Lýðræðisleg umræða

DSC_0374 

Kastljós er að byrja. Tveir karlar með hálsbindi sitja við borð andspænis hvor öðrum og stjórnandinn þar á milli. Við fylgjumst með hvernig honum tekst að etja þessum körlum saman. Þeir voru valdir með það fyrir augum að sem gagnstæðust sjónarmið tækjust á. Þá er von á mesta fjörinu, mesta hávaðanum, mestu átökunum og bestu skemmtuninni.

Eftir á að giska fimmtán mínútna hróp og frammíköll karlanna er nóg komið. Stjórnandinn tilkynnir brosandi að lengra verði ekki komist að þessu sinni. Skemmtunin er búin, atinu lokið. Áhorfendur eru engu nær um málið; stundum er maður ekki einu sinni með á hreinu um hvað það snérist í upphafi. Það eina sem maður veit er að annar karlanna var á algjörlega á móti en hinn algjörlega með.

Þessir karlar hafa gefið tóninn um frekari umræðu. Fólk bloggar, skrifar blaðagreinar og skipar sér í aðra hvora fylkinguna, með eða á móti, já eða nei. Hvort sem það samþykkir eða hafnar tekur það þátt í leiknum sem gengur út á hvor sé meiri, hvor hafi rétt fyrir sér og hvor komi sínu fram.

Þannig er umræðuhefðin sem við búum við á þessu landi. Hún er hefð hinna háværu og freku. Hér er ekki til siðs að fólk tali saman. Hér öskrum við hvert á annað. Ef þú ert einhverrar skoðunar er ekki mikilvægast að reyna að tjá hana og færa rök fyrir henni; skítkast í hina sem eru á öndverðri skoðun er miklu brýnna. Fyrsta verkefni umræðunnar er að gera lítið úr þeim sem þú ert að tala við, hrópa þau út í horn og helst út úr herberginu.

Þöggunin er einn skæðasti óvinur lýðræðisins. Þöggun nefnist það andrúmsloft þegar ekki nema sumir þora að taka til máls. Í umræðuhefð hávaða, frekju og pólitísks rétttrúnaðar er mikil hætta á að þeir sem undir högg eiga að sækja og þeir sem aðhyllast undarlegar og óvinsælar skoðanir treysti sér ekki til að taka þátt í umræðunni. Þöggunin átti sinn þátt í Hruninu. Í rannsóknarskýrslu Alþingis kemur fram að samfélagið hafi ekki veitt það aðhald sem þurfti að vera til staðar og formaður rannsóknarnefndarinnar sagði í blaðaviðtali:

„Það var þessi þöggun. Það var veist að fólki."

Í lýðræðisríkjum fær fólk ekki að nota tjáningarfrelsi sitt til að níða æruna af fólki eða bera á það upplognar sakir. Meðal siðaðra manna tíðkast heldur ekki að kalla skoðanaandstæðinga sína ónefnum, svívirða þá og móðga. Í siðuðum lýðræðisþjóðfélögum er ekki venja að veitast að fólki í opinberri umræðu. Slíkar aðferðir eru tæki skoðanaofbeldis og þöggunar.

Við búum ekki við einræði harðstjóra á Íslandi. Ísland er lýðræðisríki, segjum við. Þó temjum við okkur oft aðferðir og viðhorf harðstjóranna þegar við tölum saman. Lýðræðið lifir ekki án lýðræðislegrar umræðu. Þegar sú umræða byggist á þöggun og valdbeitingu er orðið styttra í harðstjórn og einræði en okkur grunar.

Lýðræðisleg umræða hafnar valdinu, hávaðanum, þögguninni og drottnunargirninni. Hún hefur ekki að markmiði að koma sínu í gegn. Tilgangurinn er ekki sá að ég verði mestur en sem minnst sé gert úr viðmælanda mínum.

Lýðræðisleg umræða fer ekki fram með munninum og tungunni. Í henni er eyrað ekki síður mikilvægt. Siðuð umræða felst ekki síður í að hlusta en að tala.

Í umræðu tölum við saman og til þess að tala saman þurfum við að nota munninn.  Oft  ná hugmyndir okkar um umræðu ekki lengra.

Við vitum hvaða þingmenn taka oftast til máls á þingfundum og tala lengst.

Hitt veit enginn hverjir hlusta best þótt það sé mikilvægast.

Umræða byggist aldrei á því að tala. Umræða byggist ekki síður á því að hlusta. Gefa öðrum svigrúm. Örva þá til að segja sitt. Sýna þeim áhuga. Reyna að setja sig í þeirra spor. Sýna þeim virðingu.

Sönn umræða byggist aldrei á því að drottna. Umræðan verður ekki sönn fyrr en hún felst í gagnkvæmri þjónustu hlustunar og virðingar.

Myndin: Það hefur verið vetrarlegt á Akureyri að undanförnu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

þessu er ég svo sannarlega sammála.. tilgangslausar umræður sem skila engu nema ati eins og þú svo réttilega segir.

Óskar Þorkelsson, 13.3.2011 kl. 20:19

2 Smámynd: Óskar Aðalgeir Óskarsson

Kæri Svavar,þetta er lýsandi dæmi um alla umræðu á Íslandi. Þarna er verið að etja saman tveimur hönum. Málið snýst ekki um það,hvað þeir gala.heldur hvor þeirra galar hærra.

Óskar Aðalgeir Óskarsson, 14.3.2011 kl. 10:09

3 identicon

Þessi umræða var einmitt tekin hér á heimilinu í dögun. Og sú blákalda staðreynd að maður hlustar til hálfs, er þá farin að upphugsa svarið sem er auðvitað það eina rétta!

Það er rétt hjá þér við kunnum ekki að tala saman, skiftast á skoðunum alla vega ekki ég..Það er mikið tjón..Eins og það er nú mikil hvíld í því..Takk fyrir pistilinn þinn

Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 14.3.2011 kl. 13:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband