Færsluflokkur: Bloggar

Fjóstrú

"Verst af öllu er villan sú

vonar og kærleikslaust

á engu að hafa æðri trú,

en allt í heimi traust,

fyrir sálina setja lás,

en safna magakeis

og á vel tyrfðum bundinn bás

baula eftir töðumeis."

Þannig orti Grímur Thomsen um það sem hann kallar fjóstrú.

Og erum við ekki ágætlega fjóstrúuð? Þokkalega sátt ef við eigum okkar bás og fáum tugguna okkar að jórtra á þegar baulað er?

Linnulaust dynur á okkur áróðurinn um að tuggan og básinn nægi. Stundum minnist ég heimsóknar í minkabú. Þar voru að því er virtist óendanlegar raðir af búrum og eitt dýr í hverju. Maður fór um og dældi fóðri um barka, hæfilegri slettu ofan á hvert búr, sem lak svo niður í gegnum vírnetið.

cow[1]Ekki er það beinlínis spennandi líf sem aðeins gengur út á tugguna og básinn og þess vegna reynum við að upphefja hvort tveggja. Auglýsingar nútímans gefa hvers konar neysluvarningi trúarlegt gildi. Matvælin eru guðdómleg. Þvottaefnið himneskt. Rétti bíllinn spurning um frelsi okkar. Sáluhjálparlegt atriði að vanda sig við val á banka. Fyrirmyndarhúsið er himnaríkis virði.

Dómkirkjur nútímans eru reistar utan um vöruna og helgidögunum eigum við að verja þar með fjölskyldum okkar.

Við eigum erfitt með að trúa því að Jesús hafi risið upp frá dauðum en á sama tíma trúum við því áreynslulítið að hamingjan sé fólgin í pylsupakka.

Samt þekkjum við þennan ófrið innra með okkur, þennan óþægilega grun um að ef til vill sé tilveran meira en básinn og tuggan. Þetta tómarúm. Þennan söknuð. Þetta hugboð um annað en það sem má þreifa á, stinga í fingri eða leggja á hönd. Að nokkuð sem maður getur aldrei skilið til fulls sé í brosi barnsins, hvísluðum ástarorðum, söngvum vorfugla, ilmi af hafi, gráti í myrkri og eigin andardrætti.

Trúðu mér að það er nú vandræðaminnst að vera ekki að flækja málið með því öllu saman. Láta sér frekar nægja fjóstrúna. Básinn og tugguna. Og segja ojæja.

 


Fangamark Andans

asbyrgi1

Í gær, sunnudag, var tekinn rúntur austur í sýslur. Við ókum inn í Ásbyrgi í fjórtán stiga hita. Hann var hættur að rigna en ekki búinn að svipta burtu skýjunum.

asbyrgi2

Ásbyrgi er einn fegursti staður landsins. Fegurðin þar er tröllsleg, en hún býr líka í því smáa og fíngerða.

 

asbyrgi3

Þar rekst maður til dæmis á eilífðarsmáblómið með titrandi tár.

asbyrgi4

Bergið geymir aragrúa af myndum.

asbyrgi5

Og viti menn! Þar var auðvitað dúfan, fangamark heilags anda.


Blessuð börnin verða að komast á fylleríið sitt

Núna um verslunarmannahelgina verður efnt til fjölskylduhátíðar á Akureyri.

einmedolluTil að fyrirbyggja misskilning verð ég að taka fram að ég er alls ekki á móti því að slík hátíð fari fram. Mér finnst á hinn bóginn ýmislegt aðfinnsluvert við skipulag og framkvæmd þessarar hátíðar. Annað er til fyrirmyndar.

Undanfarin ár hefur til dæmis verið mikil unglingadrykkja á hátíðinni. Þegar bent hefur verið á þessa skuggahlið fjölskylduhátíðarinnar hefur viðkvæðið gjarnan verið: Krakkarnir fara hvort eð er á fyllerí þessa helgi. Betra að það sé í Akureyri en einhvers staðar úti í sveit því á Akureyri er betra að hafa eftirlit með fullum börnum.

Það er reyndar ekkert endilega rétt. Ég er ekki viss um að betra sé að hafa eftirlit með samkomu sem fram fer vítt og breitt um bæinn en þeirri sem er haldin á afgirtu svæði úti í sveit. Þetta er samt ekki aðalatriðið. Mér finnst að við megum ekki samþykkja það háttalag að börnin okkar (13 ára og jafnvel þaðan af yngri) drekki sig full. Hvort sem það er undir eftirliti eða ekki. 

Ættum við að afhenda nýfermdri stelpu vodkaflösku og segja? "Jæja elskan, nú skaltu fara á hressilegt fyllerí inni í herberginu þínu. Mömmu og pabba finnst betra að þú gerir það hérna heima en einhvers staðar úti í sveit, til að fylleríið á þér verði ekki eftirlitslaust af okkar hálfu."

Í fyrra komu tugir fíkniefnamála upp á fjölskylduhátíðinni. Við vitum ekkert um þau sem ekki komu fram í dagsljósið. Þessar tölur segja okkur aðeins að gífurlegt magn fíkniefna er í umferð á fjölskylduhátíðinni. Menn sem vit hafa á segja mér að sölumenn fíkniefna séu sérstaklega þakklátir bæjaryfirvöldum á Akureyri fyrir það hversu ákjósanlegar aðstæður þeim er boðið upp á fyrir norðan um verslunarmannahelgina: Hellingur af fullum unglingum á eigin vegum. Dómgreindin farin. Ég veit að mörg ungmenni hafa byrjað sinn eiturlyfjaferil á Akureyri um verslunarmannahelgina. Við vitum öll hvernig slíkum ferli getur lokið.

Um nauðganirnar hefur þegar margt verið sagt en alþjóð hló að forsvarsmönnum bæjarfélagsins í fyrra þegar þeir prísuðu sig sæla í fjölmiðlum fyrir að sleppa með sárafáar nauðganir á fjölskylduhátíðinni. Bloggvinkona mín benti á það hér á síðunni að eitt árið hefði verið ein nauðgun á Hróarskelduhátíðinni svonefndu. Þangað koma held ég um 100.000 manns. Þessi eina nauðgun gerði allt vitlaust. Skipulag hátíðarinnar var tekið í gegn og sterklega kom til greina að hætta alfarið við þessa miklu tónlistarhátíð. Skilaboðin voru: Ein nauðgun er einni of mikið.

Enn mætti margt skrifa, til dæmis um sóðaskapinn, hávaðann, líkamsmeiðingarnar og skemmdarverkin.

Það á að halda fjölskylduhátíð. Einu fréttirnar sem ég hef hingað til haft af undirbúningi fjölskylduhátíðarinnar eru þær að bæjarráð samþykkti að hafa krár opnar til klukkan fimm um morguninn fyrir fjölskyldufólkið og þar að auki verða tveir unglingadansleikir í KA-heimilinu til klukkan þrjú. Sérstakt tjaldsvæði fyrir unglinga verður í bænum sem verður að teljast mikið tilhlökkunarefni fyrir dílera landsins.

Í alvöru talað: Hvað segir það um okkur þegar við höldum fjölskylduhátíð á Akureyri með þeim rökum að nóg lögreglulið sé hér til staðar og stutt á sjúkrahús?


Séra Símon Flóki og hinir prestarnir

Med Joni Isfeld a Olafsfirdi

Í skáldsögu sinni "Efstu dagar" segir Pétur Gunnarsson frá séra Símoni Flóka sem tekur rútuna út á land til að taka við sínu fyrsta prestsembætti í litlu þorpi. Á áfangastað var formaður sóknarnefndar mættur til að taka á móti hinum nýja presti, sem hann hafði aldrei séð. Hann skoðaði fólkið sem sté út úr rútunni, gekk svo loks að einum farþeganna og spurði hann hvort hann væri presturinn.

"Nei," svaraði maðurinn, "ég var bara svo heiftarlega bílveikur."

Fólk hefur býsna mótaðar hugmyndir um það hvernig prestar eigi að vera og hvað þeim eigi að finnast. Sumt þykir prestlegt og presti sæmandi en annað ekki, hvað varðar hegðun, skoðanir, útlit, klæðaburð og jafnvel akstursmáta. Prestsmakar eiga líka að vera á einhvern tiltekinn hátt, ekki síst prestskonur, að ég tali nú ekki um prestsbörnin.

Ráðningarmál presta hafa verið til umfjöllunar í kjölfar prestaskipta í söfnuði suður með sjó. Einhvers staðar las ég að enn eitt rifrildið væri upp komið í kirkjunni.

Það má til sanns vegar færa. Ekki erum við alltaf sammála um allt, prestarnir. Stundum tökumst við á um málefni og þar getur verið um að ræða óþarft leiðindaþras. Samt skulum við biðja góðan Guð um að prestar verði aldrei það samlit hjörð að þeir hætti að skiptast á ólíkum skoðunum. Það er nefnilega ákveðin dínamík fólgin í heilbrigðu ósamlyndi. Fólk sem er sammála um allt hættir sennilega fyrr eða síðar að tala saman nema um gardínur. Hvorki er skapandi né örvandi að vera alltaf í samfélagi við jábræður og amensystur.

Við megum því vera þakklát fyrir það að prestar eru ólíkir, klæða sig ekki allir eins (ekki síst eftir að konur fengu prestsvígslu), eru sumir brakandi íhaldsmenn en aðrir sveittir róttæklingar, sumir söngmenn ágætir en aðrir radd- og laglausir með öllu og sumir líbó en aðrir fremur hallir undir bókstafsins hljóðan.

Færslu þessari fylgir mynd af mér með sr. Jóni Ísfeld. Þegar myndin var tekin úti í Ólafsfirði fyrir mörgum árum var ég einn yngsti prestur Þjóðkirkjunnar en sr. Jón var hættur störfum fyrir aldurs sakir. Þrátt fyrir aldursmuninn fór vel á með okkur félögunum.

 


Þjóðhátíðarnefndin á Ítalíu

(IV. hluti Markafararsögu)

Þegar blessaður þjóðhátíðardagurinn 17. júní rann upp hafði ferðahópurinn sýnt fyrirhyggju og skipað nokkra meðlimi sína í þar til gerða þjóðhátíðarnefnd. Lét hún sér ýmislegt í hug detta til að minnast dagsins. Ekki fengu allar hugmyndirnar hljómgrunn. Til dæmis var engin kona fáanleg til að flytja okkur ávarp fjallkonunnar af hótelveröndinni. Fyrirætlanir um að efna til glímusýningar á ströndinni urðu heldur ekki að veruleika. Glímumennirnir, tveir vörpulegustu karlkyns Íslendingarnir, neituðu að sýna en nefndin sá þá í hillingum stíga glímusporin í Adríasandinum og fann beinlínis jörðina duna undan átökum þeirra þegar þeir beittu klofbrögðum, hælkrókum og sniðglímum á lofti hvor á annan. Ítölsku áhorfendurnir hefðu ábyggilega fallið í stafi.

Þess í stað var nefndin gerð út á reiðhjólum að afla miða í sirkus sem sýndi í næstu borg, Senigallia. Var sú för hin frækilegasta og fengust miðar á kvöldsýningu fyrir allan hópinn.

Þjóðhátíðarinnar var minnst á hótelinu. Íslenskir fánar skreyttu borð í matsalnum við hádegisverð. Þar var borin fram heljar rjómakaka hjúpuð sama fána. Einhverjum brá þegar hnallþóra þessi birtist og héldu að verið væri að bera líkkistu í salinn.botsía

Deginum var annars eytt í að æfa fyrir bottsíamót sem halda átti á ströndinni daginn eftir. Bottsía er skemmtileg íþrótt og náðum við Íslendingar góðum árangri í henni meðan við dvöldum á Mörkum. Meiningin er að koma upp akureyskum bottsíavelli og æfa þrotlaust fyrir næstu Ítalíuferð. Þá tökum við þetta.

Um kvöldið var svo farið í sirkusinn. Eftir sýninguna varð til þessi vísa:

Sirkusinn í Senígalíu

sýndi marga spettókalíu.

Fíll um loftið leið í talíu,

að launum fékk hann eina dalíu.


Hinn eini leyfilegi sannleikur

fiðlileikariÍ spjalli um trúarleg efni hér á blogginu verður maður oft var við ótrúlegan hroka. Lygari, hræsnari og barnaníðingur eru einkunnir sem fólk gefur viðmælendum sínum. Nýlega var ég sæmdur þessum titlum og þótti ekki fullkomlega sanngjarnt en fékk þau svör að ég ætti þetta skilið.

Menn sem þannig tala við annað fólk hljóta að telja sig töluvert yfir það hafna. Oft stafar það af því að þeir eru sannfærðir um að þeir hafi uppgötvað sannleikann með stóru essi og allir aðrir vaði í villu. Þessa handhafa sannleikans er víða að finna. Bæði í röðum trúaðs fólks og trúlauss. Hjá síðarnefnda hópnum er því oft borið við að sannleikurinn þurfi að vera vísindalegur. Annars sé ekkert að marka.

Ekki er það ný bóla. Sr. Jakob Jónsson (síðar dr. Jakob Jónsson) skrifaði um þetta í Kirkjublað föstudaginn 1. júní árið 1934. Þar tekur hann gott dæmi um það að enda þótt tungutak vísindanna sé gott og blessað er það ekki eina leiðin til að skoða og skynja veröldina. Stundum reyndar alveg afleit leið eins og fram kemur:

"Eg nem staðar við stóra götuauglýsingu. Frægur fiðluleikari ætlar að halda fiðluhljómleika kl. 8 í kvöld. Það er útlagt á máli náttúruvísindanna: Kjötskrokkur með dálitlu af beinum og innýflum ætlar að nudda saman hrosshári og kattargörnum kl. 8 í kvöld."


Lifi framsöguhátturinn!

Mikið er það stundum þreytandi þetta væri, gæti og ætti.

Viðtengingarhátturinn er háttur hangandi handar og skjálfandi lappa.

Þá er nú framsöguhátturinn betri.

Í stað þess að segja "mikið væri gaman ef..." segjum við einfaldlega "mikið er gaman".

Ekki "ég gæti fundið hamingjuna ef..." heldur hreinlega "ég er hamingjusamur".

Og í stað þess að segja "ég ætti eiginlega að gera það" hikstalaust "ég á að gera það".


Sótsvartur mannskilningur og hjarnbjartur

Stundum heyri ég að í kristinni trú sé lítið gert úr manneskjunni með því að skilgreina hana sem syndara. Það kann að vera skiljanlegur misskilningur hafi menn ekki gert sér grein fyrir myndinni allri. Ég skal fúslega viðurkenna að mannskilningur kristindómsins væri sótsvartur ef öll sagan væri sögð með ofangreindu. Útlitið er hreint ekki gott sé maðurinn syndari og punktur. Sé því gleymt að samkvæmt kristinni kenningu eru allir menn syndarar - og samkvæmt þeirri sömu kenningu elskar Guð einmitt þennan syndara.

Hann elskar okkur eins og við erum. Einmitt þess vegna er boðskapur kristninnar um manneskjuna svo stórkostlegur. Við þurfum ekki að fegra okkur.  Við megum koma fram fyrir Guð í öllu okkar óöryggi. Við þurfum ekki að réttlæta okkur. Guð sér um þá hlið málanna.

Sumarið er tími brúðkaupanna. Hjónavígsluheitin sem hjónin gefa hvort öðru í kirkjum landsins eru miklu meira en loforð og skuldbindingar. Ef manneskja gefur mér það loforð að elska mig gegnum súrt og sætt og þykkt og þunnt ævina á enda er það líka róttæk viðurkenning á mér sem einstaklingi. Sé hún tilbúin að lofa mér þetta miklu enda þótt hún viti að ég sé langt frá því að vera fullkominn.

Þannig er miskunn Guðs. Hann vill elska okkur, annast okkur, bera okkur á örmum sér, deila með okkur kjörum í myrkri og ljósi, ekki vegna þess að við höfum unnið okkur inn prik hjá honum umfram aðra heldur vegna þess að hann hefur ákveðið að elska okkur. Í skjóli þessa skilyrðislausa kærleika  Guðs gefst okkur einstakt tækifæri til að þroska okkur, helgast og fullkomnast, vaxa til hans. Það er verkefni sem tekur ævina alla.


Á enni Mússólínís

Ennid1(III. hluti brota úr Markafararsögu)

Á fimmta degi ferðarinnar blés hótelstjóri vor, signor Bruno Rapa, til fjallgöngu. Ekið var í vesturátt, upp með ánni Metauro tæpa klukkustund, til móts við Appenínafjöll. Við fylgdum hinum forna rómverska vegi Via Flaminia. Í bílnum fræddi Bruno okkur um svæðið en hann er fæddur og uppalinn í þorpinu Fossombrone og benti okkur stoltur á það þegar við ókum þar hjá.ennid2

Þegar nær dregur fjöllunum liggur vegurinn um svonefnt Furlo-skarð. Þar eru fjöll allhá og snarbrött. Á sínum tíma lét Mússólíní höggvað andlit sitt í fjall í skarðinu. Nú hefur vindurinn og regnið sorfið andlitið svo það er næstum óþekkjanlegt. Kunna menn náttúruöflunum bestu þakkir fyrir það.

Bruno ók áleiðis upp í fjallið en síðan var bílnum lagt og við tók fjallganga. Okkur Mörlöndum þótti hún sæmilega krefjandi en ekki var numið staðar fyrr en tindinum var náð. Þaðan var gengið niður á enni Mússólínis. Sást niður á nef karls. Fallegt var að litast um af enninu. Fyrir neðan okkur sást áin Metauro renna í gegnum Furlo-skarð. Blómlegar sveitir svo langt sem augað eygði. Í vestri risu Appenínafjöll en í austri, þaðan sem við komum, beið Adríahafið.

Ríflega tveggja klukkustunda gangur er upp á ennið. Eftir stutt stopp þar uppi gengum við niður að bílnum. Heima á hóteli beið okkar hádegismatur. Voru honum gerð góð skil.

ennid3

Vantrú©

Nokkrir framtakssamir menn hafa lýst yfir eignarhaldi á vantrúnni. Líða þeir ekki að um hana sé misjafnt talað og telja þá persónulega að sér vegið, enda hafi þeir einkarétt á hvers konar vantrú.

Auðvitað hafa þeir engan einkarétt á henni - ekki frekar en á trúnni - því kristnir menn hafa löngum tekist á við vantrúna í sjálfum sér ekki síður en öðrum.

Í Íslenskri hómilíubók, þeirri gullnámu, er vantrúin nefnd örvilnun. Andstæða hennar er á hinn bóginn kölluð ofvilnun. Þetta er skemmtilegur texti og segir allt sem segja þarf:

"Örvilnun er verst allra synda, því að hún tortryggvir miskunn Guðs. En ofvilnun þar næst, því hún tortryggvir réttlæti hans. Örvilnun enn það næst að hyggjast eigi munu geta bætt syndir sínar með miskunn Guðs. Ofvilnun að ætla sér himinríki, þó að maður uni í stórglæpum og láti eigi af þeim né bæti yfir. Þeim mun er örvilnun verri en ofvilnun sem hún er réttri von ólíkari."

Þetta er snilldarlega sagt. Síðasta setningin er hreint dásemdardýpi. Prófið að láta hana renna í munni eins og grillaðan humar, góðan ís eða dýrt rauðvín. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband