Hagfræði góðs og ills

DSC_0701

Hinn tékkneski Tomas Sedlacek er einn áhugaverðasti hagfræðingur okkar tíma. Á árunum 2001 - 2003 var hann meðal ráðgjafa Václav Havel, forseta Tékklands, og næstu þrjú árin sinnti hann sömu störfum fyrir tékklenska fjármálaráðuneytið. Hið virta hagfræðirit Yale Economic Review útnefndi Sedlacek einn af fimm heitustu hugsuðunum í hagfræði. Nú starfar hann sem aðalhagfræðingur hins stóra CSOB-banka í Tékklandi og á sæti í efnahagsráði ríkisstjórnarinnar auk þess sem hann kennir við háskóla í Prag.

Árið 2009 sendi Sedlacek frá sér bókina „Hagfræði góðs og ills" sem þýdd hefur verið á margar tungur og hefur víða komist á metsölulista. Leikrit hefur verið skrifað á grundvelli bókarinnar og sett á svið í Prag við miklar vinsældir.

Í 12. tölublaði þýska vikuritsins Der Spiegel frá sem út kom 19. 3. síðastliðinn birtist viðtal við Sedlacek undir yfirskriftinni „Græðgin er upphaf alls". Þessi færsla er byggð á því viðtali.

Elstu sögur mannkynsins fjalla um hversu viðsjárverð græðgin getur verið. Hún er aflgjafi framfara en jafnframt orsök hruns. Það virðist vera okkur mönnunum meðfætt að vera alltaf óánægðir og girnast sífellt meira. Upprunasyndin í garðinum Eden var afleiðing græðgi. Paradís bauð upp á fullkomið líf og gallalaus búsetuskilyrði en það nægði mönnunum ekki. Þau Adam og Eva vildu meira. Þar með hófst saga mannkyns. Græðgin kom henni af stað, segir Sedlacek.

Manninum tekst aldrei að fullnægja græðgi sinni. Hann verður aldrei mettur. Neyslan virkar eins og eiturlyf. Eftirspurnin verður alltaf til staðar. Maðurinn á ekki afurkvæmt í Paradís. Tyler Durden, persóna í kvikmyndinni Fight Club, lýsir þessum örlögum mannsins þannig:

Við förum í vinnu, sem við hötum, til að geta keypt drasl, sem við höfum enga þörf fyrir.

(„Advertising has us chasing cars and clothes, working jobs we hate so we can buy s**t we don't need. ")

Ekki eru nema tvær leiðir til að jafna misræmið á milli löngunar og saðningar, eftirspurnar og framboðs.

Annarsvegar er hægt að auka framboð af gæðum og ennfremur getu neytendanna til að kaupa þau. Það er hin hedóníska leið sem mannkynið hefur valið að fara. Núverandi skuldakreppa segir okkur ef til vill, að lengra verði ekki komist eftir þeirri leið.

Hinsvegar er hægt að fara leið hinna fornu Stóíkera með því að minnka eftirspurnina uns hún samsvarar framboðinu. Sedlacek aðhyllist einskonar „hvíldardagshagfræði". Guð hvíldist á sjöunda deginum. Það gerði hann ekki vegna þess að hann væri þreyttur, heldur sá hann, að það sem hann hafði gert var harla gott. Samkvæmt Gamla testamentinu á ennfremur að hvíla akrana sjöunda hvert ár.  Þar er fyrirfinnst líka svonefnt fagnaðarár. Það rennur upp á 49 ára fresti með einskonar skuldauppgjöf. (Sjá nánar hér.)

Að mati Sedlacek hvílir samfélagið á þremur stoðum:  Siðferði, samkeppni og reglum. Sé siðferðisstoðin veik þarf að auka við reglugerðarstoðina. Eftir fall kommúnismans gáfu mörg ríkjanna í Austur-Evrópu markaðsöflunum lausan tauminn, en komust að því að samfélag, sem byggt er á sjálfselsku án siðferðis, endar í óreiðu og stjórnleysi.

Sú hagfræði sem Sedlacek aðhyllist hefur siðfræðilegan kjarna enda telur hann hverja efnahagslega ákvörðun, t. d. kaup á vöru eða þjónustu, gildishlaðna. Markaðshagkerfi án siðferðis er ávísun á gjöreyðingu.

Krepputímar eru góðir því þeir henta vel til að spyrja réttu spurninganna. Hagfræðin má ekki bara snúast um endalausan vöxt. Í stað þess að vilja stöðuga aukningu á þjóðarframleiðslu ættum við að reyna að lækka skuldirnar. Þegar vel gengur á að leggja fyrir - eins og gert er í sögunni úr Gamla testamentinu um kýrnar sjö feitu og mögru. (Genesis 41)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband