Færsluflokkur: Bloggar
12.7.2007 | 22:30
Göfugur glæpur
Ekki hef ég miklar upplýsingar um kvikmyndina "Blóðugt uppgjör" en af titlinum má ráða að hún hafi ekki verið sýnd í þrjúbíói. Myndin framan á prógramminum styrkir þann grun; menn liggjandi á götu. Öðrum er verið að hjálpa, enda virðist með honum lífsmark. Hinn er látinn afskiptalaus og ekki ólíklegt að dagar hans hafi verið taldir.
Í söguþræði kemur fram að myndin fjallar um glæpi. Aðalsöguhetjan er í þeim bransa og nefnist Abel. Fram kemur að Abel er ekki alveg samviskulaus og liggur við að tár kvikni í krókum þegar maður les eftirfarandi:
"Abel ákveður nú að fremja sitt síðasta afbrot. Hann ætlar að ræna einn af forsprökkum undirheima Parísarborgar, en flýja síðan úr landi og nota peningana til að kosta sómasamlegt uppeldi barna sinna í Frakklandi."
Sem minnir mig á að Helgi vinur minn Barða stofnaði einu sinni Samtök um sómasamlegt uppeldi (SUSSU). Þau runnu síðar saman við Bandalag íslenskra aðstandenda (BÍA). Hinn sameinaði félagsskapur nefndist auðvitað SUSSU-BÍA.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.7.2007 | 21:41
Börnin sem fyrirmynd
Nýlega skírði ég pínulítinn dreng. Hann grét þessi ósköp við athöfnina. Foreldrarnir voru orðnir hálf vandræðalegir, því það heyrðist eiginlega ekkert í prestinum og heldur ekki í frænkum skírnarbarnsins sem spiluðu svo fallega á flauturnar sínar því til heiðurs.
Þegar skírnin var búin kom skýringin á öllum þessum gráti. Rétt fyrir skírnina fékk sveinninn sér duglega að drekka úr brjósti mömmu sinnar og loft hafði komist ofan í hann. Það var sárt, en ekki gat hann sagt frá því að hann fyndi til. Hann grét.
Lítil börn geta svo fátt. Pabbarnir og mömmurnar þurfa að gera næstum því allt fyrir þau.
Svo stækkum við og förum að geta gert hlutina sjálf. Við borðum, klæðum okkur, greiðum okkur, höfum skoðanir og svo koll af kolli.
Síðan endar það oft með því að við teljum okkur trú um að við þurfum að gera allt sjálf. Við séum ekki upp á neina komin. Jafnvel ekki upp á Guð.
Stundum höldum við fullorðna fólkið að við séum orðin of stór fyrir Guð. Hann sé óþarfur. Þess vegna tökum við okkur svo hátíðlega. Allt er undir okkur komið. Engum er treystandi nema okkur.
"Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn mun aldrei inn í það koma."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.7.2007 | 00:29
Mondavio
(II. hluti brota úr ferðasögu til Marka)
Sama dag og við fórum til Corinaldo heimsóttum við kastalann í Mondavio. Þar var lengi aðsetur mikillar hefðarættar. Mig minnir að einn páfanna hafi verið þaðan. Kastalinn er hinn heillegasti og ber háan aldur vel. Þar er nú safn. Brúður í líkamsstærð eru í ýmsum iðjustellingum í fjölmörgum vistarverum kastalans. Í borðsal neyta menn t. d. kræsinga og karlbrúða er látin klípa í vel útlátinn afturenda á þjónustustúlku. Í dýflissunni una brúðurnar á hinn bóginn við pyndingar. Daglegt líf í kastalanum til forna.
Þá hýsir kastalinn allnokkurt safn vopna og herklæða. Er það heimsóknarinnar virði fyrir áhugamenn um þess konar tól.
Utandyra gefur að líta múrbrjóta og slöngvibyssur. Það hefur kostað mikið erfiði að brjóta niður þykka múra sem umlykja svona byggingar.
Þegar við vorum búin að skoða safnið fórum við á eina frægustu pítseríu svæðisins sem er staðsett undir ægifögru kastaníutré. Ekki fengum við að gæða okkur á flatbökunum undir trénu en gátum virt það fyrir okkur úr matsalnum.
Pítsurnar hérna heima eru tæpast matur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.7.2007 | 22:22
Ein með öllu og Írskir dagar
Síðustu verslunarmannahelgar hefur verið efnt til svokallaðrar fjölskylduhátíðar á Akureyri. Þar hefur margt verið til fyrirmyndar en annað ekki.
Ég bý nálægt tjaldsvæðinu við Þórunnarstræti og undanfarin ár hefur varla verið líft þar þessa helgi. Hávaði og drykkjulæti fram á morgun, stöðug umferð, óspektir, rifrildi og slagsmál. Annar fylgifiskur fjölskylduhátíðarinnar er ótrúlegur sóðaskapur eins og íslenskir sjónvarpsáhorfendur hafa fengið að sjá. Garðar okkar húseigenda í nágrenni tjaldsvæðisins eru notaðir sem salerni. Það er jafnvel biðröð í runnana, eins og unglingsstelpa orðaði það sem fékk að nota hjá okkur salernið eina nóttina. Hjól, sláttuvélar, barnaleikföng og aðrir gripir eru teknir ófrjálsri hendi. Fólk þorir ekki að fara úr bænum og skilja hús sín og eigur eftir.
Fíkniefnamál eru fastur liður á fjölskylduhátíðinni. Ég hef orðað það þannig að þar sé boðið upp á eiturlyfjahlaðborð. Vel þykir sloppið séu nauðganir ekki fleiri en teljandi á fingrum annarrar handar. Fermingarbörn slaga um göturnar. Ég veit mörg dæmi þess að ungt fólk hafi byrjað sína eiturlyfjaneyslu á fjölskylduhátíðinni. Á sjúkrahúsi bæjarnis er starfsliðið í önnum við að sinna unglingum í drykkjudái eða eiturlyfjavímu. Þangað leita líka fíklar í leit að sprautum eftir að apótekin eru búin að loka.
Þegar kvartað var undan þessari hlið fjölskylduhátíðarinnar á Akureyri voru viðbrögðin einkennileg. Forráðamenn bæjarins gerðu lítið úr þessu. Aðstandendum hátíðarinnar þótti að sér vegið. Síðasta haust var efnt til fundar um fjölskylduhátíðina niðri á bæjarskrifstofum. Þar fengum við að vita um hvað málið í raun og veru snýst. Lagðar voru fram tölur um svimandi háar peningaupphæðir sem streyma í bæinn þessa daga. Fjölskylduhátíðin mjólkar vel. Um það snýst málið.
Mér er kunnugt um að mikið var reynt til að hafa áhrif á það hvernig væri fjallað um fjölskylduhátíðina í fjölmiðlum. Sú umfjöllun er aðstandendum ekki alltaf að skapi enda kom fram á umræddum fundi að fjársterkir aðilar ætluðu að framleiða "heimildarmynd" um sína kæru fjölskylduhátíð.
Fróðlegt er að bera þessi viðbrögð á Akureyri saman við viðbrögð aðstandenda Írskra daga á Akranesi við því hvernig sú hátíð fór fram síðustu helgi. Þar komu fram svipuð vandamál og á hinni akureysku fjölskylduhátíð.
Skagamenn gera sér grein fyrir því að á þessu verður að taka. Á fréttavefnum skessuhorn.is segir lögregluvarðstjóri að ekki fari saman að halda fjölskylduhátíð og vera með dagskráratriði fram á nótt sem kalla á mikla ölvun. Á það hefur margoft verið bent á Akureyri en án árangurs. Verktakanum sem sér um tjaldsvæðið á Skaganum er líka nóg boðið. Ætlar ekki að koma nálægt svona lögðuð aftur. Ungmennin líti á tjaldsvæðið sem samkomustað en ekki gististað. Það hafa forráðamenn Akureyrarbæjar ekki skilið enda þótt þeim hafi margítrekað verið bent á það.
Á skessuhorni.is er einnig rætt við Tómas Guðmundsson, markaðsfulltrúa Akraneskaupstaðar. Hann hefur m. a. þetta að segja: "Það skaðar þar að auki orðspor og ímynd bæjarfélagsins í heild þegar helstu fréttir af fjölskylduhátíðinni fjalla um drykkju, eiturlyfjaneyslu, ofbeldi og slagsmál...."
Skagamönnum þykir auðsjáanlega vænt um ímynd bæjarfélagsins síns. Hér á Akureyri sé ég ekki betur en að mönnum standi á sama um það meðan krónurnar koma í kassann.
Ég tek ofan fyrir þeim á Akranesi og segi: "Áfram Skagamenn!"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
8.7.2007 | 15:55
Litríkur sunnudagsmorgunn
Í morgun messaði ég í Akureyrarkirkju í fyrsta skipti eftir sumarfrí. Eftir guðsþjónustuna þakkaði ítalskur maður mér innilega fyrir stundina. Hann faðmaði mig að sér í kirkjudyrunum og sagði að við værum bræður í Kristi þó að hann væri kaþólskur en ég lútherskur. Með honum var frændi hans. Sá var vélstjóri á skemmtiferðaskipinu sem lá á Pollinum fyrir framan okkur. Sá ítalski kvaddi alla í forkirkjunni með virktum, líka hollensku hjónin sem biðu eftir að fá að vita hvaða guðspjall hafði verið lesið í athöfninni. "Var það ekki þetta?" spurðu þau og sýndu mér hollenskt Nýja testamenti. Þau höfðu á réttu að standa. Einnig talaði ég við háskólastúdent frá Kænugarði sem kom í bæinn í vikunni. Hún ætlar að gæta hér barna þangað til í október.
Strax eftir messu var skírn í kirkjunni. Tvö sveinbörn voru vatni ausin. Mæður þeirra beggja voru íslenskar er faðir annars var frá Færeyjum. Hinn pabbinn er bandarískur hermaður staddur í Írak. Systir færeyska pabbans var klædd yndislega fögrum færeyskum þjóðbúningi. Þýsk hjón sem komu í kirkjuna þegar skírnin var búin fengu að taka mynd af henni við skírnarfontinn.
Ég minntist víst á það í prédikuninni að við værum meira en einstakar og einangraðar sálir. Við fyndum aldrei okkur sjálf með naflaskoðun. Við værum hluti af stærri heild. Veröld Guðs.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.7.2007 | 17:25
Heilræði hégómans
Í Verði ljós! - Mánaðarrit fyrir kristindóm og kristilegan fróðleik frá árinu 1896 eru þessi heilræði sem eignuð eru sjálfum Matthíasi Kládíusi:
"Viljirðu koma þjer vel í heiminum, Asmus minn, þá
1. segðu aldrei sannfæringu þína, nema þú sjert áður búinn að kynna þjer skoðun tilheyrenda þinna og sjert nokkurn veginn viss um, að hún komi ekki í bága við skoðun meiri hluta þeirra; -
2. láttu aldrei á þjer heyra, að þjer mislíki háttsemi valdsmanna eða yfirmanna þinna og láttu ekkert tækifæri ónotað til þess að hrósa þeim, ef þú býst við, að það geti borizt þeim til eyrna; -
3. varastu eins og heitan eld, að efast opinberlega um skyldurækni þeirra, rjettsýni og dugnað, enda þótt allur heimurinn sje þjer samdóma um að skeytingarleysi, rangsleitni og dugleysi einkenni alt dagfar þeirra og háttsemi.
Gætirðu als þessa, muntu koma þjer vel í heiminum og öll tignarsæti munu þjer opin standa, en hvort himininn muni taka þjer eins vel eða tignarsæti bíða þín þar, - um það heyrði jeg aldrei talað."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.7.2007 | 01:10
Fyrirhafnarinnar virði
Í kvöld hringdi frænka að sunnan í mig á leið norður á mótorhjóli fyrir aftan kærastann. Ég skellti ragú alla bollojnese í pott en spaghettíið fór ekki niður í sjóðandi vatnið fyrr en ég heyrði í hjólinu hér á Þingvallastrætinu.
Kvöldverðurinn með þeim hjúunum var hinn skemmtilegasti og erfiðið við eldavélina gleymdist fljótt þegar við Einar fórum að spinna upp lygasögurnar.
Sem minnir mig á tvær aðrar sem tilhlýðilegt er að rifja upp áður en skrök kvöldsins fer fyrir ykkar sjónir.
Sú fyrri er sögð af bónda í Höfðahverfinu. Sá bóndi kvað hafa komið þar svo ofboðslegt rok að það fuku út úr honum fölsku tennurnar. Settið læstist á þakskegg fjárhúss jarðarinnar og beið hans þar hinn næsta dag.
Hin sagan er úr Fljótunum. Þekktust eru afrek Fljótamanna í skíðaíþróttinni en þeir kunna líka vel þá list að segja sögur. Ein þeirra segir að eitt sinn hafi Fljótamenn fundið upp magnaðan skíðaáburð. Honum var smurt í tilraunaskyni neðan á skíði ágæts bónda í Stíflunni. Bóndinn mjakaði sér upp á bæjarfjallið - en í Stíflu eru fjöllin há og brött. Síðan renndi hann sér niður, yfir sveitina og stoppaði ekki fyrr en hann var kominn upp á fjallið andspænis bæjarfjallinu. Þar sáu menn hann taka bratta og víða beygju áður en hann þaut niður það fjall og aftur upp í bæjarfjallið. Gekk þannig nokkra daga.
Þeir skutu hann á fjórða degi, af mannúðarástæðum.
Við Einar mótorhjólakappi sögðum eftirfarandi sögu sem dæmi um það hversu skyndilega getur vorað hér fyrir norðan.
Ónefndur skíðamaður var að renna sér niður Hlíðarfjallið. Hann var búinn að ná rosalegri ferð og var kominn í vel þekktar brunstellingar. Þá voraði. Skíðin höfðu ekkert rennsli lengur og brunkappanum fataðist ferðin. Hann steyptist fram fyrir sig. Fyrst litaðist hann grasgrænku af nýgræðingi, síðan rauðum úr nýorpnum eggjum, þá krömdum ungfuglum og áður en hann stöðvaðist við Glerána var hann löðrandi í berjabláma. Þá voru skólar um það bil að hefjast á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.7.2007 | 17:02
Corinaldo
"Corinaldo rís við himin hátt. Húsin standa þétt í fullri sátt," hljómaði upphaf á kviðlingi sem varð til eftir heimsókn til þessa fyrsta áfangastaðar hins akureyska ferðahóps. Þorpið er í um það bil hálftíma akstursfjarlægð frá strandhótelinu okkar. Sveit Marka er yndisfríð. Fyrst hæðótt en þegar innar dregur taka við brött en skógi vaxin Appenínafjöll. Næst sjónum stunda menn akuryrkju. Þar er vínviður og ávaxtatré. Inni í landi fara að sjást grasbítar.
Corinaldo er eitt af fjölmörgum þorpum Marka. Við komum þangað eftir hádegið, á síestunni, enda var þar allt ofurkyrrt. Hvorki þorpsbúar né túrhestar á ferð. Tveir kettir fengu sér lúr í skuggsælu öngstræti. Svölurnar voru á hinn bóginn ekki í neinni afslöppun í gáskafullu flugi yfir höfðum okkar.
Ísbúðin í plássinu var opin og við nýttum okkur þjónustuna. Annars lötruðum við um þröngar göturnar og virtum fyrir okkur gömlu byggingarnar. Steinlögð strætin voru eins og nýskúruð og innan þorpsmúranna ríkti andi hins ítalska áhyggjuleysis.
Svo ku þeir gera fínasta rauðvín í Corinaldo.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.7.2007 | 18:14
Þeirra er himnaríki
Eldurinn snarkar í kamínunni og varpar mildum bjarma á sólbrúnan heimilisföðurinn sem situr með kaffibolla í rauðvínslituðum leðursófa og virðir stoltur fyrir sér nýlagt flísagólfið. Hann dæsir af vellíðan þegar hann hugsar til þess að fyrr um daginn greiddi hann síðustu afborgunina af einbýlishúsinu. Úti heyrir hann hvernig sjálfvirk bílskúrshurðin er opnuð þegar eiginkonan kemur heim á jeppanum. Börnin eru sofnuð, sæl og rjóð á heilsudýnunum.
Það er allt til í þessu húsi og heimilisfaðirinn hlakkar til að horfa á gerfihnattasjónvarpið með konunni á eftir, þegar hún er búin að fara í gufubaðið niðri í kjallara, eins og hún er vön að gera á föstudagskvöldum. Hann bíður og að lokum dottar hann. Þegar hann vaknar er komin nótt og eldurinn í kamínunni dauður. Maðurinn rís upp og gengur inn í svefnherbergi. Þar liggur konan hans og sefur.
Nokkrum húsaröðum neðar situr einstæð móðir við eldhúsborðið og hugsar. Sígarettureykur liðast upp af öskubakka. Konan bíður eftir drengnum sínum sem er enn ekki kominn heim. Hún óttast að skilnaðurinn hafi farið illa með hann. Og hvers vegna ætti hann svo sem að koma heim? Hún getur svo lítið boðið drengnum, á ekki einu sinni riskytruna sem þau búa í og á í erfiðleikum með að skrapa saman fyrir mánaðarleigunni.
Meðan hún er í þessum þungu þönkum við eldhúsborðið heyrir hún umgang í stiganum. Drengurinn kemur inn og er hissa á að mamma skuli ekki vera farin að sofa. Segist hafa verið hjá Didda frænda að horfa á mynd. Hún stendur upp, gengur að vaskinum, snýr sér undan og mistekst að fela grátinn. Segir honum að hún geti svo lítið boðið honum og það sé ógurlega sárt. Þá tekur slánalegur unglingsdrengurinn utan um mömmu sína og segir að hann sé ríkasti strákurinn í plássinu. Enginn eigi betri mömmu en hann. Heitur koss hans á föla kinn hennar tekur af öll tvímæli og skyndilega verður heilagt þarna undir súðinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.7.2007 | 23:23
Aðalatriði málsins
Aðalhlutverkin í amerísku kvikmyndinni "Ævintýri á fjöllum" (Sun Valley Serenade) voru leikin af snillingunum Sonja Henie, John Payne, Glenn Miller, Milton Berle, Lynn Bari og Joan Davis.
Stundum sér maður ekki fílalortana fyrir tittlingaskítnum eins og sannast í söguþræði þessarar myndar sé mark takandi á prógramminu, en þar segir:
"Ted verður því eigi lítið undrandi, þegar hann hittir Karen á skíðum uppi á háfjöllum og kemst að raun um, að hún er enginn viðvaningur á skíðum, enda þótt hún sé langtum snjallari á skautum."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)