20.3.2008 | 11:54
Málfrelsið þá og nú
Ég hef áður skrifað um málfrelsið og hættur þess að setja því mörk.
"Á þessu ári hafa árásir á kirkju og kristnidóm verið tíðari en undanfarin ár og þó einkum miklu svæsnari. Um mörg ár hefir kristindómsárásin farið hámælum erlendis, og vér förum nú einnig að venjast því hér heima. Hve sárt sem það tekur trúaða kristna menn, má engum koma sú heimska í hug, að stemma megi eða stemma eigi stigu við slíku með aðhaldi laganna. Ég hefi orðið var við slíkan hugsunarhátt og finn því ástæðu til að mótmæla honum."
Þetta er finnst mér viturlega mælt. Sá sem skrifar er líklega Þórhallur nokkur Bjarnarson, ritstjóri Kirkjublaðsins - mánaðarrits handa íslenskri alþýðu. Þórhallur heldur áfram:
"Auðvitað hljóta allar svæsnar árásir, og ekki síst séu þær samfara hæðilegum orðum um hið helgasta og dýrasta hjá kristnum mönnum, að særa tilfinningar trúaðra manna, trúarlífið er öllum hið viðkvæmasta, en að mæla þeim mönnum sama mæli með vondum orðum álít ég ókristilegt, og Kirkjublaðið mun aldrei gjöra það, hversu margir sem krefjast..... Kaldyrði og háð kristindómsneitenda álítur Kbl. að beri að þola endurgjaldslaust. En þegar þeir færa rök fyrir skoðunum sínum, eða leitast við að sýna og sanna með ástæðum og rökum, að kristindómurinn sé heimska eða hneyksli, ber að svara ástæðum og röksemdum þeirra og hrekja þær."
Þetta Kirkjublað var útgefið árið 1895. Lítið hefur breyst síðan. Enn eru umræður um málfrelsið. Svæsnar árásir á kristindóminn eru heldur ekkert nýtt - og kynni maður sér þær er inntak árása nútímans svipað og fyrir rúmri öld. Og enn spá menn í það hvernig sé best að svara slíkum áhlaupum og upphlaupum.
Ritstjóri Kirkjublaðsins var framsýnn og reyndar var Kirkjublaðið alveg ótrúlega frjálslynt og á margan hátt róttækt.
Í sömu grein er minnst á hið mikla tabú íslenskrar fjölmiðlunar vorra daga, eignarhald á fjölmiðlum. Þar segir Þórhallur Bjarnarson:
"Málfrelsi og prentfrelsi er hin allradýrmætasta hnoss siðaðra þjóða. Það er hið verulegasta og varanlegasta af öllu því, sem 120 ára frelsisumbrot hafa veitt Evrópu og Ameríku. Hvernig sem sumir kunna með það að fara, er ávinningurinn þúsundfaldur. Án málfrelsis og prentfrelsis er hugsunarfrelsi í raun og veru alls ekki til. Málfrelsi og prentfrelsi er hinn besti og tíðum einasti skjöldur fyrir réttindum og hagsmunum lítilmagnans. Þá fyrst yrði hver þjóð til fulls ánauðug, þrátt fyrir allar stjórnarskrár, ef stjórnarvaldið eða auðvaldið, gæti kúgað eða keypt í sína þjónustu málgögn þjóðarinnar, blöðin, hið daglega sálarfóður almennings."
(Ég tók mjer það bessaleyfi að færa texta Kirkjublaðsins til nútímalegrar stafsetningar. Myndin með færslunni er af Þórhalli, tekin af vef Alþingis.)
ES.
Lesandi sem til þekkir benti mér á að myndin er alls ekki af Þórhalli heldur syni hans, Tryggva. Ekki get ég mótmælt því og hefði ég haft fyrir því að skoða vef Alþingis betur er þar greinilega fram tekið að myndin sé af Tryggva. Þetta leiðréttist hér með og biðst ég fyrirgefningar á ruglinu.
Athugasemdir
Takk fyrir boðið :) Bið að heilsa Svavari Alfreð, var prestur á Ólafsfirði er ég bjó þar. Keyrði mig einu sinni í sjúkrabíl á Akureyri þar sem enginn fannst bílstjórinn á bílinn. Gleymi því aldrei. He, he.
Love Bylgja
Bylgja Hafþórsdóttir, 20.3.2008 kl. 09:26
Sæll Svavar fyrir góðan pistil að venju! Lovaði Bylgju hér að ofan að skila kveðju til þín og nú er það gert. Kóperði hana beint. Mér sýnist þú hafa bjargað þarna manneskju í nauð. Yrð ekki hissa þó þú hefðir bjargað nokkrum mannslífum á lífsleiðinni.
Það er viðkvæmt mál þetta og mikið hitamál um allan heim það sem þú skrifar um. Eiginlega er trú og sannfæring það sama í mínu það sama. Misnotkun á sannfæringarkrafti er eins og að mótmæla sjálfum sér, þ.e. að mótmæla sínum eigin sannfæringarkrafti eða trú.
Ef ég er sannfærður um eitthvað er það ekki það sama og að ég hafi rétt fyrir mér. Sama og ef ég trúí einhverju, er það heldur ekki það sama, að ég hafi rétt fyrir mér heldur.
Ég verð að halda mig við þessa sannfæringu mína að málfrelsi sé af hinu góða, að kærleikur sé það einnig, kannski kærleikur sé á landamærum hinar góðu tilfinningar ástar og hins andlega lífs ódauðleikans í andlegri merkingu. Lengra er ég ekki komin í trúarmálum en þetta. það gefur góða tilfinningu að biðja til Skaparns og sonarins, hvernig svo sem það virkar.
Bara að ég veit það virkar að biðja.
Gleðilega páska til þín og allra sem standa þér næst.
Óskar Arnórsson, 20.3.2008 kl. 15:20
Myndin er að vísu ekki af sr. Þórhalli. En á móti kemur að hún er af syni hans, cand. theol. Tryggva.
Þ. (IP-tala skráð) 22.3.2008 kl. 19:40
Æi.
En ég hef mér það til afsökunar að ég sá hvorki Tryggva né Þórhall. Skal breyta þessu.
Hitt er óafsakanlegt að skoða ekki betur það sem ég birti. Læt mér það að kenningu verða og þakka fyrir ábendinguna.
Gleðilega páska!
Svavar Alfreð Jónsson, 22.3.2008 kl. 21:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.