Fjölgun í kirkjunni?

DSC_0393

Við tölum stundum óvirðulega um kerfi. Kerfiskallar fara í taugarnar á okkur. Kerfi eru þunglamaleg skriffinnska. Hugsandi menn eru á móti kerfinu.

Kerfin eru í sjálfum sér ekki slæm. Stofnanir eru til dæmis kerfi sett saman til að mæta ákveðnum þörfum mannsins. Sum hafa dugað ágætlega og þjónað manninum vel.

Sagan sýnir að iðulega kúplast kerfin frá þessum tilgangi sínum að þjóna manninum og fara að snúast um eitthvað allt annað. Stundum starfa kerfin þannig að þau hafa ekkert annað markmið en að viðhalda sér sjálfum.

Stjórnmálaflokkar eru kerfi í þágu ákveðinna hugsjóna. Þeir verða oft að tækjum í þágu ákveðinna sérhagsmunahópa.

Fjölmiðlar eiga að upplýsa almenning og vera liður í lýðræðisumræðu. Þeir verða í sívaxandi mæli málpípur auðmanna.

Nýlega las ég að Þjóðkirkjan hefði skipað starfshóp sem koma á með tillögur um hvernig fjölga megi í kirkjunni.

Þjóðkirkjan hefur ýmis hlutverk. Henni ætlað að vera boðberi ákveðinna viðhorfa. Hún vinnur að því að afla þeim fylgis. Hún vill fjölga lærisveinum Jesú Krists.

Ég efast um að það eigi að vera sérstakt verkefni Þjóðkirkjunnar að fjölga þeim sem haga sinni skráningu hjá Þjóðskrá Íslands þannig, að þeir tilheyri trúfélaginu Þjóðkirkja Íslands.

Það gæti borið vott um að Þjóðkirkjan sé stofnun sem lítur á það sem eitt sitt helsta hlutverk að viðhalda sjálfri sér.

Nær væri að Þjóðkirkjan kappkostaði að rækja raunverulegt hlutverk sitt eins vel og henni er unnt og legði sig fram við að vera sönn og trú köllun sinni.

Það gæti hugsanlega haft þá gleðilegu hliðarverkun að skráningum í trúfélagið Þjóðkirkjan hjá Þjóðskrá Íslands fjölgaði.

Hagi kirkjan sér eins og hver önnur búlla óttast ég að þá muni þeim fækka sem treysta kirkjunni og kæra sig um að tilheyra henni formlega.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband