Alið á ótta og sundrungu

DSC_0167

Í elsta dagblaði landsins birtist í gær leiðari skrifaður í tilefni af fjöldamorðunum í Brüssel nú í vikunni. Þar var athygli lesenda beint að fólki sem á undanförnum misserum hefur leitað skjóls í Evrópu og er á flótta undan samskonar hrottum og myrtu saklausa vegfarendur í Belgíu. Leiðarann mátti skilja þannig, að flóttafólk gæti verið hættulegt.

Margir vilja stækka radíus þess varhugaverða og segja að ekki einungis menn á flótta séu grunsamlegir og hugsanlegir fjöldamorðingjar heldur sé rétt að vera á sérstöku varðbergi þegar fólk sem aðhyllist múhameðstrú er annars vegar. Svokölluð íslamófóbía er landlæg í hinum vestræna heimi. Fjöldamorðin í Brüssel og viðlíka atburðir eru vatn á myllu þess ótta.

Aðrir vilja hafa skilgreininguna á hættulegu fólki enn víðari og halda því fram að vissara sé að vara sig á öllum trúuðum. Á baksíðu dagblaðs sem borið er ókeypis inn á stóran hluta heimila landsmanna birtist í dag pistill þar sem gefið er í skyn, að ekki megi miklu muna, að trúað fólk sprengi sig í loft upp á samkomum vantrúaðra.

Nýlega heyrði ég konu halda því fram í sjónvarpsþætti að ekki væri nóg að hafa varann á sér í návist heittrúaðra. Fólk með hugsjónir og sterkar skoðanir væri til alls líklegt.

Í sama dagblaði og útbreiðir boðskapinn um hugsanleg sprengjutilræði heittrúaðra birtist eftirfarandi frétt:

Hetjudraumar og ævintýraþrá  

Í skýrslu frá evrópsku lögreglustofnuninni Europol frá í janúar síðastliðnum segir að evrópskir hryðjuverkahópar, sem kenna sig við Íslamska ríkið, séu að mestu „heimaræktaðir“ og staðbundnir. Þá segir í skýrslunni að stór hluti þeirra Evrópubúa, sem haldið hafa til liðs við Íslamska ríkið í Sýrlandi eða Írak, hafi áður greinst með geðræn vandamál. Margir þeirra hafi auk þess áður komist í kast við lögin, ýmist fyrir smáglæpi eða stærri afbrot. Þar segir einnig að trúarleg áhrif hafi að stórum hluta vikið fyrir félagslegum þáttum þegar skoðað er hvað hreki einstaklinga út á þessar brautir. Þar skipti jafningjaþrýstingur og félagslegar fyrirmyndir meira máli en trúarlegar pælingar. „Auk þess gætu rómantískar væntingar um að vera þátttakandi í mikilvægum og spennandi atburðum átt hlut að máli,“ segir í skýrslunni. „Sjálfsvígssprengjumenn líta frekar á sig sem hetjur en trúarlega píslarvotta.“

Með öðrum orðum: Hryðjuverkahópar eru heimaræktaðir og engin ástæða til að bendla flóttafólk sérstaklega við þá. Það er heldur engin ástæða til að merkja trúað fólk með aðvörunarmiðum og stilla því upp sem hugsanlegum morðingjum.

Sennilega eru þeir sem breiða út slíka fordóma mun hættulegri en fólkið sem þeir keppast við að jaðarsetja.

Einn tilgangurinn með hryðjuverkunum er að ala á ótta og sundrungu með því að etja saman þjóðfélagshópum; kristnum gegn múslimum, trúuðum gegn vantrúuðum og nýbúum gegn heimamönnum.

Samtökin sem kenna sig við íslamskt ríki hafa lýst ábyrgð sinni á fjöldamorðunum í Brüssel.

Þeir sem útbreiða ótta, magna upp fordóma og æsa upp hatur í kjölfar ódæðanna gætu verið að vinna í þágu sömu samtaka.

 

Myndin: Á göngu minni um Naustaborgir um daginn rakst ég á Tobba, hundinn hans Tinna.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heimaræktuðu hryðjuverkamennirnir virðast vera afkomendur flóttamanna/innflytjenda í annari eða þriðju kynslóð. A.m.k. í Bretlandi skv. þessari athugun.http://www.independent.co.uk/news/uk/politics/radicalised-muslims-in-uk-more-likely-to-be-well-heeled-9754062.html

Mögulega er þarna um aðlögunarvandamál að ræða sem fylgja samslætti ólíkra menningarheima. Islam á erfitt með að samsama sig vestrænum lýðréttindum svo sem hugmyndum um jafnrétti og einstaklingsfrelsi.

Þannig að eftir þessu getur mikill innflutningur fólks sem fylgir islam inn í vestræn samfélög valdið aukinni hættu á hryðjuverkum í næstu kynslóðum á eftir.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 24.3.2016 kl. 15:03

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Tek undir það hjá Bjarna,auk þess sem vitað er og margreynt að Islam gerir kröfur í aðlögunarlandinu og að minnstakosti hér fær það sínu framgengt. Það nær ekki nokkurri átt.

Helga Kristjánsdóttir, 24.3.2016 kl. 22:49

3 Smámynd: Jón Þórhallsson

RÚV-sjónvarp virðist allt vera undirlagt af CAOS-myndefni en ætti raun að vera sá aðili sem ætti að keppast við að koma röð og reglu á landsmálin og á utanríkismálin.

Jón Þórhallsson, 25.3.2016 kl. 11:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband