Neitun mín

DSC_0344

Á árunum fyrir Hrun var til siðs að efna til útihátíðar í Akureyrarbæ um verslunarmannahelgina.

Herlegheitin voru kölluð fjölskylduhátíð.

Um verslunarmannahelgina sumarið 2006 voru tvær nauðganir kærðar á fjölskylduhátíðinni. Fjölskyldurnar á hátíðinni skemmtu sér líka við líkamsárásir og skemmdarverk, t. d. á 30 bílum. Upp komu á sjöunda tug fíkniefnamála. Á þriðja hundrað manns leitaði á slysadeild sjúkrahússins. Þangað komu líka hópar ungmenna til að fá hreinar sprautunálar. Unglingarnir tjáðu starfsfólkinu að þeir hefðu á sínum tíma lært að sprauta sig á Akureyri um verslunarmannahelgi. Á fjölskylduhátíðinni ráfuðu börn dauðadrukkin um götur bæjarins. Fíkniefnasalar landsins kölluðu út aukavaktir af dílerum til að nýta það tækifæri til nýliðunar sem fólst í eftirlitslausri og dómgreindarskertri æsku landsins á fjölskylduhátíðinni á Akureyri. Bent var á að ólíkt betra væri að láta nauðga sér þar, inni í bæ, en einhvers staðar úti í sveit. Dauðadrukkinn og útúrdópaður lýður gekk öskrandi um bæinn, mígandi í garðana og skítandi á útidyratröppur hjá fólki.

Þannig gekk þessi fjölskylduhátíð ár eftir ár þrátt fyrir mótmæli og gagnrýni. Hún skyldi haldast óbreytt á meðan menn græddu á henni. Eftirlitsaðilarnir, lögreglan og bæjaryfirvöld, töldu sig ekkert geta gert og báru við að heimildir skorti. 

Loksins þegar kom fram bæjarstjóri sem greip til aðgerða gegn ógeðinu varð hún fyrir grimmilegum árásum. Undirskriftum var safnað til höfuðs henni. Hún átti að segja af sér. Bent var á að 3000 hamborgarar stæðu eftir óseldir.

Ég man eftir viðtali við einn bæjarstjórnarmann á þessum árum sem sagði við mig: „Þú veist ekki við hvaða ofurefli er að etja."

Á þessum árum var valdið  nefnilega í klóm græðginnar og Akureyri um verslunarmannahelgina var Ísland í hnotskurn. Stjórnmálamenn réðu engu. Ekki eftirlitsmenn. Ekki fjölmiðlar. Meira að segja veðurfræðingarnir þorðu varla að spá rigningu þessa helgi af ótta við alla óseldu hamborgarana og önnur öflugri eiturlyf. 

Hér skyldi allt lúta einu valdi. Stjórnmálamenn voru keyptir og heilir stjórnmálaflokkar. Öðrum var hótað öllu illu.

Í bókinni Hversdagshetjur eftir þær Evu Joly og Maríu Malagardis sem út kom í íslenskri þýðingu árið 2009 kemur kollegi minn kaþólskur, Alex Zanotelli, við sögu. Hann bendir á að nú á tímum séu það ekki stjórnir landanna sem hafi hin raunverulegu völd. Zanotelli heldur áfram (bls. 40):

Þau eru í höndum fjármálaheimsins og efnahagsþrýstihópanna sem segja mönnum hvernig þeir eigi að sitja og standa. En þetta er það sem mestu máli skiptir: Það verður að hefja stjórnmálin aftur til vegs og virðingar og ljá þeim kraft á ný til þess að viðskiptaöflin séu ekki allsráðandi og segi kjörnum fulltrúum ekki fyrir verkum.

Mörgum finnst lítið hafa breyst á Íslandi eftir Hrun. Mennirnir sem áttu peningana, fyrirtækin og fjölmiðlana eiga það allt saman enn. Þingmennirnir sem fengu ofurstyrkina og kúlulánin eru enn á þingi. Við erum farin að sjá gamalkunnar tölur um ofurlaun í viðskiptaheiminum. Nú um helgina mátti lesa um það í bresku blaði að tugir milljarða króna hafi verið fluttir úr Landsbankanum gamla rétt fyrir Hrun og runnið til fyrirtækja helstu eigenda hans. Í fréttinni segir ennfremur:

Despite the collapse of Landsbanki, Thor Björgólfsson, now London-based, remains one of the richest men in the world with a fortune estimated at $1bn.

Þjóðinni var leyft að hringla örlítið í pönnum og pottum. Nú er sú útrás búin og best að taka til við þá gömlu á ný. Til þess að hún geti byrjað aftur verður þjóðin að taka á sig vanskilaskuldir elítunnar. Þjóðinni er hótað öllu illu ef hún gefur þeim ekki traust sem brugðust því og greiðir ekki skuldir sem eru ekki hennar.

Bent hefur verið á að þjóðin þurfi að borga ýmislegt fleira vegna Hrunsins en Icesave. Það er vitaskuld rétt. Munurinn er sá að nú um helgina höfum við tækifæri til að segja nei. Og sú neitun snýst í mínum huga um fleira en Icesave:  Ég afneita því fyrirkomulagi sem alltof lengi hefur viðgengist í þessum heimi, þar sem útvaldir fá að græða í friði og grilla um helgar en alþýðan má gjöra svo vel og hirða tapið.

Um verslunarmannahelgina 2006 tjölduðu gestir fjölskylduhátíðarinnar á Akureyri á Þórssvæðinu. Eftir hátíðina voru börn úr vinnuskóla bæjarins send inn á svæðið til að hreinsa það. Þau skriðu um grasið og tíndu upp glerbrot, bjórdósir, notaða smokka og sprautunálar.

Auðvitað var ekki hlustað á þá sem vildu að þeir tækju til sem efnt höfðu til hátíðarinnar og höfðu af henni tekjur.

Þegar foreldrar mótmæltu þessari meðferð á börnum sínum var þeim sagt að vera ekki með neinn æsing; börnin væru með gúmmíhanska.

Ég segi nei. Ég neita því að hreinsa upp eftir gróðabrall einkafyrirtækis og ég neita að láta börn mín og afabörn gera það - með eða án gúmmíhanska.

Myndin: Það vorar

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Ég get ekki neitað að borga launin þín :-(

Matthías Ásgeirsson, 4.4.2011 kl. 11:35

2 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

En þú getur sagt nei við Icesave og um það er ég að skrifa. Höldum okkur við efnið.

Svavar Alfreð Jónsson, 4.4.2011 kl. 11:55

3 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Nei, ég get ekki sagt nei við Icesave. Ég geri mér nefnilega grein fyrir því að hætt er við því að börn mín þurfi að greiða meira ef nei-ið vinnur. Ég reyni að taka málefnalega afstöðu til þessa samnings með hagsmuni barna minni í huga. Ég neita að falla fyrir þjóðrembingi og stolti. Hér gildir kalt hagsmunamat. Samningurinn er góður. Hann er sanngjarn. Hætt er við því að dómstólaleiðin verð löng og dýr fyrir mig, þig og börnin okkar beggja.

Matthías Ásgeirsson, 4.4.2011 kl. 12:54

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Afar flottur pistill, og ég er sammála, með neiinu erum við að senda mikilvæg skilaboð út í heiminn, um að græðgin verði ekki lengur liðinn á Íslandi.  Það er mikilvægasta sem við getum gert.  Takk fyrir þessa færslu.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.4.2011 kl. 17:52

5 identicon

Ég get ekki fengið mig til að láta barnabörnin mín greiða fyrir sukk óreiðupésanna sem komu landinu á hausinn og peningunum undan. Látum kvikindin svara til saka.

Afsakið orðbragðið

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 4.4.2011 kl. 19:03

6 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Þakka þér Svavar Alfreð fyrir ágæt mál.  Mattías Ásgeirsson vildi kannski segja mér hvaða þjóðrembingur það er sem er að pirra hann og svo hvað sé að því að vera stoltur Íslendingur.  Það er ljóslega mismunandi hvernig réttlætiskennd kemur fram hjá fólki. 

Ég veit ekki betur en að flestir séu sammála um það nú orðið að eingin réttlæting liggur að því að okkur beri að greiða Icesave.  Meira að segja hafa forustu menn stjórnarflokkanna viður kennt það, en halda því engu að síður fram að Icesave verði að greiða.  En því lík er ósvífnin að eingin massíf rök eru látin fylgja með, við eigum bara að hlíða.

Hrólfur Þ Hraundal, 4.4.2011 kl. 22:00

7 identicon

Frábær pistill Svavar og nákvæmlega ritað um rót vandans en rökin fyrir að segja nei finnst mér ekki halda, því mér finnst fleira hanga á spýtunni og ekki víst að prinsippin verði ofaná við að segja nei. Best væri að segja nei en ég er svo sannfærður um að málinu ljúki ekki þar að ég er mjög tilbúinn til að segja JÁ.

Rögnvaldur Ingólfsson (IP-tala skráð) 4.4.2011 kl. 22:37

8 Smámynd: Vilborg Eggertsdóttir

~ Algjörlega sammála greinarhöfundi!

Nú fer hina raunverulega umbreyting okkar af stað, því hin þunga undiraldan er að koma upp á yfirborðið, hér sem annarsstaðar á jörðinni.

Kær kveðja, - norður um heiðar.

Vilborg Eggertsdóttir, 5.4.2011 kl. 00:16

9 identicon

Takk fyrir góðan pistil.

Það er deginum ljósara að þessu hörmungarmáli lýkur alls ekki þótt þjóðin segi "Já" - þótt margir virðist halda að það muni gerast (eða af því þeir nenna þessu ekki lengur).

"Dómstólaleiðin" mun að öllum líkindum verða farin með einum eða öðrum hætti á endanum, óháð niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um helgina.

Það sem gerist ef "Já" verður í meirihluta er að við verðum með snöruna um hálsinn næstu ár og jafnvel áratugi - en það mun líklega henta ágætlega þegar kemur að afgreiðslu aðildarumsóknar í ESB (eða þannig).

Ef "Nei" verður í meirihluta má vel vera að við lendum í hlutverki fórnarlambs eineltis enn um sinn - en við munum á sama tíma lýsa því yfir að við látum það hvorki á okkur fá né yfir okkur ganga.

Það er sama hvort við segjum "Já" eða "Nei", óvissan um forsendur núverandi samnings er svo mikil að hún er óásættanleg - og síst minni en ef við segjum "Nei".

Fyrir þá sem eru svo hræddir um að "aðgengi að erlendu fjármagni" verði ekkert ef við segjum "Nei" - þá vísa ég í orð ritstjóra Frjálsrar verslunar (ef ég man rétt). Hann sagði: "peningar fara ekki í fýlu".

Með öðrum orðum, ef efnahagur og rekstur fyrirtækja er í lagi þá geta þau fengið þá fyrirgreiðslu sem þau óska eftir. Öðru máli gegnir um þau fyrirtæki sem standa höllum fæti og skiptir þá Icesave engu máli til eða frá.

Ef við segjum "Nei" og allt fer á versta veg, þá verður það aldrei verra og líklega mun betra en ef við segjum "Já" og allt fer á versta veg. Ef við segjum "Nei" og allt fer á besta veg verður það aldrei verra og líklega betra en ef við segjum "Já" og allt fer á besta veg.

Málið er að svar okkar um helgina verður ekki orsök þess sem á eftir kemur, heldur ræður það afleiðingum þess sem á eftir gerist. Það að segja "Já" útilokar nefninlega ekki að allt fari á versta veg og það að segja "Nei" útilokar ekki að allt fari á besta veg.

TJ (IP-tala skráð) 5.4.2011 kl. 00:49

10 Smámynd: Dagný

Takk kærlega fyrir þennan pistil. Samlýkingin með sukkhátíðinni er svo vel við hæfi. Hittir beint í mark. Megi pistillinn fara sem víðast. Icesave samninginn verður að fella.

Dagný, 5.4.2011 kl. 08:47

11 identicon

Ég sting upp á að þið horfið á viðtal Egils Helgasonar við Lee Bucheit:

http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4544854/2011/04/03/1/

Og þegar þið hafið horft með athygli á ALLT viðtalið skuluð þið spyrja, hverjir voru óreiðumennirnir? Óreiðumennirnir eru íslenskir kjósendur sem kusu stjórnmálamenn sem völdu að reka mjög lint eftirlit með bönkunum. Eftirlitið brást og því fór starfsemi Landsbankans úr böndunum. Við búum við lýðræði og stjórnmálamennirnir sem við kusum bera ábyrgð á því að vafasöm bankaviðskipti voru látin viðgangast. Niðurstaðan er að við sjálf berum ábyrgðina. Við erum óreiðumennirnir margumtöluðu. Vera kann að allir stjórnmálamenn hefðu valið sömu slóð en það breytir því ekki að fólkið sem kosið var rak lélegt eftirlitskerfi og því fór sem fór. 

Ef við segjum nei verður lánshæfismat Íslands í ruslflokki a.m.k. eitt til tvö ár í viðbót. Kannski miklu lengur. Á meðan gerist lítið á Íslandi. Hættan er að gengi krónunnar falli og þá hækka skuldir okkar í útlöndum. Viljum við það?  Trúið þið því virkilega að allt verði gott ef við segjum nei? Hugsið málið burtséð frá öllum stjórnmálaflokkum, einstaklingum eða fyrirtækjum.

Þetta er eins og við hjónin værum alltaf að rífast um það hvort okkar ætti að mála húsið. Hvort okkar ber meiri ábyrgð á því hvað málningin er orðin ljót? Við berum bæði ábyrgð á því að hafa ekki haldið húsinu betur við. Málum húsið saman. Annars grotnar það áfram niður. Leysum málið með Hollendingum og Bretum. Segjum já!

Pétur Halldórsson (IP-tala skráð) 5.4.2011 kl. 10:24

12 identicon

Flottur pistill Svavar.

Pétur: Hvernig má það vera að ábyrgðin falli á almenning? Jú, við kjósum stjórnmálamennina, en er það á mína ábyrgð að þeir skíti uppá bak við sín störf? Er það á mína ábyrgð að þeir séu ekki hæfir um að stjórna eftirlitum? Er það á mína ábyrgð að þeir bara yppa öxlum og segja "sorry, en það er mega díll á borðinu" ?

-NEI, það er ekki á mína ábyrgð. Ég skal taka það á mig að hafa kosið einhverja af þessum mönnum, en ég ætla ekki að taka á mig þeirra ábyrgð í starfi, svo mikið er ljóst. Ef ég hefði eitthvað um það að segja hvernig ríkisstarfsmaður, sem í þessu tilfelli er stjórnmálamaður, skal sinna sínu starfi, gæti ég sennilega tekið fulla ábyrgð á því hvernig fór. Hef ég eitthvað um það að segja? Nei, nefnilega ekki.

Svo ekki segja mér að VIÐ eigum að axla ábyrgðina saman. VIÐ, íslenskur almenningur, erum ekki hjón í vandræðum hvernig húsið á að vera málað eða hvort okkar eigi að mála það.

Aníka Lind (IP-tala skráð) 5.4.2011 kl. 12:11

13 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hvernig getur íslenskur almenningur borið ábyrgð á að hafa kosið yfir sig stjórnvöld undanfarinna ára?  Ef hugsað er til kosningaloforða forsvarsmanna þeirra? Ekki ég ég hef ekki kosið Sjálfstæðisflokkinn eða Samfylkinguna hingað til og mun sennilega aldrei gera.  Ertu ekki að seilast heldur langt í útskýringum Pétur.  Þessi er allavega nýleglri af nálinni en þessi um að við verðum að borga... okkur beri siðferðileg skylda til að borga... eða við vorum svo vond við gamla og fátæka fólkið.... að við neisinnar séum svo heimsk og illa upplýst... Allar þessar fyllyrðingar hafa verið hraktar lið fyrir lið, og nú eruð þið komin aftur í kosningar fyrir áratug síðan.

Ja langt skal seilst til að bjarga Björgólfi og félögum út úr vandræðum sínum, eða er Björgvin Thor ekki einn af tuttugustu ríkustu mönnum heims?  Hvernig væri að hann borgaði sína Icesaveskuld sjálfur?  Við vitum meira að segja hvar þeir eru þeir eru í Money Heaven. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.4.2011 kl. 12:14

14 identicon

Pétur, það er alls ekki sjálfgefið að málinu ljúki þótt þjóðin samþykki þennan samning. Svo líking þín með viðhald hússins sé notuð, þá getur vel verið að einhverjir aðrir komi og sletti tjöru á nýmálað húsið...

TJ (IP-tala skráð) 5.4.2011 kl. 13:04

15 identicon

Mér finnst þetta nokkkuð vandlega rökstutt nei og ber virðingu fyrir því. Ég hef sjálfur hugsað mér að segja já af nokkuð mörgum ástæðum.

Mér finnst t.d. ekki rétt að gerast harður bankakerfispönkari þegar búið er að bæta allar innistæður á íslenskum reikningum hérlendis. Ég er hræddur um að Íslendingar hefðu ekki verið tilbúinir að kyngja rökum nei-sinna þegar bankarnir hrundu: Bætur vegna innistæðna hefðu alfarið ráðist af því hvernig þrotabúin komu út og því litla sem var í Tryggingasjóðnum og ekki skilað sér fyrr en mörgum árum síðar. Margir hefðu tapað nær öllum inneignum í bönkum, auk hlutabréfa, peningamarkaðsbréfa og í of mörgum tilfellum húsnæðinu líka.

Ég er hins vegar alveg sammála því að við þurfum að koma í veg fyrir það sem þegar hefur gerst á Íslandi - að gróði sé einkavæddur en tap þjóðnýtt. Ein leið til þess er evrópska leiðin að binda ábyrgðina við 21 þús. evrur á hverjum reikningi og aldrei meira. Ég veit hins vegar að við hefðum aldrei sætt okkur við þá niðurstöðu haustið 2008 að tíu milljónir á bankareikningi hefðu orðið að tveimur. Er kannski eina leiðin að hafa bankakerfið ríkisrekið?

Sá á kvölina sem á völina. Mögulegt er að rökstyðja málefnalega bæði já og nei, æsingalaust, án þjóðernisrembings og fordóma. Þegar það tekst ber að virða ólíka sjónarmiðið - maður heldur jú bara á sínu eina atkvæði en ekki annarra.

Í lokin langar mig að geta þess að hátíðarhöldin um Versló hafa heldur þróast í rétta átt og vonandi siglum við þann kúrs áfram :)

Þórgnýr Dýrfjörð (IP-tala skráð) 5.4.2011 kl. 13:59

16 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Þakka málefnalega athugasemd, Þórgnýr. Ég leyfi mér að benda á þessa yfirveguðu grein um innistæðukerfi http://www.advice.is/?p=779

Eitt finnst mér líka oft gleymast í umræðunni: Venjulegir Íslendingar áttu ekki mikla peninga afgangs til að leggja inn á bankareikninga. Það var aðeins lítill hluti þjóðarinnar sem átti verulegar eignir þar.  Flestir borgarar þessa lands gerðu varla meira en að eiga fyrir nauðsynjum auk þess að geta kannski borgað af íbúðinni sinni  - en fasteignin er lífeyrir margra. Í hruninu tapaði fjöldi fólks þeirri eign sinni. Fjármagnseigendur fengu sitt bætt, líka þeir sem ávöxtuðu pund sín á hávaxtareikningum, en hinum stendur til boða að fá lánin sín lækkuð "niður" í 110% af andvirði eignarinnar. Þeir sem ekkert áttu, missa það, en hinum er bættur skaðinn. Þannig gerir kerfið hina ríku ríkari en þá fátæku fátækari.

Svavar Alfreð Jónsson, 5.4.2011 kl. 15:44

17 identicon

Ágætis pitstill Svavar og sérstaklega góð ábending hér á undan um þann stóra hluta venjulegu Íslendinga sem áttu ekki mikla peninga afgangs til að leggja inn á bankareikninga.

Anna Margrét Tryggvadóttir (IP-tala skráð) 5.4.2011 kl. 20:40

18 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Ég gerið þá ráð fyrir að þú styðjir að innlendar innstæður íslendinga á Íslandi fari sömu leið...sömu fyrirtæki..sömu menn kollvörpuðu bönkunum á Íslandi.

Það þýðir að aflétta beri neyðarlögunum og kröfuhafar fái allar innstæður íslendinga á Íslandi upp í vanskilaskuldir.

Jón Ingi Cæsarsson, 6.4.2011 kl. 14:05

19 Smámynd: Benedikta E

Heyr - Heyr !

Sameinuð stöndum vér !

Benedikta E, 6.4.2011 kl. 14:23

20 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll Svavar og þið hin. Mikil er trú þín Svavar ef þú heldur að við þurfum ekki að greiða þetta sukk og þrífa eftir það með einum eða öðrum hætti. Öll vorum við á vettvangi og nutum misjafnlega mikils af sukkinu. Allir voru stoltir Íslendingar. Ég held að ávinningur okkar væri að flýta sem mest uppgjörinu á Landsbanka og klára þetta mál frá. Eina sem ég óttaðist í því efni var að það væri smádaður við EU inngönguhugmyndina sem ég er ekki hrifin af.

Ekki lýst mér á för forsetans um erlenda grund um þessar mundir og þó þessi niðurstaða sé hentug fyrir þjóðir sem eru að berjast á svipuðum vettvangi, þá er þetta veikleikamerki á Íslendingum sem viðskiptatækum aðilum. En fíflinu skal á foræðið etja eins og segir einhversstaðar en ég hélt að við hefðum ákveðið á Þjóðfundinum að hætta þjóðrembu og leggja hrokann af. Sumt þarf að gera þó ekki þyki gott. Kveðja Kolla

Kolbrún Stefánsdóttir, 14.4.2011 kl. 10:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband