Lygimál

DSC_0584

Í gær barst mér mikil aufúsusending, Glíman, óháð tímarit um guðfræði og samfélag, sem að þessu sinni fjallar um réttlætiskennd og samfélagssýn. Þar eru áhugaverðar greinar eftir valinkunna fræðimenn. Eina ritar Jón Ólafsson, prófessor í heimspeki og aðstoðarrektor Háskólans á Bifröst.

Grein Jóns nefnist „Sannleikur og lygi". Þar segir hann að enda þótt sannleikurinn sé  grundvallaratriði í mannlegum samskiptum og sannsögli  ein mikilvægasta dyggð samfélagsins séu lygar mikilvægar samskiptaaðferðir.

Í greininni fjallar Jón um fjórar tegundir lyga; klókindi, spuna, launhæðni (íróníu) og ímyndarsköpun. Allar gerðirnar segir hann vera áberandi í stjórnmálum.

„Völuspá á hebresku" nefnist smásaga eftir  Halldór Laxness. Þar tekur spámaðurinn og skáldið Karl Einfer að sér að liðsinna færeyskum barnakennara, Jeggvani nokkrum frá Trangisvogi, sem hafði flækt sig í skuldir í Kaupmannahöfn. Kom Einfer þeim orðrómi af stað að Jeggvan væri við það að fá Nóbelsverðlaunin. Þóttu þau tíðindi það mikil, að blaðamenn voru sendir til Færeyja þar sem Jeggvan átti að hafa kvæði í þúsundavís í kistum uppi á lofti hjá sér.

Jeggvan var spurður hvernig hann hugsaði til Nóbelsverðlaunanna og hann sagði vel, og hvað hann ætlaði að gera við þau og hann sagði að þau mundu „renna inní húsholnínguna", en það þótti mörgum fyllirafti á Norðurlöndum miðlungi skáldlegt svar. Síðan leið framá haustið og Nóbelsverðlaunum var úthlutað - einhverjum miklu verri manni. Og frægð Jeggvans sem fékk ekki Nóbelsverðlaunin féll í gleymsku og dá eingu síður en frægð þess manns sem fékk þau,

segir í sögunni. Áður en það uppgötvaðist hafði Karl Einfer virkjað orðróminn og sannfært peningamenn í Danaveldi um að maður sem ætti von á Nóbelsverðlaunum mætti ekki hafa smáskuldir. Þannig fékk Jeggvan frá Trangisvogi að taka eitt stórt lán til greiðslu hinna smærri.

Þetta er eitt dæmi um vel heppnaðan spuna og mátt orðrómsins.

Stundum er lygin klædd í kjól þagnarinnar. Það kom vel í ljós í nýlegum vitnaleiðslum í Landsdómi að íslensku bankarnir hefðu fallið mun fyrr en haustið 2008 ef sannleikurinn um þá hefði verið sagður.  

Oft spyr maður sig hvort ástæðan fyrir lélegu ástandi á fjármálakerfi heimsins sé kannski sú, að það byggist samsæri þöggunar, blekkinga og lyga?

„Hálfsannleikur oftast er óhrekjandi lygi," segir Stephan G. í frægu kvæði. Hálfsannleikur  er ein tegund þagnarlygi. Þá er sannleikurinn sagður en ekki nema til hálfs. Sennilega er slík lygi ein sú vinsælasta í mannheimum. Þegar menn ljúga vísvitandi er það sjaldnast gert beint heldur á ská, með því að segja ekki söguna alla og þegja um sumt.

Lygar virðast að mörgu leyti viðurkenndar í heimi stjórnmálanna. Þannig heyrast stjórnmálamenn stundum segja að ummæli annarra stjórnmálamanna „séu til heimabrúks". Eftir því sem ég kemst næst þýðir það á mannamáli, að ekkert sé að marka ummælin. Þau séu einungis til að slá ryki í augu samlanda eða samflokksmanna þess sem lét þau falla.

Talsmenn viðskiptalífsins kvarta gjarnan undan því að trúverðugleikinn hafi glatast og kannanir sýna að stjórnmálamenn glíma við sama vanda. Ef til vill er ein stærsta skýringin á þeim skorti sú, að á þeim bæjum báðum hefur verið spilað samkvæmt reglum lyginnar fremur en sannleikans?

Og til að endurheimta trúverðugleikann og traustið, er þá ekki best segja satt og koma heiðarlega fram?

Að lokum er hér tilvitnun í bæklinginn „Understanding Enlargement. The European Union's enlargement policy" sem Evrópusambandið gaf út árið 2007 til að útskýra stækkunarstefnu sína og hvernig sú stefna er framkvæmd. Þar segir á bls. 6:

Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate's adoption, implementation and application of EU rules - some 90,000 pages of them. And these rules (also known as "acquis", French for "that which has been agreed") are not negotiable. For candidates, it is essentially a matter of agreeing on how and when to adopt and implement EU rules and procedures. For the EU, it is important to obtain guarantees on the date and effectiveness of each candidate's implementation of the rules.... Negotiations are conducted individually with each candidate, and the pace depends on each country's progress in meeting the requirements. Candidates consequently have an incentive to implement necessary reforms rapidly and effectively. Some of these reforms require considerable and sometimes difficult transformations of a country's political and economic structures. It is therefore important that governments clearly and convincingly communicate the reasons for these reforms to the citizens of the country. Support from civil society is essential in this process.

Berum ofangreint saman við lýsingu á sama ferli úr grein sem forystumenn ríkisstjórnarinnar, þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, rituðu í Fréttablaðið þann 1. febrúar síðastliðinn:

Enginn þarf að velkjast í vafa um að þjóðin á síðasta orðið um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Samkvæmt ákvörðun meirihluta Alþingis er nú verið að kanna til fullnustu kosti og galla aðildar.

Myndin er úr Svarfaðardal.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjördís Vilhjálmsdóttir

Þetta með lygina á fjölmiðlafólk að vera meira vakandi yfir og læra um þetta og SPYRJA, sem er þeirra hlutverk. 

Að ,,ljúga með staðreyndum"  þurfa þau einnig að kunna betur en þau virðast kunna, þeas okkar góða fjölmiðlafólk.  Og svo væri gott ef hætt væri að taka við tilkynningum frá honum og þessum og birta gagnrýnilsaust sem fréttir.

Sammála um það að sannleikurin er bestur. Vonum að hann fái að láta ljós sitt skína sem fyrst.

Hjördís Vilhjálmsdóttir, 21.3.2012 kl. 00:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband