16.3.2008 | 12:55
Alveg á móti syndinni
Karl nokkur var orðvar og fámáll. Eitt sinn er hann kom úr kirkju spurði kona hans hvernig honum hefði þótt messan.
"Ágæt," svaraði hann.
"Um hvað talaði presturinn?"
"Syndina."
"Og hvað sagði hann um hana."
"Hann var á móti henni."
Þeir sem á annað borð tala um syndina eru yfirleitt alveg á móti henni.
Við prestarnir líka. Kirkjan er á móti syndinni. Fólk er held ég með það á hreinu.
Spurningin er bara hvernig kirkjan er á móti syndinni.
Sumir vilja meina að veröldinni sé skipt upp í tvö algjörlega aðgreind svið, það veraldlega og það andlega. Kirkjan eigi að halda sér við andlega sviðið en láta öðrum eftir að skipta sér af því veraldlega.
Hvernig starfaði Jesús Kristur?
Hann lét sér ekki nægja að vera á móti syndinni.
Hann læknaði til dæmis sjúka, reisti fallna, mettaði svanga og veitti þeim útskúfuðu von og virðingu.
Kirkja sem hefur Jesú Krist að leiðtoga og fyrirmynd getur því aldrei orðið að rabbklúbbi um eilífðarmálin, einhvers konar sálarrannsóknarfélagi, með lífið handan grafar að sínu eina leyfilega viðfangsefni.
Jesús hafði óþrjótandi áhuga á jarðnesku lífi. Hann átti í stöðugum samskiptum við fólk með alls konar þarfir og vandamál. Hann vildi mæta því þar sem það stóð.
Kirkjan sem vill líkjast meistara sínum hlýtur að láta sig heill mannsins varða, til líkama og sálar. Hún stendur ekki undir nafni og verðskuldar ekki að vera kennd við Krist nema hún skipti sér af því hvernig mannfólkinu reiðir af á jörðinni.
Ef við teljum að kirkjan eigi ekki að hafa áhyggjur af ranglætinu sem viðgengst í kringum okkur, bara til að fá frið til að spjalla um eilífðarmálin, þá erum við komin langt frá þeirri fyrirmynd sem Jesús var.
Og kirkjan á að hafa kjark til að nefna það illa með nafni.
Annars er hún bara á móti syndinni.
Þýski guðfræðingurinn Dietrich Bonhoeffer sagði:
"Kirkja sem er aðeins til fyrir sig sjálfa er ekki lengur nein kirkja."
Athugasemdir
Takk fyrir innleggið! kv. B
Baldur Kristjánsson, 16.3.2008 kl. 20:43
Takk fyrir frábært innlegg! En það stakk mig svolítið að þú skyldir nefna "sálarrannsóknarfélagið"! Lífið eftir þetta líf og viðleitni fólks að skoða það.
Dauðinn er kannski það eina sem við jarðarbúar eigum sameiginlegt og einnig sú staðreynd að við eigum sameiginlegan Skapara, allir sem einn, hvaða nafni sem HANN er nefndur í hinum ólíku löndum.
Sál-fræðingur er ekkert endilega sérfræðingur um hvað sál er. Það er hægt að skemma líkamann, hugann, tilfinningar, en Guð er svo mikill snillingur að hann gaf okkur aldrei þann kraft að skemma sálina sem var sköðuð í hans mynd.
Ég er ákaflega ánægður yfir þeirri ákvörðun Guðs að koma þessu þannig fyrir og láta ekki okkur óvitana, hafa nokkurn kraft að skemma sálina í okkur.
Hún er heilög, ómælanleg, óbrjótandi, og eina leið dauðlegra til að byggja sig upp að nýju, eftir að hafa kannski farið illa með líkama sinn, tilfinningar sínar og huga.
Sál er ekki hægt að skemma hvað sem fólk tekur upp á. það er það sem er svo stórkostlegt við Guð og Jesú staðfesti þetta alltsaman, þó mörgum finnist erfitt að skila þetta.
Að hafa samband við fólk handan grafar, er álíka merkilegt og að hafa samband við fólk í öðrum heimshlutum.
Það eru nú samt svoleiðis, að fólk sem er handan grafar, hefur mest lítin áhuga á okkur hérna megin grafar. það er upptekið af öðrum hlutum og hefur enga ástæðu til að koma á einhverjum fréttaflutningi hvað er að ske þar.
Hver og einn mun hvort eð er finna út úr því sjálfur þegar þeirra tími kemur. Sjálfur hef ég engan áhuga á framliðnum, nema að ég veit stundum af föður mínum í návist minni sem er látinn fyrir mörgum árum. En sú návist er frekar sjaldgæf..
Líst betur á að hafa samneyti við fólk sem ég sé, og lifir lífinu lifandi.
Óskar Arnórsson, 16.3.2008 kl. 21:33
Lífið handan upprisunnar, eftir svefninn í gröfinni, á presturinn væntanlega við ?
Predikarinn - Cacoethes scribendi , 16.3.2008 kl. 23:59
Ég skil það svo sem vel að kristnir menn vilji breiða sína trú yfir hið veraldlega og gera lög guð æðri lögum samfélagsins.
Það þýðir samt ekki að þeir hafi minnsta rétt til þess í nútíma samfélagi, enda er slík samblanda veraldlega og hins andlega það sem geir mörg trúarbrögð svo hættuleg.
Um gjörvalla múslímska heiminn eru fjölmargir menn sem vilja drepa danskan teiknara vegna þess að hann braut lög guðs þegar hann teiknaði spámanninn. Og þó ég ætli ekki að hætta mér út í umræður um samanburð á íslam og kristni að þá verð ég að benda á það að kristnin getur líka verið vafasöm þegar hin kristnu lög eru gerð æðri lögum samfélagsins.
Þeir eru of margir dauðalistarnir yfir fóstureyðingarlækna eða aðra sem brjóta guðs lög að mati bókstafstrúar manna.
Og þó svo að birtingarmyndin sem við á norðurlöndunum sjáum aðallega snúist kannski meira um að koma í veg fyrir að samkynhneigðir fái að gifta sig eða að neita af víga konur til prests, að þá er það samt sem áður rangt og ólöglegt í nútíma samfélagi.
Það geta bara verið ein lög í landinu og það eru landslög. Hverjum og einum er frjálst að setja sjálfum sér þrengri lög og siði
En það hefur engan rétt til þess að setja öðrum lög sinnar trúar.
Ingólfur, 17.3.2008 kl. 11:38
Ég er sammála því að aðeins ein lög geti verið í landinu og enda þótt bent sé á það í þessari færslu að ekki sé nema eðlilegt og sjálfsagt að kirkjan hafi skoðanir á málefnum þessa heims er að sjálfsögðu ekki átt við að löggjafarvaldið sé til hennar fært.
Það er bæði réttur kirkjunnar að tjá slíkar skoðanir og skylda.
Prestsvígsla kvenna er ekki borgaralegt málefni heldur kirkjulegt. Guði sé lof fyrir það að langt er síðan Þjóðkirkjan fór að vígja konur til prestsþjónustu. Nú stefnir í að prestsstarfið verði kvennastarf. Konur hafa um langt skeið verið í meirihluta í guðfræðideild háskólans.
Borgaraleg réttindi samkynhneigðra eru á hinn bóginn borgaraleg málefni, þar með talin lögformleg hjónavígsla. Þjóðkirkjan hefur fagnað auknum borgaralegum réttindum samkynhneigðra og að mínu mati lýst sig reiðubúna að leggja blessun sína yfir slíka sambúð. Þar gengur hún lengra en aðrar kirkjur Norðurlanda - og raunar mörg borgaraleg yfirvöld.
Guðfræði hjónabandsins er á hinn bóginn kirkjulegt málefni og það er spá mín að um hana eigi eftir að ræða mikið á vettvangi kirkjunnar á næstu misserum.
Svavar Alfreð Jónsson, 17.3.2008 kl. 12:30
Mér er reyndar nokk sama um hverja kirkjan vígir sem presta en verð þó að benda á það að þar er samt veraldlegur angi, í það minnsta hjá þjóðkirkjum.
Mig minnir að það sé í Finnlandi þar sem prestar/vígslubiskupar (er því miður ekki alveg með hlutverkin í prestvígslu á hreinu) geta neitað að víga konu til prest ef það stangast á við trúarlega sannfæringu þeirra. Einnig hefur víðar verið andstaða við vígslu kvennpresta á undanförnum áratugum.
Það má vera að þetta sé kirkjulegt málefni en það afsakar samt ekki ef veraldleg lög eru brotin. Mismunun eftir kynferði er bönnuð samkvæmt lögum og á ekki frekar rétt á sér en t.d. mismunun eftir augnlit.
Enda væri líklega kallað á mennina í hvítu sloppunum ef eitthver prestur vildi ekki bláeygða presta vegna þess að fyrstu prestarnir hefðu verið brúneygðir.
Annars er ég sammála því að opin umræða er af hinu góða og þar hafa kirkjunnar menn að sjálfsögðu full málfrelsi.
En orðum fylgir ábyrgð og því vil ég benda á árásir kirkjunnar manna á hendur trúlausum þar sem þeir ýmist saka þá um að vera siðlausa eða að þá vanti kærleikann því hann öðlist þeir aðeins með trú á Jesú. Ekki það að ég vilji banna þessum fulltrúum kirkjunnar að tjá sig, en á meðan aðrir fulltrúar hennar neita þessu ekki harðlega að þá ber hún ábyrgð á svona málflutningi og verður dæmd eftir því.
Ingólfur, 17.3.2008 kl. 13:32
Ég þakka þér fyrir virkilega góða færslu þarna, Svavar! Það eru ekki allir Guðsmenn svo kjarkaðir að nota þessa tegundir af skynsamlegum rökum eins og hægt er að lesa hjá þér.
Nú ert þú búin að sannfæra mig um að þú ert með kjark og sterka réttlætisvitund. Ég lærði einu sinni ráð sem ég því miður gleymt að nota í mörgum málum. Það er svona: "þegar þú veist ekki sarið, ekki hvað þú átt að gera, eða segja, þá er bara að spyrja sjálfan sig svona:
"Hvað myndi Jésu Kristur ráðleggja mér núna?"
Og reynsla mín er að ég fæ ALLTAF skynsamt svar! Gét ég kallað þetta að ég sé bænheyrður Svavar! Hef aldrei hugleitt þetta og þér að þakka að þetta góða gamla ráð skaut upp í kollinnum á mér.
Góður kennari HANN og sonur hans...
Óskar Arnórsson, 17.3.2008 kl. 19:35
Má ég senda þér e-mail Svavar? Geri aldrei svoleiðis nema með leyfi og hikaði ekki við að segja nei, því mér er fullkunnugt um að það er mikil eftirsókn í að tala við presta á þessum síðustu og verstu tímum og það eru margir sem í verri stöðu en ég er í...Veit að þú hefur nóg að gera..
Óskar Arnórsson, 17.3.2008 kl. 19:39
Kæri Óskar, þakka þér enn og aftur fyrir að lesa bloggið mitt og gefa góð komment, bæði þegar þú ert sammála mér og ósammála.
Ég held að vanfundin sé betri og gagnlegri spurning en "hvað myndi Jesús Kristur ráðleggja mér núna" og er sannfærður um að gott svar komi beri maður hana fram í einlægni.
Þér er guðvelkomið að senda mér tölvupóst á svavar@akirkja.is.
Gangi þér vel í öllu þínu!
Svavar Alfreð Jónsson, 17.3.2008 kl. 20:22
Dýrð sé Drottni. Amen.
Aida., 17.3.2008 kl. 23:32
Takk fyrir það Svavar! Ég er orðinn sannfærður að það sé gott að eiga þig að til að leita til, þegar maður lendir í hyldýpinu...er samt af "gamla skólanum" þar sem mér var kennt að sjá um mig sjálfur og að vorkenna mér ekki...hvað sem á dynur..enda trúi ég að það bæti ekki neitt eða lagi...sama hvaða vandamál sem maður er að glíma við...
Virði boð þitt af allri einlægni meðvitaður um að það er engin leið að komast í kring um sannleikan um sjálfan sig...
Óskar Arnórsson, 19.3.2008 kl. 00:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.