Um hjónabandið

marriageÞað er sjálfsagt vonlaust að ætla sér að leiðrétta allar rangfærslurnar um það sem gerðist á síðustu Prestastefnu á Húsavík, til dæmis ummæli sómakvennanna Evu Maríu og Margrétar Pálu í Kastljósi á sunnudaginn var, þar sem þær sögðu að Kirkjuþing hefði hafnað því að gefa saman samkynhneigt fólk. Það er auðvitað ekki rétt. Í fyrsta lagi var það Prestastefna sem fjallaði um málefni samkynhneigðra, sem er töluvert annað en Kirkjuþing, og í öðru lagi hafnaði stefnan því ekki að gefa saman samkynhneigt fólk, heldur steig hún þvert á móti mikilvægt skref í þá átt með því að samþykkja álit kenningarnefndar og drög helgisiðanefndar að blessun staðfestrar samvistar. 

Stefnan hafnaði því á hinn bóginn að óska eftir því að borgaralegum hjúskaparlögum yrði breytt þannig að hjúskapur samkynhneigðra, sem nú nefnist staðfest samvist, yrði eftirleiðis kallaður hjónaband.

Margar ástæður liggja að baki því að þeirri tillögu var hafnað. Ég hygg að stærsti hópur presta telji ekki nema sjálfsagt að samkynhneigt fólk geti fengið kirkjulega blessun yfir hjúskap sinn, borgaralega vígslu í kirkju á sama hátt og gagnkynhneigðir og njóti sömu réttinda og aðrir. Prestarnir á stefnunni voru á hinn bóginn ekki tilbúnir til að óska eftir því við ríkið að hjúskapur samkynhneigðra nefndist sama nafni í landslögum og hjúskapur gagnkynhneigðra.

Mér finnst skiljanlegt að fólk vilji ræða slíkar breytingar áður en svo stór skref eru stigin. Enda þótt málefni samkynhneigðra hafi að undanförnu verið mjög áberandi í kirkjunni gegnir ekki sama máli um hjónabandið. Hvers eðlis er það? Er það einungis fyrir eina konu og einn karl?

Að evangelískum skilningi er hjónabandið borgaralegt fyrirkomulag. Það er því borgaralegra yfirvalda að setja skilyrði um stofnun þess. Þau geta sett á stofn hjónabönd einstaklinga af sama kyni, þótt það sé ekki samkvæmt hefðinni - og þau gætu líka leyft hjónabönd fleiri en tveggja einstaklinga, en fyrir því er reyndar gömul og gróin hefð.

Hjónabandsskilningur miðalda tók mið af rómverskum rétti. Til hjónabands var stofnað með samkomulagi aðila sáttmálans. Mjög snemma í sögu kirkjunnar varð siður að efna til brúðarmessu eftir að hjónaband hafði orðið til. Þar var hjónabandið blessað. Litið var á þá blessun sem staðfestingu á sáttmála brúðhjónanna. Þetta var siður fram á daga Karls mikla.

Fram eftir öldum var hjónabandssáttmálinn eitt og blessun hans af kirkjunni annað. Helsta orsök þess að hvort tveggja færðist inn í kirkjuna og varð að einni athöfn er talin sú venja að gera hjónabandssáttmálann fyrir dyrum þeirrar kirkju þar sem brúðarmessan átti að vera. Um 1200 voru prestar farnir að taka að sér að annast gerð hjónabandssáttmálans auk þess að veita honum blessun. Frá sama tíma festir hjónabandið sig í sessi sem sakramenti.

Lúther hafnaði hjónabandinu sem sakramenti og leit á það sem veraldlegan gjörning. Samkvæmt honum var hjónabandið eitt af því sem kemur skikkan á veröld mannsins. Að því leyti er það blessandi fyrir manneskjuna og hefur þar að auki orð Guðs að bakhjarli. Lúther aðhylltist hina hefðbundnu tvískiptingu hjónavígslunnar. Í riti sínu um hana frá árinu 1529 gerir hann ráð fyrir því að presturinn annist gerð hjónabandssáttmálans fyrir kirkjudyrum en blessunina síðan inni í kirkjunni. Við það tækifæri skyldi lesið úr öðrum kafla Mósebókar, flutt ræða og veitt hjónablessun.

Tilefni hinnar kirkjulegu athafnar er að mati Lúthers ekki annað en að brúðhjónin óska eftir almennilegri kristilegri fyrirbæn ("ein gemein christlich Gebet") sér til handa. Hann setur með öðrum orðum í öndvegi þarfir þiggjenda blessunar Guðs.

Það er borgaralegra yfirvalda að setja lög um stofnun hjónabands - en vitaskuld hefur hver borgari heimild til að hafa skoðanir á þess konar löggjöf. Svo er það kirkjunnar að setja skilyrði fyrir þátttöku í trúarlegum athöfnum sem eru á hennar vegum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Viðar Eggertsson

Mikið er ég ánægður með þessi skrif þín. Ég hef víða hér í bloggheimum drepið fingrum á lyklaborð til að dreifa þeirri skoðun minni, sem ég sé nú að er samkvæm Lútheri sjálfum.

ég hef rekið áróður fyrir þeirri skoðun að hjónaband eigi (og sé) fyrst og fremst lögformlegur gjörningur, sem ætti að vera framkvæmdur af veraldlegu valdi. Þessi gjörningur ætti ekki að vera framkvæmdur af kirkjum, trúfélögum eða öðrum.

Síðan gætu þeir aðilar, þessvegna Félag smábátaeigenda fyrir mér, blessað þann sáttmála, ef þeir vilja og hjónin (samkynhneigð eða gagnkynhneigð) vilja.

Ég er algjörlega á öndverðri skoðun við hjónin í Þingholtunum, þau steinunni og einar Karl, að það muni á einhvern hátt rýra gildi hjónabands þeirra, eins og þau hafa ítrekað haldið fram.

a) Það á að skilja að kirkju og ríki. Í þjóðfélagi þar sem trúfrelsi ríkir er ekki viðeigandi að sé Þjóðkirkja.

b) Hjónabandssáttmáli á að vera sá sami fyrir samkynhneigð hjón sem gagnkynhneigð.

c) Hjónabandssáttmálinn á að vera framkvæmdur með lögformlegum gjörningi af veraldlega valdinu.

d) Kirkjudeildir, lífsskoðunarfélög, saumaklúbbar, ættarmót - eða hvað fólk kýs - á og má blessa hjónabandi síðan ef sátt ríkir um það sem koma að málinu.

takk fyrir mig!

Viðar Eggertsson, 25.5.2007 kl. 22:56

2 Smámynd: Viðar Eggertsson

p.s. fyrirgefðu skriftina (innsláttarvillurnar!).

Viðar Eggertsson, 25.5.2007 kl. 22:59

3 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Já, Viðar, þú ert skemmtilega rammlútherskur. Enda þótt Lúther hafi litið á hjónabandið sem veraldlegan gjörning sé ég ekkert mæla gegn því að þau trúfélög sem það vilja geti annast lögformlegan hluta hjúskaparins. Nú þegar t. d. liggur opinberlega fyrir að Þjóðkirkjan blessar staðfesta samvist eru að mínu mati engin rök gegn því að hún annist einnig lögformlegan hluta slíkrar hjúskaparstofnunar, til að samkynhneigðir öðlist sömu stöðu og gagnkynhneigðir og til að spara fólki sporin til sýslumannsins.

Ég hef ekki heyrt hjónin í Þingholtunum halda því fram að það rýri gildi hjónabands gagnkynhneigðra sé hjúskapur samkynhneigðra kallaður hjónaband. Ég kannast við þá skoðun þeirra að heppilegra sé að hjúskapur samkynhneigðra nefnist öðru nafni en hjúskapur samkynhneiðgðra og sjálfsagt má túlka það viðhorf á ýmsa vegu, en ég hef ekki heyrt annað til þessara hjóna en að þau séu hlynnt því að samkynhneigðir fái sömu réttindi og annað fólk varðandi hjúskap og annað.

Umræðan um aðskilnað ríkis og kirkju er svo töluvert annar handleggur. Mín skoðun er sú að hér á landi sé trúfrelsi - jafnvel meira en víða annars staðar - enda þótt staða Þjóðkirkjunnar sé sérstök, bæði af sögulegum orsökum og vegna þess að mikill meirihluti landsmanna tilheyrir því trúfélagi. Líka má benda á að ríki og kirkja eru í raun aðskilin. Kirkjan ræður sínum málum, bæði ytri og innri. Að minni hyggju er fráleitt að tala um Þjóðkirkjuna sem ríkiskirkju eins og stundum er gert. Hins vegar eru tengsl milli ríkis og kirkju og auðvitað er fyrirkomulagið á þeim tengslum ekki heilagt. Þakka þér innlitið og góðar ábendingar.

Svavar Alfreð Jónsson, 26.5.2007 kl. 16:46

4 Smámynd: Viðar Eggertsson

Látum liggja í bili á milli hluta um að hjónin í Þingholtunum telji að ef samkynhneigðir fái hjónavígslu þá verði það til að rýra hjónaband þeirra. Ég las grein eftir frúna í Morgunblaðinu um það. Ég leita að henni og sendi þér þegar ég finn hana.

En finnst þér rétt (og kirkjunni) að kalla hjónaband og staðfestingu þess öðru nafni ef í hlut eiga samkynhneigðir, en gagnhneigðir?

Þú segir að hér ríki trúfrelsi og bætir meira segja við að hér ríkir meira trúfrelsi en víða annarsstaðar. Þá langar mig að spyrja hvenær er trúfrelsi svo lítið að það hættir að kallast trúfrelsi?

Í mínum augum er trúfrelsi þar sem kirkja fer ekki með lögformlegt vald og getur hagað framkvæmd þess á véfengilegan hátt, jafnvel svo að mönnum sé mismunað. Þá er betra að sleppa því að spara sporin. Lýðræði og réttindi fólks kosta oft fleiri spor. Og mér finnst sjálfsagt að stíga þau ef með þess þarf. 

Samkvæmt mínum heimildum sem ég tel tryggar, lögðust valdamenn innan Þjóðkirkjunnar gegn því að í bandorminum um rétt og stöðu samkynhneigðra á Íslandi, sem samþykktur var fyrir um ári, að í lögum væru kirkjudeildum heimilt að gefa saman samkynhneigð pör. Það finnst mér alvarlegt og sýnir hversu mikil ítök Þjóðkirkjan hefur innan ríkisvaldsins þegar kemur að lagasetningum um mannréttindum.

Að slíkt var ekki sett í lög í fyrra var til að hlífa kirkjunni við að koma út úr skápnum með viðhorf sitt. Því bak við skort á lögum sem heimiluðu þeim að gifta samkynhneigða gat hún skýlt sér. Nú verður gerð bragarbót á þessum lögum og verður athyglisvert að sjá og heyra til þjóðkirkjunnar þjóna og yfirmanna.

En kommon, "Þjóðkirkja" í trúfrelsi??? 

Viðar Eggertsson, 26.5.2007 kl. 17:34

5 Smámynd: Viðar Eggertsson

Í pistli þínum sem var kveikjan að svörum mínum, segir þú m.a.:

"Stefnan hafnaði því á hinn bóginn að óska eftir því að borgaralegum hjúskaparlögum yrði breytt þannig að hjúskapur samkynhneigðra, sem nú nefnist staðfest samvist, yrði eftirleiðis kallaður hjónaband.

Margar ástæður liggja að baki því að þeirri tillögu var hafnað. Ég hygg að stærsti hópur presta telji ekki nema sjálfsagt að samkynhneigt fólk geti fengið kirkjulega blessun yfir hjúskap sinn, borgaralega vígslu í kirkju á sama hátt og gagnkynhneigðir og njóti sömu réttinda og aðrir. Prestarnir á stefnunni voru á hinn bóginn ekki tilbúnir til að óska eftir því við ríkið að hjúskapur samkynhneigðra nefndist sama nafni í landslögum og hjúskapur gagnkynhneigðra."

Á kirkjan að vera svo valdamikil að hún hafi áhrif á lögformlegan rétt manna, eins og þann að allir fái sama orð yfir hjúskap sinn í landslögum?

Ég tel að staða kirkjunnar sem "Þjóðkirkju" valdi þessu m.a. Ef kirkjan vill mismuna fólki á þennan hátt, en ekki ríkisvaldið. Þá á hjónabandssáttmálinn að vera í höndum ríkisins, en blessun getur farið fram í kirkjum og þá getur kirkjan ef hún er algjörlega sjálfstæð og aðskilin frá ríkisvaldinu, haft sínar hentistefnu um ritúal og orðalag. Hjón geta síðan ákveðið hvort þau vilja að slík kirkja sé að blanda sér í hjónaband þeirra. Þetta er m.a. trúfrelsi.

Viðar Eggertsson, 26.5.2007 kl. 17:51

6 Smámynd: Sverrir Páll Erlendsson

Sælir félagar.

Hjónin í Þingholtunum, eins og þið kallið þau, sögðu opinberlega bæði í blöðum og sjónvarpi að þau litu á það sem niðurlægingu við sitt hjónaband ef kirkjan færi að fremja þá synd að gefa saman samkynhneigða. Svo einfalt er það.

Hins vegar þykir mér sérkennilegt, Svavar, að þú skulir kalla það einhvers konar framfaraskref á prestastefnu á Húsavík að fella jafnréttistillöguna, fleygja málamiðlunartillögunni og samþykkja ekkert annað en að látið yrði við það eitt sitja sem áður hafði verið samþykkt. Það hlýtur líka að vera rykkorn í auga að segja að nú eigi að fara að tala um það, vega og meta, sem hefur verið talað um, vegið og metið innan kirkjunnar í mörg ár, bæði á nefndum og þingum. Það er ekki svo að krafan um að hjúskapur samkynhneigðra verði metinn til jafns við önnur hjónabönd sé ný af nálinni. Öðru nær.

Í mínum augum sem áhorfanda var gjörningurinn á prestastefnunni á Húsavík til þess að færa íslenska þjóðkirkju skrefi fjær jafnréttinu en var. Þarna kom fram, að minnsta kosti í fjölmiðlum, miklu harðari andstaða gegn jafnrétti kynhneigða en áður hefur heyrst. Og þessi niðurstaða varð mér til mikilla vonbrigða miðað við þann jákvæða anda og viðmót sem kirkjan þín hafði sýnt vikurnar fyrir þetta þing. 

Sverrir Páll Erlendsson, 26.5.2007 kl. 21:53

7 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Viðar: Trúfrelsi er að mínu mati að mega trúa því sem maður vill eða engu og hafa rétt til þess að iðka trú sína. Ég held að hér á landi séum við ágætlega stödd að þessu leyti. Ég veit ekki til þess að kirkjan  á Íslandi fari með lögformlegt vald. Ég hef ekki sömu sambönd og þú og veit því ekki hvað gerðist í reykfylltum bakherbergjum Alþingis. Ég veit á hinn bóginn að innan Þjóðkirkjunnar er fólk sem telur af og frá að veita megi hjúskap samkynhneigðs fólks kirkjulega blessun, hvað þá að gefa það saman. Ég er ekki sammála því fólki en þannig er nú trúfrelsið að það leyfir fólki að trúa ýmsu sem maður getur ekki samsinnt sjálfur - og að koma skoðunum sínum á framfæri, jafnvel við hið háa Alþingi. Ég árétta að það er Alþingis að setja hjúskaparlög í þessu landi - ekki kirkjunnar. Mér finnst vafasamt að nefna það sem dæmi um völd kirkjunnar að Prestastefna hafi EKKI viljað sent Alþingi tiltekna tillögu um breytingar á hjúskaparlögum. Að lokum má benda á að mjög óvíða í veröldinni skilgreina borgaraleg yfirvöld hjónabandið kynhlutlaust. Hvergi á Norðurlöndunum, svo dæmi séu tekin. Umræða um þetta er að fara í gang í Noregi og hún á eftir að fara fram hér, bæði innan kirkjunnar og í þjóðfélaginu. Mér finnst bara hið besta mál að þetta sé rætt og vil vera opinn fyrir öllu.

Svavar Alfreð Jónsson, 26.5.2007 kl. 22:22

8 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Kæri Sverrir: Mér þætti gaman að sjá þessi ummæli hjónanna. Þau koma mér á óvart. Hvað samþykkti Prestastefna sem áður hafði verið samþykkt? Var búið að samþykkja álit kenningarnefndar? Var búið að samþykkja drög að blessun staðfestrar samvistar? Auðvitað er búið að ræða málefni samkynhneigðra lengi í kirkjunni. Sumum finnst það hafa tekið allt of langan tíma - en þegar skiptar skoðanir eru um málin þarf stundum drjúgan tíma til að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Ég hef skrifað um það hér að umfjöllun fjölmiðla um stefnuna var mjög ósanngjörn og oft beinlínis röng en ég tel að á stefnunni hafi verið stigin mikilvæg skref í átt til jafnréttis kynhneigða. Prestar kirkjunnar lýstu því yfir að ekki sé hægt að nota Biblíuna til að mæla gegn samkynhneigð eins og við þekkjum hana. Prestar kirkjunnar lýstu því yfir að þeir viðurkenndu mismunandi hjúskaparform. Prestar kirkjunnar samþykktu drög að blessunarathöfn fyrir hjúskap samkynhneigðra, svo dæmi séu tekin. Þetta er nýtt! Og hafi eitthvað af þessu verið vitað má segja að þar hafi kirkjan komið út úr skápnum hvað það varðar og er það ekki töluvert átak? Alla vega finnst mér að þegar menn fullyrða að Þjóðkirkjan hafi færst fjær jafnrétti kynhneigða á Húsavík þurfi þeir að færa fyrir því rök.

Svavar Alfreð Jónsson, 26.5.2007 kl. 22:44

9 Smámynd: Sverrir Páll Erlendsson

Hjónin hef ég séð og heyrt. Bæði í blöðum og útvörpum.

Ég get ekki deilt um efni prestastefnu eða aðferðir, en einhvern veginn eru fregnir ósamhljóða og prestar ekki á einu máli um stöðuna. Lýsing þín á því sem samþykkt var er samhljóða því sem ég hafði áður heyrt presta lýsa yfir að samkomulag væri um. Þess vegna taldi ég það ekki skref fram á við heldur klára kyrrstöðu. Og grimmileg andstaða hluta klerka var opinskárri og háværari nú en oft áður, ef tekið er mið af viðtölum í fjölmiðlum. Það færir okkur ekki nær takmarkinu um jafnan rétt. Öðru nær. Því miður. Vegna þess að vonir stóðu til þess að kirkjan tæki nú stórt skref, ekki síst í ljósi margra ára nefndastarfs.

Sverrir Páll Erlendsson, 28.5.2007 kl. 12:50

10 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ég hef líka séð og heyrt hjónin og þess vegna spurði ég.

Sínum augum lítur hver silfrið. Sá kaþólski Jón Valur var t. d. ekki lengi að túlka niðurstöðu Prestastefnu sem algjöran ósigur samkynhneigðra. Það sama gerðu ýmsir forvígismenn samkynhneigðra. Þessar ólíku fylkingar lögðust á sömu árarnar. Var jafnvel ekki annað að heyra á ýmsum að nú væri ekki um annað að ræða en að leggja árarnar í bát - fyrst skrefið margfræga varð ekki lengra. Margir gripu gæsina - nú þegar Þjóðkirkjan lýsti yfir að ekki yrði lengur lamið á samkynhneigðum með Biblíunni og hófu að berja Þjóðkirkjuna með samkynhneigðum.

Mér finnst engin ástæða til þess að leggja árar í bát. Það er ýmislegt í stöðunni. Umfjöllun stefnunnar um samkynhneigð er jú aðeins hluti af umræðuferli innan kirkjunnar. Endanleg niðurstaða fæst á Kirkjuþingi, sem fer með æðsta vald í málefnum Þjóðkirkjunnar. Ég lít þannig á að fyrst að Þjóðkirkjan lýsir sig nú reiðubúna til að veita staðfestri samvist blessun séu engin rök gegn því að vígslumenn hennar geti annast lögformlegan hluta slíkrar hjúskaparstofnunar. Prestastefna samþykkti að beina því til biskups að hann kannaði hversu margir prestar væru tilbúnir til slíks. Það á að gerast næstu daga. Svo verður Kirkjuþing í október og þaðan er tíðinda að vænta.

Kirkjan hefur lengi - sumir segja alltof lengi - fjallað um málefni samkynhneigðra. Það á sér ýmsar skýringar. Kirkjan hefur á hinn bóginn lítið fjallað um hjónabandið í því samhengi.

Að lokum: Þú segir að lýsing mín á því sem samþykkt var á Prestastefnu hafi verið samhljóða því sem þú hafir áður heyrt presta lýsa yfir að samkomulag væri um. Í næstu línu talar þú um að grimmileg andstaða hluta klerka hafi verið opinskárri og háværari nú en oft áður. Þetta gamla og rótgróna samkomulag er sum sé ekki merkilegra en það! Skrefið sem stigið var á Prestastefnu var einmitt í því fólgið að þrátt fyrir "grimmilega andstöðu" sumra presta tókst Þjóðkirkjunni þó að stíga jafnlangt í þessum efnum og þær kirkjur sem lengst hafa gengið í álfunni. Og gamla jómfrúin gerir sig líklega til að ganga enn lengra.

Eigum við ekki bara að vona það besta?

Svavar Alfreð Jónsson, 28.5.2007 kl. 23:01

11 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

Mér finnst kominn tími til þess að þjóðkirkjuprestar sem byggja á einhverjum öðrum fræðum en Biblíunni sjálfri leiti sér að annari vinnu. 

Guðrún Sæmundsdóttir, 30.5.2007 kl. 12:18

12 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Kæra Guðrún. Ég tel mig standa á góðum biblíulegum grunni. Minni á álit kenningarnefndar sem samþykkt var á síðustu Prestastefnu af af yfirgnæfandi meirihluta presta Þjóðkirkjunnar. "Ljóst er að víða í Biblíunni, bæði í Gamla og Nýja testamentinu, er fjallað neikvætt um mök fólks af sama kyni og hefur þeim ritningarstöðum verið beitt gegn samkynhneigðu fólki.... Að mati kenningarnefndar snerta þessir staðir ekki trúargrundvöllinn svo að ágreiningur um túlkun þeirra sundri einingu kirkjunnar. Þessir staðir fordæma ekki samkynhneigð sem slíka og heldur ekki þá einstaklinga sem lifa í kærleiksríkri sambúð ástar og trúfesti." Með bestu kveðju frá einum sem er ekki í atvinnuleit en er opinn fyrir ýmsu.

Svavar Alfreð Jónsson, 30.5.2007 kl. 18:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband