Sjómannadagurinn

Níu ár var ég prestur úti í Ólafsfirði. Ólafsfirðingar ólu mig upp sem prest og manneskju. Við áttum ógleymanlega tíma hjá þeim. Margt dreif á dagana og minningarnar eru ótalmargar - allar sveipaðar hjartahlýju og þeirri einlægu lífsgleði sem einkennir Ólafsfirðingana mína. Ég elska þennan fagra fjallareit og fólkið sem þar býr.

Sjómannadagurinn var næstmesta hátíð ársins í Ólafsfirði. Aðeins jólin voru honum fremri. Í tilefni sjómannadagsins birti ég hér Formannsvísur Benedikts Þorkelssonar, barnakennara frá Belgsá í Fnjóskadal. Hann fæddist árið 1850. Ungur veiktist hann illa og gekk ekki heill til skógar eftir það. Hann var barnakennari um fjörutíu ára skeið og þótti góður kennari. Síðari hluta ævi sinnar dvaldi hann á Kvíabekk í Ólafsfirði. Hann lést árið 1931 og hvílir í kirkjugarðinum á Kvíabekk. Formannsvísurnar orti hann árið 1916 um formennina í Ólafsfirði og bátana þeirra.

 

Nú skal ljóða laga söng,

létt þó bjóðist kvæða föng.

Hrinda móði geðs um göng,

gleðja rjóða silkispöng.

 

Þótt hósti leiður Hræsvelgur

og hamist reiðar sævölvur,

út til veiða óragur

Ásgeir leiðir Þorvaldur.

 

Fer um græði gangtamur

Garðar, ræður Þorvaldur.

Sá ei hræðist haföldur,

hygginn bæði og stjórnsamur.

 

Geir, til veiða Þorsteinn þá,

þorska leiðir frónið á.

Aldan reið þótt yggli brá,

afla sneiðir varla hjá.

 

Um keilumóinn kunnugur

kátur Jóhann Friðfinns bur.

Finn á sjóinn framdrífur,

fylginn nóg og kappsamur.

 

Gjálp óhýr þótt gjöri hrekk,

gusum ýri hvergi þekk,

með garpa dýra um geddu bekk,

Gunnar stýrir Óla bekk.

 

Grand ei slórir Guðmundur,

um geddukórinn sókndjarfur.

Hugarstór og harðfengur,

heitir á Þór, ef áliggur.

 

Björn um græði ég sífellt sé

svani flæða hleypandi.

Vinnur bæði frama og fé,

fyrir ræður Önundi.

 

Um nauthvels svæði nákunnur,

Njáli ræður Guðmundur.

Síst hann hræðist særokur,

sagður gæða formaður.

 

Hrönn þótt ýrist inn á knör,

alls óhýr né svipfögur,

áls á mýri óragur,

Axel stýrir Þorlákur.

 

Trönu mýra teigum á

Trausta stýra Jóhann má.

Hefur dýra drengi sá,

dug órýran sýnt er fá.

 

Einar jafn þeim fremstur fer,

ef fengi safn úr bláum ver.

En súða hrafninn sagt er mér,

sæguðs nafnið forna ber.

 

Ljóðin standa lét ég hér,

lítið strandað fleyið er.

Þungan vanda að borði ber,

bragar andinn strauk frá mér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

 innlitskvitt.

Jóna Á. Gísladóttir, 3.6.2007 kl. 01:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband