyri. Auk þess voru gerðar margar líkamsárásir og fjöldi skemmdarverka unninn. Til dæmis voru 30 bílar skemmdir. Upp komu á sjöunda tug fíkniefnamála. Börn gengu drukkin um göturnar. Á þriðja hundrað manns leituðu á slysadeild sjúkrahússins. Sóðaskapur var um allan bæ og aðkoman á unglingatjaldsvæðinu á Þórssvæðinu, þar sem reyndar var 18 ára aldurstakmark, var ömurleg. Þar voru börn úr vinnuskóla bæjarins látin hreinsa til eftir fjölskylduhátíðargesti og tíndu m. a. upp sprautunálar og kyrfilega notaða smokka. Með gúmmíhönskum.

Þá fór engin undirskriftarsöfnun af stað. Bæjarstjórnin sat í makindum.

Eftir hátíðina í ár fer á hinn bóginn engum sögum af nauðgunum. Fíkniefnamál sem upp komst um voru mörgum sinnum færri en árið áður. Líka skemmdarverk og líkamsárásir. Hátíðargestir gerðu sér glaðan dag þrátt fyrir óyndislegt veður og gengu yfirleitt vel um fallegan bæ. Unglingadansleikir fóru fram án þess að fermingarbörn yltu þar um á herðablöðunum. Gestir tjaldsvæðanna gátu hvílt sig og notið svefns eftir annasama daga.

En eftir standa 3000 óseldir hamborgarar. Og þá verður allt vitlaust.

Undirskriftarsöfnun er hrundið af stað. Bæjarstjórnin á að segja af sér. Skátarnir eiga að hypja sig af tjaldsvæðunum.

Auðvaldið lætur ekki að sér hæða. Ef þetta fær ekki að vera eins og 2006 hættum við að koma nálægt þessu. Þá verða engir peningar settir í hátíðahöld á Akureyri um verslunarmannahelgi.

Þið eigið að hlýða! Við þurfum að selja hamborgarana okkar!

Ég geri það að tillögu minni að í stað undirskriftasöfnunar verði efnt til samskota í bænum. Peningarnir sem safnast verði notaðir til að kaupa þessa 3000 hamborgara til að bæta kaupmönnunum skaðann.

Haldin verði grillveisla á komandi Akureyrarvöku og þar fram bornir þessir sömu hamborgarar.

Fólk á aldrinum 18 - 23ja ára verði sérstaklega boðið velkomið

Ég lýsi því hér með yfir að ég er svo algjörlega tilbúinn að draga úr eigin vösum andvirði þó nokkurra hamborgara allar næstu verslunarmannahelgar ef það mætti verða til þess að afstýra nauðgunum, fækka eiturlyfjamálum, líkamsárásum og skemmdarverkum, minnka sóðaskap og draga úr fylleríi á börnunum okkar.

Ef til vill væri hægt að hafa grillveisluna yfir í heiði?


Engin undankomuleið

falskartennurPresturinn er sóttur að dánarbeði gamla trúleysingjans og gerir örvæntingarfulla tilraun til að snúa honum á réttan veg áður en það verður of seint. Þegar allt um þrýtur útmálar hann fyrir manninum þær óumræðanlegu píslir og eldskvalir sem bíða þeirra iðrunarlausu í helvíti og endar þá ræðu með því að segja að þar verði grátur og gnístran tanna.

Hinn forherti vantrúarseggur lætur sér fátt um finnast og kveðst fyrir löngu tannlaus orðinn.

En presturinn gefst ekki upp og hrópar:

"Það verður séð fyrir tönnum!"


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband