Færsluflokkur: Bloggar
6.8.2007 | 23:28
Bjartur er bærinn okkar
Ég var fjarri góðu gamni um verslunarmannahelgina en mér skilst að hátíðahöldin á Akureyri hafi gengið nokkuð vel. Sjálfsagt verður deilt um það næstur vikurnar hvers vegna svo hafi verið. Menn kenna um - eða þakka - afleitu veðri framan af, óvinsælli ákvörðun bæjaryfirvalda eða jafnvel nöldrinu í þessum háværu en örfáu prósentum bæjarbúa sem finnst nauðganir, eiturlyfjaneysla, líkamsárásir, spellvirki og fyllerí á börnum tæpast við hæfi á fjölskylduhátíð.
Reyndar heyrði ég í sextán ára stelpu áðan sem fór á unglingaballið í KA-heimilinu. Hún vildi ekki svara neinu um það hvort verið hefði mikið fyllerí en sagði mér á hinn bóginn að þar hefði verið hellingur af fimmtán og fjórtán ára krökkum. Þeir, eins og aðrir ballgestir, fengu afhentan smokk við innganginn. Ráku sum barnanna upp stór augu. Sjálfsagt þykir þetta fjölskylduvænt.
Verst þykir mér að margir af þessum krökkum yngri en sextán, sem ekki máttu vera á ballinu, fóru þangað með samþykki og vitund foreldra sinna.
Ég heyrði í fréttum í kvöld að einhverjir af þessum lágværu 96% bæjarbúa sem finnst allt í lagi með Eina með öllu undanfarinna ára kvarta sáran undan því hversu skikkanlega þó tókst til að þessu sinni. Ekki þarf að efast um að þeir munu strax hefja baráttu fyrir því að djöfulgangurinn verði á sínum góða stað að ári.
Blogginu barst kvæði. Ég legg til að hinn lágværi meirihluti fái músíkalskan mann til að gera við það lag og geri það að sérstökum baráttusöng sínum. Höfundur óskar nafnleyndar.
Bjartur er bærinn okkar
baðaður ælu og skít.
Smekklega dreifast smokkar
og smitast úr vilsa hvít.
Trítlar um torg og völlu
tilkippivænleg mær.
Eina fæ ég með öllu.
Ef ég er heppinn, tvær.
Gesturinn glaður veður
glerbrot um strætin hál.
Ó, hve hans auga gleður
alblóðug sprautunál.
Upp dópast Egils synir
og einhverjar dætur hans,
hátíð er halda vinir
háborgar Norðurlands.
ES
Einn af þeim sem héldu unglingaböllin hafði samband við mig og sagði mér að ballhaldarar hefðu ekki útdeilt smokkum til ungmenna. Það hefði verið gert af öðrum og ekki við inngang KA-heimilisins. Þá sagði hann mér að þessar samkomur hefðu farið óvenju vel fram. Þykja mér það að sjálfsögðu afburðagóð tíðindi og ekki nema sjálfsagt að gefa þeim Sjallamönnum alla vega eitt prik fyrir.
Bloggar | Breytt 7.8.2007 kl. 15:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
3.8.2007 | 15:50
Með (furðu)fuglum og (fjör)fiskum
Verslunarmannahelginni ætla ég að eyða á góðum stað innan um fugla og fiska, ýmist í heita pottinum eða vöðlunum mínum, syngjandi og borðandi, sofandi og leikandi, gangandi og sitjandi. Ég verð þar sem einn vesæll mannshlátur nægir til að tortíma kyrrðinni. Þar sem gott er að vera hvernig sem viðrar og hvorki sjónvarp né annað forheimskandi er til staðar - nema þá ég sjálfur.
Njótið helgarinnar, góðu vinir, og verið falin fögru englaliði.
Heyrumst í næstu viku.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.8.2007 | 00:06
En vandamálin eru jú verkefni
Bæjarfulltrúi nokkur á Akureyri segist líta á Eina með öllu sem verkefni en ekki vandamál.
Nauðganir, 66 upplýst fíkniefnamál, unglingadrykkja, slagsmál, ofbeldi, skemmdarverk (m. a. 30 bílar) og á þriðja hundrað gesta á slysadeild Fjórðungssjúkrahússins meðan Ein með öllu stóð yfir í fyrra eru m. ö. o. verkefni. Ekki vandamál.
Shit happens.
Og nú eru menn búnir að finna það út að bæjaryfirvöld á Akureyri séu að brjóta lög með því að setja 23ja ára aldurstakmark á tjaldsvæði bæjarins.
Að sjálfsögðu eigum við fara að lögum og settum reglum. Byrjum á lögreglusamþykkt Akureyrar, en þar segir m. a.:
"Bannað er að aðhafast nokkuð það, sem veldur ónæði eða raskar næturró manna." (1. gr.)
"Öllum ber að gæta þess að ganga vel um á almannafæri og skemma þar ekki hluti eða færa þá úr stað, sem ætlaðir eru til almenningsnota eða prýði.... Þess skal gætt að troða ekki ræktaða bletti, grasreiti, blómabeð og limgerði á almannafæri og bannað er að slíta þar upp gróður." (6. gr.)
"Enginn má án leyfis húsráðanda láta fyrir berast á eða í húsi hans, á lóðum eða á girðingum, sama á við um þessa staði og aðra sambærilega ef lögreglan bannar það, enda verði það talið geta valdið óþægindum eða hættu." (7. gr.)
"Í samræmi við ákvæði heilbrigðisreglugerðar, nr. 149/1990, er bannað að skilja eftir, flytja eða geyma úrgang á þann hátt að valdið geti skaða, mengun eða lýti á umhverfinu." (8. gr.)
Í reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002 segir ennfremur:
"Við staðsetningu og rekstur tjald- og hjólhýsasvæða skal þess sérstaklega gætt að þeir sem þar dvelja verði ekki fyrir ónæði sem getur stafað frá umhverfinu. Enn fremur skal þess gætt að ónæði berist ekki frá svæðinu til nálægra íbúa."
Það er hvorki gestum né íbúum bæjarins til góðs að láta viðgangast að reglur þessar séu mölbrotnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
2.8.2007 | 13:51
Og nú erum við að tala um alvöru sannleika
Sannleika okkar tíma er helst að finna í formi staðreyndanna. Staðreyndir er ekki hægt að véfengja og við teljum okkur trú um að engu séu trúandi nema þeim.
Tveir plús tveir eru fjórir (nema kannski hjá Skattinum). Jörðin er ekki flöt (nema kannski í Flóanum).
Staðreyndir, staðreyndir, ekkert nema borðleggjandi staðreyndir.
Við viljum vita sannleikann en er meinilla við að þurfa að trúa honum.
Stundum tekur manneskjan sér fyrir hendur að sigrast á bábiljum með því að halda fram hégiljum. Ein slík er sú að trúin sé ónauðsynleg. Maðurinn þurfi ekki að trúa. Hann þurfi að vita og einungis það vitaða sé satt. Hann þurfi bara staðreyndir.
Í því er hégiljan fólgin. Við erum alltaf að trúa einhverju. Sumt af því mikilvægasta í lífinu byggist á því að við trúum því án þess að geta vitað það með óyggjandi hætti eða fært fyrir því öruggar sannanir.
Stundum hafa börnin okkar ástæður til að efast um að þau séu elskuð af okkur. Foreldrar eru jú ekki fullkomnir, gera ýmislegt sem þeir hefðu betur látið ógert eða eru klaufar við að tjá afkvæmunum ást sína. Foreldrar þurfa líka að taka óvinsælar ákvarðanir fyrir börn sín - ekki síst nú um verslunarmannahelgina. Þeir þurfa að neita þeim um það sem þeir vita að er börnunum ekki til góðs. Börn geta hæglega efast um ást foreldra í sinn garð, jafnvel þótt í hlut eigi umhyggjusamir feður og elskandi mæður.
Þegar slíkir foreldrar eru annars vegar, sem elska börnin sín, þurfa börnin að trúa því að þau séu elskuð af mömmu og pabba. Líka þótt vísbendingarnar sem börnin upplifa standi gegn þeirri trú. Þá er þar um að ræða trú gegn veruleikanum eins og börnin skynja hann, gegn staðreyndunum. Það sama gildir um ást karls og konu. Henni þarf að trúa. Hana er aldrei hægt að vita fullkomlega eins og staðreynd eða gefinn hlut.
Ástinni þarf að trúa og þess vegna er hægt að efast um hana. Það er líka hægt að efast um Guð. Við efumst um himnaríkið. Við getum efast um svo ótalmargt. Ást makans. Ást barnanna. Vináttuna. Heiðarleikann. Einlægnina. Sé grannt skoðað er hægt að efast um flest af því sem skiptir raunverulega máli í lífinu.
Ég efast meira að segja stundum um sjálfan mig.
Alvöru sannleikur er nokkuð sem þarf að taka afstöðu til. Hann verður eiginlega ekki sannleikur fyrr en þú ert búinn að velta honum fyrir þér.
Það verður ekki almennilega satt fyrr en þú ert búinn að efast um það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.8.2007 | 22:16
Íslenskt silfur í strandkastalakeppni
V. hluti Markafararsögu
Dag einn var haldin mikil strandkastalakeppni á ströndinni okkar. Afmörkuð voru svæði fyrir hverja byggingu. Allir keppendur hófu framkvæmdir á sama tíma og eftir nokkurra klukkustunda hamslausa vinnu var slegið í klukku og dómnefnd hóf mat á árangrinum.
Íslenska liðið lagði mjög hart að sér. Notuð voru stórvirk vinnutæki eins og skóflur og meira að segja hjólbörur. Krakkarnir tíndu skeljar og steina til að skreyta með byggingarnar. Sjávargróður var notaður til að búa til tré og garða umhverfis þær. Hugmyndaflugið náði ótrúlegum hæðum.
Dómnefnd komst samt að þeirri niðurstöðu að eitt fjölmargra liða heimamanna skyldi hreppa fyrsta sætið. Það fannst okkur ósanngjarnt, fyrst og fremst fyrir þá sök að sigurliðið byggði engan kastala heldur mótaði risaeðlu og krókódíl úr sandinum.
Íslendingarnir urðu því að láta sér nægja silfrið.
Og við sem vorum búin að æfa okkur svo vel í að standa teinrétt meðan við horfðum á eftir íslenska fánanum upp stöngina og hlýddum á guðvorslandið í brostnum útihátölurum.
Þess í stað grétum við krókódílatárum af risaeðluhlátri þegar sigurvegararnir hömpuðu óverðskulduðu gullinu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.7.2007 | 17:45
Bæjaryfirvöldum á Akureyri klappað
Sú ákvörðun bæjaryfirvalda á Akureyri að veita fjölskyldufólki forgang að tjaldsvæðum bæjarins er á margan hátt skiljanleg. Verið er að senda skýr skilaboð um að hátíðin Ein með öllu sé fjölskylduhátíð. Ekki er víst að pláss sé fyrir alla gesti hátíðarinnar á tjaldsvæðunum og ekki nema eðlilegt að fjölskyldufólk sitji fyrir á fjölskylduhátíð.
Þar að auki hafa verið mikil vandræði á tjaldsvæðunum undanfarin ár. Mér þykir sennilegt að ákvörðun bæjaryfirvalda hafi verið tekin í samráði við þá sem reka tjaldsvæðin. Þeir vita hvaða aldurshópar hafa verið erfiðastir þessa helgi - þótt alls staðar séu svartir sauðir. Bæjaryfirvöld hafa ábyggilega ekki sett þessi aldursmörk vegna þess að þeim sé illa við tiltekna hópa fólks.
Ég verð samt að standa undir nafni sem postuli neikvæðninnar og benda á nokkuð sem mér finnst aðfinnsluvert í þessu máli.
Þessi ákvörðun kemur of seint. Búið er að höfða til fólks á aldrinum 16 - 23 ára um að drífa sig til Akureyrar. Það á að vera frægur dídjei í Sjallanum á föstudagskvöldinu. Laugardags- og sunnudagskvöld verða unglingadansleikir í KA-heimilinu, fyrir 16 ára og eldri, til kl. þrjú um nóttina.
Viðbúið er að einhverjir á þessum aldri hafi verið búnir að ráðgera ferð til Akureyrar með gistingu á tjaldsvæði í huga. Þetta fólk verður auðvitað fyrir vonbrigðum. Kannski taka líka einhverjir sénsinn og koma norður án þess að eiga von í nokkru húsa- eða tjaldskjóli. Það gæti haft verulega erfiðleika í för með sér.
Nær hefði verið að stilla betur saman strengina og gefa til kynna strax frá upphafi hvers konar hátíð Ein með öllu á að vera. Vonandi verður það gert næst.
Ég vona svo sannarlega að hátíðin gangi vel fyrir sig og trúi því einlæglega að hægt sé að halda fjölskylduhátíðir á Akureyri og Íslandi án þess að upp komi tugir fíkniefnamála eða konum sé nauðgað.
Það styrkir mann í þeirri trú að hér í bænum eru haldin fjölsótt fótboltamót á hverju sumri. Þangað kemur fólk, einkum fjölskyldur, í þúsundavís. Ég veit ekki betur en að þær samkomur hafi gengið prýðilega. Þá má geta þess að undanfarin ár hef ég verið viðstaddur lokahátíð Einnar með öllu á íþróttavellinum. Það hafa verið mjög skemmtileg kvöld og laus við hvers konar villimennsku. Þetta er hægt.
Ef til vill verður það enn til að glæða aðsókn að hátíðinni í ár að postuli neikvæðninnar verður ekki í bænum um helgina. Hann mun á hinn bóginn reyna að beina jákvæðum straumum í bæinn sæta við Pollinn.
Svo bið ég kærlega að heilsa honum Braga mínum ef einhver lesenda minna skyldi rekast á hann hátíðardagana. Ég er meira en fús til að hjálpa honum við að gera Eina með öllu að fjölskylduhátíð sem stendur undir nafni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.7.2007 | 10:56
Fljúgandi fiskisaga
Fyrsta veiðiferð sumarsins kom upp úr engu eins og sköpun alheimsins. Um hádegisbil í gær fékk ég skilaboð frá Kalla mági og stórveiðimanni um að hann ætti dag í Djúpánni en væri óvart staddur í Fnjóskánni. Hann væri því með of mörg járn í eldinum.
Ég og Viddi Magg (hinn mágur minn) ákváðum að bjarga málunum og um fimmleytið vorum við mættir á árbakkann, hann í strigaskóm en ég þó í stígvélum. Höfðum keypt maðk á Leirunni og til alls líklegir. Auk þess tók ég með mér nýju flugustöngina sem Bryndís mín gaf mér í jólagjöf.
Ég fletti umbúðunum af stöng og hjóli og setti allt saman. Því næst hnýtti ég á línuna einu fluguna sem við Viddi fundum í töskunum okkar og byrjaði að kasta.
Mér fannst ég fljótur að ná kasttækninni og kom flugunni býsna langt út. Var harla drjúgur og sá fram á að senn kæmist ég í hóp alvöru veiðimanna. Ekki minnkaði spennan og ánægjan þegar Viddi Magg kom hlaupandi og sagðist hafa séð þetta líka rokna kvikindi hérna fyrir neðan. Ég færði mig þangað og lamdi ána með flugunni allur hinn fagmannlegasti.
Skyndilega sá ég út undan mér að tveir menn komu gangandi til okkar. Þar voru sko engir amatörar á ferð. Í vöðlum og með hatta og allt. Ég reyndi að bera mig fimlega við köstin og sá þá fyrir mér hníga til jarðar af lotningu þegar ég setti í stóru skepnuna.
Þegar veiðigarparnir voru komnir langleiðina til mín sá ég mér til mikillar skelfingar að engin fluga var á línunni. Trúlega fyrir löngu dottin af. Ég flýtti mér að draga inn og hylja verksummerki áður en garparnir sæu hvers lags var.
Ég átti alveg eins von á einhverjum glósum frá þeim. "Er nú ekki vissara að hafa agn á línunni?" eða eitthvað í þá áttina. Þeir létu samt nægja að bjóða góðan daginn og mér varð léttara. Fljótlega komu glottin á andlitum þeirra þó upp um þá. Ég varð þess áskynja að þeir vissu hvernig í pottinn var búið og fann skömmina breiðast út um bringuna.
Í svona aðstæðum er eiginlega ekki nema um eitt að ræða. Segja satt, söguna alla og draga ekkert undan. Og það gerði ég. Ekki kom görpunum alveg í opna skjöldu að hér væru amatörar að verki því meðan við spjölluðum saman var Viddi Magg að reyna að ná ljósmynd af laxinum og virtist ekki hafa minnstu löngun til að veiða hann.
Þeir garpar brugðust vel við og sýndu mikinn skilning. Ég er ekki frá því að tár hafi sést á veðurbitnum hvarmi á öðrum þeirra við játninguna. Alla vega sýndu þeir þann drengskap og göfuglyndi að sækja tvær flugur handa flugulausum fluguveiðimanninum og gefa honum. Svartan og rauðan Francis. Þótti mér ekki verra að bendla heilagan Frans við för þessa.
Og enda þótt ekkert hafi veiðst í ferðinni sannaðist þar einu sinni enn að sannleikurinn er sagna bestur.
Líka þegar maður segir veiðisögur.
Færslunni fylgir svo mynd af undirrituðum með lax á í Skjálfandafljótinu. Þar var ég á ferð með engum öðrum en mæstró Ingólfi Herbertssyni.
Þá var ég enn á maðkastiginu í veiðimennskunni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.7.2007 | 20:56
Við hirðum mjólkina - þið mokið flórinn
Tregðan við að gera breytingar á fjölskylduhátíðinni Ein með öllu á Akureyri stafar sennilega af því að þar er um að ræða mikla tekjulind. Fyrirtækið mjólkar vel og sumir segja að það skili um milljarði árlega í bæjarbúið. Menn eru hræddir við að skipta Ljómalind út fyrir Búkollu sem enginn veit hvernig mjólkar.
Þeir sem nytina fá sleppa flestir við að moka flórinn. Meðal þeirra sem settir voru í það eftir síðustu fjölskylduhátíð voru börnin úr vinnuskóla Akureyrar. Hópur þaðan fékk það verkefni að taka til á Þórssvæðinu en þar höfðu gestir fjölskylduhátíðarinnar tjaldað. Krakkarnir tíndu upp glerbrot, tómar bjórdósir, áfengisflöskur, notaða smokka og sprautunálar. Áhyggjufullum foreldrum þessara vinnuskólabarna var svarað með því að krakkarnir ynnu þetta verk í gúmmíhönskum.
Í umræðunum um hátíðahöld verslunarmannahelgarinnar er gjarnan bent á að foreldrar beri ábyrgð á börnunum sínum. Það er auðvitað hárrétt og veitir ekki af að benda foreldrum á það. Samfélagið ber þó líka sína ábyrgð. Heilt þorp þarf til að ala upp barn, segir einhvers staðar. Ekki er sama hvað
börnunum er boðið upp á utan heimilanna. Umhverfið skiptir máli. Við erum öll ábyrg. Það skiptir máli hvað fyrir börnunum er haft, hvað þau sjá og heyra úti í samfélaginu.
Enginn getur hvítþvegið hendur sínar hvað það varðar - heldur ekki með því að smeygja gúmmíhönskum á hendur barnanna. Meira þarf að verja en hendur þeirra. Við þurfum að passa upp á augu þeirra og eyru, sálir þeirra og hjörtu. Við þurfum að vernda bernskuna. Sakleysi barnanna okkar er í húfi og það er mikið óhæfuverk að stela því af þeim.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.7.2007 | 21:42
Bossaköst og pylsusláttur
Nýlega bárust þær fréttir úr Danaveldi að þar hefði allsber kona dillað bossanum og öðru þar til hæfu holdi sínu fyrir framan myndavélar í höll Margrétar Þórhildar. Þótti sú starfsemi ekki viðeigandi í svo virðulegu húsnæði.
Kvikmyndin Reimleikarnir í Bullerborg sem sýnd var einhvern tíma um miðja síðustu öld fjallar um svipaða hluti. Höll fær nýtt hlutverk og má heldur betur muna sinn fífil fegurri. Í lýsingu á söguþræði er sagt:
"En þegar daginn eftir ber gest að garði. Er það hinn þekkti málafærslumaður Krach og vinkona hans frú Lulu Lassen. Af samtali þeirra má ráða, að greifinn ungi, Per Buller, hefur ekki getað greitt skuldirnar, sem hvíldu á eigninni þegar faðir hans dó, og að hann hefur því fyrir skömmu orðið að flytja úr höllinni, sem pylsugerðin Hannibal h.f. hefur keypt fyrir lítið verð."
Tímarnir breytast. Nú á dögum læsti enginn tönnum sínum í Hannibalspylsu án þess að hugleiða alla vega eitt andartak úr hverju hún sé.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.7.2007 | 14:20
Fyrirmyndargelgjan Egill Skallagrímsson og Ein með öllu
Nauðganir, sala og neysla á eiturlyfjum, barnafyllerí og skemmdarverk. Þessa dagana reyna öflug fyrirtæki, fjölmiðlar og jafnvel heilu sveitarfélögin að telja okkur trú um að þessi ómenning sé sjálfsagður fylgifiskur svokallaðra fjölskylduhátíða um verslunarmannahelgina og hluti íslenskrar þjóðmenningar. Þeir sem andæfa eru nöldurseggir. Postular neikvæðninnar. Sérvitringar.
Um síðustu verslunarmannahelgi var stúlkum nauðgað á fjölskylduhátíðinni á Akureyri. Af 100 fíkniefnamálum sem upp komu á landinu þessa helgi voru 66 á Akureyri. Á þriðja hundrað manns komu á slysadeild Fjórðungssjúkrahússins. Um 30 bílar voru skemmdir. Fjölmörg spellvirki voru unnin á eignum íbúanna og bæjarins.
Þá eru ótalin skemmdarverk á óhörðnuðum unglingum og börnum, á bernsku og æsku þessa lands. Þau bæta engin tryggingafélög.
Heldur ekki orðspor bæjarins og ímynd.
Þeir eiga að þegja sem sjá eitthvað neikvætt við þessa ómenningu. Þeir mega standa úti í kuldanum. Reynt er að fá sem flesta í þetta samsæri þagnarinnar. Allt skal vera gott á Akureyri, líka siðleysið. Bæjarstarfsmaður sagði mér að í fyrra hefðu ýmsar eignir bæjarins verið skemmdar en alls ekki hefði mátt segja þá sögu alla. Þrýst var á fjölmiðla að tala bara um það jákvæða. Meira að segja veðurfræðingarnir voru undir pressu. Veðrið átti líka að vera svo ofboðslega hagstætt.
Það sem ekki reyndist unnt að hylja með þögninni var lagt á skurðarborð fegrunarlæknisins. Þær aðgerðir forsvarsmanna hátíðarinnar gátu orðið skrautegar. Ég vitna í frásögn blaðamanns Reykjavík Grapevine um fjölskylduhátíðina í fyrra:
"In response to complaints from many local townspeople concerning several acts of petty vandalism and violence over the weekend, (approximately 30 automobiles were damaged), Bergmann responded that Icelanders are "used to partying hard", that it was in their blood, citing Egill Skallagrímsson as the nation´s first reported drunken teenager."
Það útskýrir margt þegar aðstandendur Einnar með öllu tilgreina sjálfan Egil Skallagrímsson sem upphafsmann hinnar þjóðlegu unglingadrykkju.
Myndin með þessari færslu er úr umfjöllun Reykjavík Grapevine um Akureyri verslunarmannahelgarinnar. Undir myndinni hefðu mátt standa lógó þeirra fyrirtækja sem standa að Einni með öllu. Við sjáum þau bara fyrir okkur. Ásamt merki Akureyrar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)