21.5.2017 | 19:48
Pabbi
Jón Viðar Guðlaugsson
Fæddur 29. nóvember 1934 - Dáinn 5. maí 2017
Ég sat við sjúkrarúmið hans pabba og hélt í höndina sem hafði klappað mér á koll og kinnar. Hann tók sinn hinsta andardrátt í bjartri morgunsólinni og djúpur friður breiddist yfir andlitið.
Allt í einu þurfti ég að vera án hans sem hafði verið óbreytanleg stærð í tilvist minni frá því ég fæddist. Brjóst mitt fylltist dökku tómi en á úlnliðnum hans tifaði úrið til marks um að áfram héldi lífið.
Nú þegar svöl næturþoka læðist um göturnar sem við áttum samleið um sit ég einn í birtu ótal ljúfra minninga.
Hann var oft skemmtilega ófeiminn við að tjá skoðanir sínar en ræddi ekki mikið um eigin tilfinningar. Aldrei lét hann okkur systkinin þó efast um að hann elskaði okkur. Sömu vissuna áttu afabörnin hans og langafabörnin. Okkur öllum miðlaði hann rausnarlega af hæfileikunum sem honum voru gefnir, spilaði fyrir okkur á píanóið og sagði okkur skemmtilegar sögur.
Hvað geta synir sagt sem hafa átt slíkan föður? Orð eru vandfundin en tilfinningar mínar eru skýrar: Sorg, söknuður og tómleiki en ekki síður ást og þakklæti fyrir allt sem hann kenndi mér og gaf.
Hann kenndi mér að forðast fals og standa með mér sjálfum. Hann kenndi mér að hnýta bindishnút. Hann kenndi mér að virða kynlegu kvistina og finna skoplegu hliðarnar, jafnvel á nökkvaþungri alvörunni. Hann kenndi mér að raka mig með sköfu. Hann kenndi mér að meta góðar bækur og frjálsa hugsun. Hann kenndi mér að nánast alltaf væri gott veður á Akureyri en ella örstutt í að það batnaði. Hann kenndi mér að sjálfur væri maður sitt mesta aðhlátursefni. Hann kenndi mér að pússa skó. Hann kenndi mér að elska lífið. Hann kenndi mér að oft geta litlir atburðir orðið tilefni mikilla sagna. Hann kenndi mér að Nat King Cole væri besti dægurlagasöngvari allra tíma. Hann kenndi mér að til væri góður Guð.
Hann gaf mér rúm 56 ár af ástúð, uppeldi, uppörvun, umhyggju, vináttu og gleði.
Guð og englarnir geymi pabba.
(Minningargrein sem birtist í Morgunblaðinu á útfarardegi pabba, 19. maí)
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.