Íslensk kirkjufóbía

DSC_0140

Sem betur fer munu afdrif kirkju og kristni á Íslandi ekki ráðast af því hvort morgunbænir verði fluttar í Ríkisútvarpinu eða Orð kvöldsins fái náðarsamlegast að lafa þar á dagskránni.

Og-  Guði sé lof - eru þessir dagskrárliðir heldur ekki ein helsta ógnin við velferð, mannréttindi og tjáningarfrelsi á Íslandi - ef þannig má skilja Egil Helgason í pistli sem hann ritaði nýlega á sína Silfursíðu.

Þar hefur Egill mikið til síns máls þegar hann hrósar Þjóðverjum fyrir skynsamleg stjórnmál, siðferðislega vídd í stjórnmálaumræðunni og góða frammistöðu í mannréttindamálum, velferð og frelsi til tjáningar.

Ég efast á hinn bóginn um um að hægt sé að tengja þann árangur Þjóðverja við almennt trúleysi þar í landi og lítið vægi trúarinnar eins og Egill gerir í pistli sínum.

Sannleikurinn er sá að þó að formlega hafi verið skilið á milli ríkis og kirkju í Þýskalandi eru tengsl þeirra aðila á margan hátt mun öflugri en á Íslandi.

Á Íslandi efast menn um réttmæti þess að fara með bænavers í útvarpi landsmanna.

Í Þýskalandi er fjölbreytt trúarlegt efni á dagskrá ríkisfjölmiðla, framleitt í samstarfi fjölmiðlanna og kirknanna. Sunnudagshugvekjan hefur til dæmis verið á dagskrá annarrar helstu ríkisrekinnar sjónvarpsstöðvar Þýskalands, ARD, í sex áratugi, á besta tíma á laugardagskvöldum.

Og það sem meira er: Fulltrúar kirknanna eiga sæti í útvarpsráðum ríkisrekinna ljósvakamiðla.

Báðar stærstu kirkjur Þýskalands taka virkan þátt í samfélagsumræðunni og er sóst eftir áliti þeirra, bæði af fjölmiðlum og opinberum stofnunum. Nefndir á vegum þýska sambandsþingsins eru ófeimnar við að leita ráða hjá kirkjunum t. d. þegar þær fjalla um siðfræðileg álitamál.

Samstarf ríkis og kirkju í Þýskalandi birtist á fleiri sviðum: Kirkjulegir helgidagar njóta stjórnarskrárvarinnar lagaverndar. Fjármálaembætti hins opinbera annast innheimtu á svonefndum kirkjuskatti fyrir kirkjurnar. Þýsku sambandsríkin eiga samstarf við kirkjurnar um menntun þeirra kennara sem veita trúarbragðafræðslu í ríkisreknum skólum. Ríki og kirkjur reka saman stofnanir, m. a. sjúkrahús og meðferðarheimili.

Um þetta má lesa hér

Þýskaland er samt engan veginn teókratía og þar eru menn ófeimnir við að gagnrýna kirkju og kristni. Við sem höfum búið þar vitum að í Þýskalandi er að mörgu leyti fyrirmyndarsamfélag.

Þar virðast til dæmis mun minni fordómar ríkjandi í garð kristinna manna og kirkjulegrar starfsemi en á Íslandi þar sem einn umræðustjóra Ríkisútvarpsins er svo vel upplýstur og pólitískt rétthugsandi að hann setur óskina um morgunbænir og Orð kvöldsins í þjóðarútvarpi í samhengi við klerkastjórnina í Íran.

Myndin er af þingeyskum krækiberjum 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eg vil mikið meira af kristilegum viðburðum í ríkisútvarpið það er eign okkar allra.

hanna kolbrun jonsdottir (IP-tala skráð) 20.8.2014 kl. 15:01

2 identicon

Sæll

Það verður að fyrirgefa Agli. Hallgrímur Helgason segir að hann lesi bara kápuna. Í þjóðfélagsmálunum gerir hann það ekki einu sinni.

Hverning stemmir teorían hans annars við Þýskaland 4. áratugarins? 

Kv.

Einar 

EINAR S. HÁLFDÁNARSON (IP-tala skráð) 20.8.2014 kl. 16:50

3 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Já það er sannarlega tekið mark á kirkjunum erlendis, þar sem þær eru afl og samfélagsþátttakandi. Vildi óska þess að ég hefði heyrt meira frá kirkjunni í efnahagskrísunni, í málefnum innflytjenda, í hræðilegri stöðu mála í mið-austurlöndum og í stríðinu í Sýrlandi. Ekkert heyrist. Þjóðkirkjan er ekki sá þátttakandi í samfélagsumræðunni sem henni ber að vera.

Baldur Gautur Baldursson, 24.8.2014 kl. 13:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband