Hin forsmáða viska

DSC_0080

 

Í kirkjubæn í Handbók íslensku þjóðkirkjunnar er Guð beðinn að veita forystufólki þjóðarinnar „vitsmuni og drengskap“.

Þetta orðalag gæti bent til þess að þau sem settu saman bænina frýi ráðamönnum vits eða hafi efasemdir um gáfnafar þeirra.

Að sjálfsögðu má færa rök fyrir því að heppilegra sé að fólk í mikilvægum ábyrgðarstöðum sé þokkalega vel að sér og hafi að minnsta kosti meðalgreind.

Ekki er þó allt fengið með því að vera klár og upplýstur.

Viskan eða lífsspekin er ekki síður mikilvæg. Hún er fólgin í þekkingu sem nýtist við hin ýmsu vandamál lífsins, tilfinningu fyrir óvissunni í tilverunni og kunnáttu í að takast á við það sem við ráðum ekki alls kostar við.

Alþýðuspeki segir að gamalt fólk búi yfir meiri visku en það yngra. Þess vegna þykir sumum tryggara að leita álits öldunganna áður en veigamiklar ákvarðanir eru teknar.

Sálfræðingar við sálfræðideild Michiganháskóla í Bandaríkjunum hafa rannsakað viskuna og komist að þeirri niðurstöðu að margt bendi til þess að sú skoðun eigi við góð rök að styðjast að menn vaxi að visku eftir því sem þeir verða eldri og lífsreyndari.

Eldra fólki gengur betur að viðurkenna sjónarmið annarra og öðlast yfirsýn yfir samhengi hlutanna. Það er næmara á hugsanlegar breytingar í félagslegum tengslum og getur séð fyrir marga möguleika á því hvert þær geta leitt. Gamla fólkið er fúsara að gera málamiðlanir og hæfara til þess vegna þess að því kann betur en það yngra að setja sig í annarra spor.

Allt þetta gerir það að verkum að eldra fólki er betur treystandi en yngra til að leysa flóknar og viðkvæmar þjóðfélagslegar deilur.

Æskudýrkun var eitt af því sem einkenndi hugarfarið á Íslandi árin fyrir Hrun. Eldri og reyndari bankamenn fundu fyrir því. Þá var ekki í tísku að vera varkár og yfirvegaður.

Ég er ekki viss um að þetta hugarfar hafi mikið breyst. Enn þykir ekki fínt að vera gamall. Það er reyndar orðið svo ófínt að menn forðast að nota orðið. Nú er gamalt fólk „eldri borgarar“ eða jafnvel „fullorðið“. Raddir unga fólksins eiga að fá að heyrast og talað er um að skipta þurfi út gamla liðinu.

Auðvitað þurfum við á snerpu og eldmóði unga fólksins að halda.

Viska öldungsins er okkur þó ekki síður dýrmæt; yfirvegun hans og varkárni, þekking á hinum ýmsu blæbrigðum tilverunnar, óvæntum sem fyrirsjáanlegum og hæfni hans til að lesa og skilja skoðanir sem eru framandi hans eigin.

Ef til vill hafa öldungarnir aldrei verið mikilvægari íslensku þjóðfélagi en núna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Sæll kæri Svavar Alfreð.

Þetta eru orð að sönnu að mestu leyti. Á þessu eru verulegar breytur. Það sést best á Svavari Gestssyni sem gerði eihver mestu mistök í samningagerð sem hugsast getur og hefði sett þessa þjoð á hausinnnæstu 3 kynslóðir. „

Eg má ekki vera að því að hanga yfir þessu“ mun hann hafa sagt „ég er að fara í sumarfrí“ Ekki mikil yfirvegun eða viska fólgin í þeirri gjörð. Ógrátandi get ég ekki nefnt öll axrsköft kollega hans í embætti kommaforingja, jarðfræðinemans, og hvað hann hefur kostað þjóðina mikið í ráðherratíð sinni á síðasta kjörtímabli á axarsköftum sínum og lítilli visku.

Þetta er því ,miður ekki algild regla. Það verður að stíga varlega til jarðar að treysta þeim eldri ekki síður en hinum.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 22.2.2016 kl. 13:26

2 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Takk fyrir þetta. Alveg burtséð frá því hvaða skoðanir menn hafa á umræddri samningsgerð er engan veginn hægt að skilja niðurstöður rannsókna vísindamannanna þannig að eldra fólk geti ekki gert mistök.

Svavar Alfreð Jónsson, 22.2.2016 kl. 15:06

3 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Hárrétt kæri Svavar Alfreð. Var að vekja athygli á undantekningunni frá reglunni. Aðgát skal höfð, eldri er ekki sama og eldri ;)

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 22.2.2016 kl. 15:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband