Um sóknargjöld

DSC_0357

Í Fréttablaði dagsins er hækkun sóknargjalda sögð meðal þess í nýframkomnu fjárlagafrumvarpi sem er neikvætt fyrir heimilisbókhald landsmanna.

Sú framsetning blaðsins getur verið villandi. Þessi svokallaða hækkun sóknargjalda hefur ekki í för með sér aukna greiðslubyrði fyrir heimilin í landinu. Ríkið innheimtir og hefur innheimt þetta gjald af öllum 16 ára og eldri. Eftir Hrun hefur ríkið ekki skilað nema hluta af því til viðkomandi trú- eða lífsskoðunarfélags. Þessi svonefnda hækkun er leiðrétting á hluta þeirrar skekkju.

Þetta er ekki í eina og fyrsta skiptið sem fjölmiðlar gefa ónákvæmar upplýsingar um sóknargjöld og fjármögnun Þjóðkirkjunnar og annarra trú- og lífsskoðunarfélaga á Íslandi.

Þótt náið samband sé á milli ríkis og kirkju hér á landi eins og hefð er fyrir á Norðurlöndum er Þjóðkirkjan sjálfstætt trúfélag samkvæmt lögum og nýtur sjálfræðis gagnvart ríkisvaldinu. Í stjórnarskrá eru ákvæði um að ríkinu beri að styðja og vernda Þjóðkirkjuna. Þar er á hinn bóginn ekki kveðið á um að ríkið eigi að fjármagna starf kirkjunnar. Sá misskilningur virðist útbreiddur að svo sé.

Starfið í sóknum landsins er einkum fjármagnað með sóknargjöldum sem eru nefnd eftir þeim tilgangi sínum. Upphaflega voru sóknargjöldin hugsuð sem félagsgjöld. Lengi sáu sóknirnar sjálfar um að innheimta þau.

Árið 1985 voru gerðar breytingar á lögum um sóknargjöld. Þá gátu sóknarnefndirnar ráðið hvort þær rukkuðu sjálfar inn sóknargjöldin eða fólu innheimtustofnunum viðkomandi sveitarfélaga þá aðgerð.

Þegar staðgreiðslukerfi skatta var innleitt árið 1987 urðu aftur breytingar á sóknargjöldum. Þá hætti sóknarfólk að greiða beint til sókna sinna heldur fengu Þjóðkirkjan, önnur trúfélög og síðar lífsskoðunarfélög hlutdeild í þeim nýja tekjuskatti sem til varð með tilkomu staðgreiðslukerfisins. Var skatturinn hækkaður sem nam þeirri hlutdeild.

Einn tilgangur hins nýja fyrirkomulags á sóknargjöldunum var að tryggja að kirkjan héldi tekjustofnum sínum óskertum.

Nú er fyrirkomulagið þannig að allir landsmenn 16 ára og eldri greiða sóknargjald með sköttum sínum. Ríkið sér um að skila gjaldinu til þeirra trú- og lífsskoðunarfélaga sem viðkomandi er skráður í.

Þjóðkirkjan sem slík fær ekki sóknargjöldin heldur sóknir Þjóðkirkjunnar. Þannig skilar ríkið minni sókn, Akureyrarsókn, þeim sóknargjöldum sem það hefur innheimt af skráðum Þjóðkirkjumeðlimum í sókninni 16 ára og eldri.

Nú þegar vetrarstarfið í kirkjum landsins er að fara af stað er tilefni til að minna á að það er fjármagnað með sóknargjöldum sóknarbarnanna. Tónlistarstarfið, barnastarfið og annað sem fram fer í kirkjum landsins væri óhugsandi án þess framlags meðlima viðkomandi sókna. Sóknargjöldin gera sóknarnefndunum kleift að halda við kirkjuhúsunum og tryggja að þær séu viðeigandi umgjarðir um merkileg tímamót í lífi sóknarbarnanna svo dæmi séu tekin um það sem sóknargjöldin eru notuð í.

Þau sem vilja fá nánari upplýsingar um fjármál sóknanna er bent á ársreikninga þeirra. Þeir eiga að vera opinber gögn og öllum aðgengilegir.

Myndin er tekin af Þingmannahnjúk á Vaðlaheiði


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Karl

Það er rétt hjá þér að hækkun sóknargjalda snertir ekki heimilisbókhald neins. Framsetning Fréttablaðsins er beinlínis röng.

Það er hins vegar ekki rétt sem þú segir að ríkið innheimti rsóknargjald af öllum 16 ára og eldri. Ríkið innheimtir ekki sóknargjald af neinum.

Ríkið innheimtir tekjuskatt, prósentu af launum, eins og við þekkjum, og rennur sá skattur í ríkissjóð. Svo greiðir ríkið sóknargjald til skráðra trúfélaga og Siðmenntar, fyrir skráða félagsmenn þessara félaga 16 ára og eldri. Það er alveg óháð því hvort viðkomandi félagar greiði einhvern tekjuskatt eða ekki. Og þeir sem eru ekki skráðir í neitt trúfélag eða lífsskoðunarfélag greiða alveg sama tekjuskatt og trúfélagaskráðir.

Ríkið inheimtir útvarpsgjald, sem er nefskattur, og gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra. En ríkið innheimtir EKKI sóknargjald.

Einar Karl, 9.9.2015 kl. 19:22

2 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Þakka þér athugasemdina, Einar Karl.

Ég bendi á að lög nr.91/1987 heita lög um sóknargjöld. Þessi lög fjalla um það hvernig sóknargjöldin eru reiknuð út og innheimt. Sóknargjöldin eru ákveðin hlutdeild í tekjuskatti sem ríkið innheimtir og skilar til viðkomandi trú- eða lífsskoðunarfélags. Þetta er nú að mínu mati ekki erfitt að skilja.

Fyrsta grein nefndra laga hljóðar:

Þjóðkirkjusöfnuðir og skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög samkvæmt lögum um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög skulu eiga ákveðna hlutdeild í tekjuskatti álögðum samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt eftir því sem lög þessi ákveða.

Þessi hlutdeild nefnist sóknargjald og að ajálfsögðu er það ríkið sem innheimtir það. Sjö sinnum er talað um ,,gjaldið" í lögunum og ég tel ekki nokkurn vafa leika á að þar sé átt við sóknargjald.

Með bestu kveðju,

Svavar Alfreð Jónsson, 9.9.2015 kl. 19:52

3 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Hér má skoða nefnd lög:

http://www.althingi.is/lagas/nuna/1987091.html

Svavar Alfreð Jónsson, 9.9.2015 kl. 19:53

4 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Svavar, þú segir að ríkið hafi bara skilað hluta af því sem það innheimtir af fólki. Hvar telur þú þig sjá hve háa upphæð ríkið innheimtir af fólki? Því að eina talan sem er nefnd er í lögunum er upphæðin sem ríkið borgar til trúfélaga.

>"Þótt náið samband sé á milli ríkis og kirkju hér á landi eins og hefð er fyrir á Norðurlöndum er Þjóðkirkjan sjálfstætt trúfélag samkvæmt lögum og nýtur sjálfræðis gagnvart ríkisvaldinu."

Þú ættir að lesa greinar Hjalta Hugasonar í tveimur nýjustu heftum ritraðar guðfræðistofnunar. Hann fer vel yfir það hvers vegna ríkiskirkjan er ekki sjálfstætt trúfélag. Sem dæmi má benda á að Alþingi setur ítarleg lög um starfsemi Þjóðkirkjunnar og svo getur Þjóðkirkjan ekki einu sinni breytt grundvallartrúarkenningum sínum. 

Hjalti Rúnar Ómarsson, 9.9.2015 kl. 20:18

5 Smámynd: Einar Karl

Sæll Svavar.

Jú ég þekki lögin vel :)

Ég fellst alveg á að Þjóðkirkjan eigi rétt á að fá þetta sóknargjald, sem var "fellt inn" í tekjuskattinn á sínum tíma.  En sóknargjald er samt sem áður alls ekki innheimt SEM SLÍKT.

Auðvitað á að breyta þessu fyrirkomulagi, en þá á samhliða að LÆKKA tekjuskattinn svo að heildar-innheimtur tekjuskattur lækki sem nemi sóknargjöldum.

Þetta núverandi fyrirkomulag er ótækt. Á það hefur m.a. Mannréttindanefnd SÞ bent á, í úttektum sínum á stöðu mannréttinda á Íslandi. Í lauslegri þýðinu minni sagði nefndin árið 2013:

„Nefndin hefur áhyggjur af því að ríkið leggi kirkjuskatt á þegna, óháð því hvort þeir séu skráðir í trúfélag…Ríkisvaldið ætti að gera ráðstafanir til að tryggja að kirkjuskatturinn sé ekki álagður án tillits til trúfélagaaðildar.“

Meira um þetta hér:

http://www.visir.is/rikid-innheimtir-ekki-soknargjold/article/2013708089963

Einar Karl, 9.9.2015 kl. 20:34

6 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Sæll, Hjalti og þakka þér fyrir álit þitt.

Í lögum um sóknargjöld 91/1987 kemur fram hver upphæð gjaldsins skuli vera og hvernig skuli reikna hana út í framtíðinni. Þar segir í 2. grein:

"Á árinu 1997 skal gjaldið vera 400,24 kr. á einstakling á mánuði.... Á árinu [1998]3) og síðar ákvarðast gjaldið af endanlegri ákvörðun gjaldsins frá fyrra ári, að viðbættri hækkun er samsvarar þeirri hækkun er kann að verða á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga á öllu landinu milli næstliðinna tekjuára á undan gjaldári.

 Nú verða gerðar breytingar á útreikningi tekjuskattsstofns og skal þá taka tillit til þess við ákvörðun gjaldsins hverju sinni.

 Hækkun á gjaldi samkvæmt þessari grein skal ákvarðast af [ráðherra]4) í samræmi við upplýsingar frá ríkisskattstjóra …5) eigi síðar en 1. ágúst ár hvert. Þar til ákvörðun þessi liggur fyrir skal ráðherra ákveða uppígreiðslu gjaldsins fyrir mánuðina janúar til júlí ár hvert á grundvelli spár um tekjuþróun tveggja næstliðinna ára"

Ég hef lesið ágætar greinar nafna þíns Hugasonar og geri mér grein fyrir að Þjóðkirkjan á Ísland á í nánum tengslum við ríkisvaldið eins og hefð er fyrir á Norðurlöndum. Þessi tengsl gera kirkjuna háða ríkinu. Þau geta að sjálfsögðu skert sjálfstæði hennar enda finnst mér ekki nema eðlilegt að menn ræði breytingar á sambandi ríkis og kirkju. Kirkjan er heldur ekki sjálfstæð að því leyti að hún sé óháð trúarsetningum sínum eða köllun - ekki frekar en önnur samtök manna sem starfa samkvæmt ákveðnum hugsjónum. Þetta breytir því þó ekki að samkvæmt lögum (nr. 78/1997) er Þjóðkirkjan sjálfstætt trúfélag og í sömu lögum er tekið fram að Þjóðkirkjan "njóti sjálfræðis gagnvart ríkisvaldinu innan lögmæltra marka" eins og það er orðað.

Svavar Alfreð Jónsson, 9.9.2015 kl. 20:37

7 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

>"Í lögum um sóknargjöld 91/1987 kemur fram hver upphæð gjaldsins skuli vera og hvernig skuli reikna hana út í framtíðinni."

Þessi upphæð þarna er sú upphæð sem ríkið borgar til trúfélaga fyrir hvern skráðan einstakling og ríkið hefur skilað 100% af þessari upphæð "gjaldsins" í gegnum árin. 

>"Þetta breytir því þó ekki að samkvæmt lögum (nr. 78/1997) er Þjóðkirkjan sjálfstætt trúfélag og í sömu lögum er tekið fram að Þjóðkirkjan "njóti sjálfræðis gagnvart ríkisvaldinu innan lögmæltra marka" eins og það er orðað."

Það er sagt í lögunum að Þjóðkirkjan sé "sjálfstætt trúfélag", en reyndin er klárlega önnur. Það er undarlegt "sjálfstætt trúfélag" sem getur ekki einu sinni ákveðið sínar eigin trúarkenningar. 

Hjalti Rúnar Ómarsson, 9.9.2015 kl. 20:54

8 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Þakka þér enn og aftir, Einar Karl.

Það er rétt að innheimta sóknargjaldsins hefur tekið allnokkrum breytingum í tímans rás eins og fram kemur í pistlinum hér að ofan. Nú er sá háttur hafður á að sóknargjaldið er innheimt sem hlutdeild í tekjuskatti og ekki t. d. sendir út sérstakir greiðsluseðlar því til innheimtu. Mér fyndist það í takt við góða stjórnsýslu að gera með einhverjum hætti hverju sinni upphæð þessarar hlutdeildar sem sóknargjaldið er sýnilegri skattgreiðendum. Ég er líka sammála þér um að óeðlilegt sé að innheimta sóknargjöld af þeim sem standa utan trúar- og lífsskoðunarfélaga því sóknargjöldin eru hugsuð í þeirra þágu og til þeirra nota. Í Þýskalandi eru engin stjórnarskránbundin tengsl á milli ríkis og kirkju en þó innheimtir hið opinbera kirkjuskatt fyrir kirkjurnar. Hann er þó einungis innheimntur af þeim sem eru meðlimir kirknanna.

Bestu kveðjur,

Svavar Alfreð Jónsson, 9.9.2015 kl. 21:05

9 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Takk fyrir það, Hjalti, en menn greinir jú á um hvort ríkið hafi staðið skil á þessu gjaldi 100% til trú- og lífssskoðunarfélaganna.

Vilji Þjóðkirkjan halda áfram að vera evangelísk-lúthersk verður hún að halda sig við ákveðnar trúarlegar kenningar og játningar - alveg eins og Samfylkingin verður að aðhyllast ákveðnar pólitískar hugsjónir og stefnu vilji hún halda áfram að vera sósíaldemókratískur stjórnmálaflokkur - og er þá samkvæmt þínum röksemdum undarlegur sjálfstæður stjórnmálaflokkur.

Bestu kveðjur, 

Svavar Alfreð Jónsson, 9.9.2015 kl. 21:19

10 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

>"Takk fyrir það, Hjalti, en menn greinir jú á um hvort ríkið hafi staðið skil á þessu gjaldi 100% til trú- og lífssskoðunarfélaganna."

Málið er að þeir sem halda því fram að ríkið hafi ekki skilað gjaldinu 100% geta ekki bent á neitt. Ríkið hefur einfaldlega lækkað hlutdeildina og skilar því 100%

Meðlimir Samfylkingarinnar gætu ákveðið að breyta lögum flokksins og gert flokkin að kommúnistaflokki, anarkó-kapítalistaflokki eða hvað svo sem þeir vilja, enda sjálfstæður stjórnmálaflokkur.

Annað gildir um ríkiskirkjuna. Trú hennar er ákveðin með lögum. Ef meðlimir hennar vildu breyta trúfélaginu í kaþólskt trúfélag, kalvínískt eða jafnvel múslímskt, þá gætu þeir það ekki. 

Þjóðkirkjan býr ekki við trúfrelsi. Sannarlega undarlegt sjálfstætt trúfélag.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 9.9.2015 kl. 21:45

11 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson


Líklega verðum við seint sammála um þetta.

Í áliti nefndar frá 2010 sem þáverandi innanríkisráðherra skipaði til að skoða niðurskurð á fjárveitingum til Þjóðkirkjunnar segir:

,,Í áfangaskýrslunni kom fram að framlög á fjárlögum til Þjóðkirkjunnar eru í meginatriðum af tvennum toga, þ.e. þau byggja í fyrsta lagi á samkomulagi ríkisins og þjóðkirkjunnar frá 1997 um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna Þjóðkirkjunnar. Í öðru lagi byggja framlög fjárlaga á gildandi lögum nr. 91/1987 um sóknargjöld o.fl. Megintekjustofnar Þjóðkirkjunnar af fjárlögum væru annars vegar greiðsla fyrir eignir sem Þjóðkirkjan afsalaði til ríkissjóðs, og hins vegar skil á félagsgjaldi sem ríkið tók að sér að innheimta og var árið 1987 umreiknað í tiltekið hlutfall tekjuskatts. Þá kom fram að frá og með fjárlögum 2009 hafi báðir ofangreindir tekjustofnar Þjóðkirkjunnar verið skertir. Framlögin samkvæmt samkomulaginu frá 1997 hafi verið lækkuð „.....til samræmis við almennan niðurskurð á flestum sviðum ríkisins“ eins og segi í árlegu viðbótarsamkomulagi þar sem tilgreint hefur verið hver lækkunin sé það árið og hver uppsöfnuð heildarlækkun sé orðin. Einnig kom fram að framlögin sem byggja á sóknargjaldinu hafi áður verið verðtryggð með því að þau voru tiltekið hlutfall tekjuskattstofns. Því hafi ekki þurft að verðbæta þau sérstaklega í fjárlagafrumvarpinu. Í ákvæði frumvarps til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum um upphæð sóknargjalds hafi þess ekki verið gætt að verðbæta sóknargjaldið til að gætt væri jafnræðis við aðra aðila sem byggja rekstur sinn á framlögum fjárlaga. Vegna þessa hafi sóknargjald því lækkað um nálægt 25% umfram framlög til reksturs annarra aðila sem sætt hafi skerðingu til samræmis við almennan niðurskurð frá fjárlögum ársins 2008."

Það segir sig held ég sjálft að ef kristinni kirkju yrði breytt í múslimskt trúfélag væri sú kirkja ekki lengur kristin og heldur ekki kirkja, alveg sama hvaða kirkja ætti í hlut. Félög - hvort sem um er að ræða trúfélög eða önnur félög - eru yfirleitt stofnuð utan um einhvern málstað eða í þágu tiltekinna hagsmuna. Það bindur vissulega félögin, markar þeim ákveðna stefnu og skerðir þannig frelsi þeirra ef maður vill líta þannig á málið. 

Þakka þér svo enn og aftur fyrir skoðanaskiptin,

Svavar Alfreð Jónsson, 9.9.2015 kl. 22:23

12 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Hér má lesa nefndarálitið sem ég vísaði til:

http://www.innanrikisraduneyti.is/media/frettir-2012/skyrsla-kirkjunefndar-til-radherra.pdf

Svavar Alfreð Jónsson, 9.9.2015 kl. 22:25

13 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Sóknargjöld hafa verið skert undanfarin ár. Ég held að engin mótmæli því (það er ekki jafn mikið minnst á að þau höfðu hækkað svakalega árin áður).

Ég er ekki bara að tala um að það að félag hafi ákveðna stefnu skerði frelsi félagsins. Þjóðkirkjan **getur** ekki breytt trú sinni í grundvallaratriðum (t.d. gerst kaþólsk). Þjóðkirkjan hefur hvorki kenninga- né trúfrelsi. Ólíkt sjálfstæðum trúfélögum. 

Hjalti Rúnar Ómarsson, 9.9.2015 kl. 23:56

14 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Heill og sæll, Hjalti. Nú veit ég ekki alveg hvaða lög þú ert að tala um sem skerða frelsi kirkjunnar á þann hátt sem þú greinir. Sértu að vísa til 62. greinar stjórnarskrárinnar segir hún að hin evangeliska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi og að því leyti njóta stuðnings ríkisvaldsins. Ég skil þessa grein þannig að ef kirkjan hætti að vera evangelisk lúthersk og gerist til dæmis kaþólsk eins og hún eitt sinn var sé hún ekki lengur þessi þjóðkirkja sem nýtur verndar ríkisins.

Næsta grein stjórnarskrárinnar, sú 63., tryggir öllum landsmönnum rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína samkvæmt sannfæringu sinni. Meðlimir íslensku þjóðkirkjunnar eru þar ekki undanskildir.

62. gr. Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.
Breyta má þessu með lögum.
63. gr. [Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Þó má ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu 

Svavar Alfreð Jónsson, 10.9.2015 kl. 06:24

15 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Já, Hjalti Hugason túlkar þessa grein þannig. Ef þér finnst hún ekki nægja þá segir fyrsta grein "þjóðkirkjulaganna" þetta: "Íslenska þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag á evangelísk-lúterskum grunni." Ef kirkjan myndi vilja gerast kaþólsk, þá væri það klárlega í andstöðu við þetta (og þar með ekki atriði sem Þjóðkirkjan hefur sjálfræði um, sbr "lögmætra marka").

Meðlimir Þjóðkirkjunnar geta auðvitað stofnað trúfélög og iðka trú sína samkvæmt sannfæringu sinni, þó svo að Þjóðkirkjan sjálf sé ekki frjáls og sjálfstæð. 

Hjalti Rúnar Ómarsson, 10.9.2015 kl. 08:43

16 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Það eru reyndar fleiri ákvæði um Þjóðkirkjuna í þjóðkirkjulögunum frá 1997 en þau að þjóðkirkjan sé sjálfstætt trúfélag á evangelísk lútherskum grunni. Þar er t.d. kveðið á um að í kirkjunni skuli vera eitt biskupsdæmi og að vígslubiskupar eigi að vera tveir. Ég er samt ekki viss um að félög geti hvorki talist sjálfstæð né frjáls vegna þess að sett hafa verið lög um starfsemi þeirra. Stjórnmálaflokkar þurfa til dæmis að fara eftir lögum sem um þá gilda og í gildi eru lög um fjölmiðla á Íslandi. Þetta veltur að sjálfsögðu á því hvernig þú skilgreinir það að vera sjálfstæður og frjáls. Ég efast um að við leggjum sama skilning í hugtökin. 

Svavar Alfreð Jónsson, 10.9.2015 kl. 09:25

17 identicon

62. greinin er brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Þjóðkirkjan fær varlega áætlað 4 milljarða til viðbótar sóknargjöldum. Þetta eru byggingar- og viðhaldssjóðir kirkna, rekstur biskupsstofu (sem sér um launagreiðslur presta) og sitthvað fleira sem eyrnamerkja er þjóðkirkjunni. Önnur trúfélög greiða laun embættismanna og framkvæmdir við húsnæði af sóknargjöldum og frjálsum framlögum sem stundum eru engin. Byrjum á að koma þessu í lag takk fyrir.

Hallur Guðmundsson (IP-tala skráð) 10.9.2015 kl. 09:26

18 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Ítarleg lög um stjórn og starfshætti Þjóðkirkjunnar er ein ástæða þess að hún er ekki sjálfstæð (sbr greinar nafna míns).

Hjalti Rúnar Ómarsson, 10.9.2015 kl. 10:06

19 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Takk fyrir þetta, Hallur. Ég hef heyrt þessu haldið fram, að 62. greinin sé stjórnarskrárbrot. Sé það rétt verður að fara með það mál sína leið.

Hér er ágætt yfirlit um greiðslur til þjóðkirkjunnar.

http://kirkjan.is/kerfi/skraarsofn/kirkjan-frettir/2013/01/yfirlit-um-greidslur-til-thjodkirkjunnar.pdf

Hjalti, vel má vera að umrædd lög séu óþarflega ítarleg enda eru  þau ekki meitluð í stein að eilífu frekar en önnur mannanna verk.

Þó er þar tekið sérstaklega fram að þjóðkirkjan sé sjálfstætt trúfélag á evangelísk-lúterskum grunni.

Enginn er frjáls í þeim skilningi að hann geti gert það sem honum sýnist. Enginn er sjálfstæður með þeim hætti að hann sé engum háður. Frelsi allra á sér mörk og það sama gildir um sjálfstæðið.

Þessi umræða er gagnleg því í henni kemur að mínu mati vel fram að það felast ekki einungis réttindi í því að vera þjóðkirkja heldur líka skyldur. Þjóðkirkjunni eru settar meiri skorður í starfi sínu en öðrum trú- og lífsskoðunarfélögum vegna þess að hún nýtur sérstakrar verndar ríkisins. Ríkið gerir kröfur til kirkjunnar og setur skilyrði fyrir vernd sinni.

Þeirra á meðal eru þær skorður að þjóðkirkjan skuli vera á evangelísk-lúterskum grunni.

Í sömu lagagrein er þó kveðið á um sjálfstæði kirkjunnar. Sjálfstæði kirkjunnar að þessu leyti er í því fólgið að kirkjan er sjálf látin dæma um hvað sé evangelískt-lúterskt. Ríkið starfrækir ekki nefnd sem ákvarðar kenningu kirkjunnar og skiptir sér ekki af henni heldur hefur kirkjan frelsi til þess að gera það sjálf.

Mörg fleiri dæmi má benda á um sjálfstæði kirkjunnar. Í þjóðkirkjulögunum segir til dæmis að kirkjan ráði sjálf starfi sínu innan lögmæltra marka, í 23. gr. kemur fram að stjórnvöld þjóðkirkunnar og stofnana hennar fari með stjórnsýslu í öllum efnum, kirkjan kýs sér biskupa og presta án atbeina ríkisvaldsins, þar er sagt að kirkjuþing fari með æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar (20. gr),og í 48. gr. er kveðið á um að sóknin sé sjálfstæð og félagsleg eining, sem er mikilvægt í samhengi þessa pistils sem fjallar um sóknargjöldin.

En alltaf má betur gera og eins og ég segi, vel má vera að þessi lög séu of ítarleg og setji starfi kirkjunnar óþarflega miklar skorður. Samband ríkis og kirkju er heldur ekki óumbreytanlegt og á án efa eftir að taka breytingum í framtíðinni.

Bestu kveðjur,

Svavar Alfreð Jónsson, 10.9.2015 kl. 11:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband