Drukkinn prestur klúðrar hjónavígslu

Hjónabönd og hjónavígslur eru skeggræddar. Slíkt hefur verið með mörgu móti eins og sagan sýnir. 

Hjónavígsla héraðshöfingjans Eyjólfs í Svefneyjum og Guðrúnar Jóhannsdóttur var harla skrautleg eins og fram kemur í bók Jóns Helgasonar "Íslenskt mannlíf" (I. bindi).

Guðrún var prestsdóttir. Faðir hennar, séra Jóhann glænefur Bergsveinsson í Garpsdal, annaðist giftingu hennar og Eyjólfs. Var hann allölvaður við athöfnina og leist ekki betur en svo á mannsefni dóttur sinnar að í miðri athöfn reyndi hann að telja hana á að hætta við að játast Eyjólfi.

Eyjólfur var sagður bæði ráðríkur og harðfengur, gæddur víkingseðli, og þeir eiginleikar komu fram á þessari ögurstundu fyrir altarinu sem hlýtur af hafa verið neyðarleg brúðhjónum og prúðbúnum kirkjugestum. Greip Eyjólfur til þess ráðs að binda enda á óvæntar umleitanir verðandi tengdaföður síns með því að taka brúði sína í fangið "og bera hana brott úr kirkjunni".

Jón Helgason segir að lögboðinni hjónavígslu hafi því aldrei verið komið á, "en veizla var haldin, og því voru þau álitin hjón".

Til að taka af allan vafa um að veislan hafi skapað lögmæti vígslunnar bætir hann við:

"Rengdi það enginn, þar eð allir máttu drekka eins og þeir vildu, segir séra Friðrik Eggerz í ritum sínum."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ef prestur jarðar mann og er svo fullur að hann getur ekki kastað rekunum ætli hin framliðni rísi þá aldrei upp frá moldu til himins?

Sigurður Þór Guðjónsson, 21.10.2007 kl. 19:38

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Slysalegri var giftingin í Vatnsdalnum forðum. Í brúðkaupsveislunni sem var afar vel heppnuð og ríkmannleg flugust á presturinn og brúðguminn.

Klerkinum tókst með Guðs hjálp að bera brúðgumann ofurliði svo rækilega að hann stóð ekki upp aftur.

Ekki man ég nú hvort þessi sami klerkur var fenginn til að jarða viðfangsmanninn og stýra erfidrykkjunni.

Árni Gunnarsson, 21.10.2007 kl. 20:21

3 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Sigurður, ég mundi frekar óttast um afdrif prestsins.

Svavar Alfreð Jónsson, 21.10.2007 kl. 21:20

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Já, líklega færi hann beina leið til h...

Sigurður Þór Guðjónsson, 21.10.2007 kl. 23:21

5 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk fyrir þessa skemmtilegu upprifjun á framtakssemi Eyjólfs eyjajarls - langa, langa, langafa míns. Hann var vissulega ráðríkur og forn í skapi - nokkuð sem enn örlar á meðal afkomenda hans, sumum býsna skyldum mér. En skapgæði og blíðlyndi Guðrúnar vó þar vel á móti. 

Nú kann að vera að brúðkaup Eyjólfs og Guðrúnar hafi farið fram með þessum hætti - en fjölskyldusagan greinir svo frá að áður hafi Eyjólfur rænt brúði sinni frá altarinu í Brjánslækjarkirkju. 

Samkvæmt þeirri sögn átti að gifta Guðrúnu öðrum manni. Eyjólfur sigldi yfir Breiðafjörð og kom að Brjánslæk þar sem giftingarathöfnin stóð yfir. Þegar prestur sá eyjajarlinn sjóklæddan og menn hans í kirkjudyrum, fataðist honum vígsluorðið. En Eyjólfur hafði engin umsvif heldur tók brúðina í bóndabeygju og nam á brott með sér yfir í Svefneyjar.

Breiðfirðingar hafa aldrei látið að sér hæða

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 22.10.2007 kl. 17:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband