ESB og andlýðræðið

DSC_0076 

Ein forsenda þess að lýðræðið þrífist er sú að fram fari umræða um hin ýmsu mál sem fólk þarf að taka afstöðu til. Vanda þarf til þeirrar umræðu. Hér á landi byrjar hún gjarnan á því að umræðustjórar, álitsgjafar og fjölmiðlar halda út á vettvanginn með skóflur og skurðgröfur og grafa þar tvær skotgrafir hvora á móti annarri. Síðan er þátttakendum í umræðunni samviskusamlega skipað ofan í aðra hvora þeirra.

Umræðan sjálf samanstendur af uppstyttulítilli skothríð á milli þessara tveggja grafa þar sem varla heyrast orðaskil fyrir byssuhvellum, sprengjugný og öskrum.

Byssur lögreglunnar eru nýjasta dæmið um þessa umræðuómenningu skothríðarinnar þar sem aðeins rúmast tvö sjónarmið, helst sitt til hvorra öfganna. Þegar biskup Íslands lagði sitt til umræðunnar og sagði það sorglegt „að þjóðfélagið skuli vera þannig að lögreglan þurfi að hafa aðgang að byssum“ komu umræðustjórar aðvífandi og hrundu frú Agnesi umsvifalaust ofan í skotgröfina með byssudýrkendunum og ofbeldisseggjunum.

Sjálfir voru þeir flestir ofan í hinni, með þeim sem eru á móti byssum og hverskonar djöfulskap.

Eitt stærsta deilumál síðustu ára, hugsanleg aðild þjóðarinnar að Evrópusambandinu, hefur hlotið svipaða meðhöndlun. Þar eru eiginlega bara tvö sjónarmið:

Annarsvegar eru landsölumenn. Þeir eru á móti Íslendingum.

Hinsvegar eru þjóðrembingar. Þeir eru á móti útlendingum.

Auðvitað er málið ekki svona einfalt. Aðild fylgja bæði kostir og gallar. Það er umræðunni ekki til gagns að stilla henni upp þannig, að þeir sem lýsa yfir efasemdum um aðild Íslands að Evrópusambandinu séu þar með komnir ofan í skotgröfina með einangrunarsinnunum og svonefndum Evrópuandstæðingum.

Þýski eðalkratinn Klaus von Dohnányi, sem bæði hefur verið menntamálaráðherra Þýskalands og borgarstjóri í Hamborg, er mikill og einlægur Evrópusinni. Í nýlegum viðtalsþætti á þýsku sjónvarpsstöðinni ZDF lýsti hann þeirri skoðun sinni, að smæstu stjórnunareiningarnar, t. d. á héraðs- eða sveitarstjórnarstigi, ættu að hafa sem flest mál á sinni könnu. Fólk þyrfti að hafa góða tilfinningu fyrir sínu lýðræðislega heimili.

Það heimili gætu Þjóðverjar ekki fundið í Brussel. Ýmis völd hefðu verið tekin frá fólki og flutt til Evrópusambandsins. Sum þeirra ættu best heima þar en öðrum þyrfti að skila til baka, færa aftur heim í hérað og nær fólkinu. Því miður hefði yfirstjórn Evrópusambandsins takmarkaðan skilning á því. Það væri ein helsta ástæðan fyrir uppgangi þjóðernissinnaðra flokka í Evrópu. Rétta svarið við þeirri uggvænlegu þróun segir von Dohnányi að hugsa upp á nýtt hvernig völdum er skipt á milli Brussel og einstakra aðildarríkja. Grundvallarreglan eigi að vera sú, að það sem best eigi heima á sveitarstjórnar- eða héraðsstigi eigi að fá vera þar. Það gildi augljóslega ekki um baráttuna gegn ebólu eða heimsfjármálin, svo dæmi séu tekin en Von Dohnányi segir að t. d. David Cameron hafi á réttu að standa um að ESB verði að skila Bretum völdum til baka. Von Dohnányi bendir líka á að hollenska ríkisstjórnin hafi farið fram á svipaða valdaeftirgjöf frá ESB í 54 liðum. Þjóðríkin séu grundvallareining í ríkjasambandi eins og ESB og sumt sé best að ákvarða á vettvangi þeirra.

Í þættinum var rætt um möguleikann á heimi án sjálfstæðra þjóðríkja sem lyti einni alheimsstjórn. Mörgum finnst það eftirsóknarvert fyrirkomulag. Von Dohányi kvaðst ekki vera einn af þeim. Hann benti á að rödd Þýskalands yrði veik á slíku allsherjarþingi. 

Þar eru á ferðinni sömu rök og maður heyrir oft um vægi Íslands á þingi Evrópusambandsins.

Í þættinum kom fram að sé almenningur í Þýskalandi ósáttur við eitthvað sem ESB samþykkir þurfi að fara til Brussel til að mótmæla. Ekki nægi að mótmæla í höfuðborg sinni. Þannig verði lýðræðið fjarlægara fólki og erfiðara fyrir það að nýta sér rétt sinn til mótmæla. Það sem samþykkt hefur verið á vettvangi ESB hefur af þeim sökum tilhneigingu til að meitlast í stein og vera nánast óbreytanlegt. Það getur leitt til stöðnunar.

Don Dohnányi hefur lengi haft áhuga á nýjum samskiptamöguleikum og meðal annars kynnt sér kenningar hins kunna kanadíska fjölmiðla- og bókmenntafræðings Marshall McLuhan sem fyrstur manna notaði hugtakið „heimsþorp“ (global village). Von Dohnányi sagði að enda þótt menn geti eignast vini á facebook og verið í öflugri samskiptum við þá en þann sem býr í næstu íbúð, þurfi fólk að finna að það geti haft áhrif á umhverfi sitt og aðstæður. Hann efast um að fólk sé tilbúið að afsala sér þeim möguleikum og afhenda þá einhverju fjarlægu valdi sem það er ekki í neinum tengslum við. Mörgum finnist Evrópa of stór að þessu leyti.

Í lok þáttarins var Von Dohnanyi spurður að því hvort þjóðríkið yrði ennþá til eftir 50 ár.

Svarið var laggott:

Já.

Myndin er tekin upp Glerárdalinn á öðrum degi vetrar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband