Þannig hittist á

DSC_0146

Háralag mitt er með þeim hætti að mjög skyndilega myndast aðkallandi þörf fyrir aðgerðir hársnyrtis.

Ekki að ástæðulausu lét rakarinn minn einu sinni svo um mælt að hár mitt síkkaði eiginlega ekki heldur bólgnaði út á mér hausinn.

Nýlega var ég á göngu um borgina Den Haag í Hollandi og átti mér einskis ills von þegar konan mín benti mér á að á örskömmum tíma hefði náð að myndast algjört ófremdarástand uppi á hausnum á mér.

Það varð mér til happs að skömmu síðar gengum við fram á hárgreiðslustofu. Ég gekk þangað inn og á móti mér tók brosandi ungur maður með svart hárið hnýtt í tagl.

Beiddist ég klippingar hjá rakara þessum og var hann meira en fús til verksins.

Þegar ég var sestur í rakarastólinn fórum við að spjalla. Reyndist hárskerinn vera fæddur í Indónesíu enda gaf útlitið þannig uppruna til kynna. Þegar hann komst að því hvaðan ég var þótti honum það frábær tíðindi því hann hafði aldrei haft hendur í hári Íslendings áður – hvernig landkynning sem hárstrýið mitt hefur nú verið.

Leitun er að viðræðubetri mönnum en hárskerum og þessi var stétt sinni ekki til skammar, hvorki að því leyti né öðru. Vildi hann fá að vita eitt og annað um mína hagi og hvað ég væri að gera í Hollandi. Þegar hann komst að því að ég væri að heimsækja börnin mín sem væru þar við nám innti hann mig eftir því hvað þau væru að læra.

Þá kom í ljós, að þannig hittist á, að hann hafði einu sinni verið í sama námi og sonur minn en hætt því þegar hann var hálfnaður.

Það þótti mér skemmtileg tilviljun. Ég spurði hann hvort hann hefði verið í náminu hér í borginni. „Nei,“ svaraði hann „ég var í Frjálsa háskólanum í Amsterdam.“

„En gaman,“ sagði ég, „þannig hittist á að ég var einmitt á fundi í þeim skóla í gær.“

Það þótti okkur báðum skemmtileg tilviljun.

Hárskerinn varð nú forvitinn um tengingar mínar við akademíuna. Ég greindi honum frá því að ég væri guðfræðingur en var dálítið hikandi því sú menntun þykir fremur ófín í sumum kreðsum heima á Íslandi og mætir ýmsum fordómum. Sá beygur minn reyndist ástæðulaus því rakarinn ljómaði allur og sagði:

„En gaman, þannig hittist á að bróðir minn er guðfræðingur og kennir guðfræði við háskóla í Ástralíu.“

Voru nú skemmtilegu tilviljanirnar frekar orðnar að reglu en undantekningum.

Margt fleira skröfuðum við vinirnir þarna á rakarastofunni og komumst að því að við áttum ótalmargt sameiginlegt þrátt fyrir ólíkan uppruna.

Þá uppgötvun gerir fólk gjarnan ef það lítur upp frá símunum og gefur sér tíma til að tala saman.

Mikið var ég glaður að þannig skyldi hittast á að ég þurfti klippingu fyrir framan einmitt þessa rakarastofu.

Þess má geta að á fundi mínum í skólanum var prófessor nokkur sem vildi fá að vita hvar ég væri prestur á Íslandi.

Þegar ég kvaðst þjóna í Akureyrarkirkju sagði prófessorinn mér þá sögu að sumar eitt fyrir mörgum árum hefði hann verið á ferðalagi um Ísland. Hann fékk far frá Ásbyrgi til Akureyrar með elskulegum hjónum.

Hann mundi vel að hún var frá Hong Kong en hann starfaði við kórstjórn í Akureyrarkirkju.

Heimurinn er þó ekki stærri en svo, að þar er stöðugt eitthvað að hittast á.

Myndin er úr útivistarparadísinni í Naustaborgum ofan Akureyrar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband