Færsluflokkur: Bloggar

Mættur og mettur

taerastrondEinhvers staðar heyrði ég að besti hluti hverrar ferðar væri heimkoman og að það væri óbrigðul vísbending um að fríið hafi verið vel heppnað ef manni þætti gott að koma heim. Ég get tekið undir það. Eftir nítján dýrðardaga á Mörkum var fyrsta nóttin undir eigin sæng hreint yndisleg.

Ég sé ekki í fljótu bragði hvernig hægt er að toppa svona frí. Þarna er allt til alls. Ef maður vildi hvílast gat maður slappað af á ströndinni sem allir voru sammála um að væri sú besta í veröldinni. Ég fékk mér sundsprett í Adríahafinu nánast hvern einasta dag. Labbaði út í ísbúð með krökkunum. Hjólaði inn í Marotta með konunni. Morgunkollan á hótelveröndinni var alltaf á sínum tíma, eigi síðar en kl. 11. Ferðafélögum til mikillar furðu keypti ég mér línuskauta á fyrsta degi og þaut á þeim um strandgötuna okkar enda gamall skautastrákur ættaður úr Innbænum. Svo var vinsælt að fá sér bíltúr í mollið í Senígalíu eða í miðbæinn í Fano. Við fórum í sirkus eitt kvöldið. Dagparti var eytt í sundlaugagarði. Hraustari hluti hópsins brá sér í fjallgöngu. Einn dagur var nýttur í þorpaflæking. Farið var á vínekru og afurðir prófaðar. Einnig litum við inn í gamla og rótgróna ólívuolíufabrikku og drukkum olíu eins og bjór. Hápunktur ferðarinnar var að sjálfsögðu dagsferð til Assisi en einnig voru borgirnar Urbino og Ravenna heimsóttar. Við tókum þátt í tveimur bocciamótum á ströndinni. Áttum sigurvegara í öðru en menn í úrslitum í hinu. Lið okkar Íslendinganna í sandkastalakeppninni náði öðru sæti. Efnt var til stórkostlegrar veislu á ströndinni okkar. Svo nokkuð sé nefnt.

Mér finnst ítalskur matur sælgæti. Er hann ekki bara sá besti í heimi? Einfaldur, ferskur, bragðgóður og meinhollur. Hótelið okkar, þar sem við vorum í fullu fæði, sérhæfir sig í sjávarfangi. Ég húkkaðist á það enda þótt annað bragð sé af slíkum kosti þar úti en hér heima. Miklu meira sjóbragð af fiskinum. Auk þess elda þeir alls konar kvikindi sem okkur Íslendingum dytti aldrei í hug að leggja okkur til munns. Stundum datt mér í hug að ekki væri vanþörf á að kenna okkur Íslendingum að meta fiskinn betur, bæði að elda hann og borða. Þeir sem ekki vildu fisk fengu sér kjöt og á því var aldrei fituarða. Mörgum þótti ríflega veitt af pastanu og vissulega eru íslenskir meltingarvegir óvanir þess konar trakteringum. Það var sennilega engin tilviljun að ég braut klósettsetuna á herberginu okkar.

Og talandi um meltingu. Nú hefst enn einn þátturinn í ferðinni til Marka. Úrvinnslan. Kannski leyfi ég lesendum að fylgjast með og ef til vill fæ ég leyfi til að birta hér kviðlinga sem til urðu á þessum vikum. Úrvinnsluþátturinn gæti hæglega dugað þangað til við förum aftur til Marka en við erum þegar búin að panta næstu dvöl.

Færslu þessari fylgir mynd af Adríahafinu eins og það blasti við milli tánna á mér.


Pax et bonum!

ItaliaLoksins er komið að því. Ég er búinn að pakka niður stuttbuxum, sólvarnarsmyrslum, sandölum og ermalausum bolum. Nú tel ég ekki lengur dagana, heldur klukkutímana. Þegar lesendur þessa bloggs sjá þessar línur á morgun verð ég á leiðinni suður á nes og laust fyrir kl. 17 legg ég út á hafið mikla suður á bóginn.

Mér þykir ósennilegt að ég komist í tölvu þar syðra og jafnvel þótt möguleiki væri á því er ekki víst að ég hafi mig upp úr strandbekknum mínum. Þar ætla ég að liggja sem fastast en skoða mig kannski aðeins um til að vera menningarlegur. Bloggið mun því líka fá frí en ég byrja aftur þegar ég kem heim upp úr næstu mánaðamótum. Ef Guð lofar.

Elskulegum lesendum óska ég góðra sumardaga, þakka ánægjuleg og gefandi samskipti og leyfi mér að kveðja þá að hætti heilags Frans:

"Pax et bonum!"


Heimsslit í Aðalvík

AdalvikAmma mín blessunin var úr Aðalvík fyrir vestan. Hún hét Bjarney Pálína Guðjónsdóttir. Aðalvík fór í eyði á síðustu öld en þar ku einstaklega fallegt og gott að vera. Amma sagði að berjasprettan þar vestra væri slík að ekki þyrfti nema örfá ber í kílóið.

Mér þykir alltaf gaman þegar ég rekst á einhvern fróðleik um forfeður mína af þessum útkjálka. Það voru karlar í krapinu. Kerlingarnar voru ekki síðri. Í Nýju kirkjublaði  (hálfsmánaðarrit fyrir kristindóm og kristilega menning) frá 1. febrúar 1913 er þessi klausa, undir hinni skemmtilegu yfirskrift "Utan frá kjálka láðs". Mér þykir þetta rammíslenskur texti, ekki síst framfærðar ættartengingar, sem við fyrstu sýn virðast ekki koma málinu neitt við, en krydda lesturinn. Svo eru þetta hypermaskúlín skrif en dæmi nú hver fyrir sig:

"Vestan úr Aðalvík er þetta ritað:

"Aðalvíkingar eru einkennilega fastheldnir við gamlar siðvenjur og kreddur. Til dæmis halda þeir helgar allar Maríumessur, Jónsmessu og Allraheilagramessu. Engum dettur í hug að fara á sjó þá daga."

Kunnur maður um þær slóðir kveður Aðalvíkinga tæpast svo gróna í gömlum siðum. Hitt vissi hann að fyrir kom það hér á árunum einusinni, að setið var í landi, af því að menn væntu heimsslita þann daginn. Var þá bóndi á Sléttu í Aðalvík Hermann Sigurðsson, hinn gervilegasti maður, glíminn vel og manna fríðastur sýnum. Hann var svili síra Jóns Eyjólfssonar á Stað í Aðalvík, afa Rögnvalds húsameistara, en dóttir Hermanns var gefin Brynjólfi hreppstjóra Þorsteinssyni á Sléttu. Þennan heimsslitadag reri Hermann einn Aðalvíkinga, og kvað ekki verra að taka dómsdegi á sjó en landi."


San Galgano

Undanfarna mánuði hef ég bloggað hér um staði nálægt hóteli okkar Akureyringanna á Ítalíu nú í sumar. Nú hefur einn dyggur lesandi bloggsins míns gefið mér tilefni til að ræða hér um stað sem ég heimsótti á Ítalíu fyrir nokkrum árum. Ég tek fram að frásögn þessi er eftir minni mínu og gloppótt eins og það. Bið ég þá sem betur vita að leiðrétta mig fari ég rangt með.Sverðið í San Galgano

San Galgano heitir staðurinn. Fyrir mörgum öldum var þar ekkert nema einsetumaður. Sagan segir að dag einn hafi málaliði nokkur, kunnur fyrir hugprýði og bardagagleði, komið við hjá einsetumanninum. Þeir tóku tal saman og við það urðu straumhvörf í lífi riddarans. Hann ákvað að hætta að höggva mann og annan, dró sverð sitt úr slíðrum og stakk því í stein í bústað hins helga manns.

Þar er sverðið enn og barði ég það augum, á kafi í grjótinu upp að hjöltum. Ég er viss um að vantrúaðir menn hefðu gaman af að skoða sverðið - þó ekki væri nema til að dunda sér við að finna skynsamlegar skýringar á staðsetningu þess.

Sverðið í steininum dró að sér fjölda forvitinna ferðamanna og pílagríma. Ekki leið á löngu uns búið var að byggja yfir það kapellu. Kapellunni fylgdu munkar og yfir þá þurfti að byggja hús. Eftir nokkur ár var komið klaustur í San Galgano. Síðan settist þar að biskup og reist var vegleg kirkja á staðnum. Upp rann blómatími San Galgano - en hnignunin tók við af honum, eins og lög gera ráð fyrir. Stríð braust út og mennirnir voru búnir að finna upp byssuna. Í þær þurfti kúlur og til þess að búa til kúlurnar þurfti blý. Brátt varð hörgull á blýi og það sem fékkst var á uppsprengdu verði. Þáverandi biskup í San Galgano sá sóknarfæri í stöðunni til að auka enn á vegsemd staðarins og auð. Hann hóf að fjarlægja blýnagla úr þaki hinnar miklu kirkju sinnar.SANGALGANO1 Þeir voru seldir og úr þeim steyptar kúlur til að drepa menn. Peningarnir flæddu til San Galgano. Mikið vill meira - þannig er græðgin - og nöglunum í kirkjuþakinu fækkaði stöðugt eftir því sem blýkúlugróðinn jókst.

Auðvitað endaði þetta með því að þakið féll niður og þannig er kirkjan  í San Galgano enn þann dag í dag. Hún er þaklaus minnisvarði um græðgina.

Sverðið í steininum er á hinn bóginn merki um að manneskjan er fær um að iðrast gerða sinna, söðla um og hefja nýtt líf.

San Galgano er ekki langt frá borgunum Volterra og Siena ef ykkur langar þangað.


Liljur vallarins og græðgin

lily_valleyLengi hefur græðgin verið ofarlega á lastaskrám kristninnar. Hún er á topp sjö listanum yfir svonefndar dauðasyndir.

Nútíminn hefur á hinn bóginn gert græðgina að dyggð. Þar er hún talinn drifkraftur almennra hagsbóta - gjarnan uppdubbuð í búning svonefndrar "skynsamlegrar sjálfselsku". Afleiðingar þess láta ekki á sér standa. Þeir ríku verða sífellt ríkari hvort sem um er að ræða einstaklinga eða þjóðir. Það hriktir í stoðum velferðarkerfanna. Sjálft vistkerfið er að gefa sig. Það þolir ekki þá endalausu neysluaukningu sem hagkerfi græðginnar hvetur til.

Öflugustu andstæðingar græðginnar eru þakklætið og trúin.

Dyggustu samherjar græðginnar eru á hinn bóginn vanþakklætið og vantrúin.

Vantrúin er í því fólgin að treysta ekki Guði heldur leggja allt undir eigið framlag. Allt stendur og fellur með því sem við gerum, árangrinum sem við náum og sigrunum sem við vinnum. Þetta skapar þann ómanneskjulega heim sem við þekkjum. Þar er lögmál frumskógarins í gildi og þess vegna nauðsynlegt að olnboga sig í gegnum lífið. Sá sterki mun sigra. Og sterkur er sá sem getur reitt sig á eiginn mátt og megin.

Vanþakklætið lýsir sér í því að við gerum okkur ekki grein fyrir því að okkur er svo ótalmargt gefið. Vanþakklætið er að telja sig ekki hafa þegið neitt af neinum og því engum skuldbundinn. Sá vanþakkláti er ekki upp á aðra kominn að neinu leyti.

Þakklátur er sá sem finnur að hann á ekki heimtingu á neinu - en fær engu að síður dýrar gjafir. Þakklátur er sá sem veit að ekkert er sjálfsagt eða sjálfgefið.

Trúin er síðan þetta andartak þegar ég finn að ég er háður Guði og það er allt í lagi. Hönd hans er sterk, faðmur hans víður og hann mun annast mig, því ég er barnið hans, sama hvað gerist, í ljósi og myrkri, í lífi og dauða.

"Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra."

 


Sameinuð gegn trúleysinu

Árið 1893 var haldinn mikill fundur trúarleiðtoga í borginni Chicago í USA, í tengslum við heimssýninguna. Fór ekki Matti Jokk á hann? Dr. Grímur nokkur Thomsen skrifar um þennan fund í Kirkjublaðið (mánaðarrit handa íslenskri alþýðu) 1895. Það er fróðleg grein. Á trúarþingið komu 170 fulltrúar, búddistar, áhangendur Konfúsíusar, hindúar, fylgjendur Múhameðs spámanns, kristnir, Gyðingar og meira að segja agnostíkerar.

Grímur bendir á að trúarþing séu ekki ný af nálinni. "Þegar einstakir menn og fjelög manna finna sjer hættu búna af innri eða ytri óvin, þá gjöra menn samtök með sjer til varnar," segir hann og bætir við að krossferðirnar séu runnar af þessari rót. Reynt var að sameina grísku og rómversku kirkjurnar á kirkjufundinum í Flórens árið 1439 til að verjast árásum Tyrkja.

"Sá óvinur, sem nú ógnar ekki að eins hinum sjerstöku kirkjufjelögum, heldur trúnni yfir höfuð og hinu innra lífi hvers hugsandi manns, er guðleysið og trúleysið, byltingar- og óstjórnarflokkarnir. Hinir einstöku trúflokkar eru vaknaðir til þeirrar viðurkenningar, að þeir hafi annað þarfara að gjöra, en rífa hver annan niður og þrátta um hinar og þessar kreddur; þeir finna, að nú þarf að gjöra samtök til að verja sjálfan arna allrar trúar, sjálft altari hins sanna Guðs," skrifar dr. Thomsen um tildrög trúarþingsins.Barrows

Forvígismaður þingsins var presbýterapresturinn séra John Henry Barrows. "Í umburðarbrjefi, sem hann sendi út um allan heim, tók hann fram, að meiningin með fundi þessum væri eigi sú, að vekja þrætur, heldur að sýna fram á samhljóðanir allra trúarbragða sín á meðal," segir Grímur.

Ekki tóku allir vel í boðsbréfið. Tyrkjasoldán bað sig afsakaðan og erkibiskupinn í Kantarabyrgi á Englandi afgreiddi það mjög snyrtilega. Kvað kristindóminn hina einustu trú og aðrar væru eigi til. Páfinn gaf á hinn bóginn samþykki sitt fyrir því að kaþólskir biskupar færu til samkomunnar.

Þingið stóð í 16 daga og voru þrír fundir daglega. Séra Barrows sagði í setningarræðu: "Tilgangur vor er að mynda heilagt samband milli allra trúflokka gegn trúleysinu, og koma á bróðurlegu samkomulagi milli allra, siðferði og kærleika til vegs og virðingar."

Grímur segir alla fulltrúa hafa komið kurteislega fram og auðsýnt hver öðrum virðingu og velvild. Margir kristnir menn furðuðu sig á því hversu vel þingfulltrúar af öðrum trúarbrögðum voru að sér í Biblíunni og gátu jafnvel flokkast undir það að vera "biflíufastir" eins og Grímur orðar það. Þetta hefur verið stórmerkilegt þing og til þess fallið að eyða fordómum og miðla þekkingu og reynslu milli trúaðra. "Eitt af því sem vannst við fundinn í Chicago, var rjettari og betri þekking á kjarna Búddha, Brahma og Zóróasters trúnna," skrifar Grímur.

Þegar ég las grein Gríms um þetta mikla þing fór ekki hjá því að mér fyndist ósköp lítið hafa breyst í veröldinni frá því það var haldið og ekki sé síður þarft að efna til slíkrar samveru nú en þá. Sá grunur minn staðfestist við lestur á kaldhæðnislegum niðurlagsorðum doktorsins:

"Um tekjur kirkna og presta var ekkert talað á Chicago-fundinum."


Klerkur einn enskur vaninn af rasisma

Varlega ættu menn að fara í það að hæðast að þjóðum eða helgum mönnum, samanber eftirfarandi frásögn úr Biskupasögum:

"Í Kynn á  Englandi lét maður nokkur, sá er Auðunn hét, gera líkneskju til dýrðar hinum sæla Þorláki biskupi, og er líkneskið var gert og sett í kirkju, þá gekk að klerkur einn enskur, og spurði, hvers líkneski það væri. Honum var sagt, að það var líkneskja Þorláks biskups af Íslandi. Þá hljóp hann með hlátri miklum og spotti í soðhús eitt, og tók mörbjúga, og kom síðan aftur fyrir líkneskið, og rétti bjúgað fram hinni hægri hendi, og mælti svo með spotti til líkneskjunnar: "Viltu mörlandi! Þú ert mörbiskup!" Eftir það vildi hann á burt ganga og mátti hvergi hrærast úr þeim sporum, sem hann stóð, og var höndin krept að bjúganu, og mátti ekki hræra. Dreif þá síðan til fjöldi manna, að sjá þessi fádæmi, og spurðu hann síðan sjálfan, hverju þessi undur sætti; en hann játaði þá glæp sinn fyrir öllum þeim, er við voru staddir og það sáu, en hann sýndi með viðurkenningu sanna iðran, og bað þá er við voru, að þeir skyldu styðja hann með sínum bænum, en hann hét því, að hann skyldi aldrei þess kyns glæp gera síðan. Báðu þeir honum af öllum hug heilsubótar, en almáttugur guð heyrði bæn þeirra, og hinn sæli Þorlákur biskup, og réttist þá höndin, og fór hann þá hvert er hann vildi, og lofuðu allir guð og hinn sæla Þorlák biskup."


Give me a fortress to win!

Kvikmyndin Brugðin sverð (Crossed Swords) var sýnd í Trípolíbíói. Engir aukvisar fóru þar með tripolibioaðalhlutverk. Annars vegar gamli skúnkurinn Errol Flynn og hins vegar þokkadísin Gina Lollobrigida ("Italy´s Marilyn Monroe" segir í kynningu). Á prógramminu er mynd af errolnum mundandi brandinn með yfirskriftinni:

"Give me a fortress to win and a wench to woo - and I´ll make history" sem mætti þýða "Færðu mér virki að vinna og sprund að biðla til og ég kemst í sögubækurnar".

Er það ekki allkarlmannlega mælt?

brugdinsverd

Inni í prógrammi stendur:

"SAGAN:

Í hinu litla hertogadæmi Sidona á Ítalíu (á miðöldum) hefur verið ákveðið, að sérhver maður, sem náð hefur 20 ára aldri, verði að kvænast.

Að öðrum kosti verði honum varpað í fangelsi og eignir hans gerðar upptækar."

Þetta er upphaf hinna æsilegustu atburða þótt einhver kynni að segja að aðeins blæbrigðamunur væri á þessum afarkostum en ekki eðlis.


Sjómannadagurinn

Níu ár var ég prestur úti í Ólafsfirði. Ólafsfirðingar ólu mig upp sem prest og manneskju. Við áttum ógleymanlega tíma hjá þeim. Margt dreif á dagana og minningarnar eru ótalmargar - allar sveipaðar hjartahlýju og þeirri einlægu lífsgleði sem einkennir Ólafsfirðingana mína. Ég elska þennan fagra fjallareit og fólkið sem þar býr.

Sjómannadagurinn var næstmesta hátíð ársins í Ólafsfirði. Aðeins jólin voru honum fremri. Í tilefni sjómannadagsins birti ég hér Formannsvísur Benedikts Þorkelssonar, barnakennara frá Belgsá í Fnjóskadal. Hann fæddist árið 1850. Ungur veiktist hann illa og gekk ekki heill til skógar eftir það. Hann var barnakennari um fjörutíu ára skeið og þótti góður kennari. Síðari hluta ævi sinnar dvaldi hann á Kvíabekk í Ólafsfirði. Hann lést árið 1931 og hvílir í kirkjugarðinum á Kvíabekk. Formannsvísurnar orti hann árið 1916 um formennina í Ólafsfirði og bátana þeirra.

 

Nú skal ljóða laga söng,

létt þó bjóðist kvæða föng.

Hrinda móði geðs um göng,

gleðja rjóða silkispöng.

 

Þótt hósti leiður Hræsvelgur

og hamist reiðar sævölvur,

út til veiða óragur

Ásgeir leiðir Þorvaldur.

 

Fer um græði gangtamur

Garðar, ræður Þorvaldur.

Sá ei hræðist haföldur,

hygginn bæði og stjórnsamur.

 

Geir, til veiða Þorsteinn þá,

þorska leiðir frónið á.

Aldan reið þótt yggli brá,

afla sneiðir varla hjá.

 

Um keilumóinn kunnugur

kátur Jóhann Friðfinns bur.

Finn á sjóinn framdrífur,

fylginn nóg og kappsamur.

 

Gjálp óhýr þótt gjöri hrekk,

gusum ýri hvergi þekk,

með garpa dýra um geddu bekk,

Gunnar stýrir Óla bekk.

 

Grand ei slórir Guðmundur,

um geddukórinn sókndjarfur.

Hugarstór og harðfengur,

heitir á Þór, ef áliggur.

 

Björn um græði ég sífellt sé

svani flæða hleypandi.

Vinnur bæði frama og fé,

fyrir ræður Önundi.

 

Um nauthvels svæði nákunnur,

Njáli ræður Guðmundur.

Síst hann hræðist særokur,

sagður gæða formaður.

 

Hrönn þótt ýrist inn á knör,

alls óhýr né svipfögur,

áls á mýri óragur,

Axel stýrir Þorlákur.

 

Trönu mýra teigum á

Trausta stýra Jóhann má.

Hefur dýra drengi sá,

dug órýran sýnt er fá.

 

Einar jafn þeim fremstur fer,

ef fengi safn úr bláum ver.

En súða hrafninn sagt er mér,

sæguðs nafnið forna ber.

 

Ljóðin standa lét ég hér,

lítið strandað fleyið er.

Þungan vanda að borði ber,

bragar andinn strauk frá mér.


Væntingahjöðnun

Nú er ekki nema rúm vika þangað til við leggjum af stað til Marka. Vinur minn einn sem fylgst hefur með því sem ég hef skrifað hér á bloggið um áfangastaðinn sagði mér nýlega að hann ætti ekki von á öðru en að væntanlegir ferðafélagar mínir yrðu hundóánægðir með Ítalíuferðina. Ég væri búinn að spenna svo upp væntingar þeirra að útilokað væri að innistæða gæti verið fyrir þeim öllum.

Til að fyrirbyggja það kemur hér sannleikurinn í sinni verstu en raunverulegu mynd. Ég mæli með því að samferðafólk mitt lesi þessa færslu að minnsta kosti einu sinni á dag þangað til við leggjum í hann.

Sú fullyrðing mín um Mörk að þar sé ekki mikill túrismi miðað við önnur svæði á Ítalíu er hárrétt - enda er héraðið fullkomlega óspennandi og þar er sáralítið að sjá. Mörk eru tilbreytingarsnauð flatneskja, þorpin skítug og sóðaleg en borgirnar niðurníddar. Þeir fáu ferðamenn sem asnast til Marka fara ekki þangað aftur ótilneyddir því þar að auki eru íbúar héraðsins afar fjandsamlegir ókunnugum. Þar er rekin aðkomumannapólitík í akureyskum víddum.

Marotta - bærinn þar sem við dveljum á Mörkum - er hrikalegt greni. Það eina sem er blómlegt þar er hin alræmda smyglarahöfn. Eiturlyfjum og þvílíkum varningi er smyglað í stórum stíl frá ríkjum fyrrum Júgóslavíu yfir Adríahafið til Marotta þar sem siðblint glæpahyski sér um að dreifa góssinu inn í landið. Afbrotatíðni er há og skotbardagar daglegt brauð.

Hotel3Hotel Sole - hótelið okkar - er svo kapítuli út af fyrir sig. Myndin sem fylgir þessari færslu talar sínu máli. Herbergin eru illa hirt og þar er nánast allt í lamasessi. Gormar standa upp úr bældum og rykfylltum rúmdýnum. Sé sturtað niður í salerninu vellur gumsið upp í sturtunni. Skrúfi maður frá sturtunni líður ekki á löngu uns flæðir upp úr klósettinu. Einstaklega hljóðbært er í öllum herbergjum. Þú heyrir hroturnar handan næfurþunns þilsins og önnur miður notaleg búkhljóð berast þaðan dag og nótt. Kakkalakkar og viðurstyggileg skorkvikindi skríða um gólf og veggi.

Ströndin er skelfileg. Snarbratt er niður í sandinn og komist maður þangað ómeiddur er nokkuð öruggt að maður stígi á flöskubrotin í fjörunni. Ekki tekur betra við þegar út í sjó er komið. Dælt er úr sameinuðum klóaklögnum svæðisins út í hann rétt hjá hótelinu og þar flýtur því allt í notuðum salernispappír og skyldum afurðum. Auk þess er affall frá kjarnorkuveri í næsta nágrenni. Þeir sem brenna ekki sólinni eiga því ekki í erfiðleikum að ná sér í annars konar bruna.

Góða ferð!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband