Þökk gegn græðgi

DSC_0456

Í mörgum af elstu sögnum sem til eru um uppruna heimsins er græðgin talin eiga sinn þátt í að koma af stað þeim vandræðum mannkyns, sem fylgt hafa því frá upphafi; Pandóra opnaði öskjuna sem var full af plágum og böli vegna þess að hún var forvitin, gráðug í að sjá innihaldið og Adam og Eva gátu ekki stillt sig um að fá sér ávöxt af þessu eina tré í aldingarðinum sem þau máttu ekki snerta. Svipaðar hugmyndir um græðgina sem upphafssynd er að finna í elsta bókmenntaverki heimsins, hinni súmersku Gilgamesarkviðu, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Þessar fornu hugmyndir um græðgina sem veigamikinn þátt í eðli mannsins eru frá ólíkum menningarsvæðum og mismunandi tímum. Samkvæmt þeim er mannskepnan þannig úr garði gerð, að hún fær aldrei nóg.

Við erum óseðjandi.  

„Allar ár renna í sjóinn en sjórinn fyllist ekki. Þangað sem árnar renna munu þær ávallt renna. Allt er sístritandi, enginn maður fær því með orðum lýst, augað verður aldrei satt af að sjá og eyrað verður aldrei mett af að heyra,“

stendur í bók Prédikarans.

Neysluhyggja nútímans gerir út á þetta óseðjandi eðli mannsins. Ein forsenda hennar er sú gamla goðsögn, að með því að eignast minnkir þú þarfir þína og seðjir þær. Í nýlegri verðlaunabók sinni orðar tékkneski hagfræðingurinn Tomas Sedlacek það þannig, að fólk trúi því að með því að geta fært hluti úr kassanum „þetta þarf ég“ í kassann „þetta á ég“ sé hægt að minnka í fyrrnefnda kassanum. Sú er ekki raunin. Þvert á móti vaxa þarfir okkar í réttu hlutfalli við aukningu á eignum okkar. Hver fullnægð þörf getur af sér nýja. Það lýsir sé í því að neysla auðugustu ríkja heimsins eykst og eykst. Um leið eru gæði jarðarinnar ekki ótakmörkuð. Þess vegna hefur þessi skefjalausa og sívaxandi neysla í för með sér annars vegar hróplega misskiptingu á gæðum jarðar þar sem aðrir fá meira en nóg en hinir búa við skort. Hin afleiðing hinnar skefjalausu og sívaxandi neyslu er sú, að náttúruauðlindirnar hafa ekki undan við að sjá henni fyrir hráefni. Vistkerfið þolir ekki aðgangshörkuna og mannkynið er á góðri leið með að gera jörðina óbyggilega.

Maðurinn getur farið tvær leiðir til að takast á við þennan vanda. Annars vegar getur hann reynt að stækka kökuna, auka það sem til skiptanna er þannig að allir fái nóg og allir geti sinnt sem flestum þörfum sínum. Þetta er leiðin sem við höfum hingað til reynt að fara. Hún er alls ekki gallalaus og hefur m. a. skelfilegar afleiðingar fyrir vistkerfi jarðar.

Hin leiðin til að takast á við græðgina felst ekki í því að stækka kökuna til að seðja græðgi mannanna, heldur er í henni reynt að minnka eftirspurnina, stilla þörfunum í hóf og koma böndum á þessa eðlislægu og hættulegu græðgi mannanna.

Fyrrnefndur Tomas Sedlacek segir manninn lifa í stöðugri spennu milli þess annars vegar að móta veruleikann sem hann lifir í og hinsvegar þess að vera ánægður með tilvist sína, losa tök sín á henni og njóta hennar eins og hún er. Hvort tveggja sé nauðsynlegt en ef til vill höfum við verið of upptekin af því fyrrnefnda en vanrækt það síðarnefnda. Sedlacek bendir á nauðsyn þess að hlýða boðorðinu um að halda hvíldardaginn heilagan. Bæði maðurinn og vistkerfið hafi þörf fyrir reglulega hvíld.

Græðgin beinir athygli okkar að því sem við höfum ekki, því sem okkur vantar og skortir. Út á það ganga auglýsingar neysluþjóðfélagsins. Þar er daginn út og inn hamrað á öllum þeim ósköpum sem okkur vantar og við getum ekki án verið. Manneskjan í samfélagi neyslunnar er ein stór þarfavera. Mynd hennar er neikvæð, hana skortir svo ótalmargt og þarf svo sárlega að bæta úr því með því að eignast fleira og fá meira.

Þakklætið snýr hugum okkar á hinn bóginn að því sem við höfum. Þess vegna er þökkin náskyld hvíldinni. Sá þakkláti þorir að hvíla í því sem hann hefur. Hann er ekki gerandi, hann er ekki að elta eitthvað á harðaspretti, hann er njótandi. Hann er ekki að mála málverkin eða ramma þau inn, hann er að njóta sýningarinnar og dást að listinni.

Þakklætið er öflugasta mótefnið gegn græðginni.

Myndina tók ég um þarsíðustu helgi á leið minni út í Fossdal, sem er ystur Ólafsfjarðardala, við Hvanndalabjarg. Á henni er Ólafsfjarðarmúli með gamla Múlaveginn ristan í ógurlega klettahöllina en einnig sést inn í Eyjafjörðinn og á Látraströndina handan hans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er sussum satt og rétt, trúlega er græðgin einn af frumkröftunum,sjálf lífsbjargarviðleitnin en komin á villigötur þegar frumþörfum er fullnægt.

Þess vegna kannski varasamt að afneita henni eða reyna að troða í skjóðu og henda.  Miklu fremur að reyna að vinna með hana. Það hefur reyndar verið gert með t.d. spilum og leikjum og getið af sér spila og leikjafíkn náttúrulega. 

En varðandi þakklæti þá er það nú ekki algott fremur en að græðgin sé alslæm.  Í þakklætinu rúmast nefnilega bæði hógværð og hroki.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 30.8.2016 kl. 08:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband