Frjálsir miðlar og ófrjálsir

DSC_0084

Síðasti pistill fjallaði um einkarekna fjölmiðla. Þeir eru stundum nefndir „frjálsir“ til aðgreiningar frá ríkisreknum fjölmiðlum sem samkvæmt þessari flokkunaraðferð ættu að vera ófrjálsir.

Ég er þeirrar skoðunar að fá hugtök séu jafn oft misnotuð í samtíðinni og frelsið. Enginn fjölmiðill er frjáls í þeim skilningi að hann geti gert það sem honum sýnist eða sé engum háður. Markaðsvæðing fjölmiðlanna hefur haft í för með sér margháttað ófrelsi þeirra. Þeir hafa verið seldir undir allskonar miskunnarlaus og grimm lögmál.

Eitt þeirra er lögmál markaðsins. Markaðsvæðing fjölmiðlanna leiðir til þess að þar er boðið upp á efni sem selst. Fjölmiðlar sem hafa það hlutverk að vekja og leiða þjóðfélagsumræðu, styðja menningu, veita valdinu aðhald, flytja fréttir, upplýsa almenning um samhengi þeirra og birta fjölbreytileg sjónarhorn og skoðanir, fást fyrst og fremst við það sem talið er líklegt til vinsælda og fellur að smekk auglýsenda.

Krafan um hagkvæmni og ágóða hefur komið niður á gæðum blaðamennskunnar eins og dæmin sanna. Eigendur fjölmiðlanna eru í bisness og vilja fá sem mest fyrir sem minnst.

Meðal þess valds sem fjölmiðlum er ætlað að veita aðhald er peningavaldið. Það hlýtur að vera eitt af undrum veraldarinnar að menn sjái ekki þau augljósu staðreynd, að fjölmiðlar geta illa sinnt því verkefni ef þeir eru í eign þeirra sem þeir eiga að gagnrýna.

Svonefndir „frjálsir“ fjölmiðlar eru því alls ekki frjálsir.

Ég hef lengi verið ákafur stuðningsmaður lagasetningar sem tryggir að eignarhald á fjölmiðlum sé í skynsamlegri dreifingu. Ég tel það stórhættulegt ef hinu mikilvæga hlutverki fjölmiðla er sinnt af örfáum fulltrúum peningavaldsins. Það á ekki síst við í litlum og þröngum þjóðfélögum eins og okkar.

Þótt ég sé frekar hlynntur einkaframtakinu tel ég að mörgum mikilvægustu verkefnum fjölmiðlunar sé best sinnt af fjölmiðli sem sé í sameign þjóðarinnar og hafi almannahagsmuni að leiðarljósi en ekki hagnað nokkurra útvaldra. Þess vegna er ég eindreginn ríkisútvarpssinni og tel þá stofnun eina dýrmætustu stofnun samfélags okkar.

Þar með er ekki sagt að ég sé ánægður með núverandi fyrirkomulag þessara mála. Mér finnst Ríkisútvarpið oft hættulega ófrjálst. Því er t. d. stjórnað af fulltrúum stjórnmálaflokkanna. Sú tilhögun hefur leitt til þess að þessi menningarstofnun er bitbein þeirra og ýmist peð í hinni pólitísku refskák eða sjálft taflborðið. Mér finnst að þjóðarútvarpið þurfi að vera á ábyrgð fleiri fjöldahreyfinga en þeirra sem eiga fulltrúa á Alþingi. Ég dreg líka í efa að það eigi að vera sérstakt verkefni ríkisrekins fjölmiðils að nýta skattfé borgaranna til að flytja dægurlög og aðra afþreyingu sem nóg framboð er af í öðrum miðlum. Á sama tíma og Ríkisútvarpið leggur þessa miklu áherslu á allskonar afþreyingu vanrækir stofnunin stóran hluta þjóðarinnar því landsbyggðin er varla til í dagskrá þess. Það er auðvitað ekki þolandi þegar um er að ræða fjölmiðil sem kennir sig við þjóðina alla.

Að lokum vil ég mótmæla þeim fyrirætlunum að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði.  Verði það gert mun það skerða tekjur stofnunarinnar. Þar að auki eru auglýsingar ekki bara til að dæla peningum inn fjölmiðlana.  Þrátt fyrir allt skrumið, ýkjurnar og stundum glerhörð ósannindi geta líka verið mikilvæg skilaboð til almennings í auglýsingum. Hvað er hægt að kaupa? Hvar kostar það minnst? Hvað er að gerast? Hvaða bækur eru að koma út?

Mér finnst ekki nema sjálfsagt að þjóðarútvarp upplýsi almenning um slíkt  þótt eflaust megi setja umfangi auglýsinga í dagskrá einhver mörk.

Myndin er tekin frammí í Eyjafirði


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður og skilmerkilegur pistill.  Er þér alveg sammála í þessu dæmi.

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 21.11.2015 kl. 03:02

2 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Önnur skilgreining á frjálsum fjölmiðli snýr að neitandanum. Ef honum er frjálst að kaupa sér aðgang að fjölmiðlinum eða ekki er hann frjáls, annars ekki. Þá er ekkert verið að tala um hvort fjölmiðillinn er frjáls hvað umfjöllun snertir frá hendi eigandanna. Enda ætti það að vera neitandans að að ákveða hvort það skiptir máli.

Jósef Smári Ásmundsson, 21.11.2015 kl. 08:19

3 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Þakka athugasemdirnar. Frelsi og ófrelsi fjölmiðla birtist í ýmsum myndum en mér finnst mikilvægt að greina á milli frelsi fjölmiðla gagnvart eigendum sínum og verkefnum annars vegar og hins vegar frelsi neytenda til að kaupa eða kaupa ekki þjónustu fjölmiðlanna - þótt þetta tvennt geti vissulega tengst.

Hér má líka benda á að sífellt stærri hluti fjölmiðlunar er kostaður án beinna framlaga frá neytendum. Blöð eru borin án þess að lesendur þurfi að reiða fram greiðslur fyrir þau og okkur býðst gjaldfrjáls aðgangur að ýmiskonar fjölmiðlum á netinu.

Svavar Alfreð Jónsson, 21.11.2015 kl. 09:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband