Aulaeldi

DSC_0063


Fréttablaðið er borið ókeypis inn á heimili stórs hluta landsmanna. Pappírinn í Fréttablaðið kostar peninga. Það kostar líka stórfé að prenta blaðið. Blaðið skrifar sig ekki sjálft. Fjöldi fólks vinnur við að fylla það efni og fær kaup fyrir.

Peningarnir sem fara í allt þetta falla ekki af himnum ofan. Þeir koma meðal annars frá fólki sem finnst mikilvægt að Fréttablaðið sé lesið.

Á annarri útsíðu Fréttablaðsins í dag er því slegið upp að Hildur Selma Sigbertsdóttir, yngri systir rapparans Bents, sé vanfær af völdum Davíðs nokkurs Guðbrandssonar. Samkvæmt blaðinu hafa Hildur og Davíð verið par síðan 2008.


Ég efast ekki um að morgunkyrrðin hafi verið rofin með dynjandi húrrahrópum á ófáum þeirra heimila sem eru svo lánsöm að fá Fréttablaðið inn um bréfalúguna árla dags.

Deginum áður var stemmingin önnur og dapurlegri við morgunverðarborð landsmanna þegar þeir settust niður við þau í fullkomnu grandaleysi og virtu fyrir sér sömu útsíðu nýútborins Fréttablaðs.

Spæleggin hafa ábyggilega staðið föst í hálsum margra þegar blaðamenn Fréttablaðsins fluttu þá fregn, að Saga Sigurðardóttir, ljósmyndari, og Erling Egilsson, oftast kenndur við hljómsveitina Steed Lord, væru ekki lengur saman.

Er ekki að efa að mörgum hefur reynst erfitt að ganga út í daginn til verkefna hans í skugga slíkra ótíðinda.

Þá var huggun harmi gegn að í sama blaði er allítarleg umfjöllun um nautaskammrif sem veitingamaðurinn í Texasborgurum í Reykjavík vill ólmur selja svöngum og þurfandi. Skammrif þessi eru elduð samkvæmt „þrautreyndri forskrift frá Texas", borin fram með frönskum, hrásalati og steikarsósu. Öll þessi dýrð fæst á sérstöku kynningarverði fyrst um sinn, kr. 1.890, segir í frétt Fréttablaðsins. Hefur þá brúnin lyfst á mörgum.

Og ekki skemmir litmyndin af sællegum skammrifjahampandi grillmeistaranum sem fréttinni fylgdi.

Þegar um þjóðþrifamál eins og matseðil Texasborgara er að ræða standa blaðamenn Fréttablaðsins vaktina og sofna ekki á verðinum. Nokkrum dögum áður en fjölmiðillinn uppfræddi þjóðina um skammrifin, nánar tiltekið miðvikudaginn 17. júlí, flutti hann sömu þjóð þau tíðindi, að nú gæti hún keypt sér hamborgara úr íslensku lambakjöti á Texasborgurum.

Þetta er nú rannsóknarblaðamennska sem bragð er að.

Lambaborgararnir ásamt meðlæti kosta aðeins 1.390 kr. Þeir eru 140 grömm, bornir fram með djúpsteiktum laukhringjum, grænmeti og hamborgara- og kryddsósu. Meðlætið er franskar og ekta heimalöguð bernaise-sósa,

segir í frétt Fréttablaðsins. Með henni birtist líka falleg mynd af hróðugum veitingamanninum með þessa ljúffengu afurð íslenska fjallalambsins.

Þrátt fyrir ýmsa galla Ríkisútvarpsins er ég svo innilega þakklátur fyrir að hafa fjölmiðil á Íslandi sem ekki hefur þá meðvituðu stefnu að gera þjóðina hægt og bítandi að hálfvitum.

Miðað við þá peninga sem til þess er varið virðist aulaeldi ekki ólífvænleg atvinnugrein.

Myndin er úr Eyjafirði


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Það er hægt að afþakka blaðið. Það er ekki eins og í því felist kvöð að lesa alla auglýsingasnepla sem troðið er inn um bréfalúgur landsmanna á hverjum degi.  En þeir eru auðvitað til, sem sverja fyrir að lesa slúður og léttmeti en gera það samt í laumi.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 25.7.2013 kl. 12:48

2 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Takk fyrir þessa færslu, Svavar Alfreð.

Páll Vilhjálmsson, 25.7.2013 kl. 13:00

3 identicon

Það eru nú þrjú ár síðan ég bað blaðbera Flettiblaðsins um að bera það ekki lengur til mín. Hef ekki misst af neinu þar. Svo er eitt ár síðan ég fékk Moggan minn í ipadinn. Svo stendur á minni póstlúgu: Engan fjölpóst, takk. Þvílíkur léttir þetta er, engin blöð til að henda. Ég afþakkaði svo bláu tunnuna frá mínum bæ, Mosfellsbæ. Ennþá eru Sorpustöðvarnar opnar til að henda eggjabökkum í og einni og einni mjólkurfernu. Svo bíð ég alltaf eftir að bærinn minn kjósi mig umhverfisvænasta bæjarbúann! Í alvöru sagt: sveitafélög eiga að biðja bæjarbúa um að nálgast sín dagblöð á netinu, Flettiblaðið er þar líka og engin ástæða til þess að láta fullfrískt fólk bera þetta heim til sín hvern dag nema maður sé að hugsa um heilsufar blaðberans.

Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 25.7.2013 kl. 22:52

4 Smámynd: Ólafur Als

Fæ nú ekki séð, að lesturinn hafi skaðað þig, Svavar minn. Ótti þinn um lamandi áhrif Fréttablaðsins á hug landsmanna hlýtur að vera stórlega ýktur. Hins vegar geld ég varhug við fjölmargt sem fjölmiðill allra landsmanna ber á borð landans. Sérstaklega í ljósi þess sem þú vísar til að ruv eigi að höfða til ... vitsmuna okkar? Þessi hugsun er í mínum huga mun, mun skaðlegri en nokkur aulagæsla af hálfu einkarekins fjölmiðils.

Kv. frá Noregi

Ólafur Als, 26.7.2013 kl. 06:53

5 Smámynd: K.H.S.

Á lúgunni hjá mér hefur stðið í mörg herrans ár.

Fréttablaðið NEI TAKK

og hefur það dugað til að vera laus við Stephensen og JÁ.

Það er annars ótrúlegt hvað heilaþvottur þessa blaðs hefur haft mikil áhrif. Það er heill hellingur af fréttablaðsuppöldu fólki, sem  hatar Davíð Oddson án þess að hafa hugmind um af hverju. Bara. Bara. er svarið. Eða það endurvarpar  einhverjum utanaflærðum "Hallgrími" ef spurt er af hverju.

K.H.S., 26.7.2013 kl. 11:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband